7.2.2004

Brugðist við sérkennilegri þróun

Morgunblaðið, 7. febrúar, 2004.

 


 

UMRÆÐUR um afskipti framkvæmdavaldsins og löggafarvaldsins af umsvifum einstaklinga og fyrirtækja þeirra taka á sig ýmsar myndir. Þannig spyr Birgir Hermannsson stjórnmálafræðingur í Morgunblaðinu 4. febrúar hvort ég hafi sýnt vítaverðan skort á fyrirhyggju sem menntamálaráðherra með því að beita mér ekki fyrir almennum reglum um eignarhald á fjölmiðlum. Segist Birgir vilja slíkar reglur en eiga bágt með að styðja þær ef með þeim eigi að koma höggi á óþekka kaupsýslumenn eða klekkja á Baugsfeðgum. Skorar hann á mig að segja hvað Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið að gera í þessum málum

Stjórnmálafræðingur ætti að hafa áttað sig á því að viðfangsefni stjórnmálamanna felast einkum í því að bregðast við atburðum í samræmi við hugsjónir sínar og stjórnmálaleg markmið.

Frelsi einstaklingsins til orða og athafna er meginkjarni sjálfstæðisstefnunnar. Kjarni vinstristefnunnar er að einstaklingurinn skuli víkja fyrir heildinni. Að mati vinstrisinna er hlutverk stjórnmálamanna ekki að skapa einstaklingum sem mest svigrúm til athafna heldur að hafa vit fyrir fjöldanum og leiða hann í krafti ímyndaðra yfirburða sinna.

Ég hef setið fundi með norrænum ráðherra úr flokki jafnaðarmanna sem sagði tæpitungulaust að best væri að hafa skatta háa og láta sem mesta fjármuni renna um hendur stjórnmálamanna og stjórnvalda því að þau hefðu meira vit á að nýta fjármunina til "góðra" verka en þeir sem öfluðu fjárins og greiddu skattana.

Þetta hefur aldrei verið stjórnmálaviðhorf mitt. Skattar eiga að vera sem lægstir, með því er alls ekki vegið að innviðum þjóðfélaga. Skatttekjur aukast gjarnan með lækkun skatta eins og dæmin sanna hér á landi.

Svigrúm einstaklinga til að láta að sér kveða í atvinnulífinu á að vera sem mest. Besta leiðin til að tryggja hag fyrirtækja og viðskiptavina þeirra er frjáls samkeppni. Í tíð minni sem menntamálaráðherra var mér ekkert kappsmál að hlutast til um hinn frjálsa fjölmiðlamarkað og lét ég þá skoðun oftar en einu sinni í ljós.

Ég vildi styrkja innviði Ríkisútvarpsins með skipulagsbreytingum en áhugi minn á þeim umbótum skilaði ekki árangri vegna andstöðu annarra. Kvað ég svo fast að orði sem menntamálaráðherra um þessa ríkisstofnun að ég teldi hana í tilvistarkreppu. Er ég enn sömu skoðunar og raunar enn frekar en áður, meðal annars vegna þess hvernig starf fréttastofu hljóðvarpsins hefur þróast.

Að minni tilhlutan var almennu löggjöfinni um útvarpsrekstur breytt og hún löguð að evrópskum kröfum. Tókst sú lagasetning vel og er hið almenna starfsumhverfi útvarpsstöðva hér að þessu leyti eins og best verður á kosið. Ég beitti mér einnig fyrir því að sett voru í lög ákvæði sem veita Stöð 2 vörn vegna myndlykla hennar og afruglunar.

Á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því að ég hvarf úr embætti menntamálaráðherra hefur orðið mikil breyting á eignarhaldi fjölmiðla og umræður um þá þróun hníga til þeirrar áttar að óhjákvæmilegt sé fyrir löggjafann að láta hana sig einhverju skipta.

Á fundi reykvískra sjálfstæðismanna laugardaginn 31. janúar flutti ég ræðu sem ég nefndi Frelsi í krafti aga og lesa má á vefsíðu minni bjorn.is. Þar sagði ég meðal annars:

"Eins og hér hefur verið rakið stangast það að sjálfsögðu ekki á við stjórnmálastefnu, sem vill veg markaðshagkerfisins mikinn, að setja leikreglur um framgöngu á markaðnum. Hvarvetna hefur ríkisvaldið slíkar reglur sér til trausts og halds í viðleitni sinni við að vernda hinn almenna borgara og tryggja hóflegt jafnvægi til stuðnings góðum viðskiptaháttum.

Ríkisstjórnin hefur nú sett af stað athugun á viðbrögðum við þróuninni á þeim sviðum, þar sem mest reynir á innlenda samkeppni, það er á fjölmiðlamarkaðnum á vegum menntamálaráðherra og varðandi meiri samþjöppun og minni samkeppni en áður í einstökum atvinnugreinum á vegum viðskiptaráðherra. Í báðum tilvikum er markmiðið að stuðla að þróun reglna sem tryggja að viðskiptalífið sé skilvirkt og njóti trausts.

Þetta er nauðsynlegt við núverandi aðstæður og í fullu samræmi við önnur viðbrögð stjórnvalda við breytingum í viðskiptalífinu í áranna rás. Ætti að vera sérstaklega traustvekjandi að til þessara starfa skuli gengið í ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Það tryggir að ekki er gengið til þessa verks með hugsjónir vinstrisinna að leiðarljósi heldur með virðingu fyrir gildi samkeppni.

Hér skal engu spáð um niðurstöður þessara nefndarstarfa. Fyrsta boðorðið er að hindra að frelsið sé misnotað. Annað að móta reglur um viðbrögð sé það engu að síður gert. Hið þriðja að stuðla að endurreisn markaðsaflanna ef tjón hefur verið unnið."

Í tilefni af spurningum Birgis Hermannssonar vil ég árétta þessi orð mín. Ég tel einfaldlega að nú sé þörf þeirrar athugunar sem fer fram en hennar hafi ekki verið þörf þegar ég var menntamálaráðherra. Það ræðst síðan af niðurstöðu þessarar athugunar hvort skynsamlegt er talið að leita stuðnings með lögum við þá viðleitni að tryggja samkeppni og sporna gegn óhóflegri miðstýringu.

Einkennilegt er hjá Birgi að setja mál sitt fram á þann veg að hann eigi í erfiðleikum með skoðun sína á þessu máli vegna þess hvaða fyrirtæki eigi í hlut. Hann vill ekki stuðla að almennri lagasetningu um þessi mál vegna þess að ákveðnir einstaklingar eru öflugir á íslenskum fjölmiðlamarkaði um þessar mundir. Ég á ekki von á því að nefndin, sem fjallar nú um þetta mál á vegum menntamálaráðherra, fari í manngreinarálit - hún hlýtur að vinna að athugun sinni á óhlutdrægan hátt.

Nefndin starfar hins vegar í þjóðfélagi þar sem samþjöppun hefur á skömmum tíma leitt til hringamyndunar og fákeppni á dagvöru- og byggingavörumarkaði, en þar hafa nú tvær keðjur stórmarkaða nálægt 80% hlutdeild, hvor á sínum markaði. Stærsti aðilinn er með yfir 60% hlutdeild í matvöruverslun og hefur jafnframt eignast 2/3 af dagblöðum landsins og 50% af sjónvarps- og útvarpsfréttastofunum. Hvorki Birgir Hermannsson né aðrir geta gengið fram hjá þessu þegar lagt er mat á stöðuna.

Við þessari stöðu er verið að bregðast. Hún var ekki fyrir hendi þegar ég var menntamálaráðherra og ég hafði ekki frekar en nokkur annar hugmyndaflug til að ímynda mér að þessi þróun yrði á þennan veg á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Hún er hins vegar staðreynd um þessar mundir og við henni er verið að bregðast.

Alþingi hefur einmitt í vikunni brugðist við óvæntri stöðu sem skapaðist á fjármálamarkaði. Hafði þingið þó aðeins fyrir fáeinum mánuðum sett lög um sparisjóðina. Nú er verið að bregðast við atburði en auðvitað má setja hann, viðskiptaráðherra og þingheim allan, í það ljós sem Birgir bregður í pólitísku blekkingarskyni á mig sem menntamálaráðherra.

Mikilvægt er að fram fari málefnalegar umræður um þessi mikilvægu mál. Í þeim anda ræddum við reykvískir sjálfstæðismenn þau fyrir viku. Tónninn hjá Birgi Hermannssyni er annar. Er hann að leita að tilefni til að gera pólitískan andstæðing tortryggilegan? Slíkar tilraunir eru dæmdar til að misheppnast ef þær eru gerðar af málefnalegum vanefnum.