24.6.1996

Útflutningsátak - ávarp

Ávarp við afhendingu útskriftarskírteina vegna verkefnisins:
Útflutningsaukning og hagvöxtur
Hótel Sögu, 24. júní 1996.

Á liðnum vetri var unnið að gjörbreytingu á skólakerfi okkar, þegar gengið var frá öllum framkvæmdaratriðum vegna flutnings grunnskólans frá ríki til sveitarfélaganna. Um leið og þessi mikilvæga skipulagsbreyting er gerð hafa verið teknar ákvarðanir um að veita auknu fé til grunnskólans meðal annars í því skyni að lengja námstíma nemenda. Er ástæða til að vekja máls á þessu hér vegna umræðna undanfarna daga um þá staðreynd, að íslenskir grunnskólanemendur standi ver að vígi en jafnaldrar þeirra erlendis vegna þess að þeir fái talsvert minni kennslu en þeir. Á það bæði við um fjölda kennsludaga og daglega viðveru íslenskra barna í skólum.

Gleðilegt er, að athygli er vakin á þessum staðreyndum í fréttabréfi Vinnuveitendasambands Íslands, því að breyting verður ekki nema allir, sem hagsmuna hafa að gæta, láti í sér heyra. Fáir eiga meira í húfi en þeir, sem stunda samkeppni á alþjóðavettvangi, þegar litið er til hæfra og velmenntaðs starfsfólks. Stuttri grein sinni um málið í fréttabréfinu lýkur Jónína Gissurardóttir með þessum orðum:

"Íslenskir grunnskólanemendur fá ekki nema um 70% af þeirri kennslu sem almennt tíðkast í löndum Evrópusambandsins og er hætta á að íslenskir námsmenn dragist aftur úr. Leiða má hugann að stöðu skólamála á Íslandi í framtíðinni ef ekki verður gerð breyting á þessu. Sú mikla umræða sem uppi hefur verið í þjóðfélaginu um samkeppnishæfni virðist ekki hafa náð til skólamála hér."

Eitt er samkeppni innan skólakerfisins, sem ég tel að þurfi að auka, annað að átta sig á þeirri staðreynd, að samkeppnishæfni íslensku þjóðarinnar ræðst af menntunarstigi hennar. Við höfum of lengi litið til náttúrauðlinda okkar í hafinu og iðrum jaðrar, þegar lagt er á ráðin um framtríðarauð þjóðarinnar. Við höfum verið tregari til að fjárfesta í þeirri náttúruauðlind, sem felst í manninum sjálfum.

Að vísu má segja að allir séu með það á vörunum, að leggja beri áherslu á menntun og menningu. Þegar kemur að því að opna þjóðarbudduna, vilja fjármunirnir gjarnan renna annað en til menntunar, rannsókna og vísinda. Forgangsröðun í þá veru á ekki alltaf upp á pallborðið, þegar útgjöldin eru ákveðin. Útlendingar fjárfesta hér vegna orkugjafanna og kaupa af okkur sjávarafurðir. Það er hins vegar okkar að sjá til þess, að hér sé verkmenntun og almenn þekking byggð á rannsóknum með þeim hætti, að íslenska þjóðfélagið standist samkeppni við hið besta sem þekkist. Er gleðiefni, að æ fleiri átta sig á því, að góð menntun er besti lykillinn að bjartari framtíð.

Ég lít þannig á, að tilmæli til mín sem menntamálaráðherra að koma hingað í dag og afhenda námsskírteini sé staðfesting á vilja Útflutningsráðs Íslands til að árétta gildi menntunar fyrir útflutning og hagvöxt.

Verkefnið Útflutningsaukning og hagvöxtur er til marks um góða og skynsamlega viðleitni til að opna augu manna fyrir hagnýtu gildi rannsókna. Auðvitað er það ekki svo, að allar lausnir, sem menn hafa fundið við þessar rannsóknir nýtist strax og sumar komast kannski aldrei í framkvæmd. Vinnan sjálf eða verkefnið hefur hins vegar jafnt bein og óbein áhrif.

Um leið og sjóndeildarhringurinn stækkar á hið sama við um fyrirtæki og einstaklinga, að fleira finnst en það, sem helst var leitað. Á þeim tíma, sem liðin er síðan Útflutningsráð steig fyrsta skref sitt á þessari braut 1989, hefur gefist tækifæri til að meta árangurinn hjá einstökum fyrirtækjum. Slíkt mat bendir eindregið til þess, að jafnt velta og útflutningur hefur aukist um tugi og jafnvel hundruð prósentustiga. Þá hefur störfum í fyrirtækjunum stórfjölgað.

Nú er ljóst, að íslenskt efnahagslíf er á hraðri leið út úr lægð og stöðnun. Menn sjá jafnvel hættuboða vegna of mikillar þenslu. Það er oft erfiðara að kunna fótum sínum forráð, þegar vel gengur, en leita leiða út úr erfiðleikum. Ég vona, að þeir, sem hér útskrifast í dag verði virkir þátttakendur í uppsveiflunni og okkur öllum takist að halda hraða hennar innan hóflegra marka.

Ég vil þakka Útflutningsráði, Íslandsbanka, Iðnlánasjóði og Stjórnunarfélagi Íslands hlut þeirra að þessu verkefni og vona, að það megi halda áfram að dafna okkur öllum til góðs. Þá vil ég óska þeim, sem nú útskrifast sérstaklega til hamingju og biðja þá að ganga fram og taka við skírteinum sínum til marks um að góðum árangri og mikilvægum áfanga er náð.