Menningararfurinn - auðlind í ferðaþjónustu
Menningararfurinn
auðlind í ferðaþjónustu
Hafnarfirði 12. febrúar 1999.
Menningararfurinn - auðlind í ferðaþjónustu
Í upphafi máls míns vil ég óska Félagi háskólamenntaðra ferðamálafræðinga og Reykjavíkur Akademíunni til hamingju með það framtak að efna til þessa málþings um menningararfinn sem auðlind í ferðaþjónustu. Er fyrir löngu tímabært að taka þennan málaflokk til umræðu á vettvangi sem þessum. Sýnir hin mikla þátttaka að það hittir í mark að kalla fólk saman í þeim tilgangi.
Í ársbyrjun 1996 kynnti ég verkáætlun fyrir menntamálaráðuneytið á því kjörtímabili, sem nú er að líða. Var hún gefin út undir heitinu Menntun og menning, forsendur framtíðar. Þar segir meðal annars á einum stað: „Leggja ber áherslu á tengsl verkmenningar og lista, og tengsl ferðaþjónustu og menningar. Þess skal minnst, að hvarvetna fer saman alúð við sögu og menningu og öflug ferðaþjónusta.”
Má benda á margt, sem sýnir, að hugur hefur fylgt máli í þessu efni, þótt vissulega megi gera betur á mörgum sviðum. Menntamálaráðuneytið kemur ótrúlega víða að því að veita stuðning við framtak einstaklinga, fyrirtækja þeirra og sveitarfélaga, sem nýta sér menningararfinn til að efla ferðaþjónustu eða aðra atvinnustarfsemi. Oft þarf ekki miklar fjárhæðir til að ljúka verkefni eða ýta nýju úr vör.
Hér er ekki ætlunin að tíunda neina afrekaskrá en yfirlit yfir ýmislegt, sem áunnist hefur, kann að auðvelda mönnum sýn yfir viðfangsefni þessa málþings og hvernig unnt er að sinna þeim af opinberri hálfu. Nefna má nokkra staði eða mannvirki, en þau eru oft mælistika um árangur. Gjörbreyting hefur orðið í Reykholti í Borgarfirði. Ef heimamenn hefðu ekki haft forgöngu um að koma Snorrastofu á fót, er óvíst, að markvissar ákvarðanir hefði verið unnt að taka um að þróa þar menningarsetur. Á Ísafirði hefur einstaklingum verið lagt lið við endurbætur á Edinborgarhúsinu. Vesturfarasafnið á Hofsósi og Síldarminjasafnið á Siglufirði hafa verið studd. Unnið hefur verið að því að skipuleggja Gunnarsstofnun í kringum Skriðuklaustur í Fljótsdal, hið glæsilega hús, sem Gunnar Gunnarsson gaf íslensku þjóðinni á sínum tíma. Ákveðið hefur verið, að samgöngu- og véltæknisafn rísi við Byggðasafnið í Skógum. Hönnunarsafn er í undirbúningi í samvinnu Garðabæjar og Þjóðminjasafns.
Í febrúar 1996 samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína um framtíðarnýtingu Safnahússins við Hverfisgötu. Í samþykktinni fólst, að Safnahúsið yrði þjóðmenningarhús, vettvangur fastra og breytilegra menningarsögulegra sýninga undir sérstakri stjórn, sem starfaði í umboði forsætisráðuneytis. Að auki skyldi efnt til listviðburða og opinberra athafna í húsinu. Síðan hefur verið unnið að því að framkvæma þessa samþykkt og er ætlunin að opna húsið að nýju vorið 2000. Þar eignast menningararfurinn glæsilega umgjörð.
Ráðist hefur verið í framkvæmdir sem miða að því að stórbæta alla aðstöðu Þjóðminjasafns og koma sýningum þar í nútímalegt horf. Listasafn Einars Jónssonar hefur verið endurgert með miklum viðhaldsframkvæmdum. Keypt hefur verið nýtt húsnæði fyrir Listasafn Íslands til að auðvelda því alla fræðslu til almennings. Teknar hafa verið ákvarðanir um að ráðast í smíði tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar í hjarta Reykjavíkur auk þess sem þar er ætlunin að rísi hótel, sem standist hágæða samkeppni. Loks hefur verið kynnt hugmynd um fimm til sex menningarhús á landsbyggðinni, þar sem taka skal mið af kröfum ferðaþjónustu samhliða því, sem góð aðstaða verði til listsköpunar.
Mannvirki eru eitt. Hitt er ekki minna virði að skapa hæfilegan starfsramma að öðru leyti. Til dæmis er talið, að skortur á almennri löggjöf um safnastarfsemi standi þróun hennar fyrir þrifum. Birtist vandinn meðal annars við afgreiðslu fjárlaga ár hvert, því að verkaskipting milli ráðuneyta eða milli ríkis og sveitarfélaga er ekki nægilega vel skilgreind með lögum. Hefur ríkisstjórnin nýlega samþykkt að tillögu minni, að sett verði á laggirnar nefnd til að semja frumvarp til safnalaga.
Með safnalögum væri eðlilegt að skapa samstarfsvettvang um málefni safna, þar sem unnt væri að skiptast á skoðunum og móta stefnu. Hins vegar ætti að mæla fyrir um stjórnir einstakra safna eftir hlutverki þeirra. Jafnframt er nauðsynlegt að skilgreina hlutverk ríkisvaldsins með nýjum hætti á þessum vettvangi, því að einstaklingar, félög þeirra og fyrirtæki láta æ meira að sér kveða og nýta á krafta þeirra ekki síður en hlú að opinberum stofnunum.
Á vegum Rannsóknarráðs Íslands hefur verið hugað að verkefnum, sem tengjast varðveislu menningararfsins. Einnig hefur verið lagt á ráðin um það, hvernig ráðið geti stuðlað að meiri rannsóknum á sviði ferðamála. Um þessar mundir er verið að hrinda af stokkunum 580 milljón króna markáætlun vegna rannsókna á sviði upplýsingatækni og umhverfismála. Skal sérstaklega hugað að þverfaglegum rannsóknarverkefnum ungra vísindamanna. Með þessari áætlun skapast ný tækifæri, en þeirri stefnu er markvisst fylgt, að fé til rannsókna skuli veitt á grundvelli umsókna frekar en til stofnana.
Viðhorfsbreyting hefur orðið hjá mörgum, sem stunda fornleifarannsóknir og aðrar rannsóknir á menningararfi okkar. Einkaframtakið lætur meira að sér kveða en áður. Þá sjá æ fleiri, að rannsóknir á þessu sviði hafa ekki aðeins fræðilegt gildi heldur höfða þær einnig til almennings og ferðamanna. Þetta á eftir að efla enn samstarf vísindamanna og þeirra, sem stunda ferðaþjónustu. Má þar til dæmis nefna rannsóknir í Reykholti, á Eiríksstöðum og Hofsstöðum í Mývatnssveit.
Hvers kyns listviðburðir draga að sér ferðamenn og eru til menningarauka. Sumartónleikarnir í Skálholti hafa hvatt aðra til dáða víða um land. Kynning á íslenskum listamönnum erlendis er einnig til þess fallin að vekja áhuga á landi og þjóð.
Síðastliðinn mánudaginn, þegar eitt ár var liðið frá andláti Halldórs Laxness, var ég í Varsjá og opnaði þar í fyrsta sinn farandsýningu um ævi og störf skáldsins í mikils metnu bókmenntasafni. Tildrög sýningarinnar minna á, að sjálf gerum við okkur ekki alltaf nægilega vel grein fyrir þeim tækifærum, sem við höfum. Laxness-sýninguna má rekja til þess, að Lech Sokol, þáverandi sendiherra Póllands á Íslandi, kom á minn fund í nóvember 1996 og lýsti áhuga á slíkri sýningu. Þá kom hins vegar í ljós, að hún hafði aldrei verið sett saman. Íslendingum virtist aldrei hafa hugkvæmst, að það kynni að vera skynsamlegt fyrir þá að halda nafni Halldórs Laxness á loft með þessum hætti.
Ríkisstjórnin ákvað síðan á 95 ára afmæli skáldsins að verja nokkrum fjármunum til að búa til þessa sýningu. Hefur nú þegar verið óskað eftir því, að hún verði næst sett upp í Lúxemborg.
Ég nefni þetta aðeins sem eitt nýlegt dæmi um það, hvernig menning eða mikill listamaður verður jafnframt að landkynningu. Eigum við Íslendingar aldrei að gleyma því að leggja áherslu á bókmenntir okkar við kynningu á landi og þjóð. Einstakt tækifæri gefst til að gera það með meiri þunga en áður, eftir að Íslendingasögurnar hafa allar verið þýddar á ensku. Er víst, að samningurinn við Penguin um útgáfu á þeim í klassískum bókaflokki útgáfunnar leiðir til ómældrar kynningar á Íslandi.
Hinn 1. maí næstkomandi verða 100 ár liðin frá fæðingu Jóns Leifs. Hann er meðal þeirra íslensku listamanna, sem eiga hljómgrunn um heim allan. Í tilefni afmælis hans er nú unnið að því fyrir tilstyrk ríkisstjórnarinnar að skrifa meginhluta tónhandrita Jóns á þann veg, að þau verði aðgengileg öllum, sem vilja flytja verk hans. Vitum við raunar ekki enn til fulls hvaða fjársjóður felst í þessum verkum. Útgáfa á tónverkunum er mikilsvert framlag til að kynna íslenskan menningararf.
Við gerð landkynningarefnis um Ísland á að leggja miklu meira upp úr menntun og menningu Íslendinga en gert er. Mannlausar kynningarmyndir gefa alls ekki rétta mynd af landi og þjóð. Hingað koma æ fleiri til að kynnast mannlífinu, sem hér þrífst. Við eigum óhikað að minna á, að á Íslandi býr hámenntuð menningarþjóð í næsta nábýli við frumkrafta náttúrunnar. Alltof algengt er að mannfólkinu sé gleymt þegar landið er kynnt. Gestir koma ekki aðeins hingað til að skoða stokka og steina.
Ef til vill má höfða til töluverðs hóps ferðamanna með því að bjóða fólki tækifæri til að læra íslensku, án þess að það ætli sér endilega að fá meira en nasasjón af tungumálinu. Framandi tungur vekja ekki síður áhuga margra en fáfarnir staðir. Það eru ekki margar þjóðir, sem geta boðið gestum sínum að kynnast tungumáli, sem er enn hið sama og fyrir meira en eitt þúsund árum.
Þá ber að leggja meiri rækt við félög Íslandsvina um heim allan en gert hefur verið. Þar eru margir áhugasamir, ólaunaðir umboðsmenn Íslands, sem leggja oft mikið á sig við kynningarstarf. Er mikilsvert fyrir okkur að slík félög starfi og leggi rækt við íslenska menningararfleifð með sínum hætti. Þetta ágæta fólk getur einnig auðveldað okkur að skilgreina ímynd þjóðarinnar út á við, en hún skiptir ekki minnstu máli, þegar hugað er að menningararfinum sem auðlind í ferðaþjónustu.
Góðir áheyrendur!
Á næsta ári, árið 2000, verður meira fé en nokkru sinni í Íslandssögunni varið til að kynna íslenska menningu inn á við og út á við. Þátttakan í evrópska menningarborgaverkefninu opnar nýjar leiðir til margra borga, sem flestar standa á gömlum og traustum menningargrunni. Útrásin til Norður-Ameríku vegna landafundaafmælisins verður mesta samstillta átak, sem gert hefur verið í þeirri álfu til að kynna Ísland og íslenska menningu.
Líta ber á þetta sem fjárfestingu til að styrkja menningarlega stöðu Íslands við upphaf nýs árþúsunds. Að sjálfsögðu er mikið í húfi á hátíðarárinu sjálfu. Hitt er ekki minna virði, að vinna vel úr þeim tækifærum, sem þar gefast.
Í vissu þess, að öll viljum við nýta sem best öll ný tækifæri til að íslenskur menningararfur verði enn meiri auðlind í öllu tilliti, segi ég þetta málþing sett.