12.4.2000

Ársfundur Rannsókarráðs Íslands

Rannsóknarráð Íslands ársfundur, 12. apríl 2000.


Undanfarna mánuði hef ég heimsótt framhaldsskóla landsins til að fylgja eftir nýjum námskrám, sem eru að komast til framkvæmda á öllum skólastigum fyrir neðan háskólastigið. Hef ég átt þess kost að hitta þúsundir nemenda og mörg hundruð kennara og skiptast á skoðunum um margvísleg málefni, sem snerta skólastarf og menntastefnu. Er ekki nokkur efi um það í huga mínum eftir þessa fundi, að á Íslandi býr frjálshuga ungt fólk, sem hikar ekki við að láta í ljós skoðanir sínar og veit hvað það vill. Í skólunum starfar einnig fjölmennur hópur mjög hæfra kennara, sem leitast við að skapa unga fólkinu gott og krefjandi starfsumhverfi. Á fundum með kennurunum kom oftar en einu sinni fram, að þeir óttast atgervisflótta úr röðum sínum vegna þess að ekki sé unnt að bjóða sömu launa- og starfskjör í skólum og annars staðar. Einkum er lýst áhyggjum vegna kennslu í raungreinum, þar sem krafist er góðrar kunnáttu í stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði.

Við gerð nýju námskránna voru hagsmunir nemandans hafðir að leiðarljósi. Hann fær meira val en áður, því að strax við lok grunnskóla getur hann ákveðið, hvort hann tekur samræmt próf eða ekki. Síðan eru námsbrautir innan framhaldsskólans mótaðar þannig að nemandinn er bundinn af tiltölulega þröngum kjarna en kjörsvið hans og frjálst val er þeim mun meira. Framhaldsskólar laga sig að námskránni með mismunandi hætti. Bekkjarkerfisskólar búa til námsleiðir eftir áherslum sínum og velja þannig fyrir nemandann en innan fjölbrautaskólanna er sveigjanleikinn meiri.

Skömmu fyrir jól breytti alþingi framhaldsskólalögum á þann veg, að nú er ekki lengur aðeins tekið stúdentspróf af bóknámsbrautum framhaldsskólans heldur einnig af verknámsbrautum, enda fullnægi prófið inntökukröfum á háskólastigi. Af hálfu menntamálaráðuneytisins hefur verið lögð á það rík áhersla í samskiptum við háskólana, að þeir skilgreini inntökuskilyrði sín sem best, svo að allir framhaldsskólanemar viti hvers af þeim er krafist. Þetta er ekki síst mikilvægt vegna þeirra, sem eru í starfsnámi eða listnámi og hyggjast bæta við sig einingum til undirbúnings háskólanámi eftir að hafa lokið réttindanámi sínu.

Með þessum fundum í framhaldsskólunum er rekið smiðshöggið á þennan þátt í námskrárgerðinni af minni hálfu. Fréttir hafa borist af því, að einstaka skólar telji námskránni stefnt gegn sér. Er sá vandi mjög orðum aukinn, enda geta allir skólar haldið sérstöðu sinni og raunar tel ég að samkeppni milli þeirra muni aukast og þar með gæði skólastarfsins. Frá mínum bæjardyrum séð er mikill sveigjanleiki í skólastarfi æskilegt markmið, því að í menntunarþjóðfélagi samtímans eiga skilin á milli starfs í skóla og annars staðar eftir að verða sífellt minni. Menntabrautin liggur á milli náms og starfa og þeim fjölgar stöðugt, sem átta sig á því að aðeins með menntun og meiri menntun er unnt að ná þeim árangri, sem að er stefnt.

Íslenska þjóðfélagið er að verða sífellt opnara fyrir þeim straumum, sem kvikna af menntun, rannsóknum og vísindum. Fyrir fáeinum vikum var ég hér á þessum stað, þegar nýtt líftæknifyrirtæki, Urður Verðandi Skuld, kynnti starfsemi sína. Þar kom fram, að með fyrirtækinu opnast meðal annars leiðir til starfa hér á landi fyrir íslenska lækna og vísindamenn sem hafa dvalist 20 ár eða lengur erlendis og getið sér þar gott orð, menn, sem dreymdi kannski aldrei um að fá viðfangsefni hér við sitt hæfi. Við þekkjum mörg fleiri dæmi um þetta og vitum, að með fjölgun mennta- og vísindamanna í landinu verða til nýjar kröfur, sem leiða til áherslubreytinga í mati á gildi atvinnugreina.

Fleira skapar nýjar kröfur í þessu efni. Umræðuhefðin meðal okkar hefur um langan aldur byggst á því, að annars vegar eru hagsmunahópar, sem gera kröfur og hins vegar einhverjir, sem bregðast við þessum kröfum með mismunandi hætti. Á grundvelli þröngra sérhagsmuna er jafnvel öllu þjóðfélaginu stillt upp við vegg og lítið annað kemst að en hin þröngu viðhorf kröfugerðarmannanna eða andmælenda þeirra. Nú er þetta að breytast, ekki síst með dreifðri eignaraðild að fyrirtækjum og sölu hlutabréfa á sífellt öflugri markaði, þar sem tekið er mið af ráðleggingum sérfróðra manna, sem benda á styrk og veikleika einstakra fyrirtækja. Hvað er það, sem þessir sérfróðu ráðgjafar nefna einkum, þegar þeir meta styrk fyrirtækja? Jú, það er þekking starfsfólksins, menntun þess og hæfileikar til að skapa ný verðmæti á grundvelli rannsókna og þróunar. Mín skoðun er sú, að við, sem höldum fram hlut menntunar og vísinda á Íslandi höfum ekki fengið betri bandamenn hin síðari ár en málsvara öflugra hlutafélaga í almenningseign og markaðinn, þar sem þeir starfa við vaxandi áhuga vegna góðrar ávöxtunar og árangurs.

Hið opna, frjálsa samfélag skapar ný tækifæri á sviði æðri menntunar og vísinda og þau verður að nýta eins og frekast er kostur. Þeir, sem leggja mat á þjóðhagsstærðir og styrk íslenska hagkerfisins, verða í enn ríkari mæli að beina athygli sinni að því, sem hagfræðingar flokka undir 6nýja hagkerfið & og tengist einkum upplýsinga- og hátækni. Í síðustu skýrslu Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn fer ekki frekar en áður mikið fyrir greiningu á hlut þessara þátta í efnahagsstarfsemi þjóðarinnar.

Umskipti hafa orðið á háskólastiginu undanfarin misseri. Nú starfa þar átta skólar, fimm ríkisreknir og þrír einkaskólar. Drógum við upp mynd af starfi þeirra og starfsumhverfi á háskólaþingi, sem var haldið 19. febrúar síðastliðinn. Þar gafst í fyrsta sinn tækifæri til að skiptast á skoðunum á sameiginlegum vettvangi háskólanna, en umræður um störf þeirra á nýjum forsendum eru skammt á veg komnar hjá okkur. Ég legg áherslu á fjölbreytni á þessu skólastigi eins og öðrum en þó er samvinna nauðsynleg, ef okkur á að takast að skapa þá dýpt í kennslu og rannsóknum, sem er forsenda þess að skara fram úr á einhverju sviði. Við höfum eðlilega miklu færri íbúa á bakvið hvern háskóla en nokkur önnur þjóð en samt gerum við ekki minni kröfur til þeirra en hinar fjölmennari þjóðir. Af þeim sökum kann kröftunum nú þegar að vera dreift um of og skólarnir verða að standa saman á mörgum sviðum, til dæmis þegar kemur að því að skipuleggja þjónustu við nemendur í þeim landshlutum, þar sem ekki eru starfræktar formlegar kennslumiðstöðvar á háskólastigi. Óskynsamlegt er að dreifa kröftunum í því efni.

Með nýjum heildarlögum um háskóla hefur hlutverk ríkisins verið skilgreint og í samræmi við lögin hefur meðal annars verið gengið til samninga við einstaka skóla um fjárveitingar til þeirra. Á norrænni ráðstefnu um fjármögnun háskólastigsins, sem var haldin á Hótel Sögu í síðustu viku, kom fram, að okkar kerfi er í fremstu röð meðal Evrópuþjóða. Þegar hefur verið samið um greiðslu kennslukostnaðar við Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands og samningaviðræður standa yfir við aðra skóla. Jafnframt hafa sjónarmið varðandi greiðslu kostnaðar við rannsóknir verið kynnt og samningaviðræður um þann þátt eru að hefjast.

Undanfarin misseri hefur verulega miðað í umræðum og skilgreiningu á ýmsum þáttum, sem snerta hlut ríkisins gagnvart rannsóknum og þróun. Þar má ekki frekar en á öðrum sviðum láta undir höfuð leggjast, að huga sífellt að því, hvernig þróunin er og hvaða ráð eru best til að þoka málum til réttrar áttar. Ég nefni hér átta atriði, sem eru mikilvægir liðir þeirrar stefnumótunar, sem er framundan:

1. Að fyrirlagi menntamálaráðuneytisins og í samvinnu við Rannsóknarráð Íslands hefur verið unnið að nákvæmri úttekt á stöðu grunnrannsókna á Íslandi og var efnt til sérstakrar ráðstefnu um málið undir lok síðasta árs og spunnust þar og í framhaldinu góðar umræður. Kemur skýrslan um þetta efni nú út í endanlegri gerð þeirra Ingu Dóru Sigfúsdóttur og Þórólfs Þórlindssonar.

2. Í maí 1998 beindi ég því til Rannsóknarráðs, að það gerði tillögur um skipulag samvinnu milli rannsóknastofnana og um mörkun sameiginlegrar stefnu rannsóknastofnana atvinnuveganna um almennan rekstur þeirra, það er stjórnun, þjónustu, rannsóknir og þróunarstarf svo og samstarf við háskólastofnanir. Barst mér skýrsla ráðsins um þetta efni undir heitinu Samstarf til sóknar í byrjun þessa árs og kynnti ég hana þá fyrir ríkisstjórn.

3. Í framhaldi af þessari skýrslu ráðsins taldi ég eðlilegt, að hún færi til meðferðar hjá nefnd ráðuneytisstjóra, sem hefur fjallað um rannsóknamálefni síðan 1995. Barst mér greinargerð frá ráðuneytisstjórunum hinn 23. mars síðastliðinn.

4. Á síðasta ári bar að endurskoða lög um Rannsóknarráð Íslands. Sendi menntamálaráðuneytið út bréf til allra, sem koma að því að tilnefna menn til setu í ráðinu, og mæltist til þess að þeir segðu álit sitt á því, hvort tilefni væri til að breyta einhverju í lögum ráðsins. Var gefinn frestur til umsagna fram yfir síðustu áramót og hann síðan lengdur til 15. mars síðastliðinn. Er nú verið að vinna úr umsögnum innan ráðuneytisins og síðan verður hugað að tillögum til lagabreytinga.

5. Viðræður eru hafnar milli menntamálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og Háskóla Íslands um fjármögnun rannsókna innan skólans. Taka þær mið af því, að Háskóli Íslands hefur á undanförnum árum verið að breytast í alþjóðlegan rannsóknaháskóla. Innan skólans hefur þróast hvatakerfi um rannsóknastarfsemi hans, sem byggist á afkastahvetjandi rannsóknatengdum sjóðum og framgangskerfi.

6. Á vettvangi ríkisstjórnar hef ég stofnað til umræðna um leiðir til að reisa rannsókna- og tæknigarða í samvinnu við einkaaðila. Ákveðið var að ráðast í einkaframkvæmd á rannsóknahúsi við Háskólann á Akureyri. Þá hefur einnig verið rætt um nýtingu og ráðstöfun á landi ríkisins á Keldnaholti og umhverfis Keldur. Nýleg ákvörðun Íslenskrar erfðagreiningar hf. um að reisa stórhýsi í nágrenni Háskóla Íslands staðfestir, að það hefur sérstakt gildi fyrir slík fyrirtæki að starfa í nánum tengslum við háskóla- og rannsóknasamfélag.

7. Unnið hefur verið að því að skilgreina, hvernig best verður staðið að því að tryggja Íslendingum aðgang að rafrænum upplýsinga- og gagnasöfnum. Vinnur sérstök verkefnisstjórn á vegum menntamálaráðuneytisins að því að leita tilboða um aðgang að gagnasöfnum, gera tillögur um kaup á aðgangi og skipuleggja og kynna hann fyrir landsmönnum.

8. Náið er fylgst með hugmyndum um nýmæli í evrópskri stefnumótun á sviði rannsókna og þróunar. Skýrsla um þátttöku okkar í fjórðu rammaáætlun Evrópusambandsins sýndi góðan árangur og við erum virkir þátttakendur í fimmtu áætluninni. Nú þarf annars vegar að leggja á ráðin um efni sjöttu áætlunarinnar og líta til áforma um að til verði Evrópskt rannsóknasvæði í því skyni að Evrópa verði sameiginlegur markaður eða svæði vísinda og þekkingar. Markmiðið er að móta sameiginlega vísindastefnu fyrir Evrópu.

Öll eru þessi átta atriði nauðsynlegur efniviður við mörkun framtíðarstefnu til að efla rannsóknir og vísindi. Við náum þó ekki verulegum árangri nema hljómgrunnur sé fyrir málflutningi okkar utan háskóla- eða vísindasamfélagsins. Í almennum umræðum um atvinnumál eða byggðamál eru menntun, vísindi, rannsóknir og þróun ekki sett í fyrirrúm á stjórnmála- eða fjölmiðlavettvangi. Þar er enn forgangsraðað í þágu annarra viðfangsefna, þótt áherslurnar séu vissulega aðrar en fyrir fáeinum árum.

Umræður í kjölfar skýrslunnar um grunnrannsóknir snerust að verulegu leyti um nauðsyn þess að ríkissjóður legði meira fé af mörkum til þessara rannsókna. Nefnd sú, sem úthlutaði styrkjum úr Vísindasjóði í byrjun þessa árs, lagði einnig ríka áherslu á nauðsyn aukinna fjárveitinga.

Á ársfundi Rannsóknarráðs árið 1998 var kynnt markáætlun um rannsóknir í upplýsingatækni og umhverfismálum. Hefur verið unnið samkvæmt henni síðan og skal varið 580 milljónum króna alls til verkefna á þessu sviði, þar af 85 milljónum í ár og 95 milljónum næsta ár.

Með þessari markáætlun var stigið nýtt skref í stuðningi ríkisins við rannsóknir og þróun. Eindregnar og ítrekaðar ábendingar um nauðsyn aukins fjár til grunnrannsókna vekja spurningar um, hvort skilgreina eigi hlut ríkisvaldsins til stuðnings rannsóknum á nýjan hátt og afmarka hann betur en gert er um þessar mundir.

Í tillögum Rannsóknarráðs Íslands, sem bera heitið Samstarf til sóknar, er lögð rík áhersla á meira fjármagn til margra þátta rannsóknamálanna. Er jafnvel meiri áhersla á þann þátt en tillögur til að einfalda stofnana- og stjórnsýslukerfið á sviði rannsóknamála. Eru það ekki ný sannindi fyrir neinn, sem starfar á þessum vettvangi, að stofnanamúrar eru mjög þykkir og erfitt að komast inn fyrir virkisveggina. Þó er sagt í hinu orðinu, að nauðsynlegt sé að stuðla að þverfaglegum rannsóknum og mynda rannsóknateymi vísindamanna úr ólíkum greinum til að ná sem bestum árangri.

Innan Háskóla Íslands leggja menn mikla áherslu á hvatakerfi og sjóði í tengslum við það. Í skýrslunni um grunnrannsóknir er hamrað á því, að keppni um fé úr sjóðum sé besta leiðin til að tryggja árangur. Á evrópskum vettvangi er enn verið að ýta undir alþjóðlega samkeppni vísindamanna. Hvert er besta svar okkar við þessari þróun? Að efla keppni um fé úr öflugum sjóðum. Við eigum að stefna að því að stækka þá sjóði, sem veita styrki, og draga jafnframt úr allri opinberri skriffinnsku í kringum rannsóknaumsýsluna.

Krafan um að vel sé fylgst með nýtingu opinbers fjár felur í sér, að skilgreina verður hlut ríkisins í stuðningi við rannsóknir og þróun með skarpari hætti en gert hefur verið. Að mínu mati ber ríkinu að leggja höfuðáherslu á að styrkja grunnrannsóknir og stuðla að menntun ungra vísindamanna. Rannsóknastofnanir ná ekki marktækum árangri nema þær starfi í nánum tengslum við háskóla og þar fái ungir vísindamenn notið sín, þess vegna verða þær að keppa um fé, sem er úhlutað með vísan til árangurs.

Sé litið til þessara tveggja höfuðþátta yrði hlutverk ríkisins annars vegar að fjármagna öfluga sjóði til að styrkja grunnrannsóknir og hins vegar að stuðla að meistara- og doktorsnámi á háskólastigi. Aðrir þættir rannsókna- og þróunarstarfs hvíldu á herðum einkaaðila eða sjóða, sem veita fé til nýsköpunar og áhættufjárfestinga. Nauðsynlegt er að draga skýr mörk milli stjórnsýslu á sviði rannsókna, samráðs um framkvæmd vísinda- og tæknistefnu og úthlutunar á styrkjum.

Um leið og ríkið skilgreinir hlut sinn með skarpari hætti en áður á vísindasviðinu er eðlilegt, að leitað verði með skipulegum hætti samstarfs við einkaaðila um hina ytri umgjörð bæði vegna húsnæðis og hinnar nýju upplýsingatækni.

Góðir áheyrendur!

Frá síðasta ársfundi Rannsóknarráðs Íslands hefur verið efnt til þingkosninga og ný ríkisstjórn komið til sögunnar. Stefna stjórnarinnar er að auka veg menntunar og rannsókna sem eru forsenda fyrir nýsköpun í atvinnulífinu. Hefur verið rætt um skipulag og fjármögnun rannsóknastarfsemi á vettvangi ríkisstjórnarinnar í tengslum við skýrslur Rannsóknarráðs Íslands og margvísleg önnur málefni, sem snerta nýmæli í atvinnulífi þjóðarinnar. Er ljóst, að innan ríkisstjórnarinnar er vilji til þess að skoða gaumgæfilega allar tillögur, sem miða að því að styrkja forsendur öflugrar starfsemi á sviði vísinda, rannsókna og þróunar.

Í byrjun þessa árs kynnti ég verkefnaáætlun menntamálaráðuneytisins undir minni stjórn á þessu kjörtímabili. Þar segir meðal annars um eflingu vísinda:

Breyttar aðstæður, aukin samkeppni og ytri skilyrði gera kröfu til þess að fjármunir, sem varið er til rannsókna og vísinda, séu nýttir með markvissum hætti og dugi til að ryðja nýrri þekkingu braut. Með sameiningu rannsóknastofnana, markvissri stefnumótun, endurskoðuðum rekstri og skýrri verkaskiptingu er unnt að nýta opinbert fjármagn betur í þágu nýsköpunar og þekkingar. Lækka ber kostnað við yfirstjórn rannsóknastofnana og úthlutun úr sjóðum svo að hærra hlutfall fjárveitinga renni beint til rannsókna og þróunar. Lög um rannsóknastofnanir og Rannsóknarráð Íslands verða endurskoðuð í samvinnu við hlutaðeigandi aðila. Grunnrannsóknir verði efldar og hugað að svonefndum öndvegissetrum á sviði vísinda. Mikilvægt er að leita allra leiða til að nýta styrkleika einkaframtaksins í þágu vísinda.

Ég lýk máli mínu með því að þakka Rannsóknarráði Íslands gott samstarf undanfarin á undir formennsku Þorsteins I. Sigfússonar. Ég tek undir með honum að okkur hefur miðað fram á veg með farsælum hætti. Vænti ég að eiga áfram gott samstarf við ráðið. Sameiginlega skulum við áfram vinna að því að styrkja vísindi, rannsóknir og þróun á Íslandi.