18.5.1996

Atvinnulíf og framhaldsskóli - Ísafirði

Hvað á framhaldsskólinn að gera fyrir atvinnulífið?
Ræða á ráðstefnu Framhaldsskóla Vestfjarða á Ísafirði
18. maí 1996

Spurt er í heiti þessarar ráðstefnu: Hvað á framhaldsskólinn að gera fyrir atvinnulífið? Þar eð við erum stödd hér í Framhaldsskóla Vestfjarða, þar sem nemendur hafa orðið frægir fyrir þátttöku sína í stjórnmálastarfi heimabyggðar sinnar, vitum við, hvað framhaldsskólanemendur geta gert fyrir stjórnmálalífið. Hið sérkennilega er að mínu mati, ef ungt fólk gengur til þátttöku í störfum okkar stjórnmálamanna með því hugarfari, að þar sé ekki glímt við alvörumál, sem þurfi að ræða á rökstuddum forsendum. Fái unga fólkið þær hugmyndir innan veggja skólanna, er það áhyggjuefni.

Á því rúma ári, sem ég hef gegnt störfum menntamálaráðherra, hefur mér orðið betur ljóst en áður, hve miklu skiptir fyrir byggðarlög og atvinnulíf þeirra, að þar starfi framhaldsskólar. Utan Reykjavíkur er þá að finna á Akranesi með útibúi í Reykholti, Ísafirði, Sauðárkróki, Dalvík, Akureyri, Húsavík, Laugum í Þingeyjarsýslu, Egilsstöðum, Neskaupstað, Höfn í Hornafirði, Skógum undir Eyjafjöllum, Vestmannaeyjum, Laugarvatni, Selfossi, Keflavík, Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi. Nefni ég þá aðeins skóla, sem heyra undir menntamálaráðuneytið en sleppi bændaskólunum á Hvanneyri og Hólum og garðyrkjuskólanum í Hveragerði.

Hvarvetna skipta skólarnir í sjálfu sér miklu fyrir þessa staði og eru almennt lyftistöng fyrir þá og jafnframt atvinnu- og menningarlíf þeirra. Hefur það breytt miklu á hverjum stað, að ungu fólki fjölgar þar frekar á haustin og heilu aldurshóparnir hverfa beinlínis ekki af vettvangi vegna skólagöngu. Þessum staðreyndum er ekki alltaf hreyft, þegar rætt er um framhaldsskólann og atvinnulífið.

Frumvarp til nýrra framhaldsskólalaga bíður nú lokaafgreiðslu á Alþingi. Var það fyrst lagt fram á þingi vorið 1994 og er þar nú í þriðja sinn. Menntamálanefnd þingsins hefur fjallað um málið í vetur og geri ég mér rökstuddar vonir um, að það verði afgreitt þar fyrir þinglok í vor.

†mis nýmæli eru í frumvarpinu, sem ég ætla ekki að rekja ýtarlega hér. Þau lúta ekki síst að tengslum skólanna við atvinnulífið og hvernig best verður tryggt, að starfsnám sé í senn aðlaðandi fyrir sem flesta og í samræmi við þarfir atvinnulífisins hverju sinni. Fulltrúar atvinnulífsins munu fá aukna aðild að stefnumótun, stjórnun og framkvæmd starfsnáms og skólanum er ætlað að þjóna sínu nánasta umhverfi sem best.

Ég hallast raunar æ meira að því, að strax í grunnskóla þurfi skipulega að hyggja að kynningu á þörfum atvinnulífsins fyrir vel menntað starfsfólk. Til að árétta það hefur menntamálaráðuneytið meðal annars lagt sitt af mörkum til svonefnds INN-verkefnis, sem felst í því að kynna starfsnám og iðngreinar í grunnskólum með útgáfu á sérhönnuðu kynningarefni.

Er mikilvægt, að nemendur í efstu bekkjum grunnskólanna fái skipulagða fræðslu um atvinnulífið í sinni heimabyggð. Það kynni að auðvelda þeim ákvarðanir um framhaldssnám. Helst á auðvitað að búa þannig um hnútana, að heimaframhaldsskólar bjóði síðan námsbrautir, sem endurspegla áherslur í atvinnulífi heimabyggðanna.

Í framhaldsskólafrumvarpinu er skólunum veitt nýtt og aukið hlutverk, þar sem mælt er fyrir um það, að þeir geti í samvinnu við sveitarfélög, verkalýðsfélög, atvinnurekendur eða aðra stofnað til fullorðinsfræðslumiðstöðva. Þar með er þeim veitt tækifæri til að gegna meira hlutverki en áður í símenntun og endurmenntun.

Talið er, að á vinnumarkaði hér séu um 65.000 manns, sem ekki hafi formlega lokið öðrum prófum en úr grunnskóla. Fyrir ríkisvaldið, sem stendur fyrir því að reka framhaldsskóla, er erfitt að ná til þessa fólks nema með aðstoð verkalýðsfélaga og samtaka á vinnumarkaði eða fyrir tilstilli vinnuveitenda.

Þegar engum er lengur talið fært að skilgreina ævi sína þannig, að hún skiptist í námsár, starfsár og eftirlaunaár vegna þess að menntun sé orðin að æviverki, er brýnna en nokkru sinni fyrr að bjóða símenntun og endurmenntun. Á þessu sviði eiga framhaldsskólarnir að láta að sér kveða. Þar geta þeir í senn þjónað einstaklingum og atvinnulífi.

Til að símenntun festist í sessi hér á landi nægir ekki að líta til skólanna. Einstaklingar þurfa að hafa vilja og frumkvæði, menntastofnanir verða að leggja traustan námsgrunn og koma til móts við síbreytilegar þarfir einstaklinga og atvinnulífs, og atvinnulífið þarf að skilgreina þarfir sínar fyrir menntað og þjálfað starfsfólk og styðja jafnt við einstaklinga og skóla. Stjórnendur og eigendur fyrirtækja verða að skilja, að fjárfesting í menntun starfsmanna þeirra er eins mikilvæg ef ekki mikilvægari en fjárfesting í tækjum, ef þau vilja vera samkeppnisfær. Það verður með öðrum orðum að rækta mannauðinn og fjárfesta í hugviti.

Mér fróðari menn um íslenska skólakerfið hafa bent á, að líklega viti enginn nákvæmlega, hvað valdi því, hvernig ungt fólk velur sér námsbrautir. Dr. JónTorfi Jónasson prófessor er meðal þeirra, sem hafa leitast við að svara þessari spurningu. Hann bendir til dæmis á, að ungt fólk viti fátt um það, hvaða störf bjóðist, þegar fram líða stundir. Það vilji ekki loka neinum dyrum og velji þess vegna frekar bóknámið. Þá sé langt frá því, að starfsauglýsingar gefi skýr skilaboð um gildi sérhæfðrar menntunar. Hvorki atvinnurekendur né fagfélög ýti undir starfsmenntun, afstaða þessara aðila sé í raun stundum frekar neikvæð í garð sérmenntunar.

Það á ekki aðeins við um Ísland heldur einnig önnur lönd, að erfitt er að skýra forsendur þeirra, sem nám stunda fyrir vali sínu á brautum. Í þeim ríkjum, þar sem fræðsla um vísindi og tækni hefst miklu fyrr en hér á landi og fellur að nokkru undir sama hatt og lestur, skrift og reikningur, hefur ekki tekist að laða fleiri nemendur til náms í vísinda- og tæknigreinum, þegar á efri stig skólakerfisins er komið. Í ríkjum eins og Ísrael og Singapúr óttast menn raunar, að hið gagnstæða sé að gerast, þrátt fyrir aukna áherslu á vísinda- og tæknimenntun.

Þá kröfu á að gera til stjórnvalda, að þau haldi leiðum til starfsnáms fyrir sem flesta opnum. Hins vegar á ekki að veita þeim vald til að skipa mönnum að fara inn á slíkar námsbrautir. Þar á tíðarandinn að fá að ráða meiru en opinber boð og bönn. Enginn stjórnar tískunni en oft er erfitt að skilja duttlunga hennar og laga sig að þeim.

Menn verða að horfast í augu við þá staðreynd, að starfsnám er dýrara en bóknám. Fjölgun framhaldsskóla og dreifing krafta innan þeirra ýtir frekar undir bóknám en starfsnám. Við höfum ekki efni á að fjárfesta í besta tæknibúnaði í starfsnámi fyrir fleiri en einn skóla á sínu sviði. Ef dreifa á fjármagni á marga skóla komumst við ekki upp úr meðalmennskunni. Ekki laðar það nemendur að starfsnámi, ef búnaður og aðstaða í skólum er léleg. Þá setja fjárveitingar einnig þær skorður, að krefjast verður lágmarksfjölda nemenda til að unnt sé að bjóða námsáfanga.

Í fámennum deildum er að öðru jöfnu ekki aðstaða til annars en að reka það nám, sem er ódýrast, það er að segja almennt bóknám. Verkaskipting milli framhaldsskóla er ein af forsendum öflugs starfsnáms. Einnig er nauðsynlegt að skilgreina námsbrautir með það markmið í huga.

Þessi markmið hljóta að taka mið af því, að þekking og afkoma þjóðar er svo nátengd, að taki menntakerfið ekki mið af þörfum atvinnulífsins og nýti atvinnulífið sér ekki rannsóknir og vísindi til að styrkja sig í sessi, hættir þjóðin einfaldlega að vera samkeppnisfær. Atvinnulíf hennar staðnar og í kjölfarið siglir hnignun.

Í íslensku skólakerfi verður að leitast við að taka mið af því , sem krafist er af nemendum í þeim löndum, þar sem menntun er best á hverju sviði. Til að tryggja samkeppnishæfni að þessu leyti þurfa námskrá og kröfur að vera sambærilegar og í öðrum löndum. Skólum dugar ekki að bera sig saman á heimavelli heldur verða þeir að auka alþjóðlegt samstarf og opna dyr sínar jafnt fyrir alþjóðlegum straumum sem kröfum atvinnulífsins. Þá er eðlilegt, að setja sér það mark, að íslenskir nemendur ljúki sambærilegum prófum á svipuðum tíma og erlendir jafnaldrar þeirra.

Þegar rætt er um framhaldsskólann og atvinnulífið, vaknar sú spurning að sjálfsögðu, hve langt skólakerfið á að ganga til móts við kröfur atvinnulífsins. Í skólum á að sjálfsögðu að kenna almenn og algild vinnubrögð, sem duga nemendum sama hvaða störfum þeir sinna. Lestur, skrift, reikningur og agi, viljafesta, og skipulagt verklag eru grunnþekking, sem öllum nýtist. Upplýsingatækni og erlend tungumál eru nauðsynleg tæki í alþjóðlegu þekkingarsamfélagi. Þá þarf að leggja áherslu á ábyrgð, frumkvæði, áræðni, sköpun, framkomu, tjáningu og framsögn.

Á hinn bóginn er ekki unnt að gera þá kröfu til skólanna, að þar sé ákveðið, hvaða starfsgreinar eru lífvænlegastar, þegar fram líða stundir. Í því efni þarf að taka mið af skilgreiningu sérfræðinga utan skólanna og haga samstarfi við atvinnulífið á þann veg, að leiðsögn í þessu efni nýtist. Því hefur til dæmis verið spáð, að á næstu árum muni þessar atvinnugreinar kalla á flesta starfsmenn hér á landi:


Matvælaöflun, vinnsla og sala á erlenda markaði.
Upplýsingatækni og upplýsingavinnsla.
Orkuvinnsla, dreifing og sala innanlands og erlendis.
Heilsugæsla og heilsurækt.
Þjónusta við innlenda og erlenda ferðamenn.
Undir hugtakið matvælaöflun fellur það, sem lýtur að hefðbundnum atvinnuvegum okkar Íslendinga, sjósókn og landbúnaði. Galdurinn felst í því að laga aflann að kröfum markaðarins og fá fyrir hann hæst verð. Til þess að það takist þarf þekkingu, rannsóknir og fjölhæft vel menntað starfsfólk á öllum stigum vinnslunnar, sem getur starfað jafnt innanlands sem utan.

Góðir áheyrendur!

Framhaldsskóli Vestfjarða hefur ekki aðeins mikilvægu hlutverki að gegna fyrir atvinnulíf í sínu byggðarlagi og landshluta heldur á starf hans einnig að setja mark sitt á svipmót Vestfjarða út á við. Krafa um góð lífskjör snýst um fleira en að hafa næga atvinnu og há laun. Hún lýtur einnig að menningu og menntun. Skólar eiga að skapa menningarlegt og menntandi umhverfi, þeir eiga að vera lyftistöng byggðarlaga og atvinnulífs langt út fyrir skólastofurnar.

Ég lít þannig á, að með þessari ráðstefnu sé Framhaldsskóli Vestfjarða meðal annars að gegna þessari mikilvægu skyldu sinni. Vona ég, að hún megi skila góðum árangri.