18.3.2004

Staða héraðsdómstóla

Umræða utan dagskrár á alþingi.18. mars, 2004. 

 

 

 

 

Háttvirtur málshefjandi spyr hvernig fjárveitingar til dómstólanna hafi fylgt fjölgun mála á síðastliðnum árum.

Í  fjárlögum 1999 var rekstur allra héraðsdómstóla sameinaður undir einn fjárlagalið.  Frá  og  með  þeim  fjárlögum  hafa fjárveitingar í fjárlögum hækkað um rúmlega 300 m.kr. varanlega. Þar af eru um 235 m.kr. vegna launa- og verðlagsbreytinga og er því hækkun að raungildi tæplega 65 m.kr. á þessu tímabili. 

 

Heildarframlag á fjáraukalögum til héraðsdómstóla á þessum árum hefur verið um 100 milljónir króna, þar af voru tæpar 50 milljónir króna árið 2002.

 

Umtalsverð raunhækkun hefur því orðið á fjárframlögum til héraðsdómstóla undanfarin ár og allt tal um að þrengt hafi verið að fjárhag þeirra er úr lausu lofti gripið.

 

Þá er talað um fjölgun þingfestra mála, en þeim hefur fjölgað mjög, en þar munar mest um þau mál, þar sem ekki er haldið uppi vörnum og enginn munnlegur málflutningur fer fram. Slík mál eru að jafnaði afgreidd með einfaldri áritun dómara.

 

Fjöldi munnlegra fluttra mála hefur ekki breyst nærri því svo mikið sem mætti ætla af skyndiskoðun á fjölda þingfestinga, en þessar tölur sveiflast milli ára. Þannig má nefna, að árið 1993 voru munnlega flutt mál 1250 en voru 1260 árið 2001, fjöldinn varð síðan 1385 mál árið 2002. Önnur ár má svo fá aðrar tölur.

 

Þessar tölur segja aðeins hluta sögunnar, því að hins er að geta, að árið 1993 voru starfandi svokallaðir dómarafulltrúar, en með dómstólalögunum árið 1998 voru þau störf aflögð. Mér finnst ástæða til að spyrja, hvort þar hafi alþingi stigið heilladrjúgt skref, en dómarafulltrúakerfið hafði vissulega sína kosti, enda hafa nágrannaþjóðir okkar ekki farið þá leið að leggja það af.

 

Í dómsmálaráðuneytinu er unnið að tillögum að lagabreytingum til að efla skilvirkni dómskerfisins og þá meðal annars hugað að því að veita aðstoðarmönnum dómara vissar heimildir til afgreiðslu mála.

 

 

 

Spurt er hvort ég muni beita mér fyrir lagabreytingum til að styrkja dómstólaráð. Það stendur ekki til, en ég tel ekki, að dómstólaráð, með fullri virðingu fyrir því, sé sé endilega forsenda þess, að tryggt sé sjálfstæði dómara.

 

Ég tel ekki, að íslenskir dómstólar hafi ekki hlotið sjálfstæði fyrr en dómstólaráð var stofnað hinn 1. júlí 1998. Íslenskir dómstólar voru sjálfstæðir fyrir þann tíma og eru það enn.

 

Árið 1998 hafði hver og einn héraðsdómstóll svipaða stöðu gagnvart framkvæmdavaldinu, hvað varðar fjármál og aðstöðu alla, og Hæstiréttur Íslands hefur í dag – enginn efast um sjálfstæði hæstaréttar. 

 

Úr því rætt er um sjálfstæði dómara þá er rétt að hafa í huga að sjálfstæði dómarans beinist ekki að dómsmálaráðuneytinu einu, eða framkvæmdavaldinu einu, heldur einnig öðrum aðilum. Dómari á vitaskuld að vera óháður öðrum mönnum og þjóðfélagsöflum og einnig óháður öðrum dómurum og félögum og ráðum þeirra.

 

 

 

 

Loks er spurt hvernig brugðist verði við því ástandi sem lesa mátti úr nýlegri ályktun Dómarafélags Íslands.

 

Eins og ég hef nefnt tel ég það orðum aukið að dómstólar landsins
búi við fjárhagslegt harðræði. Raunaukning hefur orðið í fjárveitingum til þeirra undanfarin ár og alþingi hefur auk þess samþykkt aukafjárveitingar.

 

Dómsmálaráðuneytið fylgist grannt með framvindu mála hjá dómstólunum og bregst við auknum verkefnum og auknu álagi þeirra í tillögum sínum við gerð fjárlaga.

 

Um þessar mundir er jafnframt hugað að breytingum á lögum til  að auka hagræðingu við dómstörf.

Rétt er að hafa í huga  að  samkvæmt  núgildandi  lögum  geta einungis héraðsdómarar, en tala þeirra er fastbundin í lög, afgreitt þau mál sem til dómstólanna berast. Auknar fjárveitingar einar og sér breyta engu um fjölda dómara eða hve mörgum málum hver dómari þarf að sinna.

 

Herra forseti.

 

Þó ég hafi bent á, að fjárveitingar til dómstólanna hafi aukist en ekki minnkað á undanförnum árum, vil ég að lokum taka skýrt fram, að ég tel afar mikilvægt að dómstólar landsins hafi þau skilyrði, sem þeir þurfa, til að geta sinnt sínum verkefnum á eðlilegan hátt, og ég er þess fullviss, að í framtíðinni tekst okkur að gæta þess, að svo verði.