20.11.2003

Steinunn Birna, málfrelsið, R-listinn og Austurbæjarbíó.

Borgarstjórn, 20. nóvember, 2003.

 

 

 

Í bókun í borgarráði 11. nóvember 22. lið óskar Ólafur F. Magnússon eftir því, að allir forystumenn pólitískra fylkinga og skipulagsmála innan R-listans, sem áttu sæti í borgarstjórn á liðnu kjörtímabili, geri grein fyrir því, hvort þeir hafi gefið verktaka fyrirheit um niðurrif Austurbæjarbíós. Í bókuninni kemur fram, að hér er um að ræða borgarfulltrúana Alfreð Þorsteinsson, Árna Þór Sigurðsson og Steinunni Valdísi Óskarsdóttur.

 

Okkur er sagt, að á vegum R-listans sé lögð áhersla á umræðustjórnmál og ræða skuli öll mál ítarlega til að komast að niðurstöðu, sem höfði til flestra.

 

Þegar kemur að því að ræða framtíð Austurbæjarbíós, er annað uppi á teningnum hjá R-listanum. Eins og kunnugt er hefur einn af varaborgarfulltrúum hans úr röðum vinstri/grænna, Steinunn Birna Ragnarsdóttir, sagt af sér úr borgarstjórn, þar sem henni var bannað að flytja hér ræðu og lýsa skoðunum sínum á því, hvernig ætti að taka á málum vegna Austurbæjarbíós. Þar koma að máli þeir borgarfulltrúar, sem nefndir eru til sögunnar í bókun Ólafs F. Magnússonar.

 

Steinunn Birna sá ástæðu til að árétta sérstaklega í Morgunblaðinu hinn 7. nóvember síðastliðinn eftir að borgarstjóri hafði setið fyrir svörum á pressukvöldi í sjónvarpinu hinn 5. nóvember, að hún hefði verið svipt málfrelsi hér í borgarstjórn. Í þessari áréttingu segir með leyfi forseta:

 

„1. Ég sóttist ekki eftir því að sitja borgarstjórnarfund þann 4. september sl. þar sem málefni Austurbæjarbíós voru rædd, heldur var mér falið það á meirihlutafundi daginn áður í stað Bjarkar Vilhelmsdóttur, sem taldi sig vanhæfa vegna tengsla við rekstraraðila hússins.

2. Samkvæmt samkomulagi við oddvita vinstri grænna í borgarstjórn, Árna Þór Sigurðsson, var ákveðið að ég talaði fyrir málinu á borgarstjórnarfundinum daginn eftir og sendi ég honum eintak af ræðunni um morguninn til umsagnar.

Hann hafði engar athugasemdir við ræðuna.

3. Þegar ég mætti á fundinn mæltist formaður skipulags- og byggingarnefndar Steinunn Valdís Óskarsdóttir til þess að ég tæki ekki til máls og gaf þær skýringar að hún vildi ekki að ólík sjónarmið borgarfulltrúa R-listans kæmu fram í þessu máli á fundinum.

4. Nokkru síðar á fundinum átti ég samtal við formann borgarráðs Alfreð Þorsteinsson sem kvaðst myndu bregðast harkalega við ef ég tæki til máls og sagði í því sambandi: „til hvers? það er ekki spurning hvort, heldur hvenær Austurbæjarbíó verður rifið, það er búið að ákveða þetta“.

Þetta eru hinar sönnu staðreyndir málsins og hef ég ekki meira um málið að segja.“

 

Forseti!

 

Þessi árétting Steinunnar Birnu Ragnarsdóttur, fyrrverandi varaborgarfulltrúa, lýsir ótrúlegum vinnubrögðum.

 

Í fyrsta lagi eru ræður R-listafólks, sem hér talar, fluttar á þeim forsendum, að þær hafi verið samþykktar fyrirfram í þessu tilviki af forseta borgarstjórnar.

 

Í öðru lagi vriðist gilda innan R-listans, að borgarfulltrúar hafi neitunarvald um ræður hvers annars, til að útiloka ólík sjónarmið, þótt viðkomandi ræða hafi verið samþykkt af forystumanni eins flokksbrotsins innan listans.

 

Í þriðja lagi er haft í hótunum um harkaleg viðbrögð innan R-listans ef viðruð eru sjónarmið um mál, sem sögð eru ákveðin, þótt engin samþykkt hafi verið gerð um málið í borgarstjórn.

 

Ég spyr: Eru þetta umræðustjórnmál R-listans í framkvæmd? Er þetta hin lýðræðislega aðferð, sem á hafa í heiðri, til að kalla fram sem flest sjónarmið í því skyni að laða fólk til samstarfs?

 

Forseti!

 

Síðan er það ástæða þess, að Steinunn Birna Ragnarsdóttir birti þessa einföldu en skýru áréttingu í Morgunblaðinu. Þórólfur Árnason sat fyrir svörum á þessu pressukvöldi 5. nóvember og þar var vikið að málfrelsi og þegar G. Pétur Matthíasson fréttamaður sagði, að Steinunn Birna hefði ekki fengið að flytja ræðu um Austurbæjarbíó sagði borgarstjóri:

 

„Það er ekki rétt“ Og borgarstjóri sagði síðar: „Henni var aldrei bannað að halda þessa ræðu,“ um leið og hann áréttaði, að samstarf R-listans hefði verið miklu betra en hann hélt.

 

G. Pétur Matthíasson lætur ekki sannfærast og segir: „En það hlýtur að vera mjög alvarlegt mál ef þú segir núna að Steinunni Birnu hafi aldrei verið meinað að flytja þessa ræðu, við erum búin að flytja margar fréttir af því....“ Og enn segir borgarstjóri: „Ég hef ekki hitt þann mann sem að segist hafa bannað henni eða meinað henni að halda.....þessa ræðu enda hef ég ekki heyrt það að hún hafi nefnt það hver hafi meinað sér það.“

 

Góðir borgarfulltrúar!

 

Þessi ummæli og fleiri, sem féllu í þessu þessum sjónvarpsþætti með borgarstjóra urðu til þess, að Steinunn Birna birti áréttingu sína í Morgunblaðinu. Á þann veg er hún að draga athygli að því, hvernig borgarstjóri fór eins og köttur í kringum heitan graut í samtali sínum við blaðamennina.

 

Ef borgarstjóri vissi ekki, hvernig í pottinn var búið, sannar það aðeins, að forystumenn R-listans sýna honum ekki þann trúnað að upplýsa hann um álitamál og ágreining innan hóps síns.

 

Ef borgarstjóri vissi um málavexti en kaus að svara á þann veg, sem hann gerði, er það alvarlegt umhugsunarefni og ámælisvert.

 

Þessi frásögn af framgöngu forystumanna R-listans gagnvart Steinunni Birnu Ragnarsdóttur sýnir, að viðbrögð þeirra við bókun Ólafs F. Magnússonar á borgarráðsfundinum 11. nóvember þurfa ekki að koma á óvart. En hvað gerðu þeir þar?

 

Jú, í bókun R-listans í tilefni af fyrirspurn borgarfulltrúans er vísað til samþykkta og fundarskapa hér á vettvangi okkar kjörinna fulltrúa Reykvíkinga, þar sem segir, að við eigum ekki rétt á því að leggja fram bókanir varðandi mál, sem ekki eru á dagskrá viðkomandi fundar.

 

Þarna skín einnig í gegn viðleitni til að hindra umræður um framtíð Austurbæjarbíós – sama hræðslan við umræður um málið og blasir við, þegar litið er til framgöngunnar gegn Steinunni Birnu Ragnarsdóttur, fyrrverandi varaborgarfulltrúa. Umræðustjórnmálin ná greinilega ekki til þessa mannvirkis!

 

R-listinn þorir ekki að ræða þetta mál. Hvað segir það okkur um málstaðinn?