29.1.2000

Setningarhátíð menningarárs - Borgarleikhúsi

Menningarár 2000,
setningarhátíð Borgarleikhúsinu,
29. janúar 2000.

Menningarárið 2000 er hafið, það sýna margir ánægjulegir listviðburðir í dag og tónleikarnir hér í kvöld. Sú staðreynd, að Reykjavík er ein af menningarborgum Evrópu staðfestir góðan árangur í menningar- og listalífi þjóðarinnar en menning eflir innri þrótt og styrk á öllum sviðum. Þess vegna skal fullyrt, að árið marki nýtt upphaf og leggi grunn að enn frekari sókn.

Tónskáldafélag Íslands ber veg og vanda af þessum tónleikum með Kammersveit Reykjavíkur. Á árinu skipuleggur félagið tæplega þrjátíu tónleika til að kynna íslenska tónlist á 20. öldinni. Er sérstök ástæða til að fagna þessu metnaðarfulla framtaki og óska tónskáldum velgengni.

Aldamótaárið 1900 mátu Íslendingar stöðu sína í veröldinni þannig, að margar verklegar nýjungar 19. aldar væru þeim enn utan seilingar. Þeir hagnýttu sér að vísu eldspýtur og stálpenna, notuðu gufuskip, létu taka af sér ljósmyndir, brenndu steinolíu og höfðu fengið talþráð á tveimur stöðum í landinu. Rafmagn þekktist ekki eða vélknúin samgöngutæki á landi. Þá var England talið nálægara Reykjavík en Kirkjubær á Síðu.

Aldamótaárið 2000 er staða Íslendinga í veraldlegum efnum á þann veg, að við höfum tileinkað okkur allar nýjungar. Sumir mundu segja, að við hefðum jafnvel reist okkur hurðarás um öxl, því að hin veraldlegu gæði séu ekki takmarkalaus. Hvað sem því líður sýnir alþjóðlegur samanburður, að engin þjóð stendur Íslendingum snúning, við almenna nýtingu og útbreiðslu hinnar nýju tækni, sem kennd er við tölvur, net og veraldarvef.

Á 20. öldinni hafa einnig orðið þáttaskil í öllu tilliti, þegar litið er til íslensks menningarlífs. Breytingarnar þar eru ekki síður miklar en í verklegum efnum. Á þessu ári fögnum við því, að 50 ár eru liðin frá því að Þjóðleikhúsið var opnað og einnig að Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur starfað í 50 ár. Án þessara stofnana væri Ísland svipur hjá sjón. Þær hafa átt ómetanlegan þátt í að styrkja sjálfsmynd þjóðarinnar og eru ótvíræður mælikvarði um mikinn menningarlegan metnað.

Markmið menningarársins 2000 er ekki að njóta lista til hátíðabrigða. Með árinu á að kveikja enn meiri áhuga á menningu og listum til langrar framtíðar.

Ljómi ársins á að fylgja okkur eftir að því lýkur. Hann á að berast um landið allt og einnig til annarra landa. Við fögnum einnig 1000 ára afmæli kristni í landinu og minnumst afreka sæfaranna, sem fundu Ameríku.

Nú gefst betra tækifæri enn nokkru sinni fyrr til að sýna menningarlegan þrótt þjóðarinnar bæði heima fyrir og austan hafs og vestan. Íslendingar ganga hiklaust inn á frægustu svið veraldar, flytja tónlist, sýna kvikmyndir, dans og myndlist og íslenskum bókmenntum er vel tekið víða um heim. Notum hið einstaka tækifæri, sem menningarárið veitir til að leggja aukna rækt við skapandi starf á öllum sviðum.

Minnumst þess jafnframt, að skammt getur verið á milli mikils og sannfærandi árangurs og tómahljóðs skrums, sem sækir afl sitt frekar í skrautlegar umbúðir en einlægni og hógværð hinnar sönnu listar.

Verklegar nýjungar vöktu drauma um betra þjóðfélag fyrir hundrað árum. Menning og menntun eru lykilorð árangurs á 21. öldinni. Þeim, sem hafa þessi lykilorð að leiðarljósi, mun vel farnast. Þá er sótt fram, þar sem markinu verður í raun aldrei náð, því að mannsandanum og hinum skapandi, listræna krafti eru engin takmörk sett.