18.12.1996

Tekið á málefnum grunnskólans

Tekið á málefnum grunnskólans
Grein í Morgunblaðinu 18. desember 1996

JÓNAS Ketilsson, grunnskólanemi, skrifar grein í Morgunblaðið hinn 13. desember um niðurstöður úr hinni fjölþjóðlegu TIMSS rannsókn á árangri grunnskólanemenda í stærðfræði og í náttúrufræðigreinum. Beinir hann máli sínu sérstaklega til mín sem menntamálaráðherra. Um leið og ég þakka Jónasi fyrir greinina, vil ég fara nokkrum orðum um þau málefni grunnskólans, sem hann ræðir. Án þátttöku nemenda og foreldra í umræðum um menntamál stuðlum við ekki að umbótum á skólakerfinu.

Jónas dregur áreiðanleika rannsóknarinnar í efa. Aðstandendur hennar hjá Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála (RUM) eru betur í stakk búnir en ég til að ræða aðferðarfræði hennar og geta eflaust orðið að liði í þeim efnum. Með tilliti til raunverulegra úrbóta er happadrýgra, að menn einbeiti sér fremur að því að leita skýringa á niðurstöðum en eyði orku í að gera þær tortryggilegar.

Ég tek undir með Jónasi að ekki er rétt að draga almennar ályktanir um stöðu nemenda í öllum námsgreinum af árangri í nokkrum greinum, enda hafa talsmenn RUM varað sérstaklega við því. Rannsókn sem tekur aðeins til tiltekins hluta af námi nemenda er ekki mælikvarði á getu þeirra almennt. Því er rétt að könnunin endurspeglar ekki endilega menntun í íslenskum grunnskólum. Á hinn bógin er slík rannsókn marktæk mæling á getunni í þeim hluta náms sem hún nær til, því má ekki gleyma.

Ný aðalnámskrá

Jónas gagnrýnir stefnu mína í aðalnámskrá grunnskóla. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga, að sú aðalnámskrá sem er í gildi nú kom til skjalanna árið 1989, allnokkru áður en ég kom til starfa í menntamálaráðuneytinu. Hins vegar er nú þegar hafin vinna á vegum menntamálaráðuneytisins við endurskoðun þeirrar aðalnámskrár og raunar einnig við endurskoðun á aðalnámskrá framhaldsskóla.

Undirbúningur að þessari vinnu hófst í vor en var formlega hleypt af stokkunum í júlílok eftir að samþykkt ríkisstjórnarinnar um verkskipulag lá fyrir. Endurskoðunin gengur samkvæmt áætlun og er ætlunin að ljúka verki um mitt sumar 1998.

Aðalnámskrár eru meginviðmið skólastarfs og þýðingarmikill farvegur úrbóta í menntamálum. Eitt viðfangsefni þeirra sem að endurskoðuninni starfa er að hyggja að hlutfalli þess tíma sem varið er til kennslu í einstökum námsgreinum, þar á meðal í raungreinum. Mun stefnumótunarnefnd, skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka á Alþingi, m.a. gera tillögur þar að lútandi.

Þá hefur ráðuneytið þegar lagt fram nokkur stefnumið sem miða að eflingu náms og kennslu í íslenskum skólum og verða viðmið við úrvinnslu og tillögugerð í vinnuhópum á síðari stigum. Meðal þeirra stefnumiða sem hér um ræðir má nefna áherslu á íslensku, sögu og þjóðmenningu, áherslu á vísindalæsi, tæknimenntun og raungreinar, alþjóðlegar kröfur, skýra markmiðssetningu, endurskoðun kennsluhátta, áherslu á einstaklingsmiðað nám og samfellu í námi á milli skólastiga. Fleira mætti nefna í þessu sambandi en hér nægir að nefna að til samans eru þessi stefnumið, sem og aðrar aðgerðir á vegum ráðuneytisins liður í viðbrögðum við aðsteðjandi vanda og munu leiða til bóta í menntamálum.

Nýir kennsluhættir

Staðreyndaþekking er ekki kjarni menntunar en er þó mikilvægur þáttur í menntun. Athuganir benda til þess að kennsluhættir hérlendis séu of einhæfir. Kennsluaðferðir henta nemendum misvel og því er ekki hægt að koma til móts við ólíka nemendur nema með fjölbreyttum kennsluaðferðum. Þá skiptir ekki minna máli hvernig nemendum er kennt, hvað fyrir þeim er haft og hvað þeir fá tækifæri til að gera.

Meginmarkmiðum skólalöggjafar um eflingu sjálfstæðrar hugsunar, hæfni til þekkingaröflunar og þjálfun ályktunargáfunnar og samvinnu verður ekki náð ef kennsluhættir miðast eingöngu við staðreyndanám. Ráðuneytið leggur áherslu á að í námskrá verði sett fram sú krafa að samræmi sé á milli markmiða og kennsluhátta í skólum, t.d. með aukinni verkefnavinnu og hagnýtum úrlausnarefnum.

Fjölgun kennslustunda

Þegar rýnt er í tölur kemur í ljós að á Íslandi er hlutdeild stærðfræði og náttúrufræðigreina í heildarkennslustundafjölda sambærileg við önnur OECD ríki. Þetta merkir að í raun eru lagðar sambærilegar áherslur í kennslu hér og í OECD ríkjunum, þótt hvert menntakerfi um sig hafi tiltekin sérkenni. Hins vegar er skólaárið styttra hér en víðast hvar annars staðar.

Í nýjum lögum um grunnskólann, sem tóku gildi á síðasta ári, var kveðið á um umtalsverða fjölgun kennsludaga frá því sem áður var. Þar var meðal annars ákveðið að starfstími nemenda á hverju skólaári væri níu mánuðir og kennsludagar ekki færri en 172. Áður stóðu nemendum einungis til boða um 160 kennsludagar á ári. Hins vegar var grunnskólalögunum breytt fyrr á þessu ári og kennsludögum fækkað í 170 eftir viðræður við samtök kennara. Þrátt fyrir þetta eiga grunnskólanemendur nú rétt á umtalsvert fleiri kennsludögum en áður og mun það án efa styrkja grunnskólamenntun á komandi árum.

Markvisst er unnið að fjölgun kennslustunda. Stefnt er að einsetningu grunnskóla á næstu átta árum. Samhliða því verður vikulegur kennslustundafjöldi aukinn, að meðaltali um fimm og hálfa stund á ári fram yfir aldamót eða úr 309 stundum árið 1996 í 336 stundir árið 2001.

Að auki gengur menntamálaráðuneytið nú harðar eftir því en áður að skólahald vari í minnst níu mánuði á ári en samkvæmt lögunum getur menntamálaráðherra veitt tímabunda undanþágu frá fullum starfstíma skóla með hliðsjón af atvinnuháttum og aðstæðum í einstökum skólahverfum.

Enginn áfellisdómur

Að síðustu vil ég minna á að enginn áfellisdómur hefur verið felldur yfir grunnskólanemendum vegna þeirra niðurstaðna sem hér um ræðir. Varast ber að leita einfaldra skýringa á frammistöðu okkar í TIMSS rannsókninni. Eina ályktunin sem enn virðist unnt að draga af niðurstöðunum er að margir og fjölbreytilegir áhrifaþættir koma þar við sögu. Næsta skref er að greina fjölda þeirra, vægi og innbyrðis tengsl. Æskan er framtíðaraflvaki þjóðarinnar. Til þess að hún megi vaxa og dafna er nauðsynlegt að búa ungmenni þessa lands undir líf og störf í nútímasamfélagi. Í þeim efnum hefur menntun úrslitaþýðingu og taka umbætur sem nú eru í farvatninu á vegum menntamálaráðuneytis mið af þeirri staðreynd.

Höfundur er menntamálaráðherra.