5.10.1996

Ræða við upphaf menntaþings 1996

Ræða við upphaf menntaþings 1996.
Háskólabíó 5. október.

Menntakerfi nútímans er byggt á hugmyndafræði 19. aldar. Raunar sjáum við það glöggt, þegar litið er á íslenska skólasögu. Um miðja síðustu öld ritaði Jón Sigurðsson hugvekjur og hvatti Íslendinga til dáða. Lagði hann þar sérstaka áherslu á nauðsyn þess að stofna skóla.

Vísir að skólum samtímans kom þannig fyrst fram á þeim tímum þegar þjóðernishyggja var að eflast og hlutverk ríkisins að skýrast og styrkjast. Öðrum þræði var litið á menntun sem félagslegt úrræði. Þegar sagt er, að menntun, þekking, tækni og vísindi séu besta fjárfestingin er verið að breyta hugmyndafræði að baki menntunar. Ekki er lengur litið á hana sem félagslegt hlutverk ríkisins heldur lið í árangursríkri efnahagsstefnu. Velgengni þjóða ræðst í sívaxandi mæli af menntunarstigi þeirra.

Opinberir fjármunir eru helsti bakhjarl menntakerfisins, þess vegna er óhjákvæmilegt að fjárhagslegt svigrúm í þágu menntamála ráðist af stöðu ríkissjóðs hverju sinni. Að mínu mati á við forgangsröðun á verkefnum sem ríkið sinnir, að setja menntamál í öndvegi. Til að árétta þetta er boðað til menntaþings 1996. Hér gefst tækifæri til að bregða ljósi á meginstrauma í menntamálum og kynnast því, sem er helst á döfinni hjá þeim, sem að þessum málum starfa eða tengjast þeim með einum eða öðrum hætti.

Við þetta tækifæri vil ég velta fyrir mér spurningunni: Hefur menntun verið vanmetin á Íslandi? Fjögur meginatriði koma þá til álita:

* Í fyrsta lagi: Hafa stjórnvöld gert sér nægilega grein fyrir þætti menntunar í lífskjörum eða hagvexti?

* Í öðru lagi: Hefur menntamönnum verið umbunað svo viðundandi sé í launum?

* Í þriðja lagi: Hafa fyrirtækin gert sér grein fyrir mikilvægi símenntunar eða endurmenntunar?

* Í fjórða lagi: Er menntun vanmetin í skólunum sjálfum?

1. Tengsl menntunar og hagvaxtar

Á undanförnum árum hafa komið fram sterk rök fyrir því, að arðvænlegasta fjárfesting þjóða og einstaklinga sé í menntun, sérstaklega þegar til lengri tíma er litið. Þegar peningar eru annars vegar er þó oft auðveldara um að tala en í að komast. Hefur ekki enn tekist nægilega vel að fá það viðurkennt í verki, sem menn forgangsraða í orði, þegar þeir segjast vilja hlut menntunar sem mestan og bestan.

Það hlýtur að vera markmið stjórnvalda að mannauðurinn verði virkjaður í auknum mæli. Hafa ýmsir hagfræðingar bent á sterk tengsl milli menntunar og hagvaxtar. Rannsóknir sem gerðar voru hér á landi af Tryggva Þór Herbertssyni og Guðmundi Magnússyni og birtar voru á síðasta ári sýndu, að af hagvexti þeim, sem varð á tímabilinu 1971-1992 mátti rekja 20% til vaxtar mannauðs. Í Bandaríkjunum má rekja stóran hluta tækniframfara til aukinnar skólagöngu og sömuleiðis sýna rannsóknir að betur menntað vinnuafl á stóran hlut í hagvexti þar í landi.

Ekki er unnt að hafa slíkar tölur að engu. Íslendingar hafa ekki efni á að hundsa mögulegan ágóða af betri menntun. Hún mun skila okkur betri lífskjörum. Framlög til menntamála eru ekki félagsleg byrði. Þau eru fjárfesting í mannauðnum, tilraun til að forða íslensku þjóðfélagi frá því að dragast aftur úr.

Til að stuðla að aukinni framleiðni þarf að tryggja undirstöðumenntun einstaklinganna, efla háskólamenntun, auka starfsmenntun og símenntun. Meiri menntun gerir launþegum kleift að takast á við örar tæknibreytingar og sívaxandi kröfur um sérhæfða þekkingu. Með meiri menntun verður atvinnulífið að auki fjölbreyttara og Ísland verður samkeppnishæft á sviðum þar sem ágóðinn er mestur.

Þegar skoðaðar eru tölur um lífskjör og menntun kemur ýmislegt fróðlegt í ljós. Innan OECD-ríkjanna er mesta framleiðsluaukningin og virðisaukinn í greinum, sem byggjast á hátækni og þekkingu. Störfum fjölgar einnig mest í þessum greinum. Þessi störf krefjast meiri þekkingar og launin eru hærri. Innan OECD-landanna er atvinnuleysið meðal þeirra sem hafa grunnmenntun 10,5% en 3,8% hjá þeim sem hafa háskólamenntun.

Á Íslandi er framleiðni fyrirtækja ekki nógu mikil. Sé litið á landsframleiðslu á hverja vinnustund er Ísland í 20. sæti af 25 ríkjum OECD. Íslendingar vinna hins vegar meira og lengur en aðrar þjóðir og ná því að vera í 11. sæti þegar litið er á landsframleiðslu á mann. Þetta er ein helsta ástæða þess að tímakaup hér á landi er lágt en aukin framleiðni er lykill að hærra tímakaupi.

Á sama tíma og við stærum okkur af vel menntuðu vinnuafli er hitt staðreynd, að stærsti hluti fólks á vinnumarkaði er einungis með grunnmenntun eða 65.700 manns. Næst koma þeir sem eru með starfs- og framhaldsmenntun eða 61.700 en einungis 16.700 einstaklingar á vinnumarkaði eru með háskólamenntun. Á meðal þeirra sem höfðu háskólapróf árið 1993 voru 1,8% atvinnulausir, 3,6% þeirra sem höfðu starfs- og framhaldsskólamenntun en 5,3% þeirra sem höfðu grunnmenntun. Þessar tölur lýsa þörfinni á vinnumarkaði fyrir menntað fólk og hversu mikilvægt er að hækka menntunarstigið. Betri menntun og hærri framlög til menntamála og vísinda draga úr fjárþörf vegna atvinnuleysisbóta og fleiri útgjalda í félagslega kerfinu.

2. Tengsl menntunar og launa

Önnur spurningin sem ég setti fram í upphafi var hvort menntamönnum væri umbunað nægilega í launum.

Því miður er það svo að menntun virðist ekki vera nægilega mikils metin á vinnumarkaði í peningum. Í rannsókn, sem gerð var á fimm starfsstéttum á Íslandi, kom í ljós, að viðskipta- og hagfræðimenntun og verkfræðimenntun skiluðu sér ágætlega í launum. Hins vegar reyndist einkaarðsemi framhaldsskólakennara, hjúkrunarfræði- og sálarfræðimenntunar neikvæð þegar miðað var við 3% ávöxtunarkröfu.

Líklega tengist þetta því, að launamunur kynjanna er því miður staðreynd og hinar svo kölluðu ,,kvennastéttir", líkt og kennarar, eru ekki metnar að verðleikum. Er mjög alvarlegt þegar einstaklingar leggja á sig langt og erfitt háskólanám oft með skuldasöfnun en fá það ekki metið, þegar á vinnumarkað kemur.

Ég legg ekki aðeins áherslu á, að Íslendingar séu vel menntuð þjóð heldur vel menntuð hálaunaþjóð. Nauðsynlegt er, að menn velti í auknum mæli fyrir sér þeirri spurningu, hvort lágt tímakaup hér á landi skýrist að einhverju leyti af því, að við erum að bera okkur saman við lönd, þar sem vinnuaflið er betur menntað og menntunin er hærra metin í launum.

Verðug viðurkenning á menntun með góðum launum er einnig ávísun á meiri áhuga á menntun en ella væri.

3. Fyrirtæki og menntun

Þriðja spurningin, sem ég setti fram, var hvort fyrirtækin hefðu ef til vill ekki gert sér grein fyrir mikilvægi þess, að starfsfólk njóti símenntunar eða reglulegrar endurmenntunar. Fyrirtæki verða að skilja að fjárfesting í menntun starfsmanna er jafn mikilvæg og fjárfesting í tækjum eigi þau að vera samkeppnisfær. Bandarískar rannsóknir hafa sýnt fram á að aukist menntun starfsmanns á vinnustað um 10% vex ekki einungis framleiðni hans heldur kunni framleiðni náinna samstarfsmanna að vaxa um allt að 3-4%.

Það er fagnaðarefni að íslensk fyrirtæki sækja nú í sig veðrið að þessu leyti og dæmi eru um að þau verji umtalsverðum upphæðum ár hvert til að tryggja símenntun starfsmanna. Áhuginn í atvinnulífinu ætti þó að vera almennari en hann er nú, því að ríkisvaldið getur ekki án frumkvæðis í atvinnulífinu náð til þeirra 65 þúsund starfsmanna á vinnumarkaði, sem einungis hafa grunnmenntun.

Evrópusambandið ákvað á síðasta ári að helga árið 1996 símenntun til að ýta undir almenna umræðu í Evrópu um mikilvægi menntunar og þjálfunar á nýrri öld. Ísland tekur þátt í þessu átaksverkefni. Markmið verkefnisins er meðal annars að auka vitund almennings, stjórnenda fyrirtækja og skóla eða fræðsluaðila um að menntun er æviverk, en ekki viðfangsefni á fyrsta hluta ævinnar. Þá verða einstaklingarnir sjálfir að setja sér markmið og gera áætlanir um eigin menntun og starfsframa. Stjórnendur fyrirtækja verða með sama hætti að skilgreina þarfir fyrir menntað og þjálfað starfsfólk, og gera áætlanir um ráðningar og þjálfun starfsmanna á þeim grunni. Einnig er mikilvægt, að skólar hætti að líta á útskrift nemenda sinna sem lokaáfanga þeirra, heldur hyggi að því, með hvaða hætti þeir geti tryggt símenntun þeirra.

Við verðum sífellt að tileinka okkur nýja hluti. Ný tækni í upplýsingamálum veldur til dæmis þáttaskilum. Mikilvægt er að bæði menntakerfið og atvinnulífið lagi sig að henni og nýti jafnframt þá kosti, sem hún býður. Í skýrslu, sem kom út á vegum menntamálaráðuneytisins fyrr á þessu ári og ber heitið Í krafti upplýsinga er lögð er áhersla á, að upplýsingatækni verði notuð til að bæta menntun þjóðarinnar og þar með samkeppnishæfni hennar.

4. Skólinn og menntun

Fjórða spurning mín var hvort menntun hefði verið vanmetin í skólum. Mín skoðun er sú að námsárin séu ekki nægilega vel nýtt. Skólaárið er stutt og kennslustundir á viku í grunnskólum of fáar. Tími og orka nemenda er illa nýtt.

Það hefur staðið íslenskum nemendum fyrir þrifum að þeir ljúka ekki sambærilegum prófum á svipuðum tíma og erlendir jafnaldrar þeirra. Þessu þarf að breyta og námið þarf að vera markvissara. Fullyrt er, að þegar skólaskylda hér á landi var miðuð við 6 ára aldur í stað 7 ára hafi í raun ekkert breyst hjá eldri nemendum. Nemendur ljúka sömu grunnskólaprófum og áður á lengri tíma.

Á næstu misserum gefst einstakt tækifæri til að gera breytingar á grunnskóla- og framhaldsskólanámi í þeirri námskrárvinnu, sem nú er nýhafin í menntamálaráðuneytinu. Þar verður að hafa í huga, að menntun er ekki til þess að læra einungis staðreyndir. Haft er eftir bandarískum sálfræðingi, að menntun sé í raun það sem situr eftir, þegar menn hafa gleymt öllu, sem þeir hafa lært. Má það til sanns vegar færa.

Við eigum erfitt með að setja okkur í spor þess, sem nú gengur sex ára í fyrsta sinni í íslenskan skóla, engu að síður berum við ábyrgð á því, að 14 árum síðar, eða árið 2010 geti hann nýtt þekkingu sína sjálfum sér og þjóðinni allri til góðs.

Við endurskoðun námskrárinnar skal sérstaklega vandað til þess þáttar sem lýtur að námi í íslensku og um íslenska sögu og menningu. Sama gildir um þjóðir og einstaklinga. Menn læra ekki að þekkja aðra fyrr en þeir þekkja sjálfa sig. Skólar eiga einnig að rækta með nemendum ábyrgð, aga, nákvæmni og vinnusemi þótt slík gildi eigi sér auðvitað frumuppsprettu á heimilum.

Skólinn á ekki að steypa alla einstaklinga í sama mót.

Forsenda öflugra menntakerfis er, að allir standi saman að því að efla það. Foreldrar skipta þar miklu. Með flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna hefur hlutverk foreldra í málefnum skólans tekið á sig nýja mynd. Skólarnir standa nú stjórnarfarslega nær borgurunum en áður. Öflugt foreldrastarf í nánum tengslum við skóla er til þess fallið að styrkja skólann á allan hátt.

Til móts við nýja tíma!

Ég minntist þess í upphafi máls míns, að Jón forseti hefði viljað veg menntunar sem mestan. Hann komst meðal annars svo að orði þegar hann hvatti til dáða í menntamálum:

,,Til að ná þessum tilgángi ættum vér allir að stuðla með kostgæfni og alúð og ekki skirrast við þeim kostnaðarauka, sem kljúfandi væri, því engum péningum er varið heppilegar en þeim, sem keypt er fyrir andleg og líkamleg framför sem mest að verða má. Vér eigum að hefja hugann hátt og sýna dugnað vorn og ættarmegin þar, sem vér ættum að hafa frá hinum frægu forfeðrum vorum, í því að sigra allar þær hindranir, sem sigraðar verða með afli auðs og kunnáttu."

Enn þurfum við slíka brýningu. Í nútíma þjóðfélagi næst enginn árangur nema fyrir tilstilli þekkingar, rannsókna, vísinda og tækni. Á starfsviðum allra ráðherra og ráðuneyta skipta þessir þættir sköpum um farsæla úrlausn mála og framfarir.

Þekking líður áfram eins og stórt fljót. Hún verður ekki stífluð, því að verði fyrirstaða leitar hún að nýjum farvegi.

Ágætu áheyrendur!

Ég hef nú velt fyrir mér svörum við þeim fjórum spurningum sem ég setti fram í upphafi. Niðurstaða mín er sú að við skiptingu á takmörkuðu opinberu fjármagni komumst við einfaldlega ekki hjá því að forgangsraða í þágu menntunar, rannsókna og vísinda, ef við viljum ná árangri sem þjóð og bæta kjör okkar á varanlegum og traustum forsendum. Menntun verður að vera metin til fjár í launaumslaginu. Símenntun og endurmenntun verður að vera í fyrirrúmi í atvinnulífinu. Skólarnir verða að tryggja nemendum, að árin innan veggja þeirra séu vel nýtt.

Við komum til menntaþings til að miðla þeirri þekkingu, sem við höfum á menntakerfinu. Hér getum við staldrað við og litið til þeirra breytinga, sem eru að verða á skipulagi skólastarfs á Íslandi. Í íslenskum skólum er unnið metnaðarfullt starf, sem ástæða er til að kynna sem flestum. Í landinu fara einnig fram líflegar umræður um skólamál. Nú er á einum degi reynt að gefa sem flestum tækifæri til að kynnast því um hvað þær snúast.

Ég vil að lokum þakka öllum, sem hafa gert kleift að efna til þessa þings. Áhuginn á undirbúningstímanum hefur verið meiri en við þorðum að vona. Hvarvetna var hugmyndinni vel tekið og um 100 aðilar kynna starfsemi sína hér í dag. Dagskráin ber best með sér, hve margir voru fúsir til að leggja okkur lið. Ég vil færa Myndlistarskólanum á Akureyri sérstakar þakkir en kennarar og nemendur hans sáu um að hanna allt það efni, sem er gefið út vegna þingsins.

Ég vil ljúka þessum orðum mínum á spakmæli sem ef til vill lýsir megininntaki þessa menntaþings hvað best: Sé manni gefinn fiskur, verður hann mettur í einn dag; en sé manni kennt að veiða, verður hann mettur alla ævi.

Nú þegar við höldum til móts við 21. öldina verðum við að hafa vilja til að mennta og menntast. Íslendingar verða að hafa kjark til að meta menntun að verðleikum.

Megi menntaþingið rísa undir kjörorði sínu: Til móts við nýja tíma!