8.6.2004

75%-markið og R-listinn

Morgunblaðsgrein 7. júní, 2004.

NOKKRAR umræður hafa orðið í fjölmiðlum um þessa klausu, sem birtist á vefsíðu minni bjorn.is fimmtudaginn 3. júní síðastliðinn:

„Guðni Ágústsson minnti á það í Íslandi í dag á Stöð 2 fimmtudaginn 3. júní, að R-listinn hefði sett það sem skilyrði fyrir bindandi niðurstöðu í atkvæðagreiðslu um flugvöllinn, að ¾ kjósenda tækju þátt í kosningunni. Þetta er ívið lægra hlutfall en almennt gerist hér í þingskosningum og því virðist ekki ósanngjarnt að miða við það."

Þessi orð mín hafa verið túlkuð á þann veg, að ég hafi gert tillögu um 75% þátttöku í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu og síðan lagt út af því á ýmsan hátt. Einkennilegast þótti mér að hlusta á Jónatan Þórmundsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, sem sagði í viðtali við Arnþrúði Karlsdóttur á Bylgjunni vegna ofangreindra orða minna:

„Og þar satt að segja gruna ég stjórnarherrana um græsku, ég held nefnilega að þeir séu, ja ég veit ekki hvort viljandi, kannski óvart, að reyna að ræna þjóðina þessum rétti sem að hún hefur hlotið núna eftir ákvörðun forsetans."

Sannast sagna er óskemmtilegt að fá slíka kveðju frá prófessor, sem er sérfróður um refsirétt, það er að í orðum mínum felist annaðhvort ásetningur eða óviljaverk í því skyni, að „ræna" þjóðina rétti til að segja hug sinn. Hvernig pófessorinn dregur þessa ályktun af orðum mínum, er mér óskiljanlegt. Það var hins vegar nokkur léttir að heyra þessi orð frá Jónatan: „En hvort það er heimilt að setja eitthvert mark það er annað mál, ég tel að það væri best að það væri sem lægst og helst þannig að allir flokkarnir komist nokkurn veginn að samkomulagi um það." Jónatan telur sem sé heimilt að setja mark, þótt honum finnist 75% of hátt mark.

En hvernig er þessi tala komin til sögunnar? Jú, hana er að finna í ályktun, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi borgarstjóri og núverandi varaformaður Samfylkingarinnar, lagði fram í borgarráði 13. febrúar árið 2001. Tillagan var svohljóðandi:

„Borgarráð samþykkir, með tilvísun til 5. mgr. 104. gr. sveitarstjórnarlaga og 19. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, að niðurstaða atkvæðagreiðslu um framtíðarnýtingu Vatnsmýrar og staðsetningu Reykjavíkurflugvallar 17. mars nk. verði bindandi, ef a.m.k. 3/4 hlutar atkvæðisbærra manna taka þátt í henni. Jafnframt samþykkir borgarráð að niðurstaðan verði bindandi, ef a.m.k. 50% atkvæðisbærra manna greiða atkvæði á sama veg jafnvel þótt þátttaka í atkvæðagreiðslunni verði undir því marki sem ákveðið er í 19. gr. Greinargerð fylgir tillögunni. "

Greinargerðin er stutt og í henni segir:

„Samkvæmt 104. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 94/1998 er sveitarstjórn heimilt að efna til almennrar atkvæðagreiðslu um sérstök mál. Niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu er ekki bindandi nema að sveitarstjórn hafi fyrirfram ákveðið að svo skuli vera. Í 2. mgr. 19. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 60/1985, með síðari breytingum, er fjallað um skyldu til að efna til almennrar atkvæðagreiðslu ef fyrirhugað er að ráðast í ákveðna framkvæmd og áætlaður heildarkostnaður borgarinnar vegna hennar nemur hærri fjárhæð en áætluðum fimmtungi árlegra skatttekna borgarinnar á yfirstandandi reikningsári. Niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu er bindandi um afgreiðslu málsins ef a.m.k. 3/4 hlutar atkvæðisbærra manna í Reykjavík taka þátt í henni.

Til þess að taka af allan vafa þykir rétt að borgarráð samþykki sérstaklega að ákvæði 2. mgr. 19. gr. um bindandi kosningu eigi við um atkvæðagreiðslu 17. mars nk. Jafnframt þykir rétt að rýmka skilyrði fyrir bindandi kosningu með þeim hætti að greiði a.m.k. 50% atkvæðisbærra manna annarri hvorri spurningunni atkvæði sitt verði kosningin bindandi jafnvel þótt 75% þátttöku verði ekki náð. Með þeim hætti hefur meirihluti atkvæðisbærra borgarbúa lýst samhljóða vilja sínum."

Tillaga þessi var samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa R-listans en sjálfstæðismenn sátu hjá og lögðu fram bókun um afstöðu sína.

Í fjölmiðlum og borgarstjórn var lítið sem ekkert rætt um tilurð og ákvörðun um 75%-markið. Helst var rætt um 75%-regluna dagana fyrir kosningar, þar sem menn gerðu sér jafnvel vonir um, að það mundi nást. Eftir kosningar, þegar aðeins 37% höfðu neytt atkvæðisréttar síns, sagði Ingibjörg Sólrún, að skoðanakannanir hefðu villt mönnum sýn um 75% þátttöku. Nú segist hún hafa byggt á sveitarstjórnarlögunum og virðist þeirrar skoðunar, að fjölmiðlögin séu svo mikilvæg, að gera eigi minni kröfur um þátttöku í kosningunum en vegna flugvallarins!

Þegar ég ræddi um 75%-markið setti ég þá tölu í tengsl við þá staðreynd, að síðan 1942 er meðaltalsþátttaka í þingkosningum hér um 88% og í því ljósi ekki ósanngjarnt að miða við 75% þátttöku. Í þessu mati mínu felst traust á kjósendum og áhuga þeirra á að neyta kosningaréttarins. Að snúa þessum orðum mínum í andhverfu sína og gefa til kynna, að þau byggist á því, að sem fæstir komi á kjörstað, er í fyrsta lagi ekki sanngjarnt og í öðru lagi ekki á neinum rökum reist.

Hvernig væri, að þeir, sem kjósa að haga umræðum um þessi mál á þann hátt að gera öðrum upp hugarfar og skoðanir, segðu okkur frá skoðun sinni á efni fjölmiðlalaganna?