8.7.2000

Íslenskur tónlistararfur - Skálholt

Íslenskur tónlistararfur - Skálholt

Á þessu aldamóta- og afmælisári rekur hver hátíðin aðra. Nú komum við saman hér í Skálholti til að heiðra tónlistina og arf okkar Íslendinga á hennar sviði.

Um þessar mundir er gert meira en nokkru sinni til að kynna hinn forna íslenska menningararf. Tilefnin til þess eru einnig einstök, og ber þar hæst 1000 ára afmæli kristni á Íslandi og landafundanna í Norður-Ameríku.

Ég tók þátt í því, þegar sýningin um sögu víkinganna á Norður-Atlantshafi var opnuð í hinu heimsfræga Smithsonian-safni í Washington undir lok apríl. Í skýrslu um gengi sýningarinnar, sem mér barst fyrir skömmu, segir, að sérfræðingar safnsins hafi sjaldan eða aldrei séð eins mikinn straum af fólki á nokkra sýningu og er ljóst, að áhugi á henni er meiri en vænst var og hafa gömul gestamet í safninu fallið, vegna þess hve margir koma til að kynnast víkingaferðunum og öðrum afrekum forfeðra okkar.

Þetta er ekki eina sýningin til að kynna íslenska menningu í Norður-Ameríku, því að í maí hleyptum við Íslendingar af stokkunum sýningu á handritum og bókmenntum okkar í hinu mikla Library of Congress í Washington, þar var jafnframt málstefna um sögurnar og hinn forna íslenska menningararf. Þá voru einnig fyrstu gjafaeintök Íslendingasagnanna á ensku afhent, en þau verða send í nafni ríkisstjórnar Íslands í meira en 600 bókasöfn í Bandaríkjunum. Í bandaríska þingbókasafninu gladdi söngur ungmenna frá Selfosskirkju gesti með eftirminnilegum hætti.

Ég rifja þetta upp, þegar efnt er til hátíðar og málþings fræðimanna til heiðurs tónlistinni í Skálholt, því að hér hefur síðasta aldarfjórðung að ýmsu leyti verið unnið samskonar kynningar- og ræktunarstarf á hinum íslenska menningararfi og nú er hafið meðal sérfræðinga og almennings í Norður-Ameríku.

Í 25 ár hefur af stórhug og fórnfýsi verið efnt til sumartónleika í Skálholti, sem hafa kallað til sín þúsundir gesta og veitt þeim ómælda ánægju, en af tónleikunum hefur síðan sprottið svo margt annað, sem setur svip sinn á allt íslenskt tónlistarlíf. Collegium Musicum er meðal annars vaxið úr þessum jarðvegi og markmið þeirra, sem þar starfa, er að opna augu okkar fyrir merkum sögulegum verðmætum, sem hafa beðið þess eins að verða rannsökuð og kynnt.

Mjög mikið hefur áunnist á þeim fjórum árum, sem liðin eru frá því að Collegium Musicum hóf að beita sér fyrir rannsókn á þeim hluta menningararfsins, sem felst í sönglögum fyrri alda. Brautryðjendastarfið hefur sýnt, að miklu meira er varðveitt af tónlist í handritum en nokkurn grunaði og að mestu er hún trúarlegs eðlis.

Rannsóknirnar bregða ekki aðeins nýju ljósi á tónlistarsöguna, þær draga einnig athygli að því, að fleira en sögur og sagnaþættir leynast í hinum fornu handritum. Þau geyma heimild um þróað og þroskað menningarlegt þjóðfélag á mörgum sviðum. Er mikils virði, að áhersla sé lögð á að rannsaka fleiri þætti þeirra en gert hefur verið, svo að við fáum sem gleggsta mynd af þekkingu og hugmyndaheimi forfeðranna.

Á kristnihátíð á Þingvöllum um síðustu helgi samþykkti alþingi einróma tillögu um Kristnihátíðarsjóð, sem hefur tvíþætt markmið. Í fyrsta lagi að efla fræðslu og rannsóknir á menningar- og trúararfi þjóðarinnar og stuðla að umræðum um lífsgildi hennar, siðferði og framtíðarsýn. Í öðru lagi að kosta fornleifarannsóknir á helstu sögustöðum, meðal annars á Þingvöllum, í Skálholti og á Hólum.

Framkvæmd tillögunnar á að gera mönnum kleift að rannsaka betur en til þessa, hvað jörðin geymir hér í Skálholti. Er ég viss um, að þær rannsóknir munu auka gildi staðarins enn í augum þjóðarinnar og er brýnt, að unnið verði að þeim í samræmi við strangar kröfur og allar niðurstöður birtar með skipulegum hætti. Árið 2003 verða 40 ár liðin frá því að þessi glæsilega kirkja var vígð með mikilli viðhöfn. Ætti að setja sér það markmið, að á því ári hafi mönnum tekist að skapa enn nýja vídd hér á staðnum með fornleifarannsóknum og aðstöðu til að kynna gestum og gangandi sem best sögulegt, menningarlegt og trúarlegt hlutverk Skálholtsstaðar.

Í greinargerð ályktunar alþingis um Kristnihátíðarsjóð segir, að þekking á kristnum trúarhugmyndum sé forsenda fyrir skilningi á stórum hluta menningar- og listaarfs Vesturlanda síðustu árþúsund. Því megi fræða skólanemendur og aðra í auknum mæli um trúarlegan bakgrunn og trúarlegar tilvísanir, sem til dæmis koma fram í bókmenntum, myndlist og kvikmyndum. Hér láta höfundar greinargerðarinnar að vísu undir höfuð leggjast að minnast á drottningu listanna, tónlistina, þó er það ekki síst hún, sem tengist iðkun trúarinnar. Tónlistin leiðir hugann í hæstu hæðir og opnar okkur oft dýpri skilning á tilvist almættisins en önnur mannanna verk.

Við vitum, að með klaustrum og kirkju sköpuðust forsendur fyrir varðveislu menningar okkar á handritum, bæði bókmennta og tónlistar. Er í senn ánægjulegt og spennandi að fá að vera þátttakandi í því, þegar tónlistararfurinn er kynntur með þeim hætti, sem nú er gert hér í Skálholti. Er vissulega tímabært að fá heildarsýn yfir þennan einstæða þátt í menningar- og kirkjusögu okkar og kynna hann sem allra best og ætti það að falla vel að tilgangi Kristnihátíðarsjóðs.

Í mínum huga er ekki minnsti vafi á því, að aukin þekking á þætti tónlistar í menningarfinum á enn eftir að dýpka menningarlegur rætur okkar með sama hætti og er að gerast í Norður-Ameríku, þegar íbúum álfunnar er opnuð ný sýn á gildi víkingaferðanna og leitt fyrir sjónir hvernig víkingarnir voru í raun boðberar mennta, viðskipta og friðar.

Nú er fullyrt, að saga Norður-Ameríku verði ekki framar skrifuð fyrir skólabörn eða aðra án þess að minnst sé á Leif heppna. Á sama hátt má slá því föstu, að ekki verði framvegis unnt að rita menningarsögu Ísland án þess að gera hlut tónlistar til forna og mikilvægan þátt hennar í allri sögu okkar að sérstöku viðfangsefni. Við getum sannreynt hvaðan sú vitneskja er komin, þökk sé starfinu, sem sprottið er af sumartónleikunum í Skálholti.

Megi tónlistarstarf í Skálholti og í nafni Skálholts halda áfram að vaxa og dafna og auðga sögu okkar, líf og anda.