24.1.2004

ESB jafngildir ekki Bandaríkjunum

Morgunblaðið, 24. janúar, 2004.

 


 

Öryggis- og varnarmál Íslands eru í sífelldri þróun og er vissulega nauðsynlegt, að viðra sem flest sjónarmið, til að auðvelda okkur að greina kjarnann frá hisminu.

Síðastliðinn fimmtudag var mér boðið að flytja fyrirlestur um varnarsamstarf Evrópusambandsins og Ísland á fundi Politicu, félags stjórnmálafræðinema, Evrópusamtakanna og Félags stjórnmálafræðinga. Þar gafst gott tækifæri til að skiptast málefnalega á skoðunum um eitt af lykilatriðunum, sem hafa verður í huga, þegar rætt er um tengsl okkar Íslendinga við Evrópusambandið - áhrifin á meira en 60 ára samstarf okkar við Bandaríkjamenn í varnar- og öryggismálum.

Á fundinum ítrekaði ég þá skoðun mína, að besta leið okkar Íslendinga til að tryggja öryggi okkar er að viðhalda varnarsamningnum við Bandaríkin og sjá til þess, að inntak varnarsamstarfsins haldi áfram að vera á þann veg, að enginn geti efast um gildi samningsins.

Ég hafna því eindregið, að okkur sé nauðsynlegt að skipa okkur í sveit "andspænis valdbeitingarstefnu þeirra Bandaríkja sem stjórnast öðru fremur af hagsmunum stórfyrirtækjanna og fjármagnsins", eins og varaformaður Samfylkingarinnar orðaði það á fundi framtíðarnefndar flokks síns 9. janúar síðastliðinn og taldi þess vegna fulla ástæðu til að við beindum sjónum okkar í ríkara mæli að Evrópu og skilgreindum varnarhagsmuni okkar í tengslum við varnarhagsmuni Evrópu. Það mundi að mati varaformannsins þó aðeins verða að veruleika, ef menn sættust á að Evrópusambandið væri mögulegur valkostur fyrir okkur Íslendinga.

Ég tek undir með Kristjáni Jónssyni, blaðamanni á Morgunblaðinu, sem sagði í Viðhorfsgrein í Morgunblaðinu 13. janúar, að í grannlöndum okkar yrði flokkur sem boðaði skilgreiningar af áðurnefndu tagi talinn vera gömul eftirlegukind úr kalda stríðinu.

Viðhalda ber jafnvægi

Einsýnt er að mínu mati, að tækju íslensk stjórnvöld ákvörðun um að rifta varnarsamstarfinu við Bandaríkin á þeim forsendum, að þau vildu frekar slást í hóp Evrópusambandsríkja í keppni þeirra við Bandaríkin, myndi það kollvarpa jafnvægi í öryggismálum á Norður-Atlantshafi og valda öryggishagsmunum þjóðarinnar og nágranna hennar verulegum skaða.

Ákvörðun um slit varnarsamstarfsins og aðild Íslands að Evrópusambandinu hefði í för með sér, að hin tvíhliða, vinsamlegu stjórnmálasamskipti Íslendinga og Bandaríkjamanna féllu í nýjan farveg - það er í gegnum Brussel.

Markmið Evrópusambandsríkjanna er, að stefna þeirra í utanríkis- og varnarmálum verði endanlega ákveðin í höfuðborg Evrópu en ekki af ríkisstjórnum og þjóðþingum einstakra aðildarríkja. Væri Ísland í þessum ESB-hópi myndi leiðin til stefnumótunar í Brussel líklega alls ekki liggja í gegnum Reykjavík - sjónarmið í París eða Berlín myndu vafalaust vega þyngra en það, sem héðan kæmi. Íslensk stjórnvöld hefðu ekki lengur fullt vald á að velja sér samstarfsaðila í öryggismálum. Þar með hættu íslensk stjórnvöld jafnframt að eiga bein samskipti við ráðamenn í Washington.

Saga af tvíhliða samstarfi Íslendinga við Bandaríkjamenn í varnarmálum geymir fjölmörg dæmi um skjóta úrlausn ágreiningsefna, þar sem ríkt tillit er tekið til íslenskra hagsmuna. Hún ber ekki merki þeirrar togstreitu og jafnvel hrossakaupa, sem setur svip sinn á ákvarðanir á vettvangi Evrópusambandsins.

Íslendingar hafa skipað sér í sveit þeirra Evrópuríkja á vettvangi NATO, sem standa vörð um náin tengsl við Bandaríkin og leggja ríka áherslu á Atlantshafssamstarfið í öryggismálum. Engir íslenskir hagsmunir mæla með, að horfið sé frá þeirri stefnu eða nokkuð gert, sem dregur úr gildi Atlantshafstengsla Evrópu og Norður-Ameríku.

Íslensk stjórnvöld eiga að sýna auknu varnarsamstarfi Evrópusambandsins áhuga og bregðast vel við, ef í þágu þess er óskað eftir samvinnu, til dæmis til að halda uppi eftirliti á Norður-Atlantshafi.

Jákvæð afstaða af hálfu Íslendinga í garð aukins varnarsamstarfs Evrópusambandsins, sem hefur ekki óvináttu í garð Bandaríkjanna að leiðarljósi, samrýmist vel því markmiði, að samningurinn um evrópska efnahagssvæðið styrkist með stækkun Evrópusambandsins.

Samhliða þróun varnarsamstarfsins við Bandaríkin í ljósi sameiginlegra öryggishagsmuna er ljóst, að efnahagsleg og viðskiptaleg tengsl Íslands við Norður-Ameríku eiga eftir að stóreflast á næstu árum, þegar litið er til umsvifa bandarískra og kanadískra fyrirtækja í stóriðju hér á landi.

Öll rök hníga að því, að öryggi Íslands verði best tryggt áfram með varnarsamningi við Bandaríkin og opnu og nánu samstarfi við Evrópusambandsríkin, án þess að Íslendingar feli stjórnkerfi þess stefnumótun fyrir sig í utanríkis- og öryggismálum.

Innan þessa ramma verða Íslendingar sjálfir síðan að skilgreina eigið framlag til eigin öryggis. Kröfur í því efni verða að taka mið af áhættumati á hverjum tíma og þar þurfa að vera fyrir hendi viðbragðsáætlanir vegna fjölda tilvika, þar sem reynir oft meira á borgaraleg stjórntæki en hernaðarleg.

Gildi Norður-Atlantshafs

Í almennum umræðum á fyrrgreindum fundi var látið í veðri vaka, að þróun heimsmála hefði leitt til þess, að Norður-Atlantshafið væri orðið að jaðarsvæði og þess vegna væri minni en ástæða en ella til að ætla, að varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna væri einhvers virði fyrir aðra en okkur Íslendinga - við værum að keppast við að vera með í leiknum.

Þótt við séum blessunarlega laus undan hinni gífurlega miklu spennu, sem ríkti hér á okkar slóðum á tíma kalda stríðsins vegna sóknar Sovétmanna að lífæð NATO hér á hafinu, fer því víðs fjarri, að Norður-Atlantshafið sé orðið að eins konar útnára.

Skipaferðir um Norður-Atlantshaf skipta að sjálfsögðu miklu og gildi leiðanna umhverfis Ísland mun magnast, ef reglulegar siglingar um norð-austurleiðina hefjast, það er norður fyrir Rússland yfir til Kyrrahafs.

Á degi hverjum fara nær 80.000 manns með farþegaflugvélum um flugstjórnarsvæði okkar Íslendinga.

Hryðjuverkaógnir kalla á aukna aðgæslu vegna þessara ferða í lofti og á legi og í því efni skiptir aðstaða á Íslandi miklu.

Því fer víðs fjarri, að tengsl okkar Íslendinga við Norður-Ameríku hafi minnkað á undanförnum árum. Þvert á móti er unnt að segja, að þau hafi aldrei aukist jafnmikið á skömmum tíma.

Þar vísa ég til bandarískra fjárfestinga í stóriðju, fyrst í Norðuráli og síðan í álverksmiðjunni á Reyðarfirði, þar sem ALCOA, eitt stærsta fyrirtæki heims, er að búa sig undir stórframkvæmdir. Loks má ekki gleyma því, að álverið í Straumsvík er ekki lengur í eign Svisslendinga í Alusuisse heldur var það selt ALCAN, einu öflugasta fyrirtæki Kanada.

Kemur þá enn í hugann sú skoðun formanns framtíðarnefndar Samfylkingarinnar, að við þurfum að snúast gegn "valdbeitingarstefnu þeirra Bandaríkja sem stjórnast öðru fremur af hagsmunum stórfyrirtækjanna og fjármagnsins".

Engin rök eru fyrir því, að stórfyrirtækið ALCOA ráði því, að hér er bandarískt varnarlið - en tilvist liðsins hefur áreiðanlega ekki spillt fyrir ákvörðun fyrirtækisins um að festa hér stórfé.

Ekkert segir meira um hinar miklu breytingar á afstöðunni til alþjóðavæðingar og erlendrar fjárfestingar í íslenskum stjórnmálum frá lyktum kalda stríðsins en einmitt sú staðreynd, að stjórnendur í "rauða bænum" í Norðfirði skuli vera í hópi helstu talsmanna þess, að ALCOA festi hér rætur - þeir eru að minnsta kosti ekki gamlar eftirlegukindur úr kalda stríðinu.

Síðan er það sérstakt umhugsunarefni fyrir þá, sem vilja fórna tvíhliða tengslum Íslands og Bandaríkjanna í varnarmálum vegna óljósra áforma Evrópusambandsins í öryggismálum, hvers vegna ekkert evrópskt fyrirtæki hefur séð sér hag af því að hefja stór-atvinnurekstur á Íslandi.