3.3.1996

Nemendur með sérþarfir - ávarp

Ávarp á ráðstefnu menntamálaráðuneytisins um ýmis málefni barna og unglinga með sérþarfir
2. mars 1996, Borgartúni 6.

Ég býð ykkur öll velkomin til þessrar ráðstefnu. Hún er haldin undir þeim formerkjum, að rædd skuli ýmis málefni barna og unglinga með sérþarfir. Vil ég þakka öllum, sem lagt hafa menntamálaráðuneytinu lið við undirbúning ráðstefnunnar og koma hér fram í dag og flytja erindi um þau málefni, sem nú ber hæst í umræðum um þessi málefni.

Ætlunin er, að hér séu þátttakendur frá öllum hópum, sem láta sig skólamál nemenda með sérþarfir skipta. Hér eru einnig fatlaðir og aðrir með sérþarfir, foreldrar, skólafólk og þannig mætti áfram telja. Í stuttu máli vil ég fagna því, að þið viljið koma hingað í dag og ræða þetta mikilvæga málefni.

Kveikjan að ráðstefnunni var ósk frá Landssamtökunum Þroskahjálp um, að kynnt yrði Salamanca-yfirlýsingin svonefnda, sem er hér fyrsti dagskrárliður. Féll þessi ósk vel að áformum menntamálaráðuneytisins um að kynna alþjóðleg verkefni, sem ráðuneytið hefur sinnt að undanförnu og lúta að nemendum með sérþarfir.

Í þessari yfirlýsingu segir, að í skipulagi menntakerfis og tilhögun náms beri að taka mið af miklum mun á einstaklingum og þörfum þeirra. Þar er einnig skorað á stjórnvöld allra landa að leggja á það allt kapp, bæði í stefnumótun og með fjárveitingum, að koma fram umbótum á menntakerfum landanna svo að þau verði fær um að sinna öllum börnum án sérstakrar aðgreiningar, hvað sem líður mismunun þeirra og örðugleikum sem þau eiga við að glíma.

Meginstefið í yfirlýsingunni er, að ekki beri að aðgreina nemendur. Þeir eigi að fá að sitja við sama borð, sé þess nokkur kostur. Þá er einnig hvatt til virkrar þátttöku fleiri en skólayfirvalda, því að hlutur foreldra, heimabyggðar og samtaka fatlaðra í skipulagsstarfi og ákvörðunum um það, hvernig mæta skuli sérþörfum á sviði menntunar, verður aldrei ofmetinn.

Ég vil taka undir þessi meginsjónarmið. Þau eru í senn skynsamlegur grundvöllur almennrar stefnu og ættu að tryggja farsæla framkvæmd hennar.

Á þeim mánuðum, sem ég hef gegnt störfum menntamálaráðherra, hafa ýmis erindi borist mér, sem lúta að nemendum með sérþarfir. Þau snerta ekki aðeins þá, sem minna mega sín samkvæmt almennum skilgreiningum okkar, heldur einnig hina, sem skara fram úr á einn eða annan veg. Foreldrar þeirra barna telja, að þeim sé ekki nægilegur skilningur sýndur. Þeir, sem fara með stjórn skólamála, þurfa þannig að líta til allra átta. Ég er ekki þeirrar skoðunar, að vilji til að gera öllum kleift að njóta menntunar og þjálfunar til starfa jafngildi því, að allir þurfi að fara á sama hraða í gegnum skólann eða glíma samtímis við sömu viðfangsefni.

Ég minnist fundar með foreldrum, sem lýstu því, að vegna þrenginga á vinnumarkaði, ættu börn þeirra, sem hefðu lítinn áhuga á skólanámi, í fá önnur hús að leita en í skólann. Veitti hann þeim ekki skjól, stæðu þau næsta berskjölduð gagnvart hinum mikla vágesti, fíkniefnunum. Nokkru síðar komu svo kennarar þessara unglinga í heimsókn til mín og lýstu áhyggjum sínum vegna þeirra.

Er ég ekki í neinum vafa um góðan hug allra, sem nærri þessum ungmennum standa. Lít ég á það, sem skyldu skólayfirvalda að leggja sitt af mörkum. Hefur verið lagt á ráðin um það undanfarið innan menntamálaráðuneytisins, hvernig best verður staðið að svonefndu fornámi, það er undirbúningi þeirra nemenda, sem eiga erfitt með nám og ljúka grunnskóla án þess í raun að vera búnir undir nám í framhaldsskóla. Hópurinn er stærstur hér í Reykjavík og hefur um nokkurt árabil að meginstofni átt inni í Réttarholtsskóla. Hann þarf hins vegar að flytjast þaðan og vona ég, að það geti gerst án þess að ræturnar slitni, ef ég má orða það svo, þegar litið er til þess hóps kennara og sérfræðinga, sem að þessu starfi hefur unnið.

Ég minnist einnig heimsókna þeirra, sem bera hag barna með lesblindu eða dyslexíu fyrir brjósti. Raunar er mikils virði í sjálfu sér, að þessi sérþörf hafi verið skilgreind. Minnast þess vaflaust fleiri en ég, að það var ekki síst fyrir tilstilli breskrar leikkonu, sem viðurkenndi þenna ágalla sinn, að menn tóku að ræða um lesblindu á réttum forsendum. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár sýndi Alþingi skilning á þessu máli með því að auka fjárveitingu til Blindrabókasafnsins, en þar og í Lestrarmistöð Kennaraháskólans hefur verið veitt þjónusta vegna þessarar sérþarfar.

Það er þó ekki nóg. Skólarnir verða sjálfir að geta stýrt því, hvernig þeir geta best komið til móts við nemendur sína. Þess vegna hefur verið ákveðið, að visst hlutfall af fjármagni til framhaldsskólanna skuli notað til að styrkja læsi nemenda. Hér vil ég ekki láta hjá líða að nefna lofsvert framtak Iðnskólans í Reykjavík með átakinu "Lestu betur".

Í umræðum um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna hefur mjög verið litið til sérkennslu, sérskóla og sérfræðiþjónustu. Til að taka á þeim málum fól ég sérstakri nefnd að fjalla um þau. Hún skilaði tillögum sínum síðastliðið haust og hefur verið unnið á grundvelli þeirra síðan. Um þessar mundir er unnið að samningum milli ríkis og sveitarfélaga um kostnaðarþátt flutningsins. Þar er meðal annars fjallað um fjármuni til sérkennslu. Get ég fullvissað ykkur um, að þessum þætti hefur síður en svo verið gleymt við úrvinnslu þess viðamikla máls, sem flutningur grunnskólans er.

Nokkrar blikur hafa verið á lofti varðandi flutninginn síðustu vikur vegna óskyldra mála, sem dregin hafa verið inn í umræðurnar. Ég liti á það sem mikið slys, ef horfið yrði frá því á þessari stundu að fela sveitarstjórnunum hið mikilvæga verkefni að annast rekstur grunnskólans. Nýtt tækifæri til þess gæfist ekki í bráð.

Ný lög um leikskóla voru samþykkt á Alþingi vorið 1994. Þar er gert ráð fyrir því, að börn, sem eiga við fötlun að stríða eða glíma við félagslega eða tilfinningalega erfiðleika eigi rétt á aðstoð. Hefur með reglugerð verið skilgreint, hvernig aðstoðinni skuli háttað.

Umræður urðu um það á liðnu sumri, hvernig staðið væri að stuðningi við þá, sem þurfa aðstoð talmeinafræðinga. Töldu ýmsir, að menntamálaráðuneytið hefði ekki staðið rétt að ráðstöfun fjármuna í því skyni. Til að greiða úr ágreiningi um þetta mál hafa farið fram viðræður undanfarið milli aðila og virðast þær geta leitt til sameiginlegrar niðurstöðu.

Í gær kynnti menntamálaráðuneytið nýja stefnu sína og tillögur um menntun, menningu og upplýsingatækni. Þar er kynnt með ítarlegum hætti, hvernig unnt er að nýta hina nýju tækni, tölvur og fjarskiptanet, til að miðla fróðleik og menningu. Ef að þessum tillögum yrði farið væri stigið stærra skref en nokkru sinni fyrr til að jafna aðstöðumun á verksviði menntamálaráðuneytisins. Opnaður yrði nýr heimur, því að eins og við vitum hefur upplýsingatæknin nú þegar gert mörgum fötluðum kleift að sanna sig og njóta sín á sviði mennta, menningar og vísinda.

Góðir áheyrendur!

Ég hef hér drepið á nokkur atriði til að lýsa því, hvernig viðfangsefni þessarar ráðstefnu líta út frá bæjardyrum þess, sem gegnir starfi menntamálaráðherra. Ég hef látið undir höfuð leggjast að minnast þeirra afreka, sem unnin eru í skólunum og miða að því að gefa fötluðum færi á að njóta hæfileika sinna. Við, sem horfum á þau verk, getum ekki annað en lýst aðdáun okkar. Orð duga skammt til þess.

Í því fórnfúsa en gjöfula starfi næst ekki árangur nema með samstilltu átaki margra. Tilgangur þessarar ráðstefnu er ekki síst að minna á þá staðreynd. Við þurfum að samhæfa þjónustu margra til að fatlaðir og aðrir með sérþarfir geti lifað eðlilegu lífi.

Með þessum orðum set ég þessa ráðstefnu og óska þess, að þið hafið af henni nokkurt gagn og gaman, og ekki síst, að hún verði markverður áfangi á leið okkar til að koma til móts við þá, sem eru með sérþarfir.