19.10.1996

Ljósbrigði- Listaverkagjöf Ásgríms Jónssonar

Ljósbrigði- Listaverkagjöf Ásgríms Jónssonar
Sýning í Listasafni Íslands 19. okt. 1996.


“Það kostar alltaf talsverða harðneskju að vera listamaður", segir Ásgrímur Jónsson í endurminningabókinni Myndir og minningar, sem Tómas Guðmundsson skáld skráði og kom út árið 1955.

Þessi orð falla, þegar Ásgrímur rifjar upp, að um síðustu aldamót var næsta einmanalegt að vera myndlistarmaður hér á landi. Þá voru þeir Þórarinn B. Þorláksson lengi hinir einu, sem unnu að myndlist. Um 1920 varð breyting, þegar fleiri komu til sögunnar.

Framfarir verða því aðeins, að menn leggi sig fram um að gera betur. Í einangrun er hætta á, að festast í fari og sitja síðan eftir. Gegn þessari hættu snerist Ásgrímur Jónsson. Hann leiddi einnig marga listamenn inn í hinn harðneskjulega heim listsköpunar og aldrei hætti hann að gera til sjálfs sín miklar kröfur.

Þótt starfsumhverfið hafi stundum verið erfitt, svipti það Ásgrím ekki mildi hans og manngæsku. Tómas Guðmundsson telur hann einn hugljúfasta fulltrúa þeirra kynslóðar, sem hóf þjóð sína til nýrrar bjartsýni á morgni tuttugustu aldar.

Fimm árum fyrir andlát sitt í apríl 1958, ánafnaði Ásgrímur íslenska ríkinu hús sitt nr. 74 við Bergstaðastræti í Reykjavík ásamt öllum þeim málverkum sínum, sem voru í hans eigu og hann lét eftir sig. Reyndist þar vera á sjöunda hundrað olíu- og vatnslitamyndir, fullgerðar sem ófullgerðar, á annað þúsund teikningar og 150 teiknibækur.

Samkvæmt skilyrðum listamannsins skyldi safn hans vera sjálfstætt, þar til nýtt listasafn yrði byggt, þar sem fá mætti gott yfirlit yfir gjöf hans. Var hið sjálfstæða Ásgrímssafn rekið frá því í nóvember 1960 til ársloka 1987, þegar það varð deild í Listasafni Íslands við flutning þess í þetta glæsilega hús, þar sem við erum nú stödd.

Vil ég á þessari stundu sérstaklega minnast frú Bjarnveigar Bjarnadóttur, sem gætti Ásgrímssafns af einstakri alúð og ræktarsemi, en hún andaðist árið 1993.

Hér hefur nú í fyrsta sinn í þessu húsi verið sett upp sýning á verkum úr hinni einstæðu listaverkagjöf Ásgríms Jónssonar. Má því segja, að loks nú sé íslenska ríkið að standa við sinn hlut, það er að gefa yfirlit yfir myndlist Ásgríms í byggingu, sem gegnir því eina hlutverki að vera listasafn.

Einsemdin er ekki lengur fylgifiskur þess að stunda myndlist á Íslandi. Mætti Ásgrímur vera meðal okkar á þessari stundu yrði hann vafalaust forviða yfir hinni miklu grósku, sem einkennir íslenskt myndlistarlíf, og þeim fjölda góðra listamanna, sem leggja stund á þessa listgrein.

Þeir eru margir sem hafa fetað í fótspor Ásgríms á öldinni, sem er að líða. Er það fagnaðarefni. Án öflugs listalífs væri íslenska þjóðfélagið ekki samkeppnisfært, við værum ekki gjaldgeng í samskiptum þjóða og lífskjör okkar mun lakari.

Ásgrímur Jónsson var brautryðjandi og hann var rausnarlegur við okkur, þegar við fáum nú að njóta listar hans og listaverka sem þjóðareignar.

Ég óska Listasafni Íslands til hamingju með að hafa átt slíkan velgjörðarmann og býð ykkur að skoða þá sýningu á listaverkagjöf Ásgríms Jónssonar sem hér með er opnuð.