5.5.2000

Klekar- kaupmenn - karfamið - sýning frá Brimum, Þjóðarbókhlöðu

Klerkar kaupmenn karfamið:
Íslandsferðir Brimara í 1000 ár,
Þjóðarbókhlaðan, 5. maí 2000.


Það er okkur Íslendingum mikið fagnaðarefni, að Þýsk-íslenska félagið í Bremerhaven/Bremen skuli hafa skipulagt þá sýningu, sem er að hefjast hér í dag. Sýningu sem varpar birtu á mikilvægan þátt í Íslandssögunni. Framtak félagsins sýnir í senn góða vináttu í garð Íslands og einstaka ræktarsemi við langa sögu, sem staðfestir, að Brimar hafa í 1000 ár skipt miklu fyrir okkur Íslendinga, bæði andlega og veraldlega velferð okkar.

Árið 2000 gefur okkur Íslendingum mörg tilefni til að treysta vináttubönd við þjóðir bæði austan hafs og vestan. Reykjavík er ein af níu menningarborgum Evrópu, og í Washington er hafin meiri kynning á ferðum víkinganna en nokkru sinni fyrr í allri sögu Norður-Ameríku undir forystu hins heimsfræga Smithsonian-safns. Með því er verið að minnast þess, að 1000 ár eru liðin frá því að Íslendingurinn Leifur heppni fann Vínland eða Norður-Ameríku. Þá efnum við Íslendingar til mikilla hátíðarhalda til að minnast þess, að 1000 ár eru liðin frá því að alþingi lögfesti, að við skyldum taka kristna trú. Það var ekki síst til Brima, sem Íslendingar sóttu fyrirmyndir, fróðleik og fyrirmæli í kristnum fræðum, þegar þeir stigu fyrstu skref sín í hinum nýja sið. Hinn mikli sagnaritari Adam frá Brimum er talinn hinn fyrsti, sem festi sögnina um fund Vínlands á bókfell.

Íslendingum er í blóð borið, að Þjóðverjar hafi löngum sýnt málefnum þeirra, sögu og menningararfi meiri áhuga en flestar Evrópuþjóðir. Þegar sjálfstæðisbarátta okkar hófst með skipulegum hætti um miðja 19. öld, sóttu leiðtogar þjóðarinnar ekki síst hugmyndir sínar til Þýskalands. Með lagarökum var markvisst unnið að því að skilgreina stöðu Íslands innan danska ríkisins á þann veg, að sambandið við konunginn væri sem skýrast og sjálfstæði alþingis sem mest. Gerðist það í kjölfar þess að tekist hafði að brjóta niður hlekki einokunarverslunarinnar sem kom til sögunnar, þegar Hansakaupmönnum var eftir 200 ára verslun bannað að stunda viðskipti við Íslendinga, en á einveldis- og einokunartímabilið er jafnan litið, sem mesta niðurlægingarskeið þjóðarinnar.

Samskipti Íslands og Þýskalands mótast nú á tímum einkum af þróuninni í Evrópu. Íslendingar hafa kosið að standa utan Evrópusambandsins en eiga náið og gott samband við þjóðir þess á vettvangi evrópska efnahagssvæðisins. Sérstaklega er ástæða fyrir mig sem ráðherra menningar, mennta og rannsókna að fagna því, hve vel hefur tekist að þróa samstarfið á þessum sviðum innan evrópska efnahagssvæðisins. Yrði varla á betra kosið, þótt Íslendingar gerðust aðilar að Evrópusambandinu.

Í öryggis- og varnarmálum hefur Atlantshafið jafnan skipt Evrópu miklu en þó aldrei meiru en á 20. öldinni, sem gat af sér Norður-Atlantshafsbandalagið, öflugasta friðarbandalag sögunnar. Þótt mikil umskipti hafi orðið í öryggismálum Evrópu síðustu 10 ár er með öllu ástæðulaust að veikja varnarsamstarfið innan Atlantshafsbandalagsins og tengslin við Bandaríkin. Sagan kennir okkur, að stöðugleiki á Atlantshafi er hluti af því jafnvægi, sem þarf að ríkja í Evrópu til að þar haldist friður. Einkum ætti þeim, sem búa í öflugum hafnarborgum við Atlantshafsströnd Evrópu að vera ljóst, að öryggi á hafinu er ekki síður forsenda friðar á meginlandi Evrópu en jafnvægi innan álfunnar sjálfrar.

20. öldin hefur ekki aðeins lagt grunn að nýju og öflugra samstarfi þjóðanna í Evrópu og við Atlantshaf. Það hafa einnig orðið tímamót í þróun atvinnutækja til lands og sjávar og frá Bremerhaven fengu Íslendingar öfluga togara á fyrri hluta aldarinnar. Alþjóðaréttur hefur markað þjóðum ný og meiri yfirráð á höfunum og heimilað Íslendingum að nýta fiskimið sín á eigin forsendum. Viðskipti með fisk og vinnsla hans tekur mið af þessu og mótar jafnframt tengsl Íslands og Brima.

Enn sækjum við fram og menntun, rannsóknir, vísindi og hátækni verða æ mikilvægari forsendur velgengni á öllum sviðum. Það væri í góðu samræmi við hin góðu samskipti Íslendinga og Brimara í 1000 ár, að nýta tækifæri hins 6nýja hagkerfis 8 til að þróa þessi tengsl á nýju árþúsundi.

Mér er ljúft að þakka hin þúsund ára samskipti við Brimara í blíðu og stríðu, þau hafa markað spor á mörgum sviðum. Sýningin sem nú er opnuð á ekki aðeins að minna okkur á fortíðina heldur einnig á hitt, að við eigum margt sameiginlegt í samtíðinni og getum lagt okkar af mörkum til að skapa íbúum landa okkar, þjóðunum í allri Evrópu og við Atlantshaf betri framtíð.

Ég lýsi sýninguna Klerkar ) kaupmenn ) karfamið: Íslandsferðir Brimara í 1000 ár opna.