18.7.1996

Betri grunnskólar hjá sveitarfélögum

Betri grunnskólar hjá sveitarfélögum
Grein í Morgunblaðinu 18. júlí 1996

Með því að flytja grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga 1. ágúst næstkomandi er sveitarfélögum sýnt mikið traust. Fátt er þjóðinni dýrmætara en að vel sé hlúð að menntun og skólastarfi.

Aldrei fyrr hefur svipað skref verið stigið við flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Lítum á nokkrar tölur til stuðnings þessari staðhæfingu.

Skólaárið 1995/96 voru nemendur í grunnskólum landsins um 42.200.

Við flutning grunnskólans eru kennarar við hann 3.040 í 2.635 stöðugildum og leiðbeinendur 509 í 324 stöðugildum eða samtals 3.549 starfsmenn við kennslu. Annað starfsfólk við grunnskólann á vegum ríkisins er um 100, þannig að alls flytjast 3.650 til 3.700 starfsmenn frá ríki til sveitarfélaganna við flutninginn.

Þegar litið er til fjármuna, kemur í ljós, að verkefni, sem metin eru á rúma sex milljarða eða samtals 6.227.250 þús. króna, færast frá ríki til sveitarfélaga.

Áætlað er, að húsnæði, sem sveitarfélög geta eignast að fullu með flutningnum, sé á bilinu 320-360 þúsund fermetrar að stærð og brunabótamat eignarhluta ríkisins í því sé um 15-17 milljarðar króna.

Þessar tölur segja meira en flest annað um umfang þeirra verkefna, sem flytjast nú úr verkahring ríkisins til sveitarfélaganna. Aðdragandinn hefur verið nokkur en mesta vinnan hefur farið fram á liðnum vetri. Þarf engan að undra, þó nokkurn tíma taki að koma hlutum í það horf að öllum líki. Samningar ríkis og sveitarfélaga um flutninginn hafa í för með sér, að meira fé en áður rennur til grunnskólans.

Hlutverk menntamálaráðuneytisins

Hlutverk menntamálaráðuneytisins verður áfram mikilvægt í starfsemi grunnskólanna þó að rekstur þeirra flytjist til sveitarfélaga. Ríkinu verður áfram skylt að leggja til og kosta kennslu- og námsgögn er fullnægja ákvæðum aðalnámskrár.

Unnið hefur verið að því að setja reglugerðir sem kveða nánar á um útfærslu á ýmsum ákvæðum grunnskólalaganna. Þar má nefna reglugerðir um sérkennslu og sérfræðiþjónustu, upplýsingaskyldu sveitarfélaga, lágmarksaðstöðu og búnað skólahúsnæðis, viðmiðunarstundaskrá, valgreinar, námsgögn, íslenskukennslu nýbúa, nemendaverndarráð, agamál, skoðun prófúrlausna, framkvæmd samræmdra prófa, námsmat í sérskólum og Þróunarsjóð. Taka flestar þessara reglugerða gildi 1. ágúst næstkomandi.

Menntamálaráðuneytið gegnir áfram mikilvægu hlutverki við mótun menntastefnu. Vinna er hafin við endurskoðun aðalnámskrár en dreifing á valdi í skólamálum gerir miklar kröfur til námskrárgerðar. Lít ég á það sem höfuðviðfangsefni í menntamálum nú þegar grunnskólinn flyst og ný framhaldsskólalög hafa verið samþykkt, að námskrár í grunn- og framhaldsskólim verði gerðar þannig úr garði, að íslenska skólakerfið sé í fremstu röð á alþjóðlegan mælikvarða og þeir, sem hafa gengið í gegnum það, geti nýtt sér hin bestu tækifæri, hver á sínu sviði. Innan tíðar verður áætlun vegna þess mikla starfs kynnt nánar. Stefni ég að því, að verkinu ljúki á tveimur árum bæði fyrir grunnskóla og framhaldsskóla.

Þegar litið er á valdsvið menntamálaráðuneytisins eftir að grunnskólalögin koma að fullu til framkvæmda er ástæða til að vekja sérstaka athygli á 9. grein laganna, þar sem segir, að menntamálaráðherra fari með yfirstjórn málaflokksins og hafi eftirlit með því, að sveitarfélögin uppfylli þær skyldur, sem kveðið er á um í lögum, reglugerðum og aðalnámskrá. Ráðuneytið annast upplýsingaöflun um skólahald og skólastarf og er ráðherra skylt að gera Alþingi grein fyrir framkvæmd skólastarfs á þriggja ára fresti. Þá hefur menntamálaráðuneytið úrskurðarvald í einstökum málum, sem snerta skólahald og starf í grunnskólum.

Megintilgangur upplýsingaöflunar og eftirlits með skólahaldi er að fá fram vitneskju um hvort það sé í samræmi við menntastefnu stjórnvalda. Fylgst verður með því, hvort og hvernig tekst að framfylgja ákvæðum laga og reglugerða. Í grunnskólalögunum er mælt fyrir um nýmæli í eftirliti, öflun og miðlun upplýsinga um skólastarf. Vinnureglur um þetta efni eru í mótun. Eftirlitið felst lögum samkvæmt í samræmdum prófum, úttektum á sjálfsmatsaðferðum skóla og reglubundnu mati á einstökum þáttum skólastarfs. Reglur um þetta verða ekki smíðaðar á skömmum tíma heldur þurfa þær að þróast og mótast.

Á vegum ráðuneytisins og ýmissa aðila, sem sinna skólarannsóknum, er nú unnið að því að þróa mat á skólastarfi, sem hentað geti hér á landi. Ýmsar leiðir hafa verið reyndar og verða efalaust reyndar á næstu misserum og árum. Matsaðferðir eru einnig háðar aðstæðum í viðkomandi skólum og því óvíst, hvort nokkurn tíma verði unnt að svara því með einhlítum hætti, hvernig menntamálaráðuneytið hagi úttekt sinni á sjálfsmatsaðferðum skóla. Sjálfsmat skólanna er hins vegar unnið innan þeirra sjálfra af starfsfólki þeirra. Skólanámskrá er mikilvægt tæki hvers skóla til að marka starfi sínu ramma. Hún er í raun andlit skólans.

Innan menntamálaráðuneytisins er nú að hafið starf, sem lýtur að innra skipulagi ráðuneytisins sjálfs og breytingum þar vegna breyttra verkefna.

Staðinn vörður um hagsmuni nemenda

Flutningur grunnskólans byggist á vilja til að dreifa valdi og stuðla að nokkurri samkeppni í þeirri vissu, að unnt sé að gera betur. Stjórn skólanna er færð nær borgurunum og til fulltrúa þeirra í sveitarstjórnum, foreldrar fá nýtt hlutverk og skólamenn aukið sjálfstæði til að taka ákvarðanir um stofnanir sínar. Jafnframt er lögð áhersla á að fylgjast með árangrinum. Upplýsingamiðlun um niðurstöður samræmdra prófa og skólastarf á að aukast. Samræmd próf og gæðastaðlar eru forsendur þess, að unnt sé að dreifa valdi í skólakerfinu og standa vörð um hagsmuni nemenda.

Markmið um bætta menntun nást ekki nema grunnskólinn og allir aðrir skólar séu í höndum manna, sem vilja þeim vel og hafa skilning á þörfum þeirra. Ég efast ekki um, að grunnskólinn sé í góðum höndum hjá sveitarstjórnarmönnum. Þessi aukna valddreifing kallar á gott samstarf sveitarstjórnarmanna, menntamálaráðuneytis, skólastjórnenda, kennara, foreldra og annarra sem að starfsemi skólanna koma. Markmiðið er að bæta menntun í landinu. Hin góða samvinna, sem tókst um flutning grunnskólans, gefur gott fyrirheit um framhaldið.



--------------------------------------------------------------------------------

Með flutningi grunnskólans til sveitarfélaga er stjórn skólanna færð nær borgurunum og til fulltrúa þeirra í sveitarstjórnum segir Björn Bjarnason. Foreldrar fá nýtt hlutverk og skólamenn aukið sjálfstæði til að taka ákvarðanir um stofnanir sínar.