17.7.1996

Réttur heyrnarlausra og fjöldi kennslustunda

Réttur heyrnarlausra og fjöldi kennslustunda
Morgunblaðið 17. júlí 1996.

Í Morgublaðinu sunnudaginn 14. júlí birtist annars vegar frásögn um stöðu heyrnarlausra og hins vegar grein um fjölda kennslustunda í grunnskólum. Í báðum tilvikum gefur málflutningur tilefni til athugasemda.

Nýting skólahúsnæðis og umboðsmaður barna

Áður en skólum lauk í vor, heimilaði menntamálaráðuneytið, að kannað yrði, hvort hús í Vesturhlíð, rétt við Fossvogskapellu í Reykjavík, sem nýtt hefur verið af Samskiptamiðstöð heyrnarlausra hentaði undir nemendur Öskjuhlíðarskóla. Er skólinn þarna í næsta nágrenni og Samskiptamiðstöð heyrnarlausra að flytja úr Vesturhlíðinni.

Gunnar Salvarsson, skólastjóri Vesturhlíðarskóla, brást þannig við þessari ákvörðun ráðuneytisins, að hann sagði stöðu sinni lausri frá og með 1. júní. Telur hann þetta aðför að táknmálsumhverfi heyrnarlausra í Vesturhlíðarskóla. Hlutlaus fagmaður, sem hefur samið greinargerð um málið fyrir menntamálaráðuneytið, kemst að annarri niðurstöðu en skólastjórinn fráfarandi.

Undanfarið hef ég rætt við fjölmarga fulltrúa heyrnarlausra og aðstandenda þeirra um þessi húsnæðismál og önnur hagsmunamál þeirra. Hef ég lýst vilja til að vinna að þeim málum innan þeirra marka, sem menntamálaráðuneytinu eru sett. Í því efni hef ég bent á, að með nýsamþykktum framhaldsskólalögum er brotið í blað, þegar sagt er, að með reglugerð á grundvelli 20. gr. laganna skuli kveðið á um rétt heyrnarlausra nemenda til sérstakrar íslenskukennslu. Er með þessu ákvæði gengið lengra en áður í sambærilegri löggjöf til móts við óskir heyrnarlausra. Jafnframt hef ég lýst yfir því, að við gerð nýrrar aðalnámskrár fyrir gunn- og framhaldsskóla skuli hugað sérstaklega að hagsmunum heyrnarlausra, en námskráin er ígildi reglugerðar.

Þá hef ég átt í bréfaskiptum við umboðsmann barna um málefni heyrnarlausra. Er þeim ekki lokið af minni hálfu, þó birtist frétt um bréfaskiptin í Morgunblaðinu hinn 12. júlí. Er ólíklegt, að umboðsmaður barna vilji nota Morgunblaðið til orðaskipta við ráðherra um málefni, sem hann fær til meðferðar. Væri það nýmæli í slíkum samskiptum um viðkvæm mál, sem ekki verða til lykta leidd nema með góðum og málefnalegum undirbúningi, enda þótti mér ekki við hæfi að svara bréfi umboðsmanns barna frá 26. júní í Morgunblaðinu. Taldi ég, að sú afstaða kæmi fram í blaðinu eftir samtal mitt við blaðamann þess 12. júlí. Í Morgunblaðinu gengur Gunnar Salvarsson, fráfarandi skólastjóri, hins vegar fram fyrir skjöldu með bréf umboðsmanns barna að vopni, og telur nú, að ráðstöfun á húsi í Vesturhlíð til Öskjuhlíðarskóla sé “í andstöðu við álit umboðsmanns barna" eins og segir í fréttinni. Veit ég ekki til þess, að umboðsmaðurinn hafi nokkurs staðar komist að þeirri niðurstöðu eða hafi forsendur til þess.

Kennslustundafjöldi

Nýlega fjallaði Jónína Gissurardóttir félagsfræðingur í fréttabréfi Vinnuveitendasambandsins um þá staðreynd, að fjöldi kennslustunda í grunnskólum hér á landi er færri en í ríkjum Evrópusambandsins og Noregi. Vakti þetta töluverða athygli og umræður.

Már Vilhjálmsson kennari ritar grein um málið í Morgunblaðið 14. júlí. Þar vitnar hann til einhverra ummæla minna af þessu tilefni og telur þau ótrúleg, ef rétt séu eftir höfð. Már þarf ekki að vera í neinum vafa um hvað ég sagði í Morgunblaðinu, því að það birtist þar 26. júní síðastliðinn:

“Hér hafa menn að sjálfsögðu samið við kennara um þeirra starfstíma og jafnframt reynt að spara af megni. Ætli menn almennt að stefna að fjölgun kennslustunda þýðir það að fjölga verður kennsludögum, og eyða meiri fjármunum til þessara mála. Mér sýnist allar umræður vera með þeim formerkjum að menn telji þetta ástand ekki eðlilegt, enda hafa verið gerðar ráðstafanir af löggjafanum og í samningum ríkisins og sveitarfélaga um flutning grunnskólans, er gera ráð fyrir auknu fé til grunnskólans svo að hægt sé að veita sem besta menntun. Í verkefnaáætlun minni í ráðuneytinu er atriði um að íslenskt skólakerfi sé sambærilegt og veiti sambærilega þjónustu og menntun og best gerist annars staðar. Þetta eru þau markmið sem við höfum."

Már kýs að líta fram þessum ummælum, sem verða ekki misskilin. Hann velur þann kost að segja lesendum sínum, að ráðherra geti með einu pennastriki fjölgað kennslustundum að eigin geðþótta. Már Vilhjálmsson, formaður hagsmunanefndar Hins íslenska kennarafélags, hlýtur að vita betur og er hann þó í grein sinni að vara við sleggjudómum. Hér þarf samstillt átak margra og samstöðu um forgangsröð við ráðstöfun opinbers fjár. Alþingi, ríkisstjórn og sveitarfélögin hafa sameinast um áætlun í þessu skyni og verður hún framkvæmd á næstu árum.