21.4.2004

Svar við opnu bréfi um hjúskap og útlendingalögin

Hér er svar mitt við opnu bréfi frá Þorleifi Erni Arnarssyni, sem birtist á murinn.is. Ég bað um að fá að birta svarið á murinn.is en fékk ekki einu sinni svar frá ritstjórninni við ósk minni.

Ágæti Þorleifur Örn

athygli mín var vakin á því að þú hefðir beðið vefritið murinn.is fyrir lítið bréf til mín. Það var að vísu nokkuð flókin leið til að ná til mín, en bréfið komst til skila og þar sem ég lít svo á að þú skrifir af góðum hug er mér ljúft að svara með nokkrum orðum.

Vil ég þá fyrst óska þér til hamingju með þá konu sem þér hefur hlotnast og hefur þá ágætu eiginleika sem þú lýsir.  Mér þykir leitt ef  þið óttist að íslenska ríkið eða kannski ég persónulega hafi sérstakan áhuga á því að spilla sambandi ykkar eða koma á annan hátt í veg fyrir að þið fáið notið þeirrar hamingju sem forsjónin hefur vonandi kjörið ykkur. Af bréfi þínu ræð ég nefnilega að þú virðist hafa gert þér ýmsar hugmyndir í þá veru og þykir mér vænt um að fá tækifæri til að koma á framfæri nokkrum athugasemdum við þær, sem kannski ná að slá á áhyggjur þínar og jafnvel annarra.

Í fyrsta lagi vil ég taka fram, að öfugt við það sem ráða má af einni spurninga þinna, þá er það svo að hvorki dómsmálaráðuneytið, ríkisstjórnin né nokkur annar aðili sem ég þekki til hefur lagt til að konuefni þitt eða þá þú sjálfur verðið að hafa náð 24 ára aldri til að mega ganga í hjónaband. Hjúskaparaldur verður eftir sem áður 18 ár fyrir alla menn, íslenska sem erlenda ásamt því sem öll ákvæði er lúta að réttindum og skyldum hjóna í núgildandi hjúskaparlögum nr. 60/1972, um stofnun og slit hjúskapar, gilda um löglega stofnuð hjónabönd hvort sem þau eru milli íslenskra ríkisborgara eða íslenskra ríkisborgara og borgara erlends ríkis.

Sennilega er ástæða þessa misskilnings sú, að í nýlegu frumvarpi til breytinga á lögum um útlendinga, er gert ráð fyrir því að vígsla svo ungs einstaklings leiði ekki sjálfkrafa til þess að hann fái hér dvalarleyfi á grundvelli hjúskaparins  Mikill munur er hins vegar á slíkri breytingu og svo því að ákveða að slíkur maður fái hér ekki dvalarleyfi, eins og sumir virðast halda að ætlunin sé. Hann fær einfaldlega ekki dvalarleyfi „sem maki“, en getur eftir sem áður sótt um leyfi með venjulegum hætti, enda er alls ekki gert ráð fyrir því í frumvarpinu að hrófla við núgildandi 11. grein útlendingalaga, sem segir meðal annars að veita megi útlendingi dvalarleyfi ef framfærsla hans, sjúkratrygging og húsnæði er tryggt. Vitaskuld yrði litið til hjúskapar útlendingsins við Íslending við meðferð umsóknarinnar. Það er því alls ekki svo að sérstaklega sé stefnt að því að koma í veg fyrir að Íslendingar, sem eignast unga erlenda maka, geti fengið þá hingað til sín. Þvert á móti má ætla að hjúskapur umsækjanda með íslenskum ríkisborgara verði einmitt það atriði er vegur hvað þyngst við mat á umsókn um dvalarleyfi

Í bréfi þínu segir þú meðal annars: „Það kemur fram í lögunum að að við þurfum að hafa búið saman áður en kemur að hjónabandi.“ Hér hefur þú orðið fyrir því, sem alla getur hent, að fá rangar upplýsingar. Í frumvarpinu til lagabreytinga er ekki kveðið á um slíka skyldu; og ekki heldur þó sóst sé eftir dvalarleyfi en ekki hjónabandi. Í fyrsta lagi breytir frumvarpið, ef að lögum verður, ekki nokkru um rétt fólks til að ganga í hjónaband, en í öðru lagi þá er það misskilningur að frumvarpið geri að skyldu að fólk hafi búið saman, tali hvort annars tungu eða nokkuð slíkt, svo því verði veitt dvalarleyfi. Í frumvarpinu segir hins vegar, að sé rökstuddur grunur uppi um að til hjónabands sé stofnað, til þess eins að útvega einstaklingi dvalarleyfi, þá hafi hjúskapurinn ekki þau áhrif. Í athugasemdum með frumvarpinu eru svo nefnd ýmis atriði sem geta veitt vísbendingar í þá átt, eða eins og segir í athugasemdunum: „Þannig verður vera glögg vísbending um að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess eins að sækja um dvalarleyfi. Vísbendingar í þessa átt geta til dæmis verið að aðilar hafa ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar, hjónin skilja ekki tungu hvort annars, mikill aldursmunur er á þeim, þau þekkja ekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvort annars fyrir giftingu eða fyrri hjónabönd. Í því sambandi má huga að því hvort sá maki, sem hér dvelst löglega, hafi áður verið í hjúskap með útlendingi, sem lauk skömmu eftir að sá síðarnefndi öðlaðist hér dvalarleyfi. Sé samkvæmt framangreindu eða öðrum ástæðum rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess að fá dvalarleyfi verður umsækjandinn að sýna fram á annað.“ Það er því rangt að verið sé að setja þau skilyrði sem þér virðist hafa verið sagt, einungis er um það að ræða að í athugasemdum eru talin upp ýmis atriði sem almennt geta gefið vísbendingar í þessa veru. Ég býst við að þú sért sammála um það að atriði eins og þessi geta bent til að ekki sé um hjúskap af hefðbundnum ástæðum að ræða, þó vitanlega geti verið fullkomlega eðlilegar skýringar á atvikum þegar þau verða nánar skoðuð, svo sem siðvenja í ætt eða upprunalandi hins erlenda manns og svo framvegis.

Þá segir þú í bréfi þínu: „Við megum til dæmis búa við það að lögreglan ryðjist inn til okkar án dómsúrskurðs og fari í gegnum undirfataskúffurnar okkar til þess að sanna eða afsanna að við séum í raun ástfangin og gift þess vegna.“ Ég skil vel að þér lítist ekki vel á þá tilhugsun og ég vona að þú verðir feginn að heyra að í frumvarpinu er, þvert á við það sem þér virðist hafa verið sagt, ekki gert ráð fyrir að lögregla fái slíka heimild. Gert er ráð fyrir að heimildir til húsleitar komi aðeins til í undantekningartifellum, þegar rökstuddur grunur leikur á að um alvarleg brot sé að ræða og þá einungis að undangengnum dómsúrskurði. Sé tekið mið af þeim aðstæðum er þú lýsir eru áhyggjur þínar óþarfar

Málefni útlendinga eru vandmeðfarin og ofarlega á baugi um alla okkar álfu. Ég vil síður en svo verða til þess að stía fjölskyldum í sundur eða meina ástvinum að eigast, enda er frumvarpi til breytinga á útlendingalögum ekki ætlað að verða til þess. Það getur svo verið skoðun einhverra að hjónaband megi, auk þess að vera sáttmáli tveggja einstaklinga um sameiginlega framtíð, vera verslunarvara til að gera smygl á fólki auðveldara; að ekkert megi gera til að koma í veg fyrir að fólk geri sér að fjáruppsprettu að fara utan, ganga í „hjónaband“ með einhverjum sem það hefur aldrei fyrr séð, flytja með sinn heittelskaða heim og skilja þar við hann við landganginn. Það viljum við samt líklega fæst og meðal annars þess vegna reynum við að sníða reglurnar þannig að við því megi sporna. Hér hefur lögregla þó haft afskipti af meira en 60 manns vegna gruns um málamyndahjónabönd, án þess að geta komist til botns í málum vegna skorts á lagaheimildum til þess.

Þá viljum við einnig vonandi fæst að fólk sé þvingað til að ganga í þann hjúskap sem það vildi ekki sjálft ef það mætti ráða, en víða tíðkast það að ungu fólki sé beinlínis ráðstafað í hjúskap gegn vilja sínum og þá jafnvel til þess að nýtast síðar til að koma einhverjum öðrum til annarra landa.

Eins og þér er vafalaust kunnugt um er smygl á fólki verulega umsvifamikil starfsemi sem flest ríki, sem fyrir verða, reyna að sporna við. Við teljum ekki skynsamlegt að hér gildi þær reglur sem líklegar séu til að laða slíka starfsemi frekar að Íslandi en öðrum ríkjum. En ég virði að sjálfsögðu rétt annarra til að vera annarrar skoðunar.

Að lokum vil ég hrósa þér fyrir að láta þær spurningar þínar, sem þú telur óprenthæfar, óprentaðar. Það er allt of mikið prentað af óprenthæfu efni. Ég þakka þér fyrir að hafa gefið mér tilefni til að svara spurningum sem sjálfsagt fleiri hafa haft í huga sér og óska þér og unnustu þinni heilla í framtíðinni.

Með góðri kveðju,

Björn Bjarnason