Haustfundur kennara í Reykjavík og á Reykjanesi
Haustfundur kennara í Reykjavík og á Reykjanesi
16. nóvember 1996
Við komum hér saman í dag, þegar efnt er til Dags íslenskrar tungu í fyrsta sinn. Er það í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar á síðasta ári, þegar hún samþykkti tillögu mína um, að fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar yrði framvegis helgaður íslenskri tungu. Hér er ekki um minningardag um dauðvona tungu að ræða heldur átaksdag, sem miðar að því að skerpa vitundina um gildi tungunnar, helsta þjóðlega verkfæris Íslendinga.
Ég veit, að óþarft er að brýna kennara, þegar málrækt er annars vegar. Skólarnir eru þær stofnanir, sem við treystum best, þegar litið er til skipulegs átaks af hálfu stjórnvalda í þágu tungunnar.
Frá því að mér gafst tækifæri til að ávarpa svipaðan fund ykkar síðast, hefur sú mikla breyting orðið, að grunnskólinn hefur flust frá ríkinu til sveitarfélaga. Vil ég endurtaka það, sem ég hef áður sagt, að hin farsæla lausn þess viðkvæma og vandasama máls byggðst á hinu góða samstarfi allra aðila, sem náðist um verkefnið. Lít ég raunar þannig á, að vegna flutningsins og hinnar miklu vinnu, sem honum tengdist, hafi tekist að endurnýja nauðsynlegt traust á milli menntamálaráðuneytisins og samtaka kennara.
Ég árétta vilja minn til góðs samstarfs við samtök kennara. Ítreka ég jafnframt, að auðvitað verðum við ekki sammála um allt. Ágreiningsefnum þarf hins vegar að beina í þann farveg, að ekki verði um truflun á eðlilegu skólastarfi að ræða. Fylgi hugur máli hjá okkur, sem teljum, að efla þurfi hlut menntunar ekki síður á borði en í orði, er mikilvægt, að sjálf sýnum við það í verki.
Reglugerðir Með flutningi grunnskólans breyttist hlutverk menntamálaráðuneytisins gagnvart grunnskólanum. Skyldur ráðuneytisins koma nú einkum fram í því að setja leikreglur og hafa eftirlit með skólahaldi í landinu. Leikreglurnar eru í raun útfærsla á ákvæðum laga og koma einkum fram á tvennan hátt, þ.e. í aðalnámskrá og í reglugerðum.
Í grunnskólalögunum eru tiltekin fimmtán atriði sem ráðherra er ýmist skylt eða heimilt að setja reglugerðir eða reglur um. Flestar þessara reglugerða hafa þegar komið út, fjórar eru í vinnslu og koma væntanlega út í þessum mánuði og ein er á undirbúningsstigi.
Í júní 1996 tóku eftirfarandi reglugerðir gildi:
Reglugerð um sérkennslu samkvæmt 37. grein grunnskólalaganna.
Reglugerð um nemendaverndarráð samkvæmt 39. grein.
Reglugerð um skólareglur og aga samkvæmt 41. grein. Reglugerð um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga samkvæmt 42. grein.
Í júlí komu þessar reglugerðir til sögunnar:
Reglugerð um valgreinar samkvæmt 32. grein laganna.
Reglugerð um sérstaka íslenskukennslu fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku samkvæmt 36. grein.
Og að auki auglýsing um gildistöku aðalnámskrár grunnskóla sem einnig felur í sér ákvæði um skólatíma og skiptingu kennslustunda á námsgreinar samkvæmt 30. grein.
Í ágúst síðastliðinn kom út reglugerð um upplýsingaskyldu sveitarfélaga sem sett er með heimild í 10. grein grunnskólalaganna og í september kom út reglugerð um lágmarksaðstöðu í grunnskólum samkvæmt 20. grein.
Sett hefur verið reglugerð um samræmd próf, sem tekur gildi um næstu áramót.
Drög að þremur reglugerðum til viðbótar hafa verið send ýmsum aðilum til umsagnar og verða þær gefnar út jafnskjótt og unnið hefur verið úr athugasemdum.
Þessi reglugerðardrög fjalla um:
Námsráðgjöf samkvæmt 42. grein grunnskólalaganna.
Um rétt nemenda til að skoða metnar prófaúrlausnir í grunnskólum samkvæmt 45. grein.
Um námsmat í sérskólum og sérdeildum samkvæmt 47. grein.
Unnið er að því að semja reglugerð um námsgögn og endurgjaldslausa úthlutun námsgagna til nemenda í skyldunámi samkvæmt 33. grein laganna og endurskoðaðar reglur um Þróunarsjóð grunnskóla liggja fyrir í drögum.
Þá eru upptalin þau atriði sem lögin veita ráðherra heimild til að setja reglugerðir eða sérstakar reglur um. Reyndar hefur verið kallað eftir reglugerðum á fleiri sviðum t.d. um starfsemi foreldraráða en í lögunum er ekki heimild til þess.
Ég tel að þessi upptalning sýni, að af hálfu ráðuneytisins hefur verið kappkostað að vinna skipulega að því að setja allar þessar reglur. Finnst mér fagnaðarefni, að um það starf allt hefur tekist góð samvinna við þá, sem hlut eiga að máli.
Á það hefur reynt oftar en einu sinni á undanförnum vikum, að leitað sé til ráðuneytisins og þess óskað, að það úrskurði um atriði, er þykja óljós. Má þar nefna sem dæmi spurningar um kostnað við námsgögn, vikulegan stundafjölda nemenda og starfsdaga kennara. Í þessum tilvikum tekur ráðuneytið fyrirspurnir eða óskir um úrskurði til faglegrar skoðunar og svarar síðan erindum svo sem vera ber. Er ljóst, að ráðuneytið getur ekki látið við það sitja, að svara fyrirspyrjenda einum heldur hlýtur að birta niðurstöður sína opinberlega með öðrum hætti ef þær varða aðra.
Breytingar í menntamálaráðuneytinu
Áður en til flutnings grunnskólans kom varð sú breyting á skipan mála innan dyra í menntamálaráðuneytinu, að komið var á fót sérstöku sviði til að fjalla um lögfræðileg og stjórnsýsluleg viðfangsefni. Tel ég að reynslan af þeirri breytingu sé mjög góð, enda var til breytingarinnar stofnað vegna þess, að kröfur um góða og vandvirka stjórnsýslu setja ekki síður svip sinn á störf skóla og menningarstofnana en annarra aðila.
Undanfarið hefur verið unnið að frekari breytingum í ráðuneytinu með það að markmiði, að gera því kleift að sinna betur skyldum sínum við nýjar aðstæður. Ný lög um grunn- og framhaldsskóla og tilfærsla stórra verkefna til annarra leiðir einnig til fækkunar starfsmanna.
Vegna breytinga á starfsmannahaldi á vegum ríkisins og flutnings grunnskólans hafa verkefni á fjármálasviði ráðuneytisins breyst. Afskipti af starfsmannamálum eru minni og annars eðlis en áður. Þess vegna hefur sérstök starfsmannadeild verið lögð niður en Sigurður Helgason deildarstjóri sinnir starfsmannamálum áfram í ráðuneytinu, situr í samninganefnd ríkisins fyrir þess hönd og er sérstakur ráðgjafi minn í þessum viðkvæma málaflokki.
Ég hef unnið að því að færa verkefni úr ráðuneytinu, sem eru betur komin annars staðar. Meðal þess sem þar kemur til álita er umsýsla með svonefndri kennaraskrá. Flutningur verkefnis af þessu tagi þýðir ekki, að ríkissjóður muni hætta að bera kostnað vegna þeirrar þjónustu, sem hann nýtur, það gefur hins vegar ekki rétta mynd af hlutverki ráðuneytisins við breyttar aðstæður, að kennaraskráin sé áfram alfarið í umsjá þess.
Á fundum með kennurum vegna flutningsins var ég oft spurður að því, hvernig ráðuneytið ætlaði að sinna mats- og eftirlitshlutverki sínu. Svaraði ég þá jafnan á þann veg, að fyrst þyrfti ráðuneytið að sinna því, sem samið væri um við aðra, síðan myndi það huga að eigin málefnum. Það hefur nú verið gert og er ný deild, mats- og eftirlitsdeild komin til sögunnar. Fær hún starfsfólk úr öðrum deildum ráðuneytisins en deildarstjóri er Margrét Harðardóttir, sem kemur úr grunnskóladeild.
Stærsta verkefni hinnar nýju deildar er að fylgjast með því að skólastarf fari fram samkvæmt lögum og reglugerðum, vinna að undirbúningi þess að skólar hefji reglubundið sjálfsmat, undirbúa úttektir eða mat á skólastarfi og sjálfsmatsaðferðum skóla, safna og miðla upplýsingum um skólamál og sinna skyldum ráðuneytisins vegna þátttöku í Upplýsinganeti um menntamál í Evrópu (Eurydice). Verksvið deildarinnar nær frá leikskólastigi til háskólastigs.
Ráðuneytið gerir auknar kröfur um öflun og miðlun upplýsinga. Sjálft reið það á vaðið skömmu fyrir menntaþing með útgáfu á Tölfræðihandbók um menntun og menningu. Stjórn skólamála er ekki markviss nema hún byggist á kerfisbundinni öflun upplýsinga og miðlun þeirra til réttra aðila, það er nemenda, foreldra, kennara, skólastjórnenda, fræðsluyfirvalda, löggjafarvalds og á almennum vettvangi.
Opinberar umræður um menntamál snúast hér á landi einkum um einstök dægurmál í skólastarfi eða skort á fjármunum. Umræða um þetta á vissulega rétt á sér, en ég sakna hins vegar jafnmikils áhuga á þessum málaflokki og annarri atvinnustarfsemi í landinu. Vaxtarbroddur íslensks þjóðfélags og samkeppnishæfni ræðst af því, sem er að gerast í skólunum og á sviði rannsókna og vísinda. Fyrir þróun atvinnulífsins er jafnvel mikilvægara að vita, hvernig mannfólkið dafnar en þorskurinn í sjónum eða sauðkindin til fjalla.
Endurskoðun aðalnámskrár
Hlutverk okkar er að sjá til þess, að skólarnir starfi í samæmi við vel skilgreindar og nútímalegar kröfur. Margoft lýsti ég yfir því, að eftir flutning grunnskólans og á grundvelli nýrra framhaldsskólalaga yrði snarlega gengið til þess verks að endurskoða námskrár. Vinna er nú hafin við endurskoðun aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla og hef ég lagt sérstaka áherslu á, að námskrár fyrir bæði skólastigin verði endurskoðaðar samtímis til að skapa samfellu milli skólastiganna.
Sérstök verkefnisstjórn í ráðuneytinu stýrir verkinu og hefur umsjón með verkefninu í heild. Ráðinn hefur verið verkefnisstjóri sem annast framkvæmd endurskoðunaráætlana og er hann framkvæmdastjóri verkefnisstjórnar. Forvinna er þegar hafin í einstökum greinum og greinasviðum með öflun gagna og upplýsinga en síðan hefst hin eiginlega ritun námskrárinnar.
Aðalnámskrá gegnir margvíslegu hlutverki. Í henni birtist stefna og áherslur í skólamálum, hún hefur að geyma safn opinberra markmiða í námi og kennslu og er því einskonar kröfulýsing. Aðalnámskrá er einnig leiðarvísir, handbók og upplýsingarit fyrir ýmsa aðila, sem standa utan við skólann.
Í ljósi þessa margbrotna hlutverks er ekki að undra, þótt mörg álitamál vakni við gerð aðalnámskrár, bæði skólapólitísk og fagleg. Af þessum ástæðum er nauðsynlegt að sem flestir komi að verkinu. Í verkáætlun þeirri sem unnið er eftir, er gert ráð fyrir, að hinir ýmsu aðilar, sem tengjast grunn- og framhaldsskólum beint og óbeint, komi að verkinu með einhverjum hætti. Hér er t.d. átt við samtök kennara og skólastjóra, foreldra, sveitarstjórnir, skóla sem annast kennaramenntun, atvinnulífið og nemendur. Fyrir skömmu varð að samkomulagi að samtök kennara ættu aðild að ritstjórn aðalnámskránna en henni er ætlað m.a. að hafa yfirsýn yfir allt verkið og framgang þess.
Grunnskólalögin kveða skýrt á um það, að menntamálaráðherra beri ábyrgð á útgáfu aðalnámskrár fyrir grunnskóla. Vel má hugsa sér að túlka þetta ákvæði 29. gr. laganna á þann veg, að Alþingi og þingmenn séu þar með lausir mála. Ég tel hins vegar mikilvægt, að stjórnmálamenn fylgi stefnumörkun laganna eftir og komi að nánari útfærslu stefnunnar eins og aðalnámskrá birtir hana. Þar koma til álita mál eins og þessi:
Á að fækka námsárum til stúdentsprófs í 3 ár?
Á að breyta inntökuskilyrðum á námsbrautir í framhaldsskólum? Eiga skilyrðin að vera mismunandi?
Hverjar eiga að vera kjarnagreinar í grunnskóla? Á enska að vera þar á meðal?
Hvernig á hlutfallsleg skipting tíma milli námssviða og námsgreina að vera í grunnskóla?
Hef ég skipað nefnd mér til ráðuneytis um helstu stefnuatriði nýrrar aðalnámskrár og um úrlausn stærstu álitamálanna sem við stöndum frammi fyrir. Stefnumótunarnefndin er skipuð ellefu fulltrúum allra stjórnmálaflokka á Alþingi. Formaður hennar er Sigríður Anna Þórðardóttir, alþingismaður og formaður menntamálanefndar Alþingis. Sigríður Anna var einnig formaður menntastefnunefndar sem skilaði markverðum tillögum í skýrslu sumarið 1994 og undirbjó m.a. lagasetningu um flutning grunnskólans.
Stefnumótunarnefndin hefur komið saman til fyrsta fundar og er stefnt að því að hún ljúki sínum hluta verksins í febrúar á næsta ári. Fljótlega eftir það má ætla, að tekin verði afstaða til ýmissa álitamála, tekið af skarið um áherslur og mótaður rammi og viðmiðanir fyrir þá fagmenn, sem skrifa námskrárnar. Allar áætlanir og framkvæmdir miða við það að endurskoðuninni verði lokið um mitt ár 1998.
Góðir fundarmenn
Hér hef ég nefnt þau atriði, sem snerta ytri umbúnað grunnskólastarfs við nýjar aðstæður, breytingar í menntamálaráðuneytinu og markmið þess með mats- og eftirlitsstarfi auk þess sem ég hef lýst fyrstu skrefunum við gerð nýrra námskráa.
Margt annað væri ástæða til að tíunda, sem snertir stöðu kennara og hlutverk menntamálaráðuneytisins. Tíminn leyfir hins vegar ekki, að það sé gert í löngu máli. Tvö atriði vil ég nefna stuttlega að lokum.
Í fyrsta lagi þá staðreynd, að í haust hefur verið efnt til samræmdra könnunarprófa í 4. og 7. bekk grunnskólans og einnig á framhaldsskólastigi. Tel ég þetta marka nokkur tímamót í íslensku skólastarfi og vera skref í rétta átt, svo að unnt sé að beita starfsaðferðum, sem byggjast á samræmdum upplýsingum. Er ég sannfærður um, að innan skamms tíma munu menn líta á slík próf sem sjálfsögð tæki og undrast, að ekki var fyrr gripið til þeirra.
Í öðru lagi vil ég geta þess, að ráðuneytið og fulltrúar kennara og leikskólakennara hafa undanfarið rætt um breytingar á lögum um starfsréttindi eða lögverndun kennarastarfsins. Vona ég, að sæmileg sátt takist um málið. Af minni hálfu var fallist á það í samkomulagsskyni um þetta sérstaka mál, að ekki yrði hróflað við kröfum um einingar í uppeldis- og kennslufræðum. Hins vegar tel ég, að draga beri úr þessum kröfum og til þess verði litið við gerð frumvarps um kennaramenntunina en drög að lögum um uppeldisháskóla liggja fyrir.
Þegar samið var um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna, lá við að upp úr slitnaði vegna ágreinings um lífeyrismál. Með atbeina Davíðs Oddssonar forsætisráðherra tókst okkur að sigla þeim málum í farsælan farveg og nú liggur fyrir samkomulag um lífeyrissjóðsmálin, sem ástæða er til að fagna.
Í upphafi máls míns minntist ég dags íslenskrar tungu. Við gerð nýrrar námskrár legg ég áherslu á að tungan, sagan og menningin verði sett í fyrirrúm. Minnumst þess að engir aðrir en við Íslendingar leggjum rækt við íslenska menningu.
Ég lýk máli mínu með því að þakka það tækifæri að fá að ávarpa ykkur hér í dag.