25.8.1995

Gæðastjórnun í skólum - ræða á Akureyri

Ráðstefna um gæðamat í menntakerfinu
Akureyri 25.-26. ágúst 1995.

"Við kennslu gildir sú regla, að færni nemenda ræðst af hæfileikum kennarans. Málum er þó þannig háttað alls staðar, að innan skólakerfisins er beitt sömu tækni og fyrir 150 árum: tíu til fjörutíu manna hópi nemenda er kennt af einum kennara. Námsefnið hefur breyst en kennsluaðferðirnar eru hinar sömu. Við kennslu hafa menn rétt byrjað að velta fyrir sér leiðum til að auka framleiðni, til dæmis með því að nota rafeindastjórnunartækni, sem er algeng í framleiðslugreinum. Verkefnið verður að minnka mannafla við kennslu með því að nota færri kennara betur."

Þessi orð eru úr bók eftir breska blaðamanninn Hamish McRae, þar sem hann fjallar um veröldina árið 2020 og leggur á ráðin um þróun hennar fram að þeim tíma. Mér þóttu þau vel við hæfi í upphafi ráðstefnu um gæðastjórnun í skólum, því að þau minna á þá staðreynd, að í öllu skólastarfi stöndum við líklega á þröskuldi mikillar byltingar. Við vitum af nýrri tækni, sem gerir okkur kleift að miðla upplýsingum með allt öðrum hætti en áður.

Um leið og þetta er sagt, er ljóst, að við yfirstjórn skólamála þarf að taka mið af þessum breytingum og haga öllu starfi þannig að stefnumörkun og verkefnaáætlun sé skýr. Innan menntamálaráðuneytisins hefur á þessu sumri verið unnið að mótun stefnu á verksviði þess fyrir þetta kjörtímabil. Er ég þeirrar skoðunar, að það starf eigi eftir að auðvelda bæði ráðuneytinu og þeim, sem á þess vegum starfa, að vinna að eigin markmiðum, hver á sínu sviði. Þetta tel ég mikilvægt framlag til gæðastjórnunar ekki síður en til starfshátta innan ráðuneytisins við úrlausn einstakra verkefna.



--------------------------------------------------------------------------------

Skólar bera mikla ábyrgð. Þeir bera ábyrgð gagnvart nemendum til að veita þeim aðstæður til þroska og til að nýta sér þau tækifæri sem lífið býður. Þeir bera einnig ábyrgð gagnvart foreldrum sem treysta þeim fyrir hluta uppeldis barna sinna. Og loks bera þeir ábyrgð gagnvart stjórnvöldum sem hafa falið þeim mikilvægt þjóðfélagslegt hlutverk, sem kostar mikla fjármuni. Þessir aðilar gera ólíkar kröfur sem skólinn verður að leitast við að fullnægja.

Með auknum niðurskurði á ríkisfjárlögum, dreifingu valds til skólanna og síauknum og breytilegum kröfum til menntunar hefur áhersla á mat á gæðum skólastarfs aukist. Almenningur og stjórnmálamenn hafa sýnt vaxandi áhuga á þeim árangri sem skólastarf skilar, hvernig fjárveitingum er varið, kennslumarkmiðum og leiðum og rétti til náms. Þátttaka Íslands í alþjóðlegum samanburðarrannsóknum hefur einnig vakið spurningar um stöðu menntunar á Íslandi, en slíkar rannsóknir hafa m.a. sýnt að lestrarkunnáttu íslenskra nemenda er um margt ábótavant.

Samfara auknum áhuga á menntun er gerð krafa um skýrari stefnumótun í skólamálum og ljósari upplýsingar um kennslu, skipulag og árangur skólastarfs.

Stjórnvöld hafa löngum leitast við að tryggja gæði menntunar með óbeinum aðgerðum. Reglur hafa verið settar um menntun kennara og próf haldin sem tryggja eiga lágmarksfærni nemenda og beina þeim inn á viðeigandi námsbrautir. Undanfarin ár hefur áherslan færst á það ferli sem starf skólans og kennslan fylgir. Þar skiptir miklu máli að allir sem innan skólans starfa séu sér meðvitaðir um gæði, séu gagnrýnir á eigin starf og reyni að ná fram ákveðnum markmiðum í starfi sínu.

Menntamálaráðuneytið hefur á undanförnum árum lagt aukna áherslu á mat á menntun og starf skóla. Eitt meginhlutverk ráðuneytisins er að undirbúa stefnumótun, annast eftirlit með skólastarfi og afla og vinna úr upplýsingum um starf í skólum. Mun þetta hlutverk væntanlega aukast í framtíðinni ekki síst eftir flutning grunnskóla til sveitarfélaga. Með auknu frelsi og sjálfstæði skólanna er mikilvægt að komið verði á öflugu gæðastjórnunareftirliti á vegum menntamálaráðuneytisins í stað þess miðstýringarvalds sem þar hefur verið.

Í samræmi við ný grunnskólalög verða mótaðir staðlar bæði fyrir sjálfsmat stofnana og mat annarra aðila. Sérstök áhersla verður lögð á ytra gæðamat og reglulegar úttektir á menntastofnunum á öllum skólastigum. Á þessu kjörtímabili verður unnið að tilraunaverkefnum á þessu sviði í þeim tilgangi að móta staðla sem henta íslensku skólakerfi.

Ekki er síður mikilvægt að skólarnir sjálfir séu virkir í innra gæðaeftirliti og komi upplýsingum um sem flesta þætti starfs síns á framfæri. Mat á skólum nær til margra þátta í starfi þeirra. Má þar nefna stjórnun, þróunarstarf, starfsmannamál, samvinnu og samskipti milli nemenda og kennara, námsárangur, hvernig nemendur líta á skólann og samband skólans við það samfélag sem hann er hluti af, t.d. foreldra og fyrirtæki. Ekki síst felur mat á skólum í sér greiningu á markmiðum og hvaða leiðir hafa verið þróaðar að þeim markmiðum með námsskrá, kennsluaðferðum, aðstoð við nemendur o.s.frv.

Loks má ekki gleyma, að besti mælikvarðinn á gæði menntunar felst ef til vill í því, hve mikil sókn er á atvinnumarkaði eftir þeim, sem úr skólunum koma. Samkeppni skóla í því efni er ekki síst mikils virði, þegar hugað er að innra starfi þeirra.

Í umræðum um gæðastjórnun í menntakerfinu hefur sú spurning komið upp hvort ekki sé rétt að skólar innleiði vottunarhæf gæðakerfi. Nokkuð hefur borið á því að fólk telji að með þessari tillögu sé verið að yfirfæra mælikvarða og starfshætti framleiðslu- og þjónustufyrirtækja á vettvang þar sem þessir mælikvarðar eigi ekki við. Þetta er að verulegu leyti á misskilningi byggt. Staðlar og vottanir eru ekki nýlunda í skólastarfi. Í námskrám er að finna stefnumið og margvísleg markmið skóla, fjölda verklagsreglna og fjölmarga staðla sem fjalla um starfshætti og árangur. Margir skólar hafa komið sér upp handbók þar sem stefna skólans er útfærð og framkvæmdaáætlun sett fram og ekki er óalgengt að skipulagðir séu starfshópar innan skóla til að meta tiltekna þætti skólastarfsins og gera tillögur um úrbætur. Þá hefur lengi tíðkast að háskólar leiti eftir viðurkenningu eða vottun samkvæmt staðli viðurkenndra samtaka.

Ljóst er að skólar og fyrirtæki eiga ýmislegt sameiginlegt þegar kemur að skipulegu umbótastarfi. Samvinna sem byggir á trausti og gagnkvæmri viðurkenningu er einn af hornsteinum gæðastjórnunar. Hér er um að ræða hugmyndafræði sem hentar vel vinnustöðum þar sem saman er komið metnaðarfullt starfsfólk sem hefur getu og löngun til að vinna sjálfstætt og vera metið á þeim forsendum. Meginmunurinn á hugmyndafræði altækrar gæðastjórnunar og öðrum umbótahugmyndum í skólastarfi liggur í orðalagi og meiri áherslu á að uppfylla væntingar þeirra sem njóta þjónustunnar. Aðferðir gæðastjórnunar hafa það fram yfir aðrar umbótahugmyndir að vera heilsteyptar og raunhæfar. Þess vegna er gæðastjórnun að mínu áliti líklegri til að bæta skólastarf en aðrar umbótahugmyndir sem fram hafa komið í skólastarfi á undanförnum áratugum.



--------------------------------------------------------------------------------

Ég hef nú rætt um mikilvægi stefnumótunar í skólastarfi og um mat á gæðum skólastarfs með öflugu gæðastjórnunareftirliti. Til að efla þessa þætti þarf að auka upplýsingaflæði almennt í skólakerfinu, en kröfur um aukna upplýsingamiðlun um framkvæmd og árangur skólastarfs hafa farið vaxandi hér á landi sem annars staðar. Það er í þágu allra aðila sem að skólanum koma og endanlega skólans sjálfs að hann miðli sem bestum upplýsingum um starf sitt og skapi þannig forsendur fyrir samanburði við aðrar stofnanir og að aðrir geti lagt mat á starf hans.

Mikilvægt er að þeir sem láta sig starf skólans varða hafi hverju sinni aðgang að sem ítarlegustum upplýsingum, þ.m.t. stöðluðum mælingum sem gera samanburð mögulegan. Almenningur á rétt á réttum upplýsingum um stöðu skóla, en með slíkum upplýsingum má oft leiðrétta margs konar sögusagnir sem spinnast um skólastarf og auka það aðhald sem foreldrar og aðrir veita skólum.

Einnig varðar miklu fyrir alla að fá yfirsýn yfir skólakerfið í heild sinni. Án slíkrar yfirsýnar er til dæmis hætt við að ákvarðanir stjórnvalda byggist á ágiskunum fremur en áreiðanlegri þekkingu um skólastarf og menntun.

Á vegum menntamálaráðuneytisins verður lögð áhersla á að vinna eigi að markvissri upplýsingamiðlun um skólastarf í landinu, meðal annars með fjölgun samræmdra prófa. Jafnframt mun ég leggja áherslu á að gerðar verði skýrari kröfur til skóla um miðlun upplýsinga til nemenda og aðstandenda þeirra. Niðurstöður samræmdra prófa, flokkaðar eftir meðaleinkunum skóla, ættu að vera öllum aðgengilegar, ólíkt því sem verið hefur.



--------------------------------------------------------------------------------

Ég vona, að ráðstefnan, sem hér er að hefjast eigi eftir að skila ríkulegum árangri við eflingu skólastarfs á Íslandi. Í því eins og annars staðar þurfum við að tileinka okkur ný vinnubrögð til að standast kröfur tímans og tryggja að íslenskt þjóðfélag bjóði borgurum sínum eins góða menntun og hinir fremstu í heiminum.