12.6.1996

Framhaldsskólalögin nýju - ræða á aðalfundi Skólameistarfélagsins

Ræða á aðalfundi Skólameistarafélagsins á Húsavík
12. júní 1996.

Alþingi samþykkti frumvarp til nýrra framhaldsskólalaga 29. maí síðastliðinn. Frumvarpið var fyrst lagt fram vorið 1994 og að nýju á Alþingi haustið 1995. Eftir stjórnarskipti vorið 1995 var frumvarpið tekið til skoðunar og lagt fram að nýju í nokkuð breyttri mynd en á sama grunni síðastliðið haust.

Menntamálanefnd Alþingis tók málið til gaumgæfilegrar athugunar á liðnum vetri. Innan hennar náðist ekki full samstaða um málið meðal annars vegna þess að deilt var um réttarstöðu kennara í ljósi breytinga á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þótt deilur væru í nefndinni, tókst formanni hennar Sigríði Önnu Þórðardóttur að leiða málið til lykta á vettvangi hennar. Eftir það gekk frumvarpið næsta snurðulaust í gegnum þingið. Breytingartillögur frá stjórnarandstöðu voru allar felldar, en þær komu frá þingmönnum, sem ekki eiga sæti í menntamálanefnd þingsins.

Vil ég þakka Sigríði Önnu sérstaklega fyrir hlut hennar að þessu máli frá upphafi, því að frumvarpið er afrakstur af starfi nefndar, sem hún veitti formennsku, um mótun nýrrar menntastefnu og skipuð var á síðasta kjörtímabili og skilaði þá mikilvægu áliti. Á grundvelli nefndarstarfsins samþykkti Alþingi í febrúar 1995 ný lög fyrir grunnskóla, sem koma að fullu til framkvæmda 1. ágúst næstkomandi eftir að Alþingi hefur nú uppfyllt öll skilyrði fyrir gildistöku þeirra laga. Með samþykkt framhaldsskólafrumvarpsins nú hefur skapast ný samfella í starfi á þessum tveimur skólastigum, sem mikilvægt er að nýta nemendum og skólastarfi til eflingar.

Reynsla mín í starfi menntamálaráðherra segir mér, að á framhaldsskólastiginu hafi verið brýn þörf fyrir samþykkt nýrra laga og það starf, sem í kjölfar þeirra siglir og lýtur að skipulagi skólastarfs á þessu stigi. Hér er ástæðulaust fyrir mig að endurtaka almennar yfirlýsingar til stuðnings einstökum ákvæðum í nýjum lögum. Þvert á móti lít ég þannig á, að hingað hafi ég verið beðinn að koma til að skýra frá því, hvers sé að vænta í framhaldinu, hvernig menntamálaráðherra og ráðuneyti hans ætli að taka á málum.

Mér er ljúft að verða við óskum um þetta efni, því að ég lít á góða og skjóta framkvæmd þessara laga sem eitt af brýnustu verkefnum ráðuneytisins nú þegar teknar hafa verið allar meginákvarðanir um flutning grunnskólans og hann er svo að segja í höfn. Vil ég í stuttu máli lýsa því, hvernig að skipulagi var staðið í því efni, þar sem ég tel, að svipað fyrirkomulag kunni að reynast vel fyrir framhaldsskólastigið.

Undir lok júnímánaðar í fyrra var komið á fót verkefnisstjórn með aðild þriggja ráðuneyta, fulltrúa kennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Jafnframt voru settar á laggirnar þrjár nefndir til að sinna sérgreindum verkefnum og skiluðu þær tillögum sínum til verkefnisstjórnar. Á vettvangi þessara nefnda náðist samkomulag um flesta þætti. Þeir, sem sættu ágreiningi, komu til minna kasta eða ráðherranefndar og ríkisstjórnarinnar eða sérstakrar samninganefndar, en til hennar var stofnað til að komast að samkomulagi um fjárhagslegt uppgjör milli ríkis og sveitarfélaga. Hef ég ekki orðið var við annað en þessi skipan hafi mælst mjög vel fyrir og skilað þeim árangri, sem að var stefnt. Dregur nú að því, að gefnar verði út allar reglugerðir, sem byggjast á grunnskólalögunum og er við það miðað, að þær taki helst allar gildi 1. ágúst næstkomandi.

Ég hef í hyggju að koma á svipuðu skipulagi varðandi þá vinnu, sem nú er fyrir höndum á grundvelli framhaldsskólalaganna. Að um samráð um málið í heild verði að ræða en einnig skipaðar nefndir til að sinna einstökum sérverkefnum eftir því sem þurfa þykir.

Hið íslenska kennarafélag lýsti sig andvígt framhaldsskólafrumvarpinu. Mun á það reyna, hvort félagið er svo hart í andstöðu sinni við málið, að það vilji ekki taka þátt í að smíða reglugerðir á grundvelli laganna. Ég hef lagt áherslu á það í samtölum mínum við forystumenn kennara, að samráð sé til þess fallið að stuðla að greiðari úrlausn mála en í því felist alls ekki, að menn þurfi að vera sammála um allt eða bindi hendur hver annars. Raunar átti ég samtöl við forystumenn Hins íslenska kennarafélags á meðan framhaldsskólafrumvarpið var til meðferðar á Alþingi og tel, að komið hafi verið til móts við flest meginatriði í óskum þeirra.

Að loknum þessum almennu orðum skal nú vikið að hinum nýju lögum og framkvæmd þeirra. Lögin eru í 48 greinum og auk þess þrjú ákvæði til bráðabirgða, það er því of langt mál hér að fara orðum um hverja grein, enda ástæðulaust.

Lögin taka gildi 1. ágúst 1996 og skulu komin að fullu til framkvæmda í upphafi skólaársins 2000-2001. Gildistaka 11. gr. laganna, sem kveður á um tímabundna skipun skólastjórnenda og afnám réttar kennara í framhaldsskólum til skipunar, á samkvæmt lögunum að vera þegar réttur ríkisstarfsmanna til æviráðningar hefur verið afnuminn samkvæmt almennum ákvæðum laga um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna.

Markmiðið með þessari útfærslu í gildistökuákvæði laganna er að tryggja, að réttarstaða kennara og skólastjórnenda í framhaldsskólum sé ekki síðri en réttarstaða ríkisstarfsmanna almennt hvað rétt til ótímabundinnar skipunar snertir.

Nú liggur fyrir að samþykkt hafa verið ný lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem taka gildi hinn 1. júlí n.k. Samkvæmt þeim er skipun í störf óheimil að lögum eftir 1. júlí nema um embættismenn sé að ræða.

Með hinum nýju framhaldsskólalögum hefur verið tekið mið af því fyrirkomulagi sem kveðið er á í nýju lögunum um réttindi og skyldur og starfskjör skólastjórnenda og framhaldsskólakennara sniðin að þeim sjónarmiðum sem sett hafa verið með þeim lögum og við munum búa við í næstu framtíð.

Frá og með 1. júlí 1996 er því æviráðning við framhaldsskóla afnumin.

Nokkur spenna var í kringum 3. grein frumvarpsins, þar sem kveðið var á um 150 kennsludaga, en í meðförum þingnefndarinnar fækkaði þeim í 145 og er fjöldi þeirra lögfestur þannig. Hið íslenska kennarafélag telur, að þessi fjöldi kennsludaga brjóti í bága við gildandi kjarasamninga. Þeirri skoðun hef ég afdráttarlaust mótmælt. Á hinn bóginn taldi ég, að yrði gengið til þess að framkvæma 145 daga regluna næsta haust miðað við gildistöku laganna 1. ágúst væri stefnt í óefni af tæknilegum ástæðum. Lýsti ég þess vegna yfir á Alþingi, að þetta ákvæði 3. greinar laganna kæmi ekki til framkvæmda fyrr en skólaárið 1997 til 1998. Fyrir þann tíma verður gengið til kjaraviðræðna milli ríkis og kennara og geta þá aðilar kynnt sjónarmið sín og vonandi komist að sameiginlegri niðurstöðu.

Þá vil ég vekja athygli á því, að með hinum nýju lögum eru fern eldri lög fyrir utan framhaldsskólalögin frá 1988 felld úr gildi, það eru lög um fiskvinnsluskólann, almenna fullorðinsfræðslu, vélstjóranám og Stýrimannaskólann í Reykjavík. Í þessu felst, að þetta skólastarf fellur nú undir framhaldsskólalöggjöfina, þar sem skólar eru flokkaðir sem fjölbrautarskólar, iðn- og verkmenntaskólar og menntaskólar auk skóla, sem veita sérhæft nám á framhaldsskólastigi. Lít ég þannig á, að Stýrimannaskólinn og Vélskólinn veiti sérhæft nám, séu með öðrum orðum sérskólar.

Í bráðabirgðaákvæði laganna segir, að samræmd lokapróf úr framhaldsskóla skuli ekki að fullu koma til framkvæmda fyrr en skólaárið 2000-2001. Þá eiga ákvæðin um starfsnám að vera komin til fullra framkvæmda innan fjögurra ára frá gildistöku laganna á grundvelli reglugerðar um framkvæmd einstakra þátta í lögunum. Loks er í bráðabirgðaákvæði laganna mælt fyrir um heimild í næstu tvö ár til að ganga undir verklegt sveinspróf í löggiltri iðngrein án undangengis skólanáms. Að þeim tíma liðnum verður óheimilt að gangast undir slíkt próf án undangengis skólanáms.

Þótt þeirri stefnu væri fylgt við gerð laganna, að heimild ráðherra til útgáfu reglugerða og reglna skyldu settar skorður var ekki hjá því komist að setja ákvæði um slíkt inn í einstakar greinar.

Skulu nú talin þau atriði, sem setja þarf um reglugerðir eða reglur á grundvelli hinna nýju laga:


Sérskóla, sem starfa samkvæmt lögunum (1.gr.).
Starfstíma skóla og leyfisdaga (3.gr.).
Aðalanámskrá, eftirlit með skólastarfi og námsefni, ráðgjöf um kennslu og þróunarstarf, söfnun og dreifingu upplýsinga um skólastarf (4.gr.).
Skipan og hlutverk skólanefnda sérskóla (6.gr.).
Innritunar- og efnisgjöld (7. gr.).
Skipan og störf skólanefnda (7.gr.).
Skipan skólaráðs, verksvið þess, starfstíma og starfshætti (heimild í 8.gr.).
Kennarafundi (9.gr.).
Menntun og starfssvið námsráðgjafa og starfsfólks skólasafna (11.gr.). Einnig menntun og starfssvið annarra starfsmanna (heimild í 11.gr.). Starfssvið skólameistara, kennara og annarra starfsmanna skóla (11. gr.)
Framkvæmd námsorlofs kennara (12.gr.).
Lágmarkskröfur um námsárangur í einstökum greinum og greinaflokkum við lok grunnskóla og starfsþjálfun þar sem hennar er krafist (15. gr.).
Námsbrautir (16. gr.).
Fornám og skilyrði fyrir stofnun þess (18. gr.).
Kennslu og nám fatlaðra nemenda í framhaldsskólum (19.gr.).
Rétt nemenda, sem hafa takmarkaða kunnáttu í íslensku, til sérstakrar kennslu í málinu. Einnig um rétt heyrnarlausra nemenda til sérstakrar íslenskukennslu (20. gr.).
Aðalnámskrá - hún hefur ígildi reglugerðar (21. gr.).
Framkvæmd samræmdra prófa og sveinsprófa (24. gr.).
Starfsreglur Samstarfsnefndar um starfsnám á framhaldsskólastigi (27. gr.).
Námskrá í sérgreinum starfsnáms (29. gr.).
Framhaldsskóli eða deild í honum verður kjarnaskóli (heimild 31. gr.).
Starfsþjálfunarsamninga, form, staðfestingu, skráningu námssamninga svo og samningsslit og meðferð ágreiningsefna (32. gr.).
Fullorðinsfræðslu og endurmenntun (33. gr.).
Fullorðinsfræðslumiðstöðvar (35. gr.).
Stærð og gerð húsnæðis framhaldsskóla, málsmeðferð við undirbúning framkvæmda. Stofnkostnað og búnað og skiptingu áætlaðs byggingarkostnaðar (viðmðunarreglur í 37. gr.).
Reiknilíkan fyrir kennslukostnað. Reglur um framlög til annarra starfa en kennslu (39. gr.).
Hlut nemenda í sérgreindum kostnaði þeirra í heimavistum og rekstri mötuneyta (reglur í 40. gr.).
Viðurkenning á einkaskólum (reglur í 41. gr.).
Styrkveitingar úr Þróunarsjóði framhaldsskóla (45. gr.).
Hér hafa verið talin 28 atriði, þar sem setja þarf reglugerðir eða reglur eða heimilt er að gera það. Eins og upptalningin ber með sér þarf víða að leita ráða til að sem best verði staðið að úrlausn þessara mála á grundvelli laganna. Hver grein í lögunum hefur ákveðinn tilgang og setur ramma um sitt svið.
Eins og áður sagði er það ætlan mín að kalla fólk utan ráðuneytis til vinnu við útfærslu á þessum þáttum. Verður í því efni meðal annars leitað til Skólameistarafélagsins. Viðhorf ráðuneytisins myndi koma fram í erindisbréfi nefnda. Að öðru leyti hefði hver nefnd sjálfræði um vinnu og útfærslu einstakra atriða, þótt undirstrika verði, að lokaákvörðun og ábyrgð er lögum samkvæmt hjá ráðherra. Finnst mér ástæða til að taka þetta fram, því að ég hef orðið var við, að aðilar, sem hafa umsagnar- eða ráðgjafarstöðu, telja það vantraust á sig og segja jafnvel af sér, ef ekki er farið að tillögum þeirra.

Yrði staðið vel að verki mætti vænta þess, að starf við smíði þessara reglugerða og reglna gæti hafist síðsumars og mestum hluta þess yrði lokið um næstu áramót. Held ég, að allir, sem að skólastarfi koma kjósi skjót vinnubrögð í þessu efni og að sem fyrst liggi almennar og skýrar reglur fyrir.

Eins og fram kom í upptalningunni er aðalnámskrá ígildi reglugerðar lögum samkvæmt. Vinna við gerð hennar tekur lengri tíma en fram að áramótum. Undirbúningur þessarar vinnu er hafin bæði á grunnskóla- og framhaldsskólastigi og er ætlunin, að um samstiga starf verði að ræða. Jónmundur Guðmarsson stjórnmálafræðingur hefur verið ráðinn verkefnisstjóri. Þrír starfsmenn ráðuneytisins, Stefán Baldursson skrifstofustjóri og deildarstjórarnir Hörður Lárusson og Hrólfur Kjartansson, eru í verkefnisstjórn og mun hún stjórna verkinu í mínu umboði, ákveða vinnulag og form, móta verklýsingar, bera ábyrgð á framvindu verksins, skera úr um ágreiningsatriði og samþykkja lokadrög að námskránni. Þá mun ég kalla til stefnumótunarnefnd með þátttöku stjórnmálamanna úr öllum flokkum til að fjalla um námskrárstefnu, sem lögð verður til grundvallar við endurskoðunina. Þá verður ráðin ritstjórn og síðan faglegir umsjónarmenn og með þeim munu vinnuhópar starfa til að greina meginþætti fyrri stefnu á hverju námssviði, útfæra námskrárstefnu ráðuneytsins, rita námsbrauta- og námsgreinarlýsingar og endurskoða drög eftir tilmælum ritstjórnar.

Þessi lýsing á skipulaginu nægir í raun því til sönnunar, að hér er um mikið en óhjákvæmilegt og brýnt verkefni að ræða. Hef ég þó rökstudda ástæðu til að ætla, að því megi ljúka á árinu 1998.

Samkvæmt 6. grein laganna sitja fimm menn í skólanefndum framhaldsskóla, skipaðir til fjögurra ára í senn af menntamálaráðherra. Má heimila sveitarstjórn eða sveitarstjórnum að tveir eða fleiri skólar sameinist um eina skólanefnd. Tveir skólanefndarmanna eru skipaðir samkvæmt tilnefningu sveitarstjórnar eða sveitarstjórna og þrír án tilnefningar og skulu þeir að jafnaði búsettir í sveitarfélagi, sem á aðild að skólanum. Nefndin kýs sér formann til eins árs í senn. Kennarar og nemendur eiga hvor um sig áheyrnarfulltrúa í skólanefnd með málfrelsi og tillögurétt. Skólameistari situr fundi nefndarinnar með sama rétti og er hann framkvæmdastjóri skólanefndar.

Innan skamms verður gengið til þess að óska eftir tilnefningum í hinar nýju skólanefndir, sem taka eiga til starfa 1. ágúst næstkomandi. Í þeim tilvikum, þegar kjörtímabil fráfarandi skólanefndar rennur út fyrir þann tíma, hef ég mælst til þess, að nefndin sitji áfram til 1. ágúst.

Samkvæmt 26. grein laganna ber að skipa 18 manna samstarfsnefnd um starfsnám á framhaldsskólastigi til fjögurra ára í senn. 15 fulltrúar í þessari nefnd er bundnir við tilnefningar, þeirra á meðal eru tveir fulltrúar tilnefndir sameiginlega af samtökum kennara og skólastjórnenda, og skal annar þeirra vera starfsmenntakennari en hinn stjórnandi starfsmenntaskóla. Formaður er skipaður af menntamálaráðherra.

Verður leitað eftir tilnefningum í þessa nefnd innan skamms tíma.

Þá ber ráðherra einnig samkvæmt 28. grein laganna að skipa til fjögurra ára í senn starfsgreinaráð fyrir starfsgreinaflokka og starfsgreinar. Fjöldi í þessum ráðum ræðst af aðstæðum í hverri starfsgrein, en menntamálaráðherra skipar einn fulltrúa í hvert ráð. Á vegum þessara ráða verður unnið að tillögum um námskrá og fleira er lýtur að viðkomandi starfsnámi. Þá þarf umsögn starfsgreinaráðs og atbeina að öðru leyti til að skóli eða deild í skóla verði kjarnaskóli.

Hætt er við, að flóknara verði að koma á fót starfsgreinaráðum en skólanefndum og samstarfsnefndinni um starfsnám. Löggjafinn slær meira að segja þann varnagla, að takist ekki að skipa starfsgreinaráð sé menntamálaráðherra heimilað að skipa tímabundið sérstaka starfshópa til að sinna verkefnum ráðsins.

Hér hef ég gert grein fyrir þeim nefndum og ráðum, sem skipuð verða á næstu mánuðum. Er ljóst af þessari upptalningu, að nauðsynlegt verður að finna marga hæfar konur og karla til þessara starfa. Skynsamlegar tillögur eru vel þegnar, hvaðan sem þær koma.

Í umræðum á Alþingi var töluvert rætt um það nýmæli í lögunum, að sveitarfélag eða sveitarfélög skuli greiða allt að 40% kostnaðar við byggingarframkvæmdir heimavista framhaldsskóla. Var flutt tillaga um að þessu nýmæli yrði hafnað en hún felld. Ég hét því í umræðum á þingi, að gerð yrði úttekt á þörfinni fyrir heimavistir. Nemendaspár hafa yfirleitt reynst ótraustar en athuga þarf eftirspurn undanfarin ár. Þegar rætt er um skort á heimavistum eru þessir staðir nefndir: Akranes, Sauðárkrókur, Akureyri, Húsavík, Egilsstaðir og Laugarvatn.

Ferðaskrifstofa Íslands hefur snúið sér til ráðuneytisins og óskað eftir viðræðum við það um nýtingu og uppbyggingu heimavista fyrir ferðaþjónustu. Tel ég nauðsynlegt, að litið sé á þá ósk með heildarstefnu í huga og hef lýst áhuga á því, að efnt verði til málþings um nýtingu skólahúsnæðis í þágu ferðaþjónustu. Þangað kæmu talsmenn ferðaþjónustunnar, fulltrúar skólameistara, sveitarfélaga og námsmannasamtaka. Er eðlilegt að menntamálaráðuneytið hafi frumkvæði að slíku málþingi í ljósi nýrrar stefnumótunar um ferðamál.

Fjármögnun heimavista er mismunandi eftir því, hvers konar framhaldsskóla er um að ræða. Nemandi á tónlistarbraut í menntaskóla getur sem nemandi í tónlistarskóla orðið að sérskólanema og þá átt annan og meiri rétt í heimavistarmálum en menntaskólanemi. Hér finnst mér að líta beri á jafnræðisreglur gagnvart húsnæðislánakerfinu og vil láta kanna málið á þeim forsendum.

Loks vil ég vitna til þess, sem segir í greinargerð með framhaldsskólafrumvarpinu um 37. grein: „Gert er ráð fyrir að samið verði um það milli ríkis og sveitarfélaga hvernig sveitarfélögum verði bætt aukin þátttaka í kostnaði við byggingu heimavista." Hér er um almenna heimild til samninga að ræða, sem nýtt verður í samræmi við aðstæður hverju sinni.

Almennt vil ég leggja áherslu á það í þessu sambandi, að kostnaðarskipting vegna heimavista er eðlileg vegna þess hve hagur sveitarfélaga getur verið mikill utan skólastarfsins af því, að fyrir hendi sé innan marka þess heimavistarhúsnæði. Rétt er að geta þess, að í meðförum Alþingis breyttist frumvarpið á þann veg, að ekki er lengur gert ráð fyrir, að menntamálaráðuneytið staðfesti samninga um notkun heimavistarhúsnæðis utan skólatíma, heldur skal hafa samráð við ráðuneytið um samninginn og hann staðfestur af skólanefnd.

Samhliða því, sem ég fylgdi framhaldsskólafrumvarpinu úr hlaði á síðasta hausti, var kynnt greinargerð frá menntamálaráðuneytinu um verkaskiptingu á milli framhaldsskólanna. Var greinargerðin lögð fram til kynningar en eftir henni hefur verið unnið við ýmsar ákvarðanir, sem hafa verið teknar um verkaskiptinguna. Hafa þessar ákvarðanir ekki alls staðar mælst jafn vel fyrir en eru engu að síður bæði skynsamlegar og nauðsynlegar.

Mun ég áfram beita mér fyrir því, að verkaskipting skólanna verði skýr og ótvíræð, þar sem það er nauðsynlegt. Nokkur keppni er um nemendur á milli skóla, er hún bæði holl og eðlileg. Hlutverk ráðuneytisins er að fylgjast með í því efni og samþykkja námsframboð.

Fyrir nokkru efndi ég til fundar með skólameisturum úr fimm framhaldsskólum á Norðurlandi og þremur á Austurlandi til að ræða samstarf framhaldsskóla. Í framhaldi af fundinum hefur verið sent bréf til skólanna um þetta samstarf og hvernig því verður best hagað. Vona ég, að óskir ráðuneytisins í því efni njóti skilnings og nái fram að ganga. Af minni hálfu er það skilyrði fyrir því, að stúdentar verði útskrifaðir frá Laugum og Framhaldssskóla Austur-Skaftafellssýslu að þessir skólar starfi náið með öðrum framhaldsskólum, helst í eigin landsfjórðungi.

Góðir áheyrendur!

Ég hef gerst næsta langorður og ætla því að stytta mál mitt.

Í 39. grein laganna er fjallað um rekstur framhaldsskóla. Skal ríkissjóður standa undir rekstrarkostnaðinum og er hver skóli sjálfstæð rekstrareining með sérstakri fjárveitingu á fjárlögum. Tillaga menntamálaráðherra til Alþingis um fjárveitingu til hvers skóla skal byggja á samþykktri kennslu- og fjárhagsáætlun skólans til þriggja ára, en áætlunin skal endurskoðuð árlega með tilliti til nemendafjölda.

Ríkissjóður greiðir allan launakostnað vegna kennslu, stjórnunar og annarra starfa. Með reglugerð mótar menntamálaráðherra reiknilíkan til að reikna út kennslukostnað skóla. Í líkaninu skal miðað við fjölda nemenda, lengd og tegund náms, fjölda kennslustunda á viku samkvæmt aðalnámskrá, kostnað, sem leiðir af kjarasamningum og annað sem kann að skipta máli. Þá skal einnig móta viðmiðunarreglur um framlög til annarra starfa en kennslu.

Í umsögn sinni um frumvarpið segir fjármálaráðuneytið um þetta ákvæði laganna, að ekki sé gert ráð fyrir, að það leiði til aukins kostnaðar framhaldsskóla. Raunar er það nú ósk þeirra, sem móta fjárlagastefnu ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár, að enn verði sparað á framhaldsskólastiginu. Hef ég samþykkt að kanna allar hugsanlegar leiðir til þess. Veit ég þó, að í því efni lendi ég líklega oftast á blindgötu. Vænti ég góðs samstarfs við stjórnendur skólanna í því efni og rökstuddra tillagna bæði um sparnað og óhjákvæmileg útgjöld.

Rekstrarframlag skal greitt til skóla þar á meðal til viðhalds húsa og tækja samkvæmt samningi, sem skóli gerir við menntamálaráðuneytið. Í lögunum er sérstakt ákvæði, sem heimilar skólanefnd, ef þörf krefur, að millifæra fé af rekstrarlið fjárlaga til launaliðar og af launalið til rekstrarliðar. Með þessu er fjárhagslegt sjálfstæði skólanna áréttað, því að undantekning er, að ríkisstofnanir fái slíkar heimildir. Minnt skal á í þessu sambandi, að í febrúar og ágúst á skólanefnd að gera menntamálaráðuneytinu grein fyrir rekstrarstöðu skólans.

Þá á menntamálaráðherra að gera sérstaka viðhaldsáætlun til þriggja ára um meiri háttar viðhald framhaldsskóla í eigu ríkisins og er áætlunin forsenda sérstakrar fjárveitingar á fjárlögum til slíkra stórverka.

Ég get því miður ekki lokið máli mínu með loforði um gull og græna skóga. Menntamálaráðuneytið fær fé sitt úr ríkissjóði og hann er enn rekinn með halla. Þrátt fyrir heitstrengingar um hið gagnstæða, meiri frá öðrum en mér, hefur ekki enn fengist nægur hljómgrunnur undir forgangsröðun við fjárveitingar í þágu menntunar, rannsókna og vísinda. Þó eru allir á einu máli um, að fjárfesting í menntun sé skynsamlegasta úrræðið fyrir þjóðina alla, þegar til lengri tíma er litið. Leggjumst við á eitt um að vinna þeim málstað fylgi vegna ákvarðana á næstu vikum og mánuðum, kann það að skila árangri strax á næsta ári. Þar skiptir mestu málefnaleg vinna og hún er þegar hafin með skipulegum hætti á grunni nýrra framhaldsskólalaga.

Ég þakka fyrir þetta góða tækifæri til að kynna skipulag hins mikla starfs, sem í vændum er, og vona, að ég hafi ekki misboðið þolinmæði ykkar um of.