Uppeldismálaþing - ávarp
Ávarp á Uppeldismálaþingi
23. mars 1996.
Í upphafi máls míns vil ég fagna framtaki félaganna þriggja, sem standa að Uppeldismálaþingi.
Mikil gróska er í mennta- og uppeldismálum um þessar mundir. Víða verður þess vart, að menn átta sig betur en áður á gildi menntunar.
Markvisst er unnið að því að flytja grunnskólann frá ríki til sveitarfélaga. Vil ég þakka kennarafélögunum og forystumönnum þeirra fyrir liðsinni við þetta mikla verkefni. Starfsumhverfi skóla er ekki aðeins að taka stakkaskiptum heldur er verið að flytja stærra verkefni en nokkru sinni fyrr frá ríki til sveitarfélaga.
Skyldur ríkisvaldsins gagnvart grunnskólanum breytast. Ég tel, að með samkomulagi, sem tókst milli ríkis og sveitarfélaga um fjárhagslega hlið flutnings grunnskólans, hafi honum verið tryggt meira fjármagn en áður. Á það jafnt við um byggingarfé og framlög til innra starfs eins og sérkennslu.
Í upphafi þessarar viku samþykktu trúnaðarmenn kennara að hverfa aftur til samstarfs við sveitarfélög og ríkisstjórn um flutning grunnskólans. Í þeim samstarfsanda, sem ríkt hefur um málið tel ég, að unnt verði að koma grunnskólanum heilum í höfn hjá sveitarfélögum í tæka tíð fyrir 1. ágúst næstkomandi.
Menntamálanefnd Alþingis fjallar nú um frumvarp til nýrra framhaldsskólalaga. Þar er um ýmis nýmæli að ræða. Jafnframt er unnið að því á vegum menntamálaráðuneytisins að móta verkaskiptingu milli framhaldsskóla. Ég geri mér ljóst að hvort tveggja er viðkvæmt málefni en að mínu mati er brýnt, að árangur náist. Verði frumvarpið samþykkt fá framhaldsskólarnir nýtt hlutverk varðandi fullorðinsfræðslu. Ég sé fyrir mér, að þeir þróist, sem enn mikilvægari máttarstólpar í byggðarlögum sínum og hverfum. Skynsamleg verkaskipting stuðlar að því, að unnt er að skapa betri aðstöðu en ella fyrir verk- og iðnnám. Að því vilja allir stefna.
Menntamálaráðuneytið gaf nýlega út verkefnaáætlun fyrir kjörtímabilið, sem lýkur árið 1999. Þar er því meðal annars lýst yfir, að treysta þurfi menntun leikskólakennara til að leikskólinn geti starfað í samræmi við ný lög frá 1994. Er ljóst, að mikill skortur er á leikskólakennurum. Í samræmi við verkefnaáætlunina hefur Háskólanum á Akureyri verið heimilað að hefja kennslu fyrir leikskólakennara og er nú unnið að því að undirbúa hana. Það hefur verið unnið markvisst að því að smíða ramma um Uppeldisháskóla en Fósturskóli Íslands rynni inn í hann.
Í verkefnaáætluninni segir:
"Símenntun, endurmenntun og fullorðisfræðsla eru hugtök, sem setja munu æ ríkari svip á umræður um menntamál. Enginn getur notið sín til fulls í nútímaþjóðfélagi nema hann hafi alla ævi tækifæri til að afla sér menntunar. Móta þarf víðsýna stefnu til að auðvelda öllum að nýta sér slík tækifæri.
Laga þarf kennaramenntun að kröfum í síbreytilegu þjóðfélagi."
Ég vil sérstaklega árétta mikilvægi endurmenntunar og aðlögunar kennaramenntunar að kröfum í síbreytilegu þjóðfélagi. Kennaramenntun almennt verður áfram í höndum ríkisins eftir flutning grunnskólans til sveitarfélaganna, og við það er miðað að fjárframlög ríkisins til endurmenntunar verði að minnsta kosti hin sömu og áður. Vegna flutningsins þarf hins vegar að endurskipuleggja ýmislegt að því er endurmenntunina varðar. Full ástæða er til þess að vænta góðs af samstarfi við sveitarfélögin í þessu efni. Efast ég ekki um, að þau muni leggja sig fram til að tryggja starfsmönnum sínum sem besta menntun og þjálfun. Gleymum því ekki, að þeim fyrirtækjum vegnar best, sem leggja mesta rækt við menntun starfsmanna sinna. Hið sama á auðvitað við um starfsemi ríkis eða sveitarfélaga. Ný verkaskipting þessara aðila við rekstur grunnskólans kann að gefa tækifæri til að auka fjárveitingu ríkisins til endurmenntunar.
Endurmenntun framhaldsskólakennara hefur frá 1983 farið fram á vegum Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands. Hefur það starf gengið vel og vill ráðuneytið auka ábyrgð Endurmenntunarstofnunar í þessu tilliti.
Tel ég skynsamlegt, að undirbúin verði úttekt á kennaramenntun sambærileg við þá, sem í ár frem fram á viðskiptamenntun. Yrði við það miðað að kennaramenntun yrði tekin út á næsta ári.
Góðir áheyrendur!
Endurskoðun er hafin á lögum um starfsréttindi kennara. Hef ég stefnt að góðri samvinnu við forystumenn grunn- og framhaldsskólakennara um það mál. Einnig hefur borist ósk frá leikskólakennurum um, að réttindi þeirra séu skilgreind við endurskoðun starfsréttindalaganna. Er ástæða til að skoða þá ósk af velvilja.
Ég lít þannig á, að næsta stórverkefni menntamálaráðu-neytisins að því er varðar störf grunnskóla og framhaldsskóla sé gerð nýrra aðalnámskráa fyrir þessi skólastig. Er nú verið að leggja grunn að því starfi. Markmið þess ætti meðal annars að vera að stytta heildarnámstíma þeirra, sem útskrifast úr íslenskum framhaldsskólum. Væri ekki óeðlilegt, að fjármunir, sem fengjust við þá mikilvægu hagræðingu, yrðu nýttir til að bæta kjör kennara og styrkja almennt fjárhagslega stöðu framhaldsskólanna. Er mikilvægt að samtök kennara segi álit sitt á slíkum hugmyndum.
Máli mínu vil ég ekki ljúka án þess að árétta þá skoðun mína, að skólastarf stendur á tímamótum vegna nýrrar tækni í upplýsingamálum. Menntamálaráðuneytið hefur lagt grunn að stefnumótun á þessu sviði með ítarlegri skýrslu og tillögum. Þeirri stefnu verður ekki hrundið í framkvæmd nema í góðri samvinnu við kennara og með virkri þátttöku þeirra, sem í mörgum tilvikum krefst endurmenntunar.
Með þessum fáu orðum tel ég mig hafa rökstutt þá fullyrðingu, að mikil gróska sé í íslensku skólakerfi. Ég hef þá trú, að það þing, sem er nú að hefjast, eigi enn eftir að færa okkur fram á veg.