8.9.2000

Sókratesáætlunin - annar hluti

Sókrates-áætlunin,
annar hluti,
8. september, 2000.

Mér er það mikil ánægja að bjóða ykkur velkomin til þessarar ráðstefnu, sem haldin er til þess að hleypa af stokkunum öðrum hluta Sókratesar, samstarfsáætlunar Evrópusambandsins á sviði menntamála. Sérstaklega fagna ég þátttöku Joao de Santana, fulltrúa framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í fundinum.
Íslendingar hafa tekið þátt í Sókratesi frá upphafi árið 1995, en þegar árið 1992 hafði okkur gefist tækifæri til samstarfs við Evrópusambandslöndin innan Erasmusar, nemenda og kennaraskiptaáætlunar á háskólastigi.

Í Erasmus-samstarfinu fengum við góðan undirbúning en það varð síðan hluti af Sókratesi. Þegar við gengum til þessa samstarfs, var ekki laust við, að ýmsir hefðu áhyggjur af því, að það yrði ekki nægilega gagnkvæmt. Kom fram það sjónarmið, að erlendir námsmenn hefðu ef til vill ekki áhuga á að koma hingað, þótt íslenskir stúdentar notuðu tækifærið til að stunda hluta náms síns í öðrum þátttökulöndum. Fyrsta skólaárið 1992-93 fóru 35 íslenskir nemendur utan en hingað komu aðeins 3. Síðan hefur bæði Íslendingum fjölgað mikið erlendis og útlendingum, sem hingað koma. Á skólaárinu 1998-1999 fór 151 íslenskur stúdent utan en 128 erlendir stúdentar stunduðu nám við íslenska háskóla. Er það samdóma álit, að stúdentaskiptin hafi skilað mjög góðum árangri bæði fyrir námsmennina og háskóladeildirnar, sem taka á móti þeim. Þau sýna einnig ört vaxandi áhuga erlendra námsmanna á því að koma hingað, sem er góður vitnisburður um íslenskt skólakerfi.

Af þátttökulöndunum leita Íslendingar helst til Þýskalands, sem er efst á listanum, en Bretland, Frakkland, Spánn og Ítalía sigla í kjölfarið. Minnst eru samskiptin við Írland og Portúgal.

Góður árangur af Erasmusi þótti gefa tilefni til þess að veita starfsmönnum og nemendum á öðrum skólastigum en háskólastiginu tækifæri til þess að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi. Var fyrsti hluti Sókratesar skipulagður með það í huga og nefnist þessi þáttur áætlunarinnar Comenius og miðast við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla . Samstarfsverkefni þessara skóla eru af ýmsum toga. Í könnun,sem gerð var meðal þátttakenda í Comeniusi kom fram að auk þess að efla áhuga á alþjóðasamstarfi varð þátttakan til þess að upplýsingatækni var meira notuð en ella, tungumálakunnátta batnaði og almenn umræða um skólastarf jókst. Á árinu 1998 til 1999 tóku tuttugu og níu íslenskir skólar þátt í Comeníusarverkefnum í samstarfi við erlenda skóla. Athyglisvert er að þar af voru tuttugu grunnskólar, fjórir í Reykjavík, en sextán á landsbyggðinni. Samstarfsaðilar komu frá öllum löndum Evrópusambandsins nema Lúxembourg og auk þess frá Noregi, Tékklandi, Rúmeníu og Ungverjalandi. Í stærstu verkefnunum voru þátttökuskólarnir frá sex löndum auk Íslands. Sem dæmi um grunnskólaverkefnin má nefna: Hafið sem skilur, hafið sem tengir; Fuglar án landamæra og Sambúð við eldfjall.

Íslenskir skólar hafa einnig tekið virkan þátt í tungumálaþætti Sókratesar, Lingua. Þar vekur athygli, að í nemendaskiptaverkefnum er Ítalía vinsælasti samstarfsaðilinn.

Eins og fram kemur af því, sem hér hefur verið sagt, leikur enginn vafi á því að þátttaka í þessu Evrópusamstarfi á sviði menntamála hefur veitt ferskum vindum inn í íslenskt skólasamfélag . Aukin kynni af skólastarfi í öðrum löndum leiðir til samanburðar og þróunar og gefa tækifæri til að miðla þekkingu og reynslu og læra af öðrum. Íslendingum hefur gengið vel í þessu samstarfi, þeir eru eftirsóttir og virtir samstarfsaðilar. Segir það sitt um gæði íslensks skólastarfs og ef til vill meira en þau neikvæðu orð, sem falla oft hér heima fyrir, þegar rætt er um skólakerfi okkar í alþjóðlegum samanburði.

Við byggjum á reynslunni af þátttöku okkar í Erasmusi og fyrsta hluta Sókratesar, þegar þetta mikilvæga samstarf er endurnýjað með öðrum hluta Sókratesáætlunarinnar, en hann spannar sjö ár, til ársloka 2006.

Með nýja áfanganum verða tækifærin enn meiri og fjölbreyttari meðal annars vegna þess að þátttökulöndum fjölgar. Nú koma í hópinn með fullri aðild 11 lönd Mið- og Austur Evrópu, sem sótt hafa um aðild að Evrópusambandinu auk Kýpur og Möltu. Gert er ráð fyrir að Tyrkland gangi til samstarfsins á næsta ári.

Annar hluti Sókratesáætlunarinnar byggist fyrst og fremst á reynslunni af hinum fyrsta, en árangurinn síðan 1995 er talinn vera mjög góður. Þó verða nokkrar áherslubreytingar, sem vert er að staldra við. Til þess að einfalda framkvæmdina hafa Comeníusar- þátturinn og tungumálaþátturinn Lingua, verið sameinaðir að mestu og lögð er aukin áhersla á tungumálanám innan annarra þátta áætlunarinnar.

Við efnum nú í fyrsta sinn til viku símenntunar hér á landi og er það liður í alþjóðlegri vakningu á þessu sviði, sem setur sífellt sterkari svip á Evrópusamstarf í menntamálum. Lögð er áhersla á, að þegar í grunnskóla verði nemendum ljóst að menntun er æviverk og námi lýkur ekki á meðan fólk vill njóta sín í lífinu. Sífellt þarf að huga að fjölbreyttara framboði á menntun fyrir alla. Heimurinn breytist ört og við verðum að geta nýtt okkur tækifæri breytinganna og það gerum við best með því auka sífellt þekkingu okkar og hæfni á hvaða sviði, sem við störfum. Allir þættir Sókratesar mótast af áherslu á símenntun, en til að árétta mikilvægi hennar enn frekar, var talið nauðsynlegt að veita þessum þætti menntunar sérstakan sess undir nafninu Grundtvig í höfuðið á danska biskupnum, sem var frumkvöðull lýðháskólahreyfingarinnar á Norðurlöndum á 19. öld. Eitt meginmarkmið þessa þáttar er að hvetja til nýbreytni, bæta aðgang að símenntun fyrir fólk á öllum aldri og stuðla að framboði á vandaðra námi á þessu sviði.

Annað almennt áherslusvið innan allra þátta Sókratesar er upplýsingatæknin, fjarkennsla og nýjungar í kennsluháttum í ljósi nýrra aðstæðna. Til að skipa þessum þætti sérstakan sess er nú komið svið innan Sókratesar, sem hefur hlotið nafnið Mínerva í höfðuði á viskugyðju Rómverja. Þar verður athyglinni einkum beint að kennurum og er markmiðið að nota fjarnám, eyða fjarlægðum innan og á milli landa og nota upplýsingatækni til að auka gæði hefðbundinnar menntunar.

Þessum þætti Sókratesar tengist stefnumarkandi greinargerð, sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sendi frá sér s.l. vor um upplýsingatækni í menntun, þar sem lögð er þung áhersla á mikilvægi þess, að skólakerfinu verði gert kleift að nota nýju tæknina til gagnlegra breytinga, einkum með hugbúnaðargerð og endurmenntun kennara.

Þær áherslur, sem fram koma í greinargerðinni eru mjög í samræmi við stefnumörkun íslenskra stjórnvalda um notkun upplýsingatækni í menntakerfinu. Hér hafa verið sett ný markmið á þessu sviði með nýjum námskrám, auknu fé til endurmenntunar kennara og átaki við gerð kennsluhugbúnaðar. Á vegum menntamálaráðuneytisins er nú unnið að því að móta það, sem við höfum kallað rafrænt menntakerfi.

Áherslur í inntaki samstarfsins breytast ekki aðeins með hinni nýju áætlun heldur er skipulagi við meðferð umsókna og úthlutun styrkja breytt á þann veg, að verkefni eru í auknum mæli færð frá Brussel til landsskrifstofa í þátttökuríkjunum.

Alþjóðaskrifstofa háskólastigsins hefur séð um framkvæmd menntaáætlana Evrópusambandsins, Erasmusar og Sókratesar, frá upphafi. Þegar annar hluti Sókratesar kemur til framkvæmda hefur samningur milli Háskóla Íslands og menntamálaráðuneytisins um rekstur landsskrifstofu Sókratesar verið endurnýjaður og gildir hann þar til áætluninni lýkur eftir sjö ár.

Til þess að framkvæmd Sókratesáætlunarinnar á Íslandi verði árangursrík, þurfa þeir sem hafa áhuga á samstarfi innan hennar að eiga greiðan aðgang að upplýsingum og þar gegnir landsskrifstofan lykilhlutverki. Vil ég á þessum tímamótum þakka hið góða starf, sem þar hefur verið unnið og hefur skilað miklum árangri.

Ég fagna því, að þau tækifæri, sem Sókrates veitir til alþjóðlegs samstarfs skóla verða áfram í boði og á þessum tímamótum er rík ástæða til að þakka öllum, sem hafa stuðlað að jafnárangursríkri þátttöku Íslands í fyrsta hluta Sókratesar og raun ber vitni. Það er til marks um mikinn áhuga og frumkvæði í þágu framtíðarinnar, hve margir hafa lagt á sig mikla vinnu til að ná hinum góða árangri okkar Íslendinga í þessu samstarfi.

Sérstaklega vil ég þakka hið mikla starf sem skólar hafa unnið við að taka á móti nemendum og kennurum og undirbúa sitt eigið fólk þannig að það hefur verið skólum sínum og landi til sóma erlendis.

Umræður hvort heldur um skólamál eða Evrópumálefni bera þess nokkur merki um þessar mundir, að sumum finnst eins og íslenska þjóðin eigi þar undir högg að sækja, standi sig ekki nægilega vel í samanburði við aðra eða sé á leið inn á einhverja blindgötu. Þeir, sem haldnir eru svartsýni vegna þessa, ættu að kynna sér góðan árangur okkar í Evrópusamstarfi á sviði mennta og menningar. Þar er ekkert sem bendir til þess, að við stöndum illa að vígi, þvert á móti nýtum við vel öll tækifæri sem gefast og erum eins virkir og okkur er frekast kostur. Ég vænti þess að nýja Sókratesáætlunin eigi eftir að nýtast okkur jafnvel og hin fyrri, ef ekki betur, því að bæði á sviði símenntunar og við nýtingu upplýsingatækni í skólastarfi höfum við margt gott að bjóða.

Við væntum mikils af þátttöku okkar í öðrum hluta Sókratesáætlunarinnar. Megi þessi ráðstefna hér í dag verða ykkur öllum til gagns og þið fáið að kynnast hér nýjum og spennandi tækifærum sem bíða þess eins að verða nýtt.