4.3.2004

 Sérsveit lögreglunnar

Umræður utan dagskrár á alþingi,4. mars 2004.

 

 

Ég þakka háttvirtum þingmanni Ögmundi Jónassyni fyrir að beita sér fyrir  umræðu hér á alþingi um þetta mikilvæga mál.

 

Ég tek undir með honum, að nauðsynlegt er að gera sér vel grein fyrir kostnaði við löggæslu og eins og fram kemur í gögnum dómsmálaráðuneytisins er gert ráð fyrir, að það muni kosta 250 milljónir króna á ári, að fjölga í sérsveit lögreglunnar. Um þann þátt ber að ræða við afgreiðslu fjárlaga og er með öllu ástæðulaust að láta eins og farið sé á svig við alþingi í því efni.

 

Í ræðu sem ég flutti við slit lögregluskólans 11. desember síðastliðinn lét ég þess getið, að ég teldi nauðsynlegt að efla sérsveit lögreglunnar til að treysta öryggi hins almenna lögreglumanns og þar með almennt öryggi í landinu. Var vitnað í þessi orð mín í fjölmiðlum en enginn sá þá ástæðu til að spyrja mig nánar út í þau hér á alþingi.

 

Síðan hefur verið unnið að því á vegum dómsmálaráðuneytisins, embættis ríkislögreglustjóra og lögreglunnar í Reykjavík, þar sem flestir sérsveitarmenn hafa starfað til þessa, að móta leiðir til að efla sérsveitina. Að bestu manna yfirsýn og í góðri sátta allra, sem að málinu hafa komið á vettvangi lögreglunnar og að höfðu samráði við forystumenn Landssambands lögreglumanna og Lögreglufélags Reykjavíkur, var ákveðið að fara þá leið, sem ég kynnti hinn 1. mars síðastliðinn.

 

Hún er í meginatriðum tvíþætt. Í fyrsta lagi verður sérsveitin stoðdeild á vegum ríkislögreglustjóra við lögreglusveitir um land allt. Í öðru lagi er almenn löggæsla efld.

 

Eldri skipan sérsveitarmála hefur einmitt komið niður á almennri löggæslu. Sérsveitarmennirnir voru fram til síðustu mánaðamóta hluti af almennri deild lögreglunnar í Reykjavík. Við sérsveitarverkefni eða þjálfun og æfingar innan sveitarinnar nýttust þessir menn ekki til almennra löggæslustarfa. Nú hefur það ekki áhrif á skipulag almennrar löggæslu ef sérsveitin er kölluð til starfa, í þjálfun eða önnur verkefni, enda verður  lögreglumönnum í Reykjavík fjölgað til að mæta þessum tilflutningi.

 

Þetta er kjarni þeirra breytinga, sem hér er um að ræða og þær byggjast á lögreglulögum og til þeirra sækir sérsveitin heimildir sínar. Ég tel ekki nauðsynlegt að breyta þeim lögum vegna þessara skipulagsbreytinga.

 

Háttvirtur þingmaður dregur alltof víðtækar ályktanir af þessum breytingum í spurningum sínum. Markmið mitt er að styrkja innviði lögreglunnar innan þess lagaramma, sem henni er settur.

 

Ég skorast hins vegar síður en svo undan því, að ræða málið á þeim forsendum, sem fram koma í spurningum háttvirts þingmanns.

 

Aðgangur almennings að upplýsingum um sérsveitina breytist ekkert við þessa skipulagsbreytingu. Hann er hinn sami og áður.

 

Þessi breyting hefur engin áhrif á upplýsingaöflun um borgarana. Sé vilji til þess að auka hana, verður að fara aðrar leiðir en að efla sérsveit lögreglunnar.

 

Að gera sérsveitina að stoðdeild við almennt lögreglustarf í landinu öllu eykur ekki miðstýringu, því að sérsveitarmenn við lögreglustörf falla undir stjórn þess, sem stýrir slíkum störfum á þeim stað, þar sem þau eru unnin hverju sinni. Almenn löggæsla styrkist við þessa aðgerð.

 

Ég tel að það fari saman að styrkja almennt starfsumhverfi lögreglunnar og auka hlut hennar við forvarnir og almenna löggæslu. Um land allt starfar lögreglan í nánum tengslum við borgarana.

 

Þessi ráðstöfun, sem ég hef beitt mér fyrir með samþykki ríkisstjórnarinnar, lýtur ekki að því að stofna íslenskan her.

 

Við búum við síbreytilegar aðstæður og því miður steðja nýjar hættur að íslensku þjóðfélagi.

 

Þegar ég hreyfði því í desember, að nauðsynlegt væri að efla sérsveitina, höfðu vopnaðir menn farið ránshendi hér á höfuðborgarsvæðinu.

 

Hér á alþingi hefur háttvirtur þingmaður Jóhanna Sigurðardóttir lagt fyrir mig fyrirspurn um ofbeldi í fíkniefnaheiminum, þar sem meðal annars er vikið að síendurteknum árásum handrukkara og spurt, hvort lögregluyfirvöld telji sig nægilega vel í stakk búin til að takast á við sívaxandi ofbeldi í fíkniefnaheiminum og hvað sé vænlegast til úrbóta.

 

Þessar spurningar snúast um raunveruleg viðfangsefni líðandi stundar. Við þessum viðfangsefnum verður að bregðast af festu og þunga. Í þessu ljósi á að skoða ákvarðanir mínar um að efla sérsveit lögreglunnar.

Vona ég, að háttvirtir alþingismenn séu mér sammála um nauðsyn þess  að gera skipulegar ráðstafanir til sporna við ofbeldi, sem ógnar öryggi hins almenna borgara.

 

Ég hafna þeirri skoðun, að slíkar ráðstafanir séu til þess fallnar að veikja traust á lögreglunni eða spilla samskiptum hennar við almenning.