9.3.2004

„Fleira hættulegt í heiminum en óblíð náttúra“

Morgunblaðsviðtal, 9. mars, 2004.

 

 

Dómsmálaráðherra segir ekki útilokað að hryðjuverkamenn láti að sér kveða á Íslandi og því sé nauðsynlegt að hafa áætlanir og viðbragðskerfi til að bregðast við slíkri vá. Efling sérsveitar lögreglunnar sé ekki skref í átt að íslenskum her, en skilin milli hers og lögreglu séu að mörgu leyti að verða ógreinilegri en áður vegna breyttrar heimsmyndar og nýrra ógna sem steðji að.


"Fleira hættulegt í heiminum en óblíð náttúra" - mynd
Morgunblaðið/Sverrir
Björn segir að sérsveitin sé ekki að taka við einhverju hlutverki af varnarliðinu. "Á hinn bóginn er óhjákvæmilegt að skilgreina öryggisgæslu, t.d. vegna orkumannvirkja, á annan hátt en við höfum gert til þessa. Við þurfum að svara spurningu eins og þessari: Hver eru skotmörk hryðjuverkamanna og hvaða ráðstafanir gerum við?"

BJÖRN Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, kynnti á dögunum eflingu sérsveitar lögreglunnar; fjölgun sérsveitarmanna úr 21 í 50 á næstu árum og flutning þeirra frá lögreglunni í Reykjavík til ríkislögreglustjóra, þar sem sérsveitin verður gerð að sérstakri stoðdeild. Breytingin tók gildi 1. mars síðastliðinn þegar 16 sérsveitarmenn fluttust undir embætti ríkislögreglustjóra. Tíu lögreglumenn verða í stað þeirra ráðnir til lögreglunnar í Reykjavík. Verða 30-35 milljónir settar í eflingu lögreglunnar í ár vegna þessara skipulagsbreytinga, en talið er að kostnaður við frekari stækkun sveitarinnar nemi um 250 milljónum króna, þegar allt er talið.

Björn segir að hann hafi talið tímabært að efla öryggi lögreglunnar og búa sérsveitina þannig úr garði að hún geti gripið inn hvar sem er og hvenær sem er og verið tiltæk til að skapa öllum lögreglumönnum í landinu öruggara starfsumhverfi.

Því hefur verið velt upp, m.a. í umræðum utan dagskrár á Alþingi, hvort efling sérsveitarinnar sé fyrsta skrefið í átt að íslenskum her. "Mér finnst þær umræður vera frekar til þess fallnar að draga athyglina frá kjarnanum í þessum ráðstöfunum og drepa málinu á dreif. Þetta snýst fyrst og fremst og einvörðungu um það að lögreglan á Íslandi sé í stakk búin til að takast á við sem flest viðfangsefni sem falla undir lögreglu og lögregluverkefni. Þetta er ekki þannig að við séum að þjálfa menn til að taka þátt í hernaðaraðgerðum," segir Björn.

Skilin milli hers og lögreglu ógreinilegri en áður

"Skilin á milli hers og lögreglu eru að mörgu leyti að verða ógreinilegri en áður vegna þeirrar hættu sem við stöndum frammi fyrir, en herinn er eitt og lögreglan annað, engu að síður," segir Björn. Hann bendir á að sérsveitin muni áfram starfa innan ramma lögreglulaganna. "En hlutverk lögreglu, við þær aðstæður sem hafa skapast í heiminum, við mat á þeirri hættu sem getur steðjað að þjóðfélögum, tekur náttúrlega mið af aðstæðum á hverjum tíma. Við erum ekki lengur í umhverfi þar sem menn geta sagt: "Þetta er óvinurinn, hann er þarna og hann mun koma þessa leið." Við erum frekar í umhverfi þar sem menn búa um sig með leynd innan þjóðríkjanna og ætla, eftir að þeir eru búnir að koma sér þar fyrir, að grípa til ráðstafana til að ógna öryggi borgaranna. Þar verða menn líka að skilja á milli herafla annars vegar og lögreglu hins vegar. Æ meiri áhersla er lögð á öryggisgæslu sem byggist á lögreglusveitum og að þær séu sveigjanlegar og til taks til að sinna verkefnum sem ekki voru áður á dagskrá og menn hugleiddu ekki með sama hætti og gert er núna," segir Björn.

Hann segir heimavarnir vera af öðrum toga. "Ég hef verið og er málsvari þess að bandarískt varnarlið sé hér á grundvelli varnarsamnings við Bandaríkin. Það er ekki svo að lögreglan komi í stað varnarliðsins, ég er ekki að búa neinn undir það. Ef varnarliðið færi þyrftum við að líta á málin í öðru samhengi en þessu."

Viljum ekki hafa erlenda menn í ákveðnum verkefnum

Aðspurður segir hann að sérsveitin muni þó gegna ákveðnu hlutverki í vörnum landsins. "Jú, að sjálfsögðu gerir hún það á þeim sviðum sem við viljum og teljum okkur hafa getu til að sinna sjálf. Hún hefur gert það frá 1979, þegar hún var stofnuð. Þessi viðfangsefni eru að breytast og þau eru orðin þess eðlis að við viljum ekki láta erlenda menn sinna þeim. Við eigum að gera það sjálf og verðum að þjálfa innlenda menn til að sinna þeim og taka á þeim, gæslu mannvirkja og viðkvæmra þátta í innviðum þjóðfélagsins. Eins og allar þjóðir, höfum við gagn af því að vera í öflugu varnarsamstarfi og skilgreina öryggishagsmuni okkar þannig að þeir falli að öryggishagsmunum annarra þjóða. Í því efni er mikils virði að vera með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin og eiga aðild að Atlantshafsbandalaginu."

Er sérsveitin að taka við einhverju hlutverki af hernum?

"Nei, hún er ekki að gera það. Á hinn bóginn er óhjákvæmilegt skilgreina öryggisgæslu, t.d. vegna orkumannvirkja á annan hátt en við höfum gert til þessa. Við þurfum að svara spurningu eins og þessari: Hver eru skotmörk hryðjuverkamanna og hvaða ráðstafanir gerum við? Þessum spurningum eigum við að svara á eigin forsendum og eiga samstarf við aðra um framkvæmdina eftir því, sem nauðsynlegt er. Hér hafa verið æfingar, t.d. Samvörður og Norðurvíkingur, og þar hafa menn m.a. farið á staði sem eru viðkvæmir í þessu tilliti.

Við byggjum á því að fleiri komi að málum ef á þarf að halda. Allar þjóðir Atlantshafsbandalagsins treysta á öryggistrygginguna í 5. gr. Atlantshafssáttmálans um að árás á einn sé árás á alla, en þessi grein hefur aðeins einu sinni verið virkjuð síðan 1949 - það var eftir árásina á New York og Washington 11. september 2001. Það var gert til þess að minna á samheldni og viðbrögð allra ef það yrði gert meira," segir Björn.

Má segja að þessi efling sérsveitarinnar núna tengist eitthvað hugmyndum Bandaríkjamanna um að draga úr viðverunni hér?

"Nei, hún er ekki í tengslum við varnarliðið, eins og ég hef margsagt, enda erum við ekki að skilgreina verkefni sérsveitarinnar öðruvísi en þau hafa verið skilgreind á undanförnum árum, þótt eðli þeirra kunni að hafa breyst. Við erum ekki að breyta lögreglulögunum, sérsveitin starfar innan sömu lagaákvæða og áður," segir Björn og bætir við að forsendan fyrir þeim ákvörðunum sem hafa verið teknar um sérsveitina sé miklu nær daglegu lífi en allar vangaveltur um varnarliðið. Hann hafi lagt mat á stöðu lögreglunnar og talið nauðsynlegt að styrkja innviði hennar og þ.m.t. öryggi borgaranna.

"Sagt hefur verið, að einhver bernskudraumur minn sé að rætast með því að efla lögregluna. Mig dreymir enga lögregludrauma og lifi almennt ekki í draumaheimi. Hér horfist ég einfaldlega í augu við kaldan veruleika og hef unnið þessum tillögum fylgi á þeim forsendum. Til að tryggja öryggi borgaranna er óhjákvæmilegt að stíga þetta skref," segir hann.

Sveitin mun taka að sér ný verkefni

Sérsveit lögreglunnar var stofnuð árið 1981 á formlegan hátt, en grunnur lagður að henni árið 1979. Hún er þjálfuð til að sinna margvíslegum verkefnum. Björn nefnir að eitt af hlutverkum sveitarinnar sé að gæta öryggis einstaklinga, þar á meðal öryggis erlendra gesta sem hingað koma auk þess að geta tekist á við óaldarflokka og hafa stjórn á slíkum hópum. Einnig nefnir hann áhlaupsaðgerðir á byggingar, flugvélar, skip og annað slíkt.

Björn segir að ýmis ný verkefni muni bætast á könnu sérsveitarinnar á næstunni, t.d. hvað flug- og siglingavernd varðar og eins gegni sérsveitarmenn mikilvægu hlutverki í friðargæslu. Þetta séu verkefni sem Ísland taki að sér sem sjálfstætt ríki og þurfi að hafa bolmagn til að sinna. Efling sérsveitarinnar komi m.a. til vegna þessara nýju verkefna. "Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, þá hafa þjóðirnar, eftir 11. september 2001, skuldbundið sig til að halda uppi öryggisgæslu á öðrum forsendum en áður."

Björn nefnir öryggisgæsluna á Keflavíkurflugvelli og segir að Íslendingar hafi undirgengist ríkari skyldur varðandi flugvernd. "Það eru um 80 þúsund manns sem fara um flugumsjónarsvæði Íslendinga á dag. Við sjáum það að flugvélar lenda hér ef það kemur upp reykur í farþegarými eða eitthvað slíkt. En það geta líka aðrir atburðir gerst sem við þurfum að hafa mannafla til að sinna og áætlanir til að bregðast við, svo um sé að ræða fullkomið öryggi á okkar loftvarnarsvæði." Björn nefnir einnig samninga um siglingavernd, þar sem lögð er ríkari áhersla en áður á öryggi í höfnum.

"Þessir menn koma einnig að friðargæslu. Við höfum ákveðnum alþjóðlegum skuldbindingum að gegna á því sviði, þannig að það er alveg augljóst að þarna eru aukin verkefni. Það er nefnd að störfum fyrir mig til að kanna viðbrögð við vá vegna eiturefna, sýklavopna og geislavopna. Hún mun skila niðurstöðum sínum á næstu dögum og ég er alveg sannfærður um að í hennar áliti kemur fram að það sé nauðsynlegt að æfa aðgerðir til að bregðast við slíkri vá og þar mun sérsveitin líka gegna hlutverki," segir Björn.

Hryðjuverk á Íslandi ekki útilokuð

Telur þú að Íslandi steðji hætta af hryðjuverkum?

"Ég tel ekki, að það sitji einhverjir og leggi á ráðin um að fremja hryðjuverk hér á landi. Ég segi hins vegar, að það sé ekki útilokað." Björn nefnir að ekki megi líta fram hjá því sem ekki sé hægt að útiloka. Það sé t.d. ekki útilokað að hlaupvatn úr gosi í Mýrdalsjökli eða Eyjafjallajökli fari vestur á bóginn og yfir Landeyjarnar og því hafi hann í fyrrasumar beitt sér fyrir aukafjárveitingu til sérfræðinga svo að gera mætti áhættumat við þeirri vá.

"Það er ekki útilokað að hryðjuverkamenn láti að sér kveða hér. Við verðum að hafa áætlanir og viðbragðakerfi sem gerir okkur kleift að sýna fram á að við getum brugðist við ef slíkt gerist. Ég er ekki að segja að Katla ætli sér endilega að gjósa þannig að hlaupið fari vestur á bóginn og ég er ekki að segja að einhverjir sitji einhvers staðar og leggi á ráðin um að fremja hér hryðjuverk. Ég vona að svo sé ekki."

Hamfarir af mannavöldum líklegri en náttúruhamfarir

Hann segir að það sé hlutverk stjórnvalda að vera við öllu búin. Nefnir Björn sem dæmi að milljörðum króna hafi verið varið í byggingu snjóflóðavarnargarða. "Við höfum mjög ríkan skilning á öllum slíkum aðgerðum þegar kemur að því að fjalla um varúðarráðstafanir vegna náttúruhamfara, vegna þess að við vitum af eigin reynslu að þær geta komið fyrirvaralítið og fyrirvaralaust, en hamfarir af mannavöldum eru atburðir sem eru kannski, því miður, líklegri til að gerast en náttúruhamfarir miðað við hvernig ástandið er í heiminum. Efling sérsveitarinnar er öflug aðgerð, en hún er ekki kostnaðarsöm þegar litið er til þeirrar hættu sem að okkur getur steðjað. Menn verða að setja þetta í ákveðið samhengi og vera tilbúnir til að ræða þessa þætti á málefnalegum forsendum ekki síður en þegar við ræðum um hættuna af náttúruhamförum. Ég held að Íslendingar átti sig á því að það er fleira hættulegt í heiminum en óblíð náttúra og við þurfum að gera ráðstafanir gegn fleiri vágestum en þeim sem koma úr ríki náttúrunnar," segir Björn.

Dómsmálaráðherra nefndi fyrst nauðsyn þess að efla sveitina í desember síðastliðnum við útskrift úr Lögregluskóla ríkisins. "Ég vísa til þess almennt séð þegar ég er spurður af hverju á þessum tíma, að þá hafði nýlega verið hér á ferðinni ránsmaður með afsagaða haglabyssu. Þegar ég ræddi þann atburð og atburðarásina við sérfróða menn sá ég, að nauðsynlegt var að breyta skipulagi á stjórn sérsveitarinnar, gera hana sveigjanlegri og tryggja, að menn úr henni væru alltaf til taks, án tillits til annarra verkefna lögreglunnar, liðsmenn sem gætu brugðist við með skömmum fyrirvara hér á höfuðborgarsvæðinu og alls staðar annars staðar á landinu," segir Björn.

Yfirstjórn sérsveitarinnar fluttist í hendur ríkislögreglustjóra árið 1999, en til þessa hafa sérsveitarmenn að meginstofni verið hluti af hinu almenna lögregluliði í Reykjavík. "Þeir gengu vaktir og alltaf þegar þeir þurftu að fara til æfinga eða sinna sérsveitarverkefnum hafði það áhrif á almenna lögreglustarfið í Reykavík. Auk þess gat komið ákveðið rof í starf sérsveitarinnar vegna vaktakerfis og annarra slíkra hluta. Nú er tryggt að lögreglan í Reykjavík getur sinnt sínum verkefnum án tillits til sérsveitarverkefnanna. Almennum lögreglumönnum verður fjölgað í Reykjavík, hins vegar munu sérsveitarmennirnir einnig sinna almennum lögreglustörfum, bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar þar sem þeim verða falin verkefni. Þeir sitja ekki og bíða eftir stórverkefnum," segir Björn. Tíu menn verða ráðnir til lögreglunnar í Reykjavík í sumar í stað þeirra sextán sérsveitarmanna sem nú flytjast yfir til ríkislögreglustjóra. Sérsveitarmennirnir muni hverju sinni lúta forsjá lögreglustjórans í því umdæmi þar sem þeir eru að störfum. "En þegar þeir fara í þjálfun og eru að sinna sínum verkefnum þá truflar það ekki skipulag, vaktaskipulag og allt annað hjá lögreglunni í Reykjavík. Sá núningur var ekki vel séður af neinum og það var brýnt að taka á þeim skipulagsvanda," segir Björn.

"Allt í góðu samráði við þau yfirvöld sem ég á að eiga samráð við"

Á Alþingi var í síðustu viku gagnrýnt að farið væri út í eflingu sérsveitarinnar án þess að hafa fyrir því vilyrði í fjárlögum. Björn segir að þegar hann kynnti fyrst hugmyndir sínar um eflingu sérsveitarinnar hafi hann áður haft samráð við forsætisráðherra, sem hafði aftur samráð við utanríkisráðherra og fjármálaráðherra. "Þá setti ég þessa vinnu af stað og það sem ég er að kynna núna er afrakstur starfs sem fór fram á vegum ríkislögreglustjóra, lögreglunnar í Reykjavík og sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli," segir hann.

Segir Björn að ríkisstjórnin hafi veitt hugmyndinni brautargengi og að hann hafi ekki orðið var við annað en að þingflokkur sjálfstæðismanna sé breytingunum fylgjandi. Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og varaformaður fjárlaganefndar, sagði í ræðustól á Alþingi að menn mættu ekki slaka á aðalverkefninu "að standa vörð um ríkisfjármálin".

Björn segist sammála því að fara verði varlega um fjárhirslur ríkisins. "En verkefni á sviðum dómsmála og öryggismál eru þannig að menn verða líka að hafa þrek til að leggja fram tillögu og leita eftir stuðningi við þær þegar þeir telja nauðsyn bera til." Nefnir hann sem dæmi áðurnefnda hættu á hlaupi sem færi til vesturs yfir Landeyjar. Þegar hann hafi ákveðið að bregðast við skýrslu sem sýndi fram á þessa hættu og óska eftir tæpum 20 milljónum króna í áhættumat á þessari vá hafi hann ekki heyrt neinar athugasemdir við það þó ekki væri fyrir því fjárheimild.

Eftir að ríkisstjórnin hafi tekið sína ákvörðun um sérsveitina hafi hann rætt málið ítarlega við fjármálaráðherra og embættismenn beggja ráðuneyta hafi farið rækilega yfir málin. "Fjármálaráðherra hefur síðan tengsl við þessa ágætu menn sem sitja í fjárlaganefnd, þannig að þetta er allt í góðu samráði við þau yfirvöld sem ég á að eiga samráð við," segir hann.

Fyrsta skylda stjórnvalda að tryggja öryggi borgaranna

30-35 milljónir verða settar í eflingu lögreglunnar í ár vegna þessara skipulagsbreytinga og segir Björn að ákvarðanir um fjölgun sérsveitarmanna í 50, sem stefnt er að á næstu árum, verði teknar við gerð fjárlaga hverju sinni.

"Ég held að gefi menn sér tóm til að velta þessu máli fyrir sér sjái þeir að miðað við hörku í afbrotum og þau störf sem lögreglan þarf að sinna sé þetta nauðsynleg og skynsamleg aðgerð til að efla öryggi lögreglunnar og hins almenna borgara," segir Björn. "Ef litið er yfir umræður á Alþingi um lögreglumál undanfarin misseri hafa þær hnigið að því, að ekki sé nóg að gert til að efla löggæslu og taka til dæmis á handrukkurum og þeim, sem ganga harðast fram í fíkniefnaheiminum svonefnda. Þessi heimur er ekki neinn gerviheimur, hann blasir við okkur í fréttum oftar en góðu hófi gegnir og illvirkin taka á sig harðnandi blæ. Það skýtur því skökku við, ef menn rjúka upp til handa og fóta í hneykslan og reiði í þingsalnum, þegar lögreglan er efld með skipulögðum og markvissum hætti. Sá umsnúningur byggist á einhverju allt öðru en raunsæju mati á aðstæðum," segir Björn.

Hann segir að þegar hugmyndirnar voru fyrst kynntar í desember hafi fjárlög fyrir árið 2004 þegar verið samþykkt. "Ég met það mikils, að menn skuli standa vörð um hagsmuni ríkissjóðs. Það er sérstök skylda þeirra, sem sýsla með fjárlögin og okkar allra, sem viljum góða framvindu efnahags- og atvinnumála. Hitt er hins vegar skýrt, að fyrsta skylda stjórnvalda er að tryggja öryggi borgaranna og innviði ríkisins. Tillögur mínar í lögreglumálum lúta að þeirri brýnu skyldu."

© Morgunblaðið, 2004