13.4.2004

 Forsendur öflugrar löggæslu.

Þing Landssambands lögreglumanna,Munaðarnesi, 13. apríl, 2004.

 

 

Mér er ánægja að fá tækifæri til að ávarpa ykkur hér í upphafi þings ykkar, ágætu lögreglumenn. Á því tæpa ári, sem liðið er síðan ég varð dómsmálaráðherra, hef ég átt gott samstarf við forystumenn ykkar, sem mér er ljúft að þakka. Ég minnist funda með þeim í ráðuneytinu og skrifstofu landssambandsins, þar sem við höfum rætt mikilvæg viðfangsefni og lagt á ráðin um úrlausn þeirra.

Störf ykkar lögreglumanna eru mikils metin meðal þjóðarinnar eins og allar kannanir sýna. Þessi virðing sprettur ekki af sjálfu sér, heldur á hún rætur að rekja til þess, að menn vinna störf sín af alúð og árvekni.

Ég lít á það sem mikilvægan þátt í hlutverki mínu að skapa ykkur sem bestar forsendur til að ná sem mestum árangri í störfum ykkar og búa þannig um hnúta, að öryggi ykkar sé gætt sem best. Sé þessi umgjörð í samræmi við kröfurnar, sem til ykkar eru gerðar, eykur hún öryggi hins almenna borgara.

Í þessum anda beitti ég mér fyrir því, að skipulagi sérsveitar lögreglunnar var breytt hinn 1. mars síðastliðinn. Með því að gera sveitina að stoðdeild undir yfirstjórn ríkislögreglustjóra er tryggt, að hún er alltaf til taks á höfuðborgarsvæðinu og með skömmum fyrirvara um land allt.

Í þessum anda hef ég flutt frumvarp til breytinga á lögunum um meðferð opinberra mála.

Þar er í fyrsta lagi að finna tillögur, sem snúa að vitnavernd ykkar lögreglumanna. Lagt er til, að þið getið notið verndar gegn ógn, sem ykkur og fjölskyldum ykkar getur stafað af sakborningum og öðrum, þannig að nafn viðkomandi lögreglumanns komi ekki fram í lögregluskýrslu, ef sakarefnið er með þeim hætti, að öryggis þess, sem gerir skýrslu eða sinnir annars rannsóknaraðgerð, geti stafað alvarleg ógn af því, að sakborningur og aðrir þekki nafn hans.

Ástæða þessa er sú, að félagar í hópi ykkar hafa of oft orðið fyrir hótunum um líflát og annan ófarnað, sem einnig beinast að maka þeirra og börnum. Hafa sakborningar eða aðrir, sem tengjast viðkomandi máli, einnig hótað lögreglumönnum því, að sitja fyrir börnum þeirra á leið barnanna í og úr skóla. Þá hafa lögreglumenn og þeirra nánustu orðið fyrir eignaspjöllum og jafnvel árásum.

Frumvarpið hefur í öðru lagi að geyma ákvæði, sem lúta að því að auðvelda lögreglu rannsókn mála.

Lagt er til að heimildum lögreglu til að neita verjanda um aðgang að málsgögnum verði breytt. Ef lögregla telur, að það geti torveldað eða skaðað rannsókn málsins, að málsgögn komist til vitundar sakbornings, geti lögregla neitað að veita verjanda aðgang að gögnunum.

Einnig er lagt til að lögreglu verði heimilað að taka yfirheyrslu af sakborningi og vitni upp á hljóð eða mynd, og er það að fengnum tillögum nefndar, sem skipuð var af dómsmálaráðuneytinu til að fara yfir skipan reglna um hljóðritun lögregluyfirheyrslna.

Þá er lögð til heimild þess efnis, að sé brýn hætta á að bið eftir úrskurði um símhlustun geti valdið sakarspjöllum, geti ákæruvaldshafi ákveðið að símhlustun skuli fara fram án úrskurðar, en ávallt verði leitað úrskurðar dómstóls innan sólarhrings, frá því að heimild ákæruvaldshafa er veitt. Gert er ráð fyrir, að dómari sendi um það tilkynningu til dómsmálaráðherra, komist hann að þeirri niðurstöðu, að símhlerunin hafi ekki verið heimil.

Ég geri mér vonir um, að þetta frumvarp verði samþykkt nú á vorþinginu, en ýmsir hafa orðið til þess að gera efni þess tortryggilegt í opinberum umræðum. Látið er í veðri vaka, að með frumvarpinu sé verið að veita lögreglu of miklar heimildir og gefið til kynna, að í skjóli þeirra verði um ólögmæta ágengni lögreglu í garð einstaklinga að ræða.

Neikvæð afstaða af þessum toga stangast alfarið á við hið mikla traust, sem almenningur ber til lögreglunnar. Þetta traust hefur skapast vegna þess, að lögreglan fer af hófsemd og virðingu með það vald, sem henni er veitt, og á því er tekið af fullum þunga, ef út af er brugðið.

Lögregla getur ekki frekar en aðrir náð þeim árangri, sem af henni er krafist, nema hún hafi góð tæki í höndunum. Breytingar á reglum um símhlustun taka mið af nýrri tækni. Tíð skipti á símum og númerum hjá þeim, sem sæta hlustun hafa orðið til réttarspjalla. Gagnrýnendur þessara breytinga ættu, að minnast þess, að úrskurður um símhlustun kveður á um hlustun á samtal við tiltekið símanúmer eða tiltekið fjarskiptatæki, en ekki símtöl ákveðins aðila í ótilteknum símum.

Ég get alls ekki sett mig í spor þeirra, sem vilja koma í veg fyrir, að lögregla geti staðist hinni nýju símatækni snúning. Andstaða við það byggist annað hvort á vanþekkingu eða viðleitni til að veita þeim skjól, sem leitast við að brjóta lögin.

Símhlustun er eitthver öflugasta leiðin til að upplýsa afbrot. Allt, sem gert er til að bregða fæti fyrir, að lögregla geti nýtt sér þessa leið innan skýrra lagamarka, er til hagsbóta fyrir lögbrjóta. Svo einfalt er þetta mál og með öllu óþarft að gera það flókið með yfirborðskenndum yfirlýsingum um, að nú sé íslensk lögregla að fá heimild til að hlera allt og alla, þegar henni dettur það í hug. Hið rétta er, að fáist þessar heimildir ekki standa íslenskir lögreglumenn verr að vígi í þessu efni en starfsbræður þeirra í nágrannalöndunum.

Gagnrýni á tillögur um breytingar á útlendingalögunum, sem liggja fyrir alþingi, er einnig því marki brennd, að þar er alið á tortryggni í garð lögreglu og annarra yfirvalda, þegar leitað er heimildar löggjafans til að nýta ný úrræði til að takast á við nýja tegund afbrota.

Á undanförnum árum hefur Útlendingastofnun sent mál 24 einstaklinga til frekari rannsóknar hjá lögreglu vegna gruns um málamyndahjónabönd, svo að dæmi sé tekið. Stofnunin hefur vegna mála af þessum toga haft til umfjöllunar mál 50-60 einstaklinga á seinustu þremur árum, en vegna  ágalla á lögum, hefur ekki þótt fært að aðhafast neitt.


Lögreglan hefur athugað þessi mál en fæst þeirra hafa farið til eiginlegrar lögreglurannsóknar, þar sem ekki hefur þótt unnt samkvæmt gildandi lögum að færa sönnur á, að um refsivert athæfi geti verið að ræða.

Þegar flutt er frumvarp til að bæta úr þessum ágalla á útlendingalögunum, er stofnað til undirskriftarsöfnunar og hafðar eru uppi ásakanir um mannréttindabrot.

Hvernig getur það verið virðing fyrir mannréttindum, að auðvelda fólki að ganga í hjúpskap til þess eins að skapa gervimakanum forsendur til að öðlast dvalarleyfi?

Þeir, sem þetta gagnrýna, lifa ekki í samtímanum, þar sem smygl á fólki er jafnvel meiri tekjulind en fíkniefnasmygl. Ég á erfitt með að trúa því, að ungt fólk vilji, að Ísland verði griðastaður fyrir þá, sem skipuleggja alþjóðlega glæpastarfsemi af þessum toga.

Ágætu lögreglumenn!

Mikið er rætt um það í Bandaríkjunum um þessar mundir, hvort skilja hefði átt leynilegt minnisblað til Bandaríkjaforseta frá 6. ágúst 2001 sem forsögn um árásina miklu 11. september 2001.

Hvernig sem menn túlka þetta minnisblað og viðbrögð Bandaríkjaforseta eða stjórnar hans við því,  segir það okkur, að lengi var vitað, að illmennið Osama bin Laden væri að skipuleggja ódæðisverk á hendur Bandaríkjunum. Spurningin var, hvar, hvenær og hvernig hann mundi láta til skarar skríða.

Vafalaust eru einnig til leynileg minnisblöð stjórnvalda í Madrid um hættuna af því, að hryðjuverkamenn mundu fyrr eða síðar láta til skarar skríða þar.

Ég efast hins vegar um, að nokkur hafi gert um það minnisblað til stjórnvalda, að í næsta bæ við okkur, Stafangri í Noregi, yrði framið bankarán af vélbyssumönnum í skotheldum vestum – lögreglumaður yrði skotinn með köldu blóði og ekki tækist að ná hinum seku.

Ég tel á hinn bóginn víst, að einhverjum hafi þótt óþarfi í Noregi, að búa lögreglu þar undir slíkt óhæfuverk. – Engum dytti í hug að ganga þar fram af slíkri grimmd og þess vegna væri ekki þörf á því að þjálfa sérsveit eða útvega henni nauðsynlegan varnabúnað og vopn.

Ég vil ekki sem dómsmálaráðherra bera ábyrgð á því, að ekki sé hugað sem mest og best að öryggi íslenskra lögreglumanna – þess vegna vil ég efla sérsveit lögreglunnar og þess vegna vil ég færa lögreglunni lögmæt tæki til að takast á við nýja tækni og nýja tegund afbrota. Ég heiti á liðsinni Landssambands lögreglumanna til að vinna þessum stefnumálum brautargengi.

Góðir áheyrendur!

Breytingarnar á lögum og skipulagi lögreglu, sem ég hef nefnt, eru að mínu mati þess eðlis, að brýnt er að hrinda þeim þegar í framkvæmd eins og ég hef rakið. Í vinnslu eru síðan aðrar og jafnvel umfangsmeiri breytingar á skipulagi lögreglunnar.

Í nóvember á síðasta ári setti ég á laggirnar verkefnisstjórn um nýskipan lögreglumála undir formennsku Stefáns Eiríkssonar skrifstofustjóra og fól henni tvö verkefni. Annars vegar að gera tillögur um nýtt skipulag lögreglunnar með það að markmiði að styrkja og efla starfsemi lögreglu og sýslumanna, auk þess að bæta nýtingu þeirra fjármuna sem til embættanna er varið, og hins vegar að móta löggæsluáætlun til næstu ára, þar sem kynnt er forgangsröð við úrlausn verkefna og sett eru mælanleg markmið fyrir löggæsluna.

Verkefnisstjórnin vinnur ekki að breytingum breytinganna vegna heldur er makmiðið eins og ávallt, að löggæsla og ákæruvald eigi í fullu tré við þá, sem gerast brotlegir við lögin, og standi helst feti framar.

Stefnt er að því, að fyrstu tillögur um þetta efni sjái fljótlega dagsins ljós. Ég veit ekki í hvaða mynd þær verða kynntar. Ef hrinda á breytingum í framkvæmd, verður lögð áhersla á breiða samstöðu og skiptir þá afstaða ykkar lögreglumanna miklu.


Góð grunn- og framhaldsmenntun lögreglumanna er mikilvægur liður í að tryggja öfluga löggæslu og traust til lögreglunnar. Lögregluskóli ríkisins hefur sinnt hlutverki sínu með miklum ágætum og stjórnendur hans kynntu mér nýlega framsæknar hugmyndir um nýtt skipulag, sem enn á að bæta lögreglumenntunina. Ég fól skólastjóra Lögregluskólans að vinna að framgangi þessara hugmynda og nánari útfærslu í náinni samvinnu við alla, sem hlut eiga að máli, þar á meðal Landssamband lögreglumanna. Í næsta mánuði er von á lokatillögum um nýtt skipulag skólans.

Síðastliðinn miðvikudag flutti ég erindi í stjórnunarnámi Lögregluskóla ríkisins og svaraði fyrirspurnum um ný viðhorf í löggæslu- og öryggismálum. Það var skemmtilegt að fá tækifæri til að taka þátt í lokasennu þessa stjórnunarnámskeiðs, sem er hið fyrsta sinnar tegundar. Frekari uppbygging framhaldsnáms af þessum toga er afar mikilvægur þáttur í metnaðarfullri viðleitni til að bæta innra starf lögreglunnar enn frekar.

Markmið okkar allra hér inni er eitt og hið sama, það er að tryggja eins vel og unnt er öryggi Íslendinga og gera lögreglu og ákæruvaldi betur kleift að takast á við afbrot í öllum myndum. Breytingar, sem ég hef þegar kynnt og talað fyrir miða að þessu. Þær miða alls ekki að því að skerða frelsi eða réttindi hins friðsama borgara.

Ég vil að lokum enn á ný þakka fyrir að fá tækifæri til að ávarpa ykkur hér í upphafi þings ykkar. Ég lýsi þeirri von, að þingstörfin skili ykkur félagslega góðum árangri og verði enn til að efla virðingu lögreglunnar meðal íslensku þjóðarinnar.