10.1.2004

Forystulaus borgarstjórn

Morgunblaðsgrein, 10. janúar, 2004.

Um þetta leyti á síðasta ári var enn óvíst, hvort borgarstjórn Reykjavíkur yrði við óskum Landsvirkjunar um ábyrgð á lánum til Kárahnjúkavirkjunar. R-listinn, meirihlutinn í borgarstjórn, gat ekki tryggt, að ábyrgðin yrði veitt. Neitun um ábyrgð Reykjavíkurborgar hefði skapað óbærilega óvissu um áformin um Kárahnjúkavirkjun og í raun gert Landsvirkjun óstarfhæfa.

Án samþykkis Reykjavíkurborgar hefði ekki verið unnt að ráðast í mestu virkjana- og stóriðjuframkvæmdir Íslandssögunnar á þann hátt, sem síðan hefur verið gert.

Hinn 14. janúar 2003 eyddum við sjálfstæðismenn í borgarstjórn allri óvissu í þessu efni á vettvangi Reykjavíkurborgar, þegar við lýstum yfir stuðningi við ábyrgðina með bókun í borgarráði. Þá varð ljóst, að með stuðningi okkar og tveggja framsóknarmanna í borgarstjórn yrði unnt að veita Landsvirkjun ábyrgðina. Eftir borgarráðsfundinn ákvað Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi borgarstjóri, að greiða atkvæði með ábyrgðinni á fundi borgarstjórnar 16. janúar 2003. Hræðsla samfylkingarfólks innan borgarstjórnar við þessa ákvörðun var mikil. Stefán Jón Hafstein, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Helgi Hjörvar snerust gegn henni. Í aðdragandanum ræddi samfylkingarkonan Ingibjörg Sólrún Gísladóttir um að Reykjavíkurborg ætti bara að selja hlut sinn í Landsvirkjun, hún ætti þannig að krækja í hagnað ríkisins af sölu Landsbankans!

Út fyrir hópinn

Skömmu eftir þessa sögulegu samþykkt í borgarstjórn lét Ingibjörg Sólrún Gísladóttir af störfum borgarstjóra. Þórólfur Árnason, fyrrverandi forstjóri Tals, kom í hennar stað. R-listinn ákvað þar með að leita út fyrir raðir kjörinna fulltrúa að borgarstjóra. Borgarfulltrúar R-listans gátu ekki unnt neinum innan hóps síns að setjast í embættið.

R-listinn klofnaði fyrir ári ofan í rót vegna stærsta viðfangsefnis borgarstjórnar í meirihlutatíð hans. Hann hafði á sama tíma ekki heldur pólitískan styrk til að standa við fyrri fyrirheit sín um, að kjörinn borgarstjóri með beina ábyrgð gagnvart kjósendum skyldi leiða stjórnkerfi Reykjavíkurborgar.

Síðan hefur málefnum Reykjavíkurborgar verið stjórnað, án þess að fyrir hendi sé skýr pólitísk forysta. Málum er frekar ýtt út af borðinu en tekist á við þau í lýðræðislegum umræðum. Steinunn Birna Ragnarsdóttir úr vinstri/grænum sagði af sér sem varaborgarfulltrúi, af því að hún mátti ekki segja skoðun sína um framtíð Austurbæjarbíós.

Aðgerðarleysi í samgöngumálum

Ákvarðanir á öllum sviðum eru tilviljanakenndar. Í stað þess að fylgja því, sem boðað hefur verið, er hlaupið frá sumum málum, leitast við að klóra yfir önnur, stórar ákvarðanir látnar bíða og athygli beint að draumsýnum. Lítum á dæmi frá þeim málaflokki, þar sem borgarbúar telja helst pott brotinn samkvæmt viðhorfskönnunum.

Sumarið 2002 mátti varla ljúka umræðum í borgarráði um bílakjallara undir Tjörninni, svo mikið lá við að tilkynna tafarlaust, að framkvæmdir við hann hæfust haustið 2002. Nú hefur verið horfið frá þeirri framkvæmd. Í stað hennar er leitast við að réttlæta ranga ákvörðun um kaup, skömmu eftir kosningar sumarið 2002, á svonefndum Stjörnubíósreit af Jóni Ólafssyni, kaupsýslumanni kenndum við Skífuna, fyrir 140 milljónir króna, með því að verja 740 milljónum króna í bílastæðakjallara á reitnum, þótt í um 300 metra fjarlægð sé bílastæðahúsið við Vitatorg, þar sem nýtingin er aðeins 35 til 42%.

R-listinn hefur ekki burði til að komast að niðurstöðu um bestu leiðina fyrir Sundabraut yfir Elliðavoginn. Hið sama á við um mislæg gatnamót, þar hefur verið látið reka á reiðanum.

Almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu höfða aðeins til 4% íbúanna, nú hafa stjórnendur þeirra sett sér það mark að ná til 6%. Í nafni þessa markmiðs verður meðal annars lagst af meiri þunga en áður gegn notkun einkabílsins.

Séu neikvæðar aðgerðir eins og þær að auka slysahættu með því að tefja fyrir mislægum gatnamótum úrræði R-listans til að fjölga þeim, sem nýta sér almenningssamgöngur, er ekki von að vel gangi. Hitt er þó enn furðulegra að leggja á ráðin um svokallaðar léttlestir og halda að tal um fjárfestingu í slíkum farartækjum muni valda hér þáttaskilum - miklu nær er að fjárfesta í góðum umferðarmannvirkjum, draga úr slysum og greiða fyrir umferð þeirra farartækja, sem fólk kýs að nota.

Menningarlegt metnaðarleysi

Vegna forystuleysis er ekki tekið af skarið í málefnum öflugra menningarstofnana innan borgarinnar eins og í viðræðum við Leikfélag Reykjavíkur um framtíð þess og Borgarleikhússins. Mánuðum saman er vandanum ýtt á undan sér. Einn daginn er látið eins og borgarsjóður sé að hlaupa frá stuðningi við Sinfóníuhljómsveit Íslands, hinn daginn er sagt, að það sé allt misskilningur. Allt leikur á reiðiskjálfi innan R-listans vegna framtíðar Austurbæjarbíós en af ótrúlegu skeytingarleysi er gengið fram vegna landnámsminja við Aðalstræti.

Hundruðum milljóna króna er illa varið úr borgarsjóði í því skyni að fela þessar landnámsminjar í hótelkjallara. Með því er meðal annars útilokað, að þær komist á heimsminjaskrá UNESCO. Hitt er einsdæmi á heimsmælikvarða, að borgaryfirvöld ákveði að fela landsnámsminjar fyrir stórfé í hótelkjallara.

Nýlega var sagt frá því, að stjórn íbúasamtaka Grjótaþorps hefði ritað borgaryfirvöldum, lögreglustjóra, Innréttingunum ehf. og verktökum bréf, þar sem mótmælt væri harðlega "þeim yfirgangi og ófriði" sem fylgt hefði í kjölfar byggingaframkvæmda við hótelið. Í bréfinu sagði, að allt frá því að framkvæmdir hófust sumarið 2003 hefði vinnulöggjöfin verið virt að vettugi og næturró raskað, oft og tíðum fram yfir miðnætti og auk þess um helgar. Í bréfi íbúasamtakanna sagði, að borgaryfirvöld sætu beggja vegna borðsins í málinu, borgin væri hluthafi í Innréttingunum, eiganda hótelbyggingarinnar, og virtist því "hafa lítinn sem engan áhuga á þeirri brjóstvörn sem borgararnir þurfi á að halda við þessar aðstæður."

Bréfið segir sína sögu um offorsið við framkvæmdirnar og stöðu stjórnenda Reykjavíkurborgar til að taka af óhlutdrægni á málinu. Öll varnaðarorð um virðingu fyrir menningarverðmætum eru látin sem vindur um eyru þjóta. Trúverðugleiki fagaðila á sviði húsafriðunar og fornleifaverndar bíður hnekki vegna atbeina að þessum framkvæmdum. Skortur á metnaði og reisn vegna þjónustu leiðir hér til menningarlegs óheillaverks.

Betri tíð?

Sama er hvert litið er í stjórn Reykjavíkurborgar. Skuldir halda áfram að aukast um milljarða ár frá ári. Í sjálfumgleði eða sjálfsblekkingu er enn látið eins og það sé Reykvíkingum sérstakt happ undir stjórn R-listans, að skuldir vaxi jafnt og þétt - þær megi borga niður á skömmum tíma! Eitt er víst, að R-listinn hefur ekki burði til að horfast í augu við þá skuldadaga.

Árangur í stjórnmálum ræðst af þeirri forystu, sem þar er veitt. Þetta er einfalt lögmál þar eins og annars staðar. Örlagaríkir atburðir ollu því fyrir ári, að þverbrestur varð innan R-listans í Reykjavík. Síðan hefur hann verið forystulaus.

Hvergi er viðleitni til að berja í brestina, þvert á móti breikkar hin pólitíska gjá. Þrír forystumenn flokkanna, sem standa að R-listanum, hafa misst trúna á gildi samstarfsins. Halldór Ásgrímsson í Framsóknarflokki, Guðmundur Árni Stefánsson í Samfylkingu og Steingrímur J. Sigfússon í vinstri grænum hafa allir lýst efasemdum um gildi þess, að þessir flokkar bjóði fram sameiginlega að nýju undir merkjum R-listans.

R-listinn lifir enn innan borgarstjórnar Reykjavíkur af ótta við eigin dauða. Í slíkri forystu felst ekkert fyrirheit um betri tíð.

Við sjálfstæðismenn skorumst ekki frekar nú en fyrir ári undan ábyrgðinni af því að vera öflugasta stjórnmálaaflið í borgarstjórn Reykjavíkur og munum eins og áður leggja áherslu á og styðja þau málefni, sem við teljum borgarbúum helst til heilla.