10.7.1996

Íslensk byggingarlist - sýning, ávarp

Íslensk byggingarlist - sýning í Ráðhúsi Reykjavíkur
10. júlí 1996 - ávarp.

Um síðustu helgi átti ég þess kost að heimsækja nokkra staði á Norðurlandi vestra. Alls staðar var á móti okkur tekið með því að sýna merkileg hús, hvort heldur þau væru gömul eða ný. Af hinum gömlu bar Hóladómkirkju hæst og af þeim nýju kirkjuna á Blönduósi. Þar á milli heimsóttum við gömul timburhús, sem öll hafa fengið ný hlutverk á heimaslóðum sínum hvort heldur Siglufirði, Hofsósi eða Blönduósi.

Í hinni glæsilegu og fróðlegu skrá, sem fylgir þessari sýningu, og á sýningunni sjálfri eru einmitt myndir af kirkjunum tveimur, sem ég nefndi. Hvor með sínum hætti eru þær vörður í sögu íslenskrar byggingarlistar.

Þessi saga er tiltölulega stutt þegar litið er til mannvirkja, sem enn standa. Við eigum ekki margra alda gamla kastala eða stórkirkjur. Á hinn bóginn hefur tekist að endurbyggja gamla torfbæi og verður hlutur Harðar Ágústssonar við það starf og rannsóknir á þeim þætti menningarsögu okkar seint fullþakkaður.

Í seinni tíð eru deilur sjaldan ákafari hér en þegar nýjar byggingar eiga í hlut og þar með verk arkitekta.

Raunar er hið listilega hús, þar sem við erum nú eitt skýrasta dæmið úr seinni tíma sögu um umdeilt mannvirki eða Perlan í Öskjuhlíð, sem í inngangi sýningarskrárinnar er nefnd til dæmis um það, hvernig náttúran verður þáttur í byggingarlistinni á eigin forsendum. Á Blönduósi var okkur bent á fjallið, sem blasir við frá nýju kirkjunni og var fyrirmynd arkitekts hennar.

Íslensk húsagerðarlist mótast af umhverfi sínu og á eigin forsendum. Er brýnt, að þannig verði um hnúta búið, að hér verði unnt að veita skipulega fræðslu í þessari listgrein. Í því sambandi ber að fagna frumkvæði íslenskra arkitekta að sumarnámskeiðum undir merkjum Ísark. Þar hafa erlendir arkitektar fengið sem verkefni að glíma við séríslensk viðfangsefni. Takist samvinna um stofnun Listaháskóla Íslands ættu að skapast varanlegri forsendur fyrir arkitektanámi hér á landi. Að því hljótum við öll að stefna. Í samvinnu menntamálaráðuneytis og arkitekta er hafinn undirbúningur að því að skipuleggja slíkt nám í húsagerðarlist. Markmiðið á að vera, að á Íslandi verði unnt að stunda hluta af fullnaðarnámi í greininni.

Áfram er þó eðlilegt, að arkitektar sæki einnig nám erlendis, því að það gefur íslenskri húsagerðarlist einnig sérkenni, að í henni mætast margir straumar.

Er ástæða til að vekja máls á þessu hér, því að þessi sýning "Íslensk byggingarlist" er unnin af Arkitektaskólanum í Árósum í tilefni af 50 ára afmæli íslenska lýðveldisins. Um leið og framtak skólans er innilega þakkað er ástæða til að óska honum til hamingju með sýninguna og öllum, sem að henni hafa komið.

Sýningin er ekki aðeins til marks um glæsilegan árangur íslenskra arkitekta heldur er hún einnig hvatning til að nýta sérstöðu Íslands enn betur til listsköpunar á þessu sviði.