12.8.2003

Sovétkúlturinn í olíuviðskiptum

DV-grein, 12. ágúst, 2003.

 

 

 

Í umræðum um frumskýrslu Samkeppnisstofnunar hefur framganga Lúðvíks Bergvinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, vakið sérstaka athygli, þar sem höfuðmarkmið hans sýnist vera að grafa undan tiltrú almennings á embætti ríkislögreglustjóra. Í blaðagreinum og annars staðar á opinberum vettvangi er honum mest í mun að gera ríkislögreglustjóra tortryggilegan og seilist ótrúlega langt í því efni.

 

Í gagnrýni af þeim toga, sem Lúðvík hefur kosið að nota, skiptir að sjálfsögðu miklu, að stuðst sé við málefnaleg sjónarmið og byggt á lögfræðilegum röksemdum. Hvorugt gerir þingmaðurinn. Fyrir honum virðist vaka það eitt að veikja tiltrú til yfirvalda og ýta undir grunsemdir um, að ekki sé gert allt, sem lög heimila, til að bregðast við í viðkomandi máli.

 

Af sama meiði er grein eftir Ásgeir Friðgeirsson, varaþingmann Samfylkingarinnar, sem birtist í DV föstudaginn 8. ágúst. Þar fetar hann í fótspor þeirra Ögmundar Jónassonar, Árna Bergmanns og einhverra fleiri, sem hafa tekið því illa, að ég skuli hafa rifjað það upp á vefsíðu minni, bjorn.is, gagnrýni mína á, að í áratugi var olíufélögunum skylt að eiga viðskipti við Sovétríkin og jafnframt gerð um það opinber krafa, að þau höguðu verðlagningu sinni í samræmi við opinberar ákvarðanir, sem var fylgt eftir af stjórnvöldum, þar á meðal forvera Samkeppnisstofnunar, það er Verðlagsstofnun.

 

Sé Ásgeir í hópi þeirra, sem telja, að sagan skipti engu, er auðvelt fyrir hann að komast að þeirri niðurstöðu, að þeir, sem leyfa sér að líta til hennar, til að skýra atburði í samtímanum, séu einfaldlega að villa um fyrir fólki. Skiljanlegt er, að málsvarar hugmyndafræðinnar, sem lagði grunn að viðskiptaháttum Sovétríkjanna og endurspeglaðist í olíusölunni hér, taki því illa, að þessir hættir séu rifjaðir upp nú, þegar aðferðir olíufélaganna eru með réttu fordæmdar.

 

Hitt er fráleitt og byggist á ómálefnalegri pólitískri óvild að láta að því liggja, eins og Ásgeir Friðgeirsson gerir í grein sinni, að söguleg sýn mín á þetta mál og ítrekun á sjónarmiðum, sem ég hef reifað opinberlega í áratugi, beri vott um viðleitni til að „villa almenningi sýn “ eins og Ásgeir orðar það. Enn fráleitari er sú ályktun hans, að viðhorf mín ráðist af hagsmunum „einhverra annarra en almennings“, þegar ég þyrli upp „kaldastríðsmoldviðri“ vegna umræðna um skýrslu samkeppnisstofnunar og „glæpi“, sem Ásgeir slær föstu, að stórfyrirtæki hafi framið. Hnýtir hann samsæriskenningu sína síðan í fjölskyldu- og flokksbönd.

 

Röksemdafærsla Ásgeirs er öll út í bláinn, því að ég gagnrýndi  Sovétviðskiptin með olíu harkalega á sínum tíma og allt umhverfi þeirra. Ég var þess vegna alls ekki að bera blak af olíufélögunum, þegar ég vakti máls á hinum sovéska  viðskiptakúltur þeirra heldur að undrast, hve lengi hann reyndist vera við lýði, þrátt fyrir samkeppnislög og hrun Sovétríkjanna.

 

Umræður um alvörumál renna oft fljótt út í sandinn vegna þess að þátttakendur í þeim festast í einhverjum aukaatriðum og gleyma því, sem máli skiptir. Grein Ásgeirs Friðgeirssonar er til marks um þetta. Neikvæð afstaða mín til Sovétviðskiptanna og fylgifiska þeirra hefur síður en svo breyst, hún er hins vegar aukaatriði, þegar rannsókn Samkeppnisstofnunar er annars vegar, þótt ég undrist, hve sovétkúlturinn setti lengi svip sinn á aðferðir olíufélganna.

 

Ég hef opinberlega lýst skoðunum mínum á því, hvernig ég tel, að standa eigi að rannsókninni, sem Samkeppnisstofnun stundar hjá olíufélögunum. Ég tel, að ríkissaksóknari og ríkislögreglustjóri hafi tekið rétt á því, sem að embættum þeirra snýr vegna þess máls.