20.7.2003

Skálholt vísar veginn

Ávarp á Skálholtshátíð, 20. júlí, 2003.

 

 

 

 

 

Á mikilli hátíð, sem hér var haldin sumarið 1956, þegar minnst var 900 ára afmælis biskupsstóls í Skálholti og hornsteinn lagður að nýrri dómkirkju, flutti dr. Magnús Jónsson prófessor ræðu og sagði meðal annars:

 

„En hæst ber þó í sögu Skálholts mann, sem ekkert ytra skart bar, mann, sem ekki var ættstór, en klausturmaður, tötramaður, stirðmæltur, raddlítill, en sæmdur þeim heiðursmerkjum, sem Guð einn sæmir sína sérstöku vini: Heilagan Þorlák ber hæst. Hann setur mestan svip á Skálholtsstað allar aldirnar til siðaskipta. Skrín hans var mesti dýrgripur, sem gerður hefir verið á Íslandi. Messa hans, Þorláksmessa á sumar, 20. júlí, var mesta þjóðhátíð landsins. Um hásláttinn hentu menn frá sér amboðum og áhyggjum og flykktust hingað í Skálholt í svo miklum hópum, að hægt var að fara með heilan her í Skálholt án þess að á því bæri. Þá var skrín Þorláks borið um með söng og brennandi kertum og reykelsi. Hver sem snert gat skrínið, þóttist fá allra meina bót, andlega og líkamlega, en aðrir horfðu á álengdar í grátklökkri hrifningu. Og þá gerðust kraftaverk í Skálholti.“

 

Enn fetum við, góðir áheyrendur, í fótspor þeirra, sem köstuðu frá sér amboðum og áhyggjum um hásláttinn og komu hingað í Skálholt 20. júlí til að halda hátíð á messu heilags Þorláks.

 

Skálholtshátíð er dagur þakkar og virðingar fyrir því, sem gert hefur verið hér á þessum sögufræga stað. Þráðurinn hefur aldrei slitnað í kristni og kirkjulegu starfi í Skálholti. Þorláksmessa á sumar gefur enn þann dag í dag fyrirheit til framtíðar.

 

Síðastliðinn sunnudag naut ég þess hér í kirkjunni að hlusta á Helgu Ingólfsdóttur leika verk gamalla meistara af listfengi á sembalinn sinn. Hún hefur í tæp þrjátíu ár staðið fyrir sumartónleikum í Skálholti og hafa þeir kallað þúsundir manna til staðarins og gefið honum nýja vídd í huga þjóðarinnar. Af sumartónleikunum hefur sprottið áhugi á hinum forna tónlistararfi okkar Íslendinga. Rannsóknir á honum sýna, að tónlist var meira í hávegum höfð meðal forfeðra okkar en áður var talið.

 

Í fjörutíu ár hefur Skálholtskórinn starfað og áunnið sér öruggan sess og vinsældir eins og við urðum vitni að á glæsilegum  afmælistónleikum kórsins í gærkvöldi undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar.

 

Í Skálholt koma margir og æ fleiri til að njóta samveru, kyrrðar og fræðslu undir handarjaðri Skálholtsskóla, en hann sækir styrk sinn til kirkjulegrar, kristinnar hefðar og byggist á norrænni lýðháskólahugsjón. Slíkt skjól við kirkjuvegginn og innan hans er nútímamanninum sífellt mikilvægara. Séra Bernharður Guðmundsson, rektor skólans, heldur hlut hans vel fram og af þeirri reisn, sem hæfir fræðslu- og ráðstefnumiðstöð kirkjunnar.

 

 

Í Skálholti er ólýsanlegur kraftur og orka. Hvergi annars staðar á Íslandi komum við saman og vitum með vissu, að rekja má á sama stað tilbeiðslu kristinna manna tæp 950 ár aftur í tímann. Þessa einstæðu auðlind ber að virkja og nýta og minnast þess að frammi fyrir Guði eru þúsund ár dagur, ei meir.

 

Sérstök blessun er að hafa fengið að njóta þess enn á ný að heyra herra Sigurbjörn Einarsson biskup prédika í kirkjunni á þessum hátíðisdegi – engum meðal okkar eigum við meiri þökk að gjalda fyrir endurreisnarstarfið í Skálholti en einmitt honum.

 

Þegar herra Sigurður Sigurðarson Skálholtsbiskup bað mig að tala hér á þessari stundu, hafði hann á orði, að gjarnan mætti ég rifja upp minningar, frá því að ráðist var í endurreisn í Skálholti og frá vígslu kirkjunnar.

 

Faðir minn stóð hér á þessum stað sem kirkjumálaráðherra hinn 21. júlí 1963 og afhenti þjóðkirkjunni Skálholtsstað og afsalaði þar með þjóðkirkju Íslands endurgjaldslaust til eignar og umsjár jörðinni Skálholti eins og getið er í afsalsbréfinu en þar eru með Skálholtskirkju og embættisbústað staðarins meðal annars tíundaðar 9 kýr, 2 kvígur, 1 kálfur, 47 gemlingar, 2 hrútar og 13 hryssur.

 

Í þingumræðum um lagafrumvarpið um heimild til afsalsins var skýrt frá því, að land staðarins væri 1800 hektarar að stærð og nær allt grasi vaxið, hlunnindi væru lax- og silungsveiði bæði í Hvítá og Brúará en þó ekki í stórum stíl. Jarðhiti væri að minnsta kosti á fjórum stöðum í landi Skálholts. Taldi formaður menntamálanefndar neðri deildar alþingis, Alfreð Gíslason bæjarfógeti í Keflavík, sem flutti þingheimi þessa lýsingu, að af henni mætti ráða, að það væri ekki nafnið eitt, Skálholt, sem ríkisstjórnin afhenti þjóðkirkjunni endurgjaldslaust með frumvarpinu yrði það að lögum.

 

Skálholt hefur vissulega aldrei verið nafnið eitt í huga Íslendinga, frá því að Gissur biskup afhenti jörðina til biskupsstóls skömmu fyrir aldamótin 1100. Skálholt hefur um aldir verið einn af höfuðstöðum íslensks þjóðlífs. Hér sátu andlegir höfðingjar, hér var menntasetur og hér var hin helga bók þýdd á íslensku.

 

Í þessu ljósi er næsta óskiljanlegt, hve mikla óvirðingu staðurinn mátti þola, eftir að biskup fluttist héðan til Reykjavíkur í lok 18. aldar. Snemma á síðustu öld komst Þórhallur Bjarnarson biskup svo að orði, að svívirðing foreyðslunnar væri svo mikil á hinum forna stóli, að því hefði orðið að afstýra, að konungur kæmi í Skálholt í austurför sinni. Íslendingar blygðuðust sín svo fyrir niðurlægingu staðarins, að þeir lögðu leið sína fram hjá honum.

 

Nú er sá tími liðinn og með stolti höldum við til Skálholts og bjóðum hingað gestum.

 

Þegar Íslendingar stofnuðu lýðveldi árið 1944 var hér kirkja frá því um 1850. Á fyrsta áratug síðustu aldar lét prófastur þess getið við vísitasíu í Skálholti, að hann teldi litlu kirkjuna óþarfa og rétt væri að skipta söfnuðinum upp á milli næstu sókna en sökum fornhelgi staðarins virtist þó að þar ætti að vera kapella sem landssjóður helst ætti. Kirkjan var í einkaeign og orðin fornleg, krosslaus, altaristöflulaus, óvegleg að flestu og yfirleitt ekki samboðin kirkju, síst á þessum stað, eins og prófastur orðaði það.

 

Söfnuðurinn vildi ekki una því, þegar á reyndi, að hann  leysist upp og sóknin skiptist á milli nágrannasókna, heldur óskaði hann hins, að Skálholtskirkja yrði endurreist og henni sýndur allur mögulegur sómi í byggingu og prestþjónustu. Hin hrörlega sóknarkirkja stóð áfram í um fjóra árataugi, frá því að þessi samþykkt var gerð, misjafnlega messufær. Kirkjan var á hinum fornhelga grunni, þar sem allar kirkjur Skálholts hafa staðið.

 

Endurreisn Skálholts tengdist fyrst nytjahugmyndum um búnaðarskóla en á prestastefnu árið 1943 flutti séra Sigurður Pálsson í Hraungerði, síðar Skálholtsbiskup, erindi um kirkjulega framtíð Skálholts. Þar varð til kveikjan að Skálholtsfélagi, sem var stofnað 1949 undir forystu Sigurbjörns Einarssonar síðar biskups. Hafði félagið að markmiði að efla samtök meðal þjóðarinnar um endurreisn Skálholts. Skyldi það beita sér fyrir fjársöfnun í þessu skyni og fyrir því að vegleg dómkirkja yrði reist sem fyrst og hún yrði til á níu alda afmæli biskupsstólsins sumarið 1956.

 

Fóru nú hjólin að snúast, þótt hægt væri í fyrstu en árið 1952 samþykkti alþingi, að prestur yrði á ný í Skálholtssókn og hafa sóknarprestar síðan verið þeir séra Guðmundur Óli Ólafsson í 42 ár og séra Egill Hallgrímsson. Vorið 1954 skipaði Steingrímur Steinþórsson kirkjumálaráðherra þriggja manna nefnd til að gera tillögur um byggingar í Skálholti. Var Magnús Már Lárusson, prófessor og síðar rektor Háskóla Íslands, ritari nefndarinnar og hafði eftirlit með framkvæmdum á staðnum fyrir hennar hönd og síðan á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Hörður Bjarnason, húsameistari ríkisins, teiknaði kirkjuna. Gerði hann þrjár tillögur og var teikning þeirrar kirkju, sem hér stendur, unnin úr hinni þriðju.

 

Að sjálfsögðu vildu menn ekki ráðast í framkvæmdir hér án þess að huga að fornminjum. Sumarið 1953 gerði dr. Björn Sigfússon háskólabókavörður frumathugun á kirkjustæðinu til þess að kanna, hversu fornleifum væri háttað.

 

Í skjalasafni dóms- og kirkjumálaráðuneytisins er skýrsla Magnúsar Más um framkvæmdir í Skálholti allar götur frá sumrinu 1953 og er hún dagsett tæpum mánuði fyrir vígsluhátíð kirkjunnar eða 25. júní 1963. Þar segir meðal annars, að sýnilegt hafi verið eftir rannsóknir dr. Björns, að undirstöður miðaldakirkjunnar og gólf væru óröskuð, og eðlilegt hafi þótt að rannsaka kirkjustæðið nánar, ef reisa ætti kirkju á sama stað.

 

Dr. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður stjórnaði þessari rannsókn og fór uppgröfturinn fram sumarið 1954 og með honum var reyndar að miklu leyti búið að taka grunn hinnar nýju kirkju. Skálholtsfélagið greiddi kostnaðinn við þessar rannsóknir en fékk fjárveitingar frá alþingi til verksins.

 

Undir lok fyrrnefndar skýrslu sinnar til ráðuneytisins segir Magnús Már:

„Milli allra þeirra, sem hlut hafa átt að staðarbótum, hefur ríkt mjög góð samvinna, sem er þakkarverð. Meðal annars má nefna þjóðminjavörð, dr. Kristján Eldjárn, sem við annan mann endurhlóð göngin fornu til kirkju, sem er með merkari fornleifum þessa lands, en það var mikið verk. Og hann hefur á margan hátt verið til aðstoðar um mikilsverð efni, enda hefur í hvívetna verið kappkostað að verða við sérstökum óskum hans í sambandi við varðveislu fornminja.“

 

Rannsóknir dr. Kristjáns vöktu þjóðarathygli, ekki síst fundurinn á steinþró eða steinkistu Páls biskups Jónssonar í dómkirkjugrunninum sumarið 1954 en hana má nú skoða hér í undirgöngum kirkjunnar. Minnist ég þess af hve miklum áhuga og andakt fylgst var með fréttum frá Skálholti þann dag, sem kistan var opnuð. 

 

Páll biskup andaðist árið 1211, mikill höfðingi og glæsimenni, sonur Jóns Loftssonar í Odda, sem hefur verið nefndur hinn ókrýndi konungur Íslands. Páll var sonarsonur Sæmundar fróða og systursonur og eftirmaður Þorláks helga á biskupsstóli.  Við fundinn blasti samhengi Íslandssögunnar og lykilhlutverk Skálholts við öllum og áhugi á endurreisn staðarins margefldist.

 

Við sem vorum að vaxa úr grasi á þessum árum höfðum að sjálfsögðu misjöfn tækifæri til að fylgjast með því, sem hér var að gerast. Ég minnist ferða með foreldrum mínum og föður hingað á staðinn og hef fengið það staðfest hjá Sigurbirni Einarssyni, að hér höfum við systkini verið með foreldrum okkar árið 1951 til að fylgjast með sýningu á leikverki Sigurbjörns við frumstæðar aðstæður í húsnæðisleysinu.

 

Í huga minn er greipt frá barnsaldri, að endurreisn og virðing Skálholts snúist ekki aðeins um staðinn sjálfan, kirkjulegt og sögulegt hlutverk hans, heldur einnig sjálfsvirðingu þjóðarinnar.  Í framsöguræðu á alþingi fyrir lagafrumvarpinu um að ríkisstjórnin gæti afhent þjóðkirkjunni Skálholtsstað, sagði faðir minn: „Það var því eitt af merkjum skilningsleysis á sögulegu samhengi og þýðingu fornra verðmæta, að Skálholtsstaður skyldi látinn hrörna svo sem raun ber vitni, eftir að biskupsstóll var þaðan fluttur.“

 

Af hálfu ríkisstjórnarinnar var litið á gjöfina til þjóðkirkju Íslands sem þakklætisvott. Í ræðu við afhendingu staðarins sagði faðir minn, að mestu skipti að sjálfsögðu sú sáluhjálp, sem kirkjan hefði veitt ótal einstaklingum og bætti síðan við: „En hún á einnig sinn ómetanlegan þátt í mótun íslenskrar menningar og þróun hennar á hverju, sem hefur gengið. Á þann veg hefur hún vissulega stuðlað að endurreisn íslensku þjóðarinnar og lýðveldis á Íslandi.“

 

Í þessum orðum endurspeglast, að gjöfin fól í senn í sér þakklæti og fullvissu um, að undir eigin stjórn gætu Íslendingar á sýnilegan og áþreifanlegan hátt haldið sögu sinni á loft. Var nokkur staður betur til þess fallinn að hefja þá endurreisn en einmitt Skálholt?

 

Í þessu ljósi ber einnig að líta hina miklu Skálholtshátíð fyrir 40 árum. Í sögu kirkjulegra hátíða jafnast ekki neitt annað á við hana en kristnihátíðin mikla á Þingvöllum árið 2000.

 

Frásagnir fjölmiðla af Skálholtshátíðinni árið 1963 bera með sér, að hún þótti mikill viðburður í þjóðlífinu. Morgunblaðið gerði sérstaklega mikið með hátíðina og birti til dæmis dagskrá hennar á forsíðu sinni sunnudaginn 21. júlí og fimmdálka mynd og forsíðufrétt í þriðjudagsblaðinu 23. júlí undir fyrirsögninni: Ný sól í sögu íslenskrar þjóðar.

 

Ég sé ekki, að þessi orð séu tilvitnun í nokkra ræðu, sem flutt var við vígsluna, heldur yfirlýsing af hálfu blaðsins, byggð á atburðum dagsins, en frétt þess af vígsluathöfninni hefst á þennan veg:

 

„Margir höfðu orð á því í Skálholti á sunnudag, þegar hin fagra Skálholtskirkja var vígð, að forfeður okkar mundu hafa talið það til jarðteikna, þegar létti til og myndaðist eins og bjartur geislabaugur á himni yfir staðnum. Gerðist þetta í þann mund, er prósessía presta og biskupa gekk í kirkju. Þótti gestum það tilkomumikil og eftirminnileg sjón að sjá kirkjuna baðaða sólskini, en biskupa klædda nýjum höklum og fagurlega skreyttum, og um 80 hempuklædda presta í skrúðgöngu. Fréttamaður Morgunblaðsins hitti einn þessara presta úti á Skálholtstúni skömmu eftir vígsluna og sagði hann þá: „Það var ógleymanleg og tignarleg sjón að sjá hvernig stafaði á turn kirkjunnar, áður en vígslan hófst. Það var eins og grár og þungbúinn himinninn væri að reyna að brosa – og svo allt í einu rofaði til og sól skein í heiði. Þetta lofar góðu fyrir Skálholtskirkju.“

 

Góðir áheyrendur!

 

Frásögn Morgunblaðsins af atburðum hér fyrir 40 árum sýnir, að enn urðu þá jarðteikn í Skálholti á Þorláksmessu á sumar. Og sannast hefur síðan, að Skálholt er að nýju orðin sól í sögu íslenskrar þjóðar, eða eins og segir í ljóðinu Í Skálholtskirkju, sem ort var og flutt í tilefni kirkjuvígslunnar af Matthíasi Johannessen, skáldi og ritstjóra Morgunblaðsins:

 

Úthafsblá við bjartar nætur

blundar jörð í ljóði þínu.

Hafið laugar landsins fætur.

Lifnar sól í brjósti mínu.

Tíminn grær sem tún úr vori,

tindótt fjall með djúpar rætur.

 

Ber mér unaðsilm úr spori

altarið í brjósti þínu.

Litbrennd orð og líkjast gluggum

leita skjóls í hjarta mínu.

Aftanröðull roðar fjöllin

rökkurblá af þögn og skuggum.

 

Geislar fylla vori völlinn.

Vakinn dagur gengur fetið

inn í landsins ljósu grímu,

logar nótt við strengblá fjöllin.

Fyrri tíða harmahretið

hverfur fyrir morgunskímu.

 

Við erum stolt af því, sem hér hefur verið gert, er að gerast og mun verða gert.

 

Þegar við lítum á feril forystumannanna um endurreisn Skálholts, vitum við, að þeim var öllum sýndur hinn mesti trúnaður, hverjum á sínu sviði.

 

Sigurbjörn Einarsson biskup er enn meðal okkar og virðing hans hjá þjóðinni vex með hverju ári, sem bætist við háan aldur hans. Magnús Már Lárusson varð rektor Háskóla Íslands samhliða því að sinna mikilvægum vísindastörfum. Kristján Eldjárn varð ástæll forseti Íslands og minning hans lifir einnig vegna merkra vísindastarfa hans.

 

Drögum þann lærdóm af þessu verki öllu, að taki bestu synir þjóðarinnar höndum saman og setji markið hátt fyrir góðan málstað, er sigur vís. Skálholt vísar veginn. Enn þann dag í dag er þörf á sameiginlegu átaki á mörgum sviðum til að efla reisn þjóðarinnar og styrkja innviði þjóðlífsins með ræktarsemi við kristilegan arf og sögu.

 

Megi endurreisn Skálholts verða okkur göfugt fordæmi.