6.12.2003

Skuldasöfnun R-listans, borgarstjóri og Lína.net

Mirgunblaðsgrein, laugardaginn 6. desember, 2003.

 

 

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2004 ber þess engin merki, að ný tök séu á fjármálum borgarinnar hjá nýjum borgarstjóra, þótt hann telji sig eiga sérstakt erindi í embætti sitt vegna þekkingar á fjármálum og reynslu sem rekstrarmaður. Framsöguræða Þórólfs Árnasonar, borgarstjóra, fyrir fjárhagsáætluninni í borgarstjórn síðastliðinn fimmtudag var jafn sjálfumglöð og ræður forvera hans.

 

Úrræði í fjármálum Reykjavíkurborgar eru enn hin sömu og einkennt hafa alla fjármálastjórn R-listans síðan 1994. Ekki er horfst í augu við vanda, heldur er honum sópað undir teppið með auknum lántökum eins og áður. Skuldastaða borgarinnar versnar stöðugt.

 

Hreinar skuldir Reykjavíkurborgar, það er borgarsjóðs og borgarfyrirtækja, hafa, á verðlagi í lok þessa árs, vaxið úr 9,5 milljörðum króna árið 1994 í 50,8 milljarða á þessu ári og verða 60,5 milljarðar á næsta ári samkvæmt áætlun.

 

Heildarskuldir borgarsjóðs, það er þegar ekki er litið til borgarfyrirtækja, voru 16,7 milljarðar króna árið 1994 og verða samkvæmt spá 21,2 milljarðar á næsta ári, á verðlagi í lok þessa árs. Í hvorugu tilviki eru lífeyrisskuldbindingar með í þessum skuldatölum.

 

Þegar litið er á skuldastöðu borgarsjóðs, er nauðsynlegt að hafa í huga, að 14 milljarðir króna hafa verið fluttir með sérstökum aðgerðum frá Orkuveitu Reykjavíkur yfir í borgarsjóð. Án þess tilflutnings hefðu heildarskuldir borgarsjóðs orðið um 35 milljarðar króna á næsta ári. Jafnframt hefði verið farið betur með fé Orkuveitunnar, sem er nú í þeirri stöðu að verða að hækka gjöld á viðskiptavini sína, að sögn vegna góðviðris! R-listinn er ekki aðeins að láta Reykvíkinga heldur kaupendur á þjónustu Orkuveitunnar í öðrum sveitarfélögum taka þátt í aðgerðum til að fegra skuldastöðu borgarsjóðs.

 

Vörn fyrir Línu.net

 

Merkilegt var að hlusta á Þórólf Árnason borgarstjóra, fyrrverandi forstjóra símafyrirtækis, taka upp varnir fyrir um 3ja milljarða fjárfestingu Orkuveitu Reykjavíkur í Línu.neti á fundi borgarstjórnar síðastliðinn fimmtudag. Var engu líkara en hann vissi ekki, að ráðist var í þennan fjáraustur allan á grundvelli tillögu Helga Hjörvars, þáverandi borgarfulltrúa og núverandi alþingismanns Samfylkingarinnar, um að nota ætti rafmagnslínur til gagnaflutninga fyrir tölvur en síðan var haldið út í ljósleiðaravæðingu til að breiða yfir hina misheppnuðu upphaflegu fjárfestingu.

 

Er með ólíkindum, hve miklu fé hefur verið varið til að kaupa sig frá því, að tekin var röng ákvörðun um hlutdeild Orkuveitu Reykjavíkur í Línu.neti. Undarlegt metnaðar- eða þekkingarleysi felst í því, að borgarstjóri skuli taka upp varnir fyrir þessa óráðsíu alla á þeirri forsendu, að nú hafi orðið til „fjórða veitan“ við hlið vatnsveitu, hitaveitu og rafveitu og leggja beri Línu.net að jöfnu við þessar veitur.

 

Í öllu tilliti er þetta rangur samanburður hjá borgarstjóra.

 

Borgarstjóri má þó eiga, að hann fór ekki með rulluna um, að Lína.net hefði stuðlað að lækkun á verði á gagnaflutningum í Reykjavík. Veit hann líklega, að forráðamenn Línu.nets kærðu Símann vegna 40% lækkunar á gagnaflutningsþjónustu fyrir Samkeppnisstofnun en höfðu ekki erindi sem erfiði. Stofnunin taldi ekki unnt að rekja lækkunina til þess, að Lína.net kom inn á markaðinn.

 

Skuldafenið

 

Málsvörn Þórólfs Árnasonar fyrir fjárráðstafanir vegna Línu.nets er til marks um, að hann er til þess búinn að vinna öll verk, sem R-listinn krefst af honum til að breiða yfir rangar ákvarðanir við meðferð fjármuna Reykvíkinga.

 

Að verja hina gífurlegu skuldasöfnun Reykjavíkurborgar á þeirri forsendu, að Orkuveita Reykjavíkur sé að ráðast orkumannvirki á Nesjavöllum og Hellisheiði, er ekki aðeins einföldun heldur vísvitandi blekking. Borgarstjóri og R-listinn vita, að við sjálfstæðismenn styðjum, að lán séu tekin til arðbærra framkvæmda á vegum fyrirtækisins. Þeim er mikið í mun að draga okkur með sér út í skuldafenið.

 

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, gagnrýndi borgarstjóra harkalega fyrir blekkingar í málflutningi hans um skuldastöðu Reykjavíkur og misnotkun á fjármunum Orkuveitu Reykjavíkur. Vilhjálmur sagði í ræðu sinni:

 

„Það er vissulega mikið áhyggjuefni hve skuldir borgarinnar og borgarsjóðs aukast ár frá ári þrátt fyrir stórauknar skatttekjur og auknar arðgreiðslur frá Orkuveitunni. Það ætti að vera forgangsverkefni að stöðva skuldasöfnun borgarsjóðs og þá skuldasöfnun fyrirtækjanna sem ekki tengist arðbærum framkvæmdum. Brýnt er að einstaka starfsþættir borgarinnar verði endurskoðaðir frá grunni og nauðsyn þeirra metin.“

 

Með þessum orðum er enn áréttað, að við sjálfstæðismenn viljum ekki sætta okkur við skuldasöfnun borgarstjóra og R-listans í Reykjavík. Mál er að linni.

------------------------------------------------

Höfundur er borgarfulltrúi og ráðherra.