1.11.1996

Aðalfundur Skólastjórafélags Íslands

Aðalfundur Skólastjórafélags Íslands
1. nóvember 1996, Hótel Loftleiðum.

Í upphafi máls míns vil ég þakka þetta tækifæri til að ávarpa aðalfund Skólastjórafélags Íslands.

Aðalefni fundarins er flutningur grunnskólans til sveitarfélaganna og félagsleg staða skólastjóra. Það gefur mér tilefni til að fara nokkrum orðum um hlutverk skólastjóra við grunnskóla samkvæmt nýjum grunnskólalögum og skýra stöðuna að því er varðar útgáfu reglugerða og endurskoðun aðalnámskrár. Þá mun ég einnig víkja að breytingum á skipulagi menntamálaráðuneytisins.

Á þeim tímum, þegar auknar kröfur eru gerðar til vandaðrar stjórnsýslu á öllum stigum, er brýnt, að allar reglur séu skýrar og eins ótvíræðar og kostur er. Skiptir þetta ekki síst miklu fyrir stjórnendur á borð við ykkur, sem í daglegum störfum fáist við vandasöm úrlausnarefni, er snerta ekki aðeins innra starf í skólum heldur einnig samskipti við foreldra.

Hlutverk skólastjóra

Grunnskólalögin ætla skólastjórum mikla ábyrgð og forystuhlutverk.

Skólastjóri er forstöðumaður grunnskóla, stjórnar honum, ber ábyrgð á starfi skólans og veitir honum faglega forystu.

Þessi eina setning í 14. grein grunnskólalaganna lætur ekki mikið yfir sér í henni felast þó mikilvægar forsendur þess, sem við köllum góðan skóla.

Lítum nánar á hvað hér segir:

Forstöðumaður stofnunar er andlit hennar útávið. Skólastjóri kemur fram fyrir hönd skóla síns og hefur bein samskipti við hina fjölmörgu, sem eiga erindi við skólann eða skólinn vinnur með. Í þessu hlutverki skiptir miklu að skólastjóri veki traust og tiltrú á skólanum.

Skólastjóri ber ábyrgð á starfi skóla og veitir honum faglega forystu. Hér er litið til hins innra starfs. Þar verður skólastjóri að sýna að hann geti axlað ábyrgð. Hann þarf að koma fram af festu en sanngirni sem stjórnandi og sýna faglegan metnað með því að eiga frumkvæði að umbótum og styðja dyggilega viðleitni þeirra starfsmanna, sem vilja bæta sig í starfi.

Skólastjóri sem sinnir þessum hlutverkum af kostgæfni er góður skólastjóri. Skóli sem býr við slíka stjórn er að öllum líkindum góður skóli.

Í grunnskólalögunum frá 1995 eru tvö atriði sem varða miklu um gæði skólastarfs og andlit skóla útávið og innávið. Þessi atriði voru ekki í lögum áður og því er ástæða til að staldra við þau.

Hér er annars vegar átt við þá skyldu skólastjóra að sjá til þess, að foreldraráð séu stofnuð við alla grunnskóla samkvæmt 16. gr. laganna. Með stofnun foreldraráða er foreldrum skapaður lögbundinn vettvangur til að fylgjast með skólamálum og tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri með formlegum hætti. Foreldraráðin eiga ekki að vinna gegn skólum heldur með þeim. Þau geta augljóslega veitt skólastjóra og starfsliði skóla mikilvægan stuðning, uppörvun og aðstoð. Hef ég í samtölum við þá, sem kynnst hafa öflugu foreldrastarfi í skólum barna sinna erlendis, orðið var við, að þessi reynsla hefur jafnan í senn verið ánægjuleg og traustvekjandi fyrir foreldra. Er ég sannfærður um, að hin nýja skipan á eftir að gefa góða raun hér, ef á annað borð tekst að virkja foreldra á breiðum grunni.

Hitt atriðið er skólanámskrá, sem skólastjórar bera ábyrgð á að sé gerð samkvæmt 14. grein laganna. Skólanámskrá er í raun áætlun um komandi skólastarf og á að geyma upplýsingar, sem annars vegar skólanefnd og sveitarstjórn þurfa á að halda og hins vegar upplýsingar handa foreldrum og nemendum. Hér verður ekki farið nánar út í gildi skólanámskrár fyrir starfsmenn skóla eða í hvaða búningi skólanámskrá birtist heldur lögð áhersla á þá skyldu skólastjóra að gera áætlun um starfið og kynna hana í tæka tíð, til að þeir aðilar sem lögum samkvæmt eiga að bregðast við og gefa umsögn um skólanámskrána, hafi ráðrúm til að koma athugasemdum á framfæri.

Með flutningi grunnskólans hljóta tengsl skólastjóra við foreldra, skólanefnd og sveitarstjórn að verða nánari en áður, enda er ábyrgð á grunnskólahaldi í landinu komin í hendur þessara aðila. Grunnskólalögin ætlast til þess að að ábyrgð á rekstri grunnskóla og framkvæmd skólahalds fari saman. Lokaákvarðanir í flestum málum grunnskóla eru því teknar heimafyrir, í skólanum, hjá skólanefnd eða sveitarstjórn. Hlutur skólastjóra við töku þessara ákvarðana eða undirbúning þeirra fyrir sveitarstjórn eða skólanefnd er afar mikilvægur. Skólastjórinn er þannig settur að hann hefur yfirsýn, sem enginn annar hefur.

Reglugerðir

Með flutningi grunnskólans breyttist hlutverk menntamálaráðuneytisins gagnvart grunnskólanum. Skyldur ráðuneytisins koma nú einkum fram í því að setja leikreglur og hafa eftirlit með skólahaldi í landinu. Leikreglurnar eru í raun útfærsla á ákvæðum laga og koma einkum fram á tvennan hátt, þ.e. í aðalnámskrá og í reglugerðum.

Í grunnskólalögunum eru tiltekin fimmtán atriði sem ráðherra er ýmist skylt eða heimilt að setja reglugerðir eða reglur um. Flestar þessara reglugerða hafa þegar komið út, fjórar eru í vinnslu og koma væntanlega út í þessum mánuði og ein er á undirbúningsstigi.

Í júní 1996 tóku eftirfarandi reglugerðir gildi:


Reglugerð um sérkennslu samkvæmt 37. grein grunnskólalaganna.
Reglugerð um nemendaverndarráð samkvæmt 39. grein.
Reglugerð um skólareglur og aga samkvæmt 41. grein.
Reglugerð um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga samkvæmt 42. grein.

Í júlí komu þessar reglugerðir til sögunnar:

Reglugerð um valgreinar samkvæmt 32. grein laganna. Reglugerð um sérstaka íslenskukennslu fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku samkvæmt 36. grein. Og að auki auglýsing um gildistöku aðalnámskrár grunnskóla sem einnig felur í sér ákvæði um skólatíma og skiptingu kennslustunda á námsgreinar samkvæmt 30. grein.

Í ágúst síðastliðinn kom út reglugerð um upplýsingaskyldu sveitarfélaga sem sett er með heimild í 10. grein grunnskólalaganna og í september kom út reglugerð um lágmarksaðstöðu í grunnskólum samkvæmt 20. grein.

Sett hefur verið reglugerð um samræmd próf, sem tekur gildi um næstu áramót.

Drög að þremur reglugerðum til viðbótar hafa verið send ýmsum aðilum til umsagnar og verða þær gefnar út jafnskjótt og unnið hefur verið úr athugasemdum. Þessi reglugerðardrög fjalla um:

Námsráðgjöf samkvæmt 42. grein grunnskólalaganna. Um rétt nemenda til að skoða metnar prófaúrlausnir í grunnskólum samkvæmt 45. grein. Um námsmat í sérskólum og sérdeildum samkvæmt 47. grein.

Unnið er að því að semja reglugerð um námsgögn og endurgjaldslausa úthlutun námsgagna til nemenda í skyldunámi samkvæmt 33. grein laganna og endurskoðaðar reglur um Þróunarsjóð grunnskóla liggja fyrir í drögum.

Þá eru upptalin þau atriði sem lögin veita ráðherra heimild til að setja reglugerðir eða sérstakar reglur um. Reyndar hefur verið kallað eftir reglugerðum á fleiri sviðum t.d. um starfsemi foreldraráða en í lögunum er ekki heimild til þess.

Ég tel að þessi upptalning sýni, að af hálfu ráðuneytisins hefur verið kappkostað að vinna skipulega að því að setja allar þessar reglur. Finnst mér fagnaðarefni, að um það starf allt hefur tekist góð samvinna við þá, sem hlut eiga að máli.

Endurskoðun aðalnámskrár

Önnur meginviðmiðun sem varðar nám og kennslu, hið innra starf skóla, er aðalnámskrá. Vinna er nú hafin við endurskoðun aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla og hef ég lagt sérstaka áherslu á, að námskrár fyrir bæði skólastigin verði endurskoðaðar samtímis til að skapa samfellu milli þeirra.

Sérstök verkefnisstjórn í ráðuneytinu stýrir verkinu og hefur umsjón með verkefninu í heild. Ráðinn hefur verið verkefnisstjóri sem annast framkvæmd endurskoðunaráætlana og er hann framkvæmdastjóri verkefnisstjórnar. Forvinna er þegar hafin í einstökum greinum og greinasviðum með öflun gagna og upplýsinga en síðan hefst hin eiginlega ritun námskrárinnar.

Í aðalnámskrá birtist stefna og áherslur í skólamálum, hún hefur að geyma safn opinberra markmiða í námi og kennslu og er því einskonar kröfulýsing. Aðalnámskrá er einnig leiðarvísir, handbók og upplýsingarit fyrir ýmsa aðila, sem standa utan við skólann.

Í ljósi þessa margbrotna hlutverks er ekki að undra, þótt mörg álitamál vakni við gerð aðalnámskrár, bæði skólapólitísk og fagleg. Af þessum ástæðum er nauðsynlegt að sem flestir komi að verkinu. Í verkáætlun þeirri sem unnið er eftir, er gert ráð fyrir, að hinir ýmsu aðilar, sem tengjast grunn- og framhaldsskólum beint og óbeint, komi að verkinu með einhverjum hætti. Hér er t.d. átt við samtök kennara og skólastjóra, foreldra, sveitarstjórnir, skóla sem annast kennaramenntun, atvinnulífið og nemendur. Fyrir skömmu varð að samkomulagi að samtök kennara ættu aðild að ritstjórn aðalnámskránna en henni er ætlað m.a. að hafa yfirsýn yfir allt verkið og framgang þess.

Grunnskólalögin kveða skýrt á um það, að menntamálaráðherra beri ábyrgð á útgáfu aðalnámskrár fyrir grunnskóla. Vel má hugsa sér að túlka þetta ákvæði 29. gr. laganna á þann veg, að Alþingi og þingmenn séu þar með lausir mála. Ég tel hins vegar mikilvægt, að stjórnmálamenn fylgi stefnumörkun laganna eftir og komi að nánari útfærslu stefnunnar eins og aðalnámskrá birtir hana. Í þessu skyni hef ég skipað nefnd mér til ráðuneytis um helstu stefnuatriði nýrrar aðalnámskrár og um úrlausn stærstu álitamálanna sem við stöndum frammi fyrir. Stefnumótunarnefndin er skipuð ellefu fulltrúum allra stjórnmálaflokka á Alþingi. Formaður hennar er Sigríður Anna Þórðardóttir, alþingismaður og formaður menntamálanefndar Alþingis. Sigríður Anna var einnig formaður menntastefnunefndar sem skilaði markverðum tillögum í skýrslu sumarið 1994 og undirbjó m.a. lagasetningu um flutning grunnskólans.

Stefnumótunarnefndin mun koma saman til fyrsta fundar á næstu dögum og ljúka sínum hluta verksins í febrúar á næsta ári, ef áætlanir standast. Fljótlega eftir það má ætla, að tekin verði afstaða til ýmissa álitamála, tekið af skarið um áherslur og mótaður rammi og viðmiðanir fyrir þá fagmenn, sem skrifa námskrárnar. Allar áætlanir og framkvæmdir miða við það að endurskoðuninni verði lokið um mitt ár 1998.

Breytingar í menntamálaráðuneytinu

Flutningur grunnskólans til sveitarfélaganna kallar á breytt hlutverk og breytta starfshætti í menntamálaráðuneytinu. Raunar eru fleiri breytingar á starfsemi ríkisins, sem hafa áhrif á innra starf ráðuneytisins. Minnt skal á ný lög um framhaldsskóla, stjórnsýslulög og upplýsingalög.

Að undanförnu hefur verið unnið að skipulagsbreytingum í ráðuneytinu til að mæta nýjum og breyttum skyldum. Fyrsta skrefið var að koma á fót lögfræði- og stjórnsýsluviði innan ráðuneytisins til að sinna nýjum skyldum í þeim málaflokkum. Nú má segja, að nær öll starfsmannamál grunnskóla hafa verið flutt til sveitarstjórna og hefur það leitt til þess, að starfsmannadeild á fjármálasviði ráðuneytisins hefur verið lögð niður.

Í skrifstofu menntamála og vísinda hefur verið stofnuð ný deild, mats- og eftirlitsdeild. Á verksviði hennar er m.a. að sjá um gagnaöflun, sem er undirstaða mats á skólum og skólastarfi og annast úttekt á sjálfsmatsaðferðum skóla samkvæmt 49. grein grunnskólalaga og 22. grein framhaldsskólalaga. Er Margrét Harðardóttir, sem áður var í grunnskóladeild, deildarstjóri hinnar nýju deildar.

Með hliðsjón af ákvæðum í 9. grein grunnskólalaganna verður lögð stóraukin áhersla á öflun, úrvinnslu og dreifingu upplýsinga um skólahald í landinu. Mikilvægt skref í þessa átt var stigið með útgáfu Tölfræðihandbókar um menntun og menningu, sem kom út í tilefni af nýafstöðnu menntaþingi. Upplýsingarnar, sem þar koma fram, og samanburður við aðrar þjóðir á erindi við alla, hvort sem þeir vinna að skólamálum eða ekki. Upplýsingar af því tagi sem Tölfræðihandbókin geymir eiga eftir að aukast og batna til muna á næstu árum og verða vonandi til þess að vekja ábyrga og upplýsta umræðu um skólamál og leiða til þess að skóli og menntun skipi hærri sess.

Góðir fundarmenn.

Ég hef oft komist þannig að orði, eftir að ég tók við starfi menntamálaráðherra fyrir rúmum 18 mánuðum, að mér þyki mikið til um hið metnaðarfulla starf, sem ég hef kynnst í mörgum skólum. Þau kynni voru meðal annars kveikjan að því, að ég ákvað að efna til menntaþings fyrir nokkrum vikum. Ég vildi með því leggja mitt af mörkum til að fleiri fengju tækifæri til að sjá margt af því góða, sem er að gerast í skólunum.

Einnig taldi ég nauðsynlegt, að gert yrði átak til að beina umræðum um íslensk menntamál inn á nýjar brautir. Of lengi höfum við rætt um ytri aðstæður, fjármál og flutning, nú er tími til þess kominn að huga meira að innviðunum. Námskrárvinnan gefur okkur ríkulegt tilefni til þess á komandi mánuðum. Við þurfum einnig að líta á kennsluhætti og hina nýju tækni til að miðla upplýsingum. Hefur menntamálaráðuneytið tekið mikilsverðar ákvarðanir í þeim efnum á undanförnum mánuðum, bæði með mótun stefnu og kaupum á hluta Íslenska menntanetsins.

Ég vil í lokin árétta, að góð menntun er besta úrræðið, sem Íslendingar hafa til að treysta stöðu sinnar sem þjóðar og þar með einnig velgengni sína í samfélagi þjóðanna.