16.4.2004

Um skipan hæstaréttardómara

Umræða utan dagskrár 16. apríl, 2004.

 

  

 

 

Jóhanna Sigurðardóttir, háttvirtur þingmaður, hefur lagt fyrir mig fjórar spurningar. Hin fyrsta er,  hvort ég sé reiðubúinn að semja um skaðabætur sbr. 28. gr. jafnréttislaga.

Ég hafna því, að hafa brotið gegn jafnréttislögum. Ég byggði tillögu mína um skipan í embætti hæstaréttardómara á lögmætum og málefnanlegum sjónarmiðum, enda tel ég þann, sem skipaður var, hæfastan umsækjenda til þess að gegna embættinu með hliðsjón af þeim sjónarmiðum.

Mörg fordæmi eru því til staðfestingar, að ráðherra hafi meira svigrúm til töku málefnalegra ákvarðana við stöðuveitingu en kærunefnd jafnréttismála telur í þessu máli.

Í áliti umboðsmanns alþingis í máli nr. 2214/1997 segir meðal annars um kærunefnd jafnréttismála og valdheimildir hennar, með leyfi forseta:

„Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að við mat kærunefndar jafnréttismála á því hvort fylgt hafi verið þeim efnisreglum sem leiða má af ákvæðum laga nr. 28/1991 verði hún að taka mið af þeim sjónarmiðum sem atvinnurekandinn lagði til grundvallar ákvörðun sinni að því tilskildu að þau hafi verið málefnaleg og lögmæt. Innan þessara marka hefur hann visst mat sem ekki verður haggað. Ef sýnt þykir að atvinnurekandinn hefur lagt mismunandi áherslur á tiltekin sjónarmið í mati sínu á starfshæfni umsækjenda verður kærunefnd jafnréttismála á sama hátt að taka mið af því.

Samkvæmt þessu verður ekki á það fallist að 8. gr. laga nr. 28/1991 veiti nefndinni sjálfstæða heimild til að byggja á öðrum sjónarmiðum heldur en veitingarvaldshafi studdist löglega við. Á það jafnt við um það hvaða hæfnisþætti megi leggja til grundvallar og um innbyrðis þýðingu þeirra."

Umboðsmaður alþingis vísar hér til þágildandi laga nr. 28/1991 um jafnan rétt karla og kvenna, en núgildandi lög nr. 96/2000 veita kærunefnd jafnréttismála ekki ríkari heimildir að þessu leyti. Segir þetta álit umboðsmanns alþingis meira en mörg orð og hávær.

Ég hef sjónarmið sem þessi að leiðarljósi við mat mitt á óskinni um skaðabætur auk mats á því, hvort um sannanlegt fjárhagslegt tjón sé að ræða, en nýlega skipaði ég Hjördísi Hákonardóttur dómstjóra á Suðurlandi. Eftir því sem ég kemst næst eru heildarlaun hennar þar hærri en nemur launum hæstaréttardómara.

 

Önnur spurningin snýst um það hver sé  pólitísk ábyrgð ráðherra.

Samkvæmt þingræðisreglunni ber ráðherra pólitíska ábyrgð athafna sinna eða athafnaleysis gagnvart alþingi. Þessi þinglega ábyrgð er pólitísks en ekki lagalegs eðlis. Hún er algerlega komin undir mati alþingis hverju sinni. „Hún er engum lagareglum háð,“ eins og Ólafur Jóhannesson segir í fræðiriti sínu um stjórnskipunarrétt.

Þriðja spurningin er um vanhæfi hæstaréttardómara.

Það er ekki dómsmálaráðherra að svara þessari spurningu heldur dómara í hæstarétti, ef þeir verða í þeim sporum, að nauðsynlegt sé fyrir þá að gera það.

Fjórða spurningin er um það, hvort ég telji rétt að breyta fyrirkomulagi við skipan dómara og ef svo er þá hvernig.

Ég hef ekki komist að þeirri niðurstöðu, að þetta sé rétt. Á hinn bóginn finnst mér sjálfsagt að ræða þetta mál eins og allt annað, sem lýtur að því að finna leið til að komast hjá þrefi og þrasi mánuðum saman um lögmæta ákvörðun um skipan manns í hæstarétt. Við stöndum þó jafnan frammi fyrir því, að einhver einn ber ábyrgðina á valinu að lokum og það þarf að vera unnt að kalla hann til pólitískrar ábyrgðar. Spurningin er sú, hvort unnt er að finna leið, sem tryggir sæmilegan frið um málið, eftir að ákvörðun hefur verið tekin.

Hér á þingi hafa verið fluttar tillögur um að alþingi taki ákvörðun um hæstaréttardómara. Ég hef ekki lýst stuðningi við þær. Slík tilhögun hefði vitaskuld ýmsa galla, svo sem hættuna á því, að skipun hæstaréttardómara yrði skiptimynt í viðskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu, að minnsta kosti ef gert er ráð fyrir því, að aukinn meirihluta þyrfti að velja dómarann. Annars staðar á Norðurlöndum eru starfandi nefndir, sem gera tillögu til ráðherra um dómara.

Ég tel réttmætt að ræða, hvernig að skipun dómara er staðið í ólíkum löndum og jafnvel draga lærdóm af því, sem best hefur reynst – en ítreka, að ábyrgðin verður að vera pólitísk að lokum.

---------

Ræða í lok umræðna:

 

Herra forseti.

Það hefur lítið nýtt komið fram í þessum umræðum, eins og þingmenn hafa heyrt, annað en upphrópanir og ásakanir í minn garð um lögbrot og annað slíkt. Þó að kærunefnd jafnréttismála sé lögbundin nefnd eru orð hennar ekki lög. Það er alltaf verið að túlka lög og alltaf verið að segja álit á lögum. Hæstiréttur hefur sagt að kærunefndin hafi rangt fyrir sér. Það er enginn að fjalla um að það hafi verið framið lögbrot á þeim sem sitja í kærunefndinni þótt Hæstiréttur hafi sagt að kærunefndin hafi komist að rangri niðurstöðu.

Hv. málshefjandi Jóhanna Sigurðardóttir var félagsmálaráðherra, ráðherra vinnuréttar, í ríkisstjórn, sem nam kjarasamninga úr gildi með bráðabirgðalögum. Síðan kom hæstiréttur saman og taldi að bráðabirgðalögin hefðu brotið í bága við stjórnarskrána. Hvar er ábyrgð ráðherrans í því þegar um þessi mál er fjallað?

Hæstiréttur er að fjalla um héraðsdóma og kemst að þeirri niðurstöðu að héraðsdómarinn hafi komist að annarri niðurstöðu en rétt sé miðað við lögin. Fara menn þá að fjalla um hvort héraðsdómarinn sé lögbrjótur eða ekki? Það er alltaf verið að túlka lög, alltaf verið að leggja út af lögum.

Það sem ég er að segja í þessu máli er, að ef álit kærunefndar jafnréttismála byggist á því að henni er nauðugur einn kostur að grípa fram fyrir hendur á veitingarvaldshafanum er nauðsynlegt að líta til laganna.