20.4.2000

Þjóðleikhúsið 50 ára

Hinn voldugi hamar,
Þjóðleikhúsið 50 ára,
20. apríl 2000.


Við sem erum dálítið eldri en Þjóðleikhúsið og höfum vaxið með því í hálfa öld lítum á það sem sjálfsagðan og eðlilegan þátt í mótun okkar, uppeldi, menntun og skemmtun. Við munum ekki Reykjavík öðru vísi en með þessu sérstæða húsi. Við gerum okkur ekki grein fyrir því hvílík umskipti urðu, þegar húsið var opnað. Heimsmaðurinn Kristján Albertsson komst þannig að orði, að hvergi hefði honum þótt stökkbreytingin til stærri og betri tíma hafa orðið furðulegri í Reykjavík, en þegar hann í fyrsta sinn kom í leikhús þjóðarinnar.

Indriði Einarsson rithöfundur, bjartsýnn og eindreginn áhugamaður um þjóðleikhús, beitti þjóðernislegum, fjárhagslegum og pólitískum rökum til að vinna málstað sínum fylgi. Hann benti til dæmis á það, að fyrir fullorðið verkafólk væri leikhúsið helsti, svo að segja einasti skólinn, sem það gæti sótt. 6Fullorðinn þreyttur verkamaður, sem kemur heim til sín frá vinnunni kl. 6 eða 7 hefir ekki elju til þess að fara þá að lesa undir tíma í kvöldskóla, þó kvöldskólinn væri til. Alt annað er að fara í leikhúsið, því það er skemtun, sem lyftir honum upp um leið, & segir Indriði meðal annars árið 1919. Fyrir baráttu hans og annarra áhugamanna samþykkti alþingi vorið 1923 lög um þjóðleikhús og fékk málið góðan bandamann í Jónasi Jónssyni frá Hriflu, sem átti stóran þátt í því, að árið 1927 var ákveðið að skemmtanaskattur á kvikmyndasýningar og aðrar skemmtanir yrði nýttur til að kosta smíði þjóðleikhúss. Síðan fól Jón Magnússon ráðherra Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins, að teikna húsið og hófust framkvæmdir 1928 en árið 1932 var húsið orðið fokhelt og þá var ákveðið að verja skattinum með öðrum hætti, síðan kom stríðið og Bretar notuðu bygginguna sem birgðastöð. Lokaáfanginn hófst ekki fyrr en eftir að stríðinu lauk og þá lá við, að draumurinn gæti ekki ræst vegna haftastefnu og dýrtíðar.

Guðjón Samúelsson varði síðustu kröftum lífs síns til að ljúka við húsið en hann lýsti verki sínu meðal annars með þessum orðum: 6Þegar ég byrjaði á uppdrættinum, komu strax í hug minn þjóðsögur okkar um huldufólkið og hamrabergsmyndun okkar. Hvorttveggja þetta er rammíslenskt. Í fátækt sinni dreymdi þjóðina, að hin dásamlega fegurð, skraut, ljós og ylur, væri í hýbýlum huldufólksins, hinum risavöxnu hömrum hins náttúrumeitlaða bergs. Á hugsjón þessari reisti ég Þjóðleikhúsið sem voldugan hamar, þar sem fegurð lífsins blasir við, þegar í hamarinn er gengið. & Hin rammíslenska rót var áréttuð með því að opna húsið sumardaginn fyrsta og með sýningu á Nýársnóttinni eftir Indriða Einarsson, en fyrstu orð hennar eru þessi: 6Í kvöld eru álfar á flugi og ferð. Komi þeir sem koma vilja. &

Enn er mér Nýársnóttin í barnsminni, undraveröldin og kynjaverurnar, þegar þær birtust á hinu stóra og ævintýralega sviði, sem vakti ekki síst undrun fyrir að snúast! Og síðan kom hver sýningin eftir aðra og meira að segja óperan Rígólettó með Stefáni Íslandi. Leikhúsinu var frá upphafi markað vítt verksvið, frá sjónleik til söngleiks og jafnan hefur verið lögð áhersla á að sýna hið ágætasta í leikskáldskap nýjustu tíma.

Hin langa byggingarsaga Þjóðleikhússins sýnir, að það var ekki jafnsjálfsagt að ráðast í þetta stórvirki og ljúka því og okkur þykir nú vænt um að eiga það. Gleði okkar yfir húsinu felst ekki aðeins í ánægjustundum innan veggja þess, heldur stafar hún einnig af því, að við vitum, að húsið er tákn fyrir svo margt annað og gott, sem hér hefur verið skapað og héðan hefur komið. Þjóðleikhúsið er bakhjarl leiklistarlífs, sem aldrei hefur staðið með sama blóma og nú og kallar á fleiri gesti en nokkru sinni fyrr. Húsið er glæsilegur vitnisburður þess, að framúrskarandi og metnaðarfullt starf í einu leikhúsi kallar fram hið besta í öðrum. Vegna hússins varð til leiklistarskóli, sem einmitt á þessu ári verður hluti af nýjum Listaháskóla Íslands. Danslist, sönglist og hljómlist hafa einnig vaxið og dafnað vel í skjóli þessa volduga hamars.

Hafi ekki þótt sjálfsagt að reisa Þjóðleikhúsið, var hitt síður en svo sjálfgefið, að eins vel tækist til með starf þess og árin fimmtíu hafa sannað. Þjóðleikhúsið nyti ekki vinsælda sinna og virðingar nema vegna hins mikla listræna framlags allra starfsmanna þess síðan árið 1950. Þetta starf verður aldrei fullþakkað. Leikhúsið leiðir okkur inn í nýjan heim með myndum sínum, hreyfingu, gervi, svipbrigðum og þögn en þó einkum með list hins lifandi orðs. Í Þjóðleikhúsinu er farið með fjöregg íslenskrar menningar, sjálfa íslenskuna, móðurmálið okkar góða, og hér höfum við fengið að heyra hvernig því má beita með snilldarlegum hætti í gleði og sorg. Án Þjóðleikhússins væri íslenskan risminna tungumál og við hefðum farið á mis við ógleymanleg, listræn tök flytjenda og skálda, sem veita okkur nýjan skilning og opna nýja sýn.

Við megum aldrei líta á Þjóðleikhúsið sem sjálfsagðan hlut heldur sýna því þá ræktarsemi, sem er nauðsynleg fyrir höfuðstofnun íslenskrar leiklistar. Ég flyt þeim þakkir, sem hafa haldið merki Þjóðleikhússins hátt á loft í 50 ár. Þeir geta litið stoltir yfir farinn veg. Heillaóskir mínar árétta ég með því að vitna aftur í vin minn Kristján Albertsson, sem sagði um Þjóðleikhúsið: 6Við eigum umfram allt að styrkja og elska þessa stofnun, hvað sem á bjátar. &