11.5.2004

Álit umboðsmanns rætt á þingi.

Umræður utan dagskrár,alþingi, 11. maí, 2004.

 

 

 

 

Ég þakka háttvirtum þingmanni fyrir að hefja þessar umræður hér á alþingi utan dagskrár.

 

Ég tek álit umboðsmanns Alþingis alltaf alvarlega og skoða þau vel. Þau eru til leiðbeiningar miðað við stöðu hans sem álitsgjafa.

 

Rík ástæða er fyrir þingmenn, að íhuga þetta álit umboðsmanns. Ég fullyrði, að við samþykkt laga um dómstóla, hafi þingmenn ekki talið, að með því samþykki yrði sú grundvallarbreyting á skipan hæstaréttardómara, sem leiða má af lögskýringum umboðsmanns í því máli, sem hér er rætt.

 

Hér stendur svo á, að hæstiréttur veitti umsögn samkvæmt lögunum og taldi alla umsækjendur uppfylla kröfur um hæfi og hæfni.

 

Alþingi hefur aldrei samþykkt neina lagareglu, sem styður hið óvænta sjónarmið umboðsmanns, að senda hafi þurft málið aftur til umsagnar í hæstarétti, eftir að ég ákvað að leggja meistarapróf í Evrópurétti til grundvallar við málefnalega ákvörðun. Ýmsir aðrir lögfræðingar en umboðsmaður hafa látið í ljós þá eindregnu skoðun, að ég hafi uppfyllt lagaskyldu mína um álitsumleitan réttarins. Ekki sé unnt að gera þá kröfu til ráðherra, að hann fari að lagareglu, sem aldrei hafi verið sett af alþingi. Um slíka hluti geta menn alltaf deilt.

 

Ég vil láta í ljós þá skoðun, að þó hæstarétti sé vel treystandi til að meta hæfi umsækjenda um embætti, þá sé ekki þar með sagt að dómarar réttarins - ágætir sem þeir eru - séu allra manna heppilegastir til að kveða upp úr um það á hvaða sviði rétturinn standi höllustum fæti hverju sinni, á hvaða sviði hann mætti helst bæta við sig sérfræðikunnáttu.

 

Samkvæmt áliti umboðsmanns þá var það málefnalegt sjónarmið í stjórnsýslu minni að leggja áherslu á menntun og þekkingu í Evrópurétti við val á milli umsækjenda. Skipunin var byggð á málefnalegum forsendum. Það má hins vegar alltaf deila um það hvenær nægilega er rannsakað hversu mikið hver og einn umsækjandi kann fyrir sér á tilteknu sviði. Ég taldi ýtarlegar umsóknir hinna ágætu umsækjenda gefa fullnægjandi mynd.

 

Umboðsmaður telur að ekki hafi verið uppfyllt nægilega rannsóknarregla stjórnsýslulaga með því að ekki var leitað frekari gagna en fram koma í umsóknum um þekkingu allra umsækjenda í Evrópurétti. Mér hefði með sömu rökum án frekari rannsóknar verið óheimilt að velja annan þeirra umsækjenda, sem hæstiréttur taldi, að heppilegast væri að skipa, vegna þekkingar hans í réttarfari.

 

 

 

Herra forseti!

 

Af því, sem hér hefur verið sagt, er ljóst, að ég er ekki samþykkur þeirri niðurstöðu umboðsmanns, að ég hafi ekki fullnægt kröfum dómstólalaga eða sinnt rannsóknarskyldu í samræmi við stjórnsýslulög. Ég hvorki skildi né skil dómstólalögin með þeim hætti sem umboðsmaður virðist gera. Ég mun hins vegar skoða ábendingar hans alvarlega enda ber ég vissulega virðingu fyrir umboðsmanni. Mér var hins vegar ómögulegt að fara eftir skýringu sem ég hafði aldrei heyrt og umboðsmaður kynnti ekki til sögunnar fyrr en í áliti sínu, rúmum átta mánuðum eftir að skipað var í starfið.

 

Í bréfi, sem umboðsmaður ritaði mér með þessu áliti sínu, vék hann ekki að þessum álitaefnum heldur því, að hann hefði talið rétt að vekja athygli á tilteknum atriðum, og þá með það í huga að tekin verði afstaða til þess hvort þörf sé á að fyrirkomulag við undirbúning og ákvarðanir um skipun hæstaréttardómara verði tekið til endurskoðunar og lagabreytingar gerðar af því tilefni ef sú verður niðurstaðan

 

Vegna þessa þáttar í áliti umboðsmanns ætla ég að minna á ræðu, sem ég flutti hér utan dagskrár um þetta sama mál hinn 16. apríl síðastliðinn, þegar ég var spurður, hvort ég teldi rétt að breyta fyrirkomulagi við skipan dómara og ef svo væri þá hvernig.

 

Þá sagðist ég  ekki hafa komist að þeirri niðurstöðu, að þetta væri rétt.  Sjálfsagt væri að ræða þetta mál eins og allt annað, sem lyti að því að finna leið til að komast hjá þrefi og þrasi mánuðum saman um lögmæta ákvörðun um skipan manns í hæstarétt. Einhver einn bæri þó ábyrgðina á valinu að lokum og það yrði að vera unnt að kalla hann til pólitískrar ábyrgðar. Spurningin væri sú, hvort unnt væri að finna leið, sem tryggði sæmilegan frið um málið, eftir að ákvörðun hefði verið tekin.

Ég tel réttmætt að ræða, hvernig að skipun dómara er staðið í ólíkum löndum og jafnvel draga lærdóm af því, sem best hefur reynst – en ítreka, að ábyrgðin verður að vera pólitísk að lokum.