1.2.2004

Stjórnarráðssaga - útgáfuræða

Þjóðmenningarhús,1. febrúar, 2004.

 

 

Fyrir hönd ritstjórnar sögu Stjórnarráðs Íslands býð ykkur öll velkomin til þessarar athafnar.

 

Hér verða forsætisráðherra afhent eintök af tveimur fyrstu bindum af sögunni. Fyrra bindið fjallar í stórum dráttum um þróun lagalegrar umgerðar Stjórnarráðsins og innra starf þess síðustu eitt hundrað ár en í hinu síðara er sögð saga tveggja áratuga – sjöunda áratugarins, sem jafnan er kenndur við viðreisn í stjórnmálasögunni, og áttunda áratugarins, þegar nýtt skeið hófst á grundvelli fyrstu stjórnarráðslaganna og reglugerðar um Stjórnarráðið.

 

Að því er stefnt, að lokabindi verksins, saga níunda og tíunda áratugarins, verði gefið út á 60 ára afmæli lýðveldisins 17. júní næstkomandi.

 

*

 

Upphaf þess að ráðist var í þetta stórvirki má rekja til sumarsins 1993, þegar Heimir Þorleifsson, þáverandi forseti Sögufélags, ritaði Davíð Oddssyni forsætisráðherra og minnti á, að árið 1969 gaf Sögufélag út ritið Stjórnarráð Íslands 1904-1964 í tveimur bindum eftir Agnar Klemens Jónsson sendiherra. Var ritið samið í tilefni af 60 ára afmæli Stjórnarráðsins að forgöngu þáverandi forsætisráðherra. Hóf Agnar Klemens að semja ritið árið 1964 og lauk því á fimm árum. Stjórnarráðið kostaði ritun sögunnar en hún var síðan gefin út í samvinnu við Sögufélag.

 

Greindi forseti Sögufélags Davíð Oddssyni forsætisráðherra frá því, að stjórn félagsins liti á það sem heiður fyrir það að fá að taka þátt í að áfram yrði haldið við ritun stjórnarráðssögunnar – en þá var 90 ára afmæli stjórnarráðsins á næsta leiti – og annast útgáfu hennar auk þess sem æskilegt væri að endurútgefa ritverk Agnars Klemens, sem hefði verið ófáanlegt um nokkurt skeið.

 

Úr ráði varð að taka ekki til hendi við þetta verk fyrr en á 95 ára afmæli Stjórnarráðsins en í upphafi árs 1999 greindi forsætisráðuneytið Sögufélagi frá því, að Davíð Oddsson forsætisráðherra hefði ákveðið, að hafinn skyldi undirbúningur að því að rita sögu Stjórnarráðsins frá þeim tíma, þegar Agnar Klemens skildi við hana, það er 1964. Skipaði ráðherrann okkur Ólaf Ásgeirsson þjóðskjalavörð í ritstjórn sögunnar í febrúar 1999 en Sögufélag tilefndi Heimi Þorleifsson.

 

Í skipunarbréfinu sagði, að við skyldum skipuleggja útgáfuna og ráða starfsmann eða menn til verksins. Einnig skyldi ritstjórnin gera fjárhagsáætlun fyrir útgáfuna í samráði við forsætisráðuneytið. Skyldi að því stefnt að verkið kæmi út í upphafi árs 2004, á 100 ára afmæli Stjórnarráðsins.

 

*

 

Allt hefur þetta gengið eftir, góðir áheyrendur, eins og fyrir okkur var lagt og þess vegna erum við hér í dag á 100 ára afmælisdegi Stjórnarráðs Íslands.

 

Opinberlega var verkinu hleypt af stokkunum á blaðamannafundi í nóvember árið 2000. Þar var Sumarliði R. Ísleifsson sagnfræðingur kynntur sem ritstjóri sögunnar auk hinna sex fræðimanna, sem hafa ritað meginmál hennar. Einnig var skýrt frá því, að áætlað væri, að kostnaður við söguritunina fyrir utan útgáfukostnað yrði 40 milljónir króna.  Hefur sú áætlun staðist en kostnaður við umbrot, prentun og bókband er áætlaður um 14 milljónir króna.

 

Hvorki hefði verið staðið við tímamörk né fjárhagslegar áætlanir nema vegna ötullar framgöngu Sumarliða R. Ísleifssonar sagnfræðings. Vil ég færa honum og samstarfsmönnum hans heillaóskir og þakkir fyrir góða og farsæla samvinnu.  Þá þakka ég Lofti Guttormssyni, forseta Sögufélags, hlut hans í markvissri framvindu verksins. Loks þakka ég Davíð Oddssyni forsætisráðherra og ráðuneyti hans góðan stuðning við ritstjórn undanfarin fimm ár.

 

*

 

Agnar Klemens Jónsson skráði sögu Stjórnarráðsins sem innanbúðarmaður. Hið mikla verk hans markaði þáttaskil í ritun stjórnmála- og stjórnsýslusögunnar á sínum tíma. Nýtur það viðurkenningar og virðingar sem traust sagnfræðileg heimild, sem lýsir ekki síður þróun stjórnmála en Stjórnarráðsins fyrstu 60 ár þess. Er enn í gildi óskin frá 1993 um, að fyrstu tvö bindi stjórnarráðssögunnar verði gefin út að nýju. Væri ánægjulegt, ef heildarsaga Stjórnarráðsins yrði fáanleg í bókaverslunum á aldarafmælisárinu.

 

Höfundar bókanna, sem nú sjá dagsins ljós, eru ekki innanbúðarmenn í Stjórnarráðinu  eins og Agnar Klemens og hafa því ekki getað skráð söguna frá þeim sjónarhóli. Þeir hafa örugglega ekki heldur alltaf sömu sýn á hlutina og þeir, sem starfa eða hafa starfað innan veggja Stjórnarráðsins hvort heldur sem ráðherrar eða aðrir embættismenn. Mestu skiptir, að rétt sé farið með staðreyndir og ekki á neinn hallað að ósekju.

 

Bækurnar segja auðvitað ekki alla söguna, því að marga þræði mála og atburða má rekja miklu lengra en hér er gert. Veiti ritið góða heildarmynd og skapi jafnframt trausta fótfestu til að efna til frekari rannsókna á sögu einstakra ráðuneyta eða málaflokka er markmiði ritstjórnar náð.

 

Saga Stjórnarráðsins síðustu 40 ár er að öðrum þræði saga nýrra stjórnarhátta, sem mótuðust fyrst með setningu stjórnarráðslaganna árið 1969, og síðan með setningu stjórnsýslulaga og upplýsingalaga á tíunda áratugnum. Er sú þróun öll ekki síður merkileg en hitt, sem lýtur að viðfangsefnum ráðherra og ráðuneyta.

 

Ástæða er til að fagna ákvörðun forsætisráðherra að láta ráðast í þetta verk á þeim forsendum, sem gert hefur verið. Fræðileg vinna af þessu tagi er öðrum þræði mikilvægt framlag til að treysta góða stjórnarhætti og hefðir í sessi. Af sögunni má draga lærdóm af því, sem vel hefur verið gert, og einnig átta sig á því, sem ber að varast. Þá er hér að sjálfsögðu um að ræða ómetanlegan stuðning við rannsóknir á sögulegum heimildum og úrvinnslu þeirra.

 

Minnumst þess, að í dag er einnig 100 ára afmæli þingræðis á Íslandi. Þingræði er forsenda lýðræðislegra og opinna stjórnarhátta en hér á landi byggist það að verulegu leyti á hefðum og fordæmum.  Er mikils virði að saga þingræðis sé skráð og skilgreind til að treysta þennan mikilvæga þátt í stjórnkerfi þjóðarinnar enn frekar í sessi.

 

Sögu Stjórnarráðs Íslands er ekki lokið og hún heldur áfram hvern nýtan dag. Reynslan af þessu verki hvetur mig til að minna á nauðsyn þess að halda til haga ljósmyndum úr starfi ráðuneyta og jafnvel huga að árbók Stjórnarráðsins – en vefsíður eru tilvalinn vettvangur til skrásetninga af því tagi. Þá er tímabært að huga að gerð heimildarkvikmyndar um stjórnarráðsstarfið og almennt frekari kynningu á stjórnsýslustarfinu meðal almennings.

 

Góðir áheyrendur!

 

Við erum hér í minningarhúsi um íslenska menningu og andans menn. Húsi sem er besta tákn um þann stórhug, sem einkenndi Hannes Hafstein, fyrsta íslenska ráðherrann. Hér vildi hann, að yrði „varðkastali og forðabúr þjóðernistilfinningarinnar.“  Af hálfu ríkisstjórnar undir forsæti Davíðs Oddssonar hefur verið staðinn vörður um þá hugsjón Hannesar eins og núverandi nýting þessa glæsilega húss sýnir.

 

Í anda sömu bjartsýni og réð við upphaf heimastjórnar leyfi ég mér að árétta tillögu um, að í tilefni aldarafmælis Stjórnarráðs Íslands verði ákveðið að reisa hús á háskólalóðinni í tengslum við Þjóðarbókhlöðuna, sem hýsi handritin og stofnanir íslenskrar tungu og fræða. Verði húsið tekið í notkun á aldarafmæli Háskóla Íslands árið 2011.