24.3.2000

Íþróttaþing - Akureyri

2. þing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands,
Akureyri,
24. mars 2000.

Mér er mikill og sannur heiður að taka við heiðurskrossi ÍSÍ. Væri ég með hugann við heiðursmerki, er líklegt, að einna síðast hefði mér flogið í hug að verða sæmdur þessum krossi af forseta Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands við hátíðlega athöfn eins og þá, sem efnt er til hér í dag. Fyrir utan heiðurinn er það því mjög óvænt ánægja að fá að njóta hans.

Haft hefur verið á orði við mig, að ónot hafi farið um ýmsa íþróttafrömuði, þegar fréttist fyrir tæpum fimm árum, að ég ætti að taka við embætti menntamálaráðherra. Töldu þeir, að íþróttirnar ættu lítinn hauk í horni, þar sem ég væri. Þeim mun meira met ég viðurkenninguna, sem mér er nú veitt.

Við höfum sameiginlega unnið að því á undanförnum árum að styrkja íþróttastarfið í sessi. Frá mínum bæjardyrum séð er það ekki hlutverk ríkisins að hlutast til um innri málefni íþróttahreyfingarinnar eða skipta sér af því, sem er að gerast innan vébanda hennar. Af hálfu ríkisvaldsins og sveitarfélaga á hins vegar að búa þannig um hnúta, að ytri aðstæður til aðhliða íþróttastarfs séu sem bestar í öllu tilliti.

Góð samstaða náðist um ný íþróttalög, sem komu til sögunnar árið 1998 og hefur verið unnið á grundvelli þeirra síðan. Sama ár gerðum við samning um stuðning ríkisins við Afreksmannasjóð ÍSÍ og munum vinna samkvæmt honum til ársins 2003 við að efla sjóðinn. Af hálfu ríkisins er litið á samninginn sem viðurkenningu á því, hve víða við höfum eignast afreksfólk í íþróttum.

Undir handarjaðri menntamálaráðuneytisins og á grundvelli samþykkta alþingis hefur verið unnið að athugunum á ýmsum þáttum íþróttastarfs. Er von mín, að á grundvelli þess starfs verði unnið að frekari stefnumótun. Í því sambandi bind ég vonir við gott starf sem unnið er í Íþróttanefnd ríkisins undir forystu Guðjóns Guðmundssonar alþingismanns, en nefndin er kjörin samráðs- og samstarfsvettvangur um framtíðarmálefni og til úrlausnar á einstökum álitamálum hverju sinni.

Íþróttamenn eru kappsamir í öllu tilliti og ekki síst, þegar þeir ræða um fjármál við okkur ráðherra og þingmenn. Sé ég, að í tilefni af þessu íþróttaþingi hafa menn lagt mikla áherslu á, að ríkissjóður þurfi að veita íþróttahreyfingunni meira fjármagn, um leið og það er viðurkennt, sem áunnist hefur.

Þegar róið er á þessi mið, er alltaf álitamál, hvaða aðferðir skila mestum afla. Frá mínum bæjardyrum séð er leiðin til árangurs hvorki sú að metast við aðra né gera svo miklar kröfur, að erfitt sé að ná upp í þær. Hitt er mér ljóst, að ávallt þarf að leita að verðugum sameiginlegum verkefnum og standa saman að framkvæmd þeirra. Við erum til dæmis að sjá góðan árangur af starfi Vetraríþróttamiðstöðvarinnar hér á Akureyri um þessar mundir. Hún er sameiginlegt verkefni með þátttöku ríkisins og er að mínu mati gott fordæmi um það, hvernig skynsamlegt er að vinna.

Á árinu 1998 var nám íþróttakennara fært á háskólastig í Kennaraháskóla Íslands og innan framhaldsskóla er víða áhugi á að bjóða nám á íþróttabrautum. Kennaraháskólinn mun halda úti íþróttakennslu á Laugarvatni og mér er kunnugt um, að viðræður hafa farið fram milli forystumanna ÍSÍ og rektors skólans um málefni Íþróttamiðstöðvar Íslands á Laugarvatni.

Ég tel, að með auknu samstarfi Kennaraháskólans og ÍSÍ megi styrkja forsendur kennaranámsins og íþróttastarfsins. Á þessu sviði eins og öðrum gildir að nýta sér menntun, þekkingu og rannsóknir sem best. Raunar sé ég fyrir mér, að á Laugarvatni mætti stefna að því að koma upp aðstöðu til rannsókna og þjálfunar, sem höfðaði jafnt til innlends og erlends afreksfólks.

Stjórnvöld víða um lönd láta að sér kveða í baráttu forystumanna í íþróttum gegn ólögmætri lyfjanotkun. Við Íslendingar megum ekki slá slöku við á þessu sviði og alþingi samþykkti á síðasta ári aukafjárveitingu til að við gætum látið meira að okkur kveða í þessu efni. Ber að halda áfram á þeirri braut.

Í verkefnaáætlun næstu ára fyrir menntamálaráðuneytið, sem ég kynnti í byrjun þessa árs segir meðal annars: Fylgt verði eftir skýrslum um eflingu íþrótta og aukinn hlut kvenna í íþróttum. Stuðlað verði að aukinni samvinnu Íþrótta- og ólympíusambands Íslands og Ungmennafélags Íslands svo að opinberar fjárveitingar til stjórnsýslu á sviði íþróttamála nýtist sem best.

Í þessum orðum felast mikil fyrirheit þegar litið er til skýrslnanna, sem nefndar eru. Hitt er ekki síður mikilvægt að mínu mati, að opinberum fjármunum sé ekki varið í margfalt stjórnsýslukerfi í kringum íþróttastarfið.

Góðir áheyrendur!

Ég þarf ekki að árétta það hér á þessum stað, hve miklu íþróttir skipta fyrir einstaklinga og þjóðir. Ávinningur af þeim verður aldrei metinn til fulls. Ég lýk þessum orðum mínum með því að ítreka þakkir fyrir heiðurinn, þakka ykkur fyrir gott og oft á tíðum fórnfúst starf og heita góðu samstarfi við ykkur áfram um það, sem til heilla horfir í íslenskum íþróttamálum.