5.1.1999

Læknisfræðilegar rannsóknir

5. janúar 1999
IX. ráðstefna um rannsóknir í læknadeild Háskóla Íslands.

Þótt oft hafi verið vakinn athygli á góðum árangri í læknavísindum hér á landi, hafa umræður síðustu mánaða og vikna tekið af allan vafa um, að læknisfræðilegar rannsóknir á Íslandi hafa mikið gildi og skipta gífurlega miklu fyrir framtíðina. Fáar spurningar hafa þó vakið meiri umræður og deilur í seinni tíð en þær, sem snerta setningu laga um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði. Alþingi hefur samþykkt lög um þennan mikilvæga gagnagrunn, sem vonandi reynist starfi íslenskra vísindamanna mikilvæg lyftistöng. Málið er nú höndum þeirra, sem vilja nýta sér heimildir laganna. Umræðurnar hafa skýrt betur en áður, hvaða tækifæri bíða fyrir vísinda- og háskólamenn og hver kann að verða efnahagslegur ávinningur af störfum þeirra.

Réttarstaða Íslendinga við gagnavinnslu af þessu tagi hefur í fyrsta sinn verið skilgreind nákvæmlega í lögum. Nýjar leiðir til að nota upplýsingatækni á heilbrigðissviði hafa verið opnaðar. Með lögunum er leitast við að setja leikreglur um ný viðfangsefni, sem á að vera unnt að sinna með einstökum hætti meðal Íslendinga. Markmiðið er háleitt, þar sem í því felst viðleitni til að sigrast á sjúkdómum á nýjum forsendum. Í lögunum er ennfremur gefinn gaumur að þeirri sjálfsögðu réttarvernd, sem einkalíf einstaklinga skal alla jafna njóta, ekki síst þurfi þeir að leita til læknis. Með öllu er óheimilt, að upplýsingar í gagnagrunninum séu persónugreinanlegar og það er á valdi hvers og eins að ákveða, hvort hann lætur sitt af mörkum til gagnagrunnsins eða ekki.

IX. ráðstefnan um rannsóknir í læknadeild Háskóla Íslands, sem nú er að ljúka, minnir hins vegar á þá staðreynd, að það er síður en svo nýnæmi, að íslenskir læknar leggi verulega af mörkum til rannsókna og annars vísindastarfs. Um langt árabil hafa hér verið stundaðar læknisfræðilegar rannsóknir, sem hafa vakið athygli víða um heim. Á þeim trausta grunni er byggt, þegar búist er til nýrrar sóknar.

Í umræðum um hinn nýja miðlæga gagnagrunn hef ég jafnan lagt á það megináherslu, að tilvist hans megi ekki verða til þess að skerða frelsi í rannsóknum og læknavísindum hér á landi. Með því snerist nýja löggjöfin í andhverfu sína að mínu mati. Þvert á móti lít ég þannig á, að með hinum nýju lögum sé verið að veita heimild til að búa til nýtt rannsóknatæki, sem eigi að geta nýst öllum um leið og að sjálfsögðu er ekki girt fyrir, að íslenskir vísindamenn geti eftir sem áður stundað heilsufarsrannsóknir svo sem verið hefur.

Bind ég vonir við, að á vettvangi Rannsóknarráðs Íslands, Háskóla Íslands og annarra stofnana á starfssviði menntamálaráðuneytisins leggi menn sig fram um að finna hinar bestu og skynsamlegustu leiðir til að framkvæma nýju lögin í víðtækri sátt. Þetta einstaka tækifæri til nýsköpunar í rannsóknum og vísindum má ekki ganga okkur úr greipum vegna innbyrðis ágreinings.

Svo að vikið sé að öðru veigamiklu máli, þá hefur ríkisstjórnin fyrir sitt leyti samþykkt frumvarp mitt að nýjum lögum um Háskóla Íslands. Er það nú til meðferðar hjá þingflokkum stjórnarflokkanna og verður vonandi lagt fram á alþingi innan skamms.

Frumvarpið var til meðferðar á vettvangi háskólans á haustmánuðum. Þar komu meðal annars fram hugmyndir frá læknadeild um breytingu á tengslum háskólans við sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir. Var mér meðal annars bent á, að ekkert hefði gert meira til að hindra góða samvinnu stóru sjúkrahúsanna og skapa meiri ríg á milli þeirra en 38. grein núgildandi háskólalaga, þar sem kveðið er á um starfaðstöðu og starfsskyldur tiltekinna prófessora á ríkisspítölum. Gagnrýnendur ákvæðisins telja, að það sé arfur frá þeim tíma, þegar aðstaða til kennslu og rannsókna á íslenskum sjúkrahúsum var önnur en um þessar mundir.

Háskólaráð lagði til við mig, að heilbrigðisstofnanir yrðu skyldaðar til þess með lögum um Háskóla Íslands að veita stúdentum, kennurum og öðrum starfsmönnum háskólans aðstöðu til menntunar, þjálfunar, rannsóknavinnu og faglegrar þróunar. Til að ná þessu markmiði var lagt til, að við heilbrigðisráðherra gerðum samning við þær stofnanir, sem skilgreindar yrðu sem háskólastofnanir, og settum reglur um starfsaðstöðu stúdenta, kennara og annarra starfsmanna svo og um stjórnun og rekstrarfyrirkomulag háskólaheilbrigðisstofnana. Jafnframt lagði háskólaráð til, að kveðið yrði á um það í lögum um Háskóla Íslands, að prófessorar hefðu starfsaðstöðu á þessum stofnunum, og þeir ættu að jafnaði að veita forstöðu á þeim sviðum og deildum, sem tilheyra fræðasviði þeirra hvers um sig, og ætti að kveða á um það í samningi, hver væri staða og ábyrgð prófessora innan þessara stofnana.

Í stuttu máli sagt er ég á heildina litið hlynntur þeim markmiðum, sem birtast í þessum tillögum háskólaráðs. Hins vegar tel ég nauðsynlegt, að menn gefi sér nægan tíma, þótt hann verði lengri en tíminn, sem tekur að afgreiða lagafrumvarpið um Háskóla Íslands, til að leggja grunn að þessu nýja og mikilvæga samstarfi skólans og heilbrigðisstofnana. Samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína um að 38. grein háskólalaganna yrði óbreytt næstu tvö ár, en tíminn á hinn bóginn nýttur af menntamálaráðherra og heilbrigðisráðherra til að ná samkomulagi um starfstengsl prófessora læknadeildar við heilbrigðisstofnanir. Veitti ríkisstjórnin mér umboð til að hefja viðræður milli menntamálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, stjórnenda sjúkrahúsa og Háskóla Íslands um þetta mál. Er það starf nú að hefjast.

Í þessu starfi þarf ekki aðeins að huga að tengslum háskólans við heilbrigðisstofnanir heldur einnig að því, hver eru áhrif þess, að ríkið annast nú eitt rekstur stóru sjúkrahúsanna. Markmiðið á ekki að vera að fella allt í sama mót heldur gefa svigrúm til þeirrar faglegu samkeppni, sem ýtir undir árangur og nýsköpun innan læknisfræðinnar eins og á öðrum sviðum.

Góðir áheyrendur!

Ég hef notað tíma minn við lok þessarar níundu ráðstefnu um rannsóknir í læknadeild Háskóla Íslands til að skýra frá því, sem er að gerast á vettvangi menntamálaráðuneytis og snertir beint starfsumhverfi þeirra vísindamanna, sem hér hafa kynnt meira en 200 verkefni. Markmiðið á að vera að skapa þeim enn betri aðstöðu.

Þróunin er sem betur fer í þá átt, að augu æ fleiri opnast fyrir því, að menning og menntun, rannsóknir og vísindi eru bestu aflvakar þjóðlífsins. Við gleymum því þó gjarnan í amstri dagsins og þegar við sjáum, hve góðum árangri Íslendingar hafa náð í vísindum eða listum, að í tiltölulega skamman tíma höfum við verið í aðstöðu til að bera okkur saman við aðra á þessum sviðum Nú gerum við og eigum að gera kröfur um að geta verið í fremstu röð. Verði hraðinn og framfarirnar jafnmiklar á fyrstu áratugum næstu aldar og á síðari helmingi þeirrar, sem við erum að kveðja, þurfum við ekkert að óttast.

Það er mér sérstakt ánægjuefni að verða við þeirri ósk Vísindanefndar læknadeildar að veita nokkurn styrk til að unnt sé, að heiðra ungan vísindamann, sem á verkefni hér á ráðstefnunni. Bið ég Birki Þór Bragason að ganga hér fram og taka við viðurkenningunni.