14.12.1996

Utandagskrárumræður um LÍN

Utandagskrárumræða á Alþingi um málefni LÍN
3. desember 1996

Ég vil byrja á því að þakka háttvirtum 14. þingmanni Reykjavíkur fyrir að hefja máls á málefnum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Umræðan er þörf ekki síst til að leiðrétta ýmsar þær rangfærslur sem settar hafa verið fram á undanförnum dögum um áhrif og afleiðingar breyttra laga um LÍN. Fjölmörg atriði í umræddri skýrslu eru gagnrýnisverð en ég hef einungis tækifæri til að drepa á nokkur þeirra við þessar umræður.


Því hefur verið haldið fram að breytingarnar sem gerðar voru árið 1992 hafi dregið úr ásókn í nám. Staðreyndin er hins vegar sú að tölur um virka nemendur í Háskóla Íslands benda ekki til þess. Skólaárið 1996/1997 er gert ráð fyrir að virkir nemendur í Háskóla Íslands séu 4.000 talsins en skólaárið 1991/1992 voru þeir 3.646. Þetta sýnir aukingu en ekki fækkun. Jafnhliða hefur virkum nemendum við aðra skóla á háskólastigi fjölgað, eins og til dæmis við Háskólann á Akureyri.

Úgjöld lánasjóðsins hafa dregist saman vegna þess að lánþegum hefur fækkað. Það getur hins vegar ekki verið gagnrýnisvert að færri taka lán þegar fleiri stunda nám. Það sýnir fyrst og fremst að í hinu eldra kerfi tóku fjölmargir námslán sem höfðu ekki þörf fyrir það eða gátu komist hjá því með einhverju móti.


Því hefur einnig verið haldið fram að breytingarnar hafi mest bitnað á þeim sem höllum fæti standa og barnafólki í námi hafi fækkað verulega eftir breytingarnar. Þessar fullyrðingar eru mikil rangtúlkun á tölum um fjölda barnafólks í námi.

Hlutfall nemenda með börn hefur lítið sveiflast undanfarin ár. Á árunum 1992-1994 voru rétt rúmlega 30% nemenda með börn sem er svipuð tala og árið 1988. Hlutfall barnafólks var um 34% árin 1990 og 1991. Af þeim gögnum sem unnin hafa verið hjá Hagstofu Íslands var hlutfallið lægst árið 1985 eða 22,7%. Samantekt Hagstofunnar sýnir svo að ekki verður um villst að stór hópur barnafólks stundar sitt nám án þess að taka lán, og þessi hópur hefur farið stækkandi eftir lagabreytinguna.

Þegar kjör námsmanna með börn eru skoðuð kemur í ljós að einstætt foreldri með tvö börn getur fengið rúmlega 103 þúsund krónur í lán á mánuði og verið með tæplega 160 þúsund króna ráðstöfunarfé á mánuði þegar tillit hefur verið tekið til lána, barnabóta og meðlaga. Einstætt foreldri sem ekki er í námi þarf að hafa tæplega 160 þúsund krónur í laun á mánuði til þess að hafa sama ráðstöfunarfé á milli handanna. Þetta sýnir að það er enginn fótur fyrir því að núverandi lánakerfi geti hrakið barnafólk frá námi. Dæmi eru um að ráðstöfunartekjur fólks með börn á framfæri lækki þegar viðkomandi hættir námi og fer út á vinnumarkað.


Í skýrslunni er mikil áhersla lögð á aðstöðumun kynslóða og borin eru saman endurgreiðslukjör þeirra sem luku námi um 1975 annars vegar og hins vegar námsmanna sem stunda nám um þessar mundir. Samanburðurinn er hinni yngri kynslóð mjög í óhag. Hins vegar virðist höfundur skýrslunnar gleyma að geta þess að námslán á áttunda áratugnum voru nær helmingi lægri en þau eru nú. Námsmenn á þeim tíma þurftu því á námstímanum sjálfum að leggja fram mismuninn til að búa við sömu kjör og námsmenn gera nú. Gera má ráð fyrir að einstaklingar sem höfðu ekki ráð á því að brúa þetta bil hafi á þeim tíma hrökklast úr námi. Núverandi kerfi er betra að því leyti að það tryggir öllum sem hafa vilja, hæfileika og þrótt möguleika til að ljúka náminu.


Námsmenn segja að umræður um erfiðan fjárhagsvanda lánasjóðsins hafi verið goðsögn. Staðreyndin er sú að sjóðurinn tók samtals lán með 7-9% vöxtun að upphæð 4,5 milljarðar en veitti vaxtalaus námslán á árunum 1989, 90, og 1991. Augljóst er að sjóðurinn stefndi í gjaldþrot á örskömmum tíma ef útlán hefðu haldist í rúmlega 5 milljörðum króna og ef hann hefði verið fjármagnaður með allt of litlum fjárveitingum.

Herra forseti!

Líkt og ég hef margítrekað sagt þarf að breyta lögum um lánasjóðinn til að létta undir með viðskiptavinum hans. Til að það sé unnt verður að auka fjárveitingar til sjóðsins. Þótt námsmenn endurgreiði að meðaltali ekki nema um helming þeirra lána sem þeir fá hjá LÍN, er endurgreiðslubyrði þeirra tilfinnanleg. Vegna þess legg ég áherslu á að auknu fé úr ríkissjóði eigi fyrst og fremst að verja til að draga úr endurgreiðslubyrðinni. Það er mikilvægt fyrir þá sem höllum fæti standa að endurgreiðslubyrðin sé létt ekki síst til að þeir geti fjárfest í eigin húsnæði að námi loknu. Í því sambandi þarf einnig að huga að því hvort ekki þurfi að breyta reglum í húsnæðiskerfinu við mat á greiðslugetu fólks til að koma í ríkari mæli til móts við þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð.

Þegar málefni lánasjóðsins eru skoðuð hlutlægt, er ekki unnt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri, að umræðurnar um þungbær lánakjör hans hafi verið neikvæðari en réttmætt er. Er ekki ólíklegt, að þessar neikvæðu umræður hafi jafnvel ráðið meiru um ákvarðanir manna um að fara ekki í nám vegna reglna um lánasjóðinn en efni reglnanna sjálfra. Slík umræða er ekki til þess fallin að hvetja ungt fólk í nám.