Foreldragagnrýni á grunnskólann.
Borgarstjórn, 20. nóvember, 2003.
Á sínum tíma var það gagnrýnt af ýmsum, þegar ákveðið var, að skýrt skyldi opinberlega frá niðurstöðu samræmdra prófa. Þessi gagnrýni er sem betur fer fokin út í veður og vind. Þess sjást sífellt fleiri merki, að upplýsingarnar um samræmdu prófin eru notaðar í því skyni að knýja á um breytingar til batnaðar í skólastarfi.
Bergþóra Valsdóttir, framkvæmdastjóri SAMFOKS, benti á það fyrir skömmu, að niðurstöður á samræmdum prófum, sem sýndu tæp 73% nemenda með 6 eða minna í einkunn í stærðfræði, væru mikið áhyggjuefni og hvettu til þess, að skólayfirvöld og foreldrar tækju höndum saman um að bæta árangur af skólastarfinu.
Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur og ritari SAMFOKS, hefur beint athygli sérstaklega að slökum árangri í stærðfræði. Hann telur, að meirihluti nemenda ráði ekki eftir 10 ára nám við að reikna einföldustu dæmi og segir, að talað sé fyrir daufum eyrum, þegar leitað sé til fræðsluyfirvalda vegna málsins.
Haraldur hefur sagt, að leiðin út úr þessum vanda sé að skipuleggja stærðfræðikennslu fyrir grunnskólanema utan skólanna.
Bergþóra Valsdóttir sagði í sjónvarpsviðtali vegna þessa máls, að áheyrnarfulltrúi í fræðsluráði Reykjavíkur hefði vakið máls á slökum árangri á samræmdum prófum 2003 og lýst eftir viðbrögðum ráðsins, þau hafi hins vegar engin verið.
Í sjónvarpi var einnig haft eftir Haraldi Ólafssyni, að fulltrúi fræðslustjórans í Reykjavík, sem var á ársfundi SAMFOKS, sem haldinn var 8. nóvember síðastliðinn, hefði ekki gefið neinar vísbendingar um að taka ætti á þessu máli með þeirri festu, sem foreldrar vildu. Hefði fulltrúinn látið nægja að vísa á sjálfstæði skóla.
Góðir borgarfulltrúar við höfum kynnst því oftar en einu sinni í umræðum hér um málefni grunnskólans, að sjálfstæði skóla er ekki formanni fræðsluráðs efst í huga, þegar hann ræðir um þau mál, heldur hitt að miðstýringin sé sem mest. Hvorki er tekið undir hugmyndir um að dreifa valdi og efla sjálfstæði skóla með því að skipta borginni í fleiri skólahverfi né og því síður hitt, að auka hlutdeild foreldra í rekstri og stjórn skólanna með því að ýta undir einkarekstur þeirra.
Þegar rætt var um þetta mál í sjónvarpi við Gerði Óskarsdóttur, fræðslustjóra í Reykjavík, kom hún af fjöllum og vissi í raun ekki neitt um málið og velti því fyrir sér, hvort foreldrar væru óánægðir með námskrána, námsefnið, að gagnrýna samræmdu prófin eða hvernig gefið væri fyrir frammistöðu á þeim. Sagðist þó halda, að foreldrar væru kannski óánægðir með framkvæmd kennslunnar, en kennarar væru heldur ragir við að láta nemendur vera á mismunandi stað í náminu, eins og hún orðaði það. Með öðrum orðum að ýta undir þá og hvetja, sem eru duglegir við námið.
Vegna þessa viðtals við fræðslustjórann lýsti Haraldur Ólafsson sérstökum áhyggjum vegna þekkingarleysis á því, hvers vegna foreldrar væru óánægðir.
Forseti!
Ég hef hér dregið saman umræður um kennslu í grunnskólum Reykjavíkur, þar sem foreldrar nemenda lýsa miklum áhyggjum og segja yfirvöld fræðslumála annað hvort ekki virða sig viðlits eða að þau viti ekki um hvað mál snúist.
Í tilefni af þessu spyr ég formann fræðsluráðs:
Hvað hefur verið gert af hans hálfu til að koma til móts við sjónarmið foreldra í þessu máli?
Er hann reiðubúinn til að beita sér fyrir því, að varið verði fé af fjárveitingu til fræðslumála í því skyni að auðvelda foreldrum að skipuleggja kennslu í stærðfræði fyrir grunnskólanemendur utan hins hefðbundna grunnskólastarfs?[1]
[1] Á fundi borgarstjórnar lýsti Stefán Jón Hafstein, formaður fræðsluráðs, yfir vilja til að veitt yrði fé í þessu skyni.