23.2.1996

Jafnréttisfræðsla í skólum

Ræða á morgunverðarfundi Kvenréttindafélags Íslands
23. febrúar kl. 8.15. á Kornhlöðuloftinu

Stefna menntamálaráðuneytisins varðandi jafnréttisfræðslu í skólum

Góðir áheyrendur!

Ég vil í upphafi þakka fyrir það tækifæri að fá að ávarpa ykkur hér á þessum morgunverðarfundi. Fundarefnið jafnréttisfræðsla er víðfemt og margbrotið en jafnframt ákaflega mikilvægt. Mér er ætlað að fjalla um stefnu menntamálaráðuneytisins varðandi jafnréttisfræðslu í skólum.

Fyrr í þessari viku kom út verkefnaáætlun menntamálaráðuneytisins fyrir þetta kjörtímabil eða til 1999. Ber hún heitið Menning og menntun - forsenda framtíðar. Í upphafi hennar eru nefndir fjórir þættir sem skipta meginmáli til að færa menntakerfið og menningarlífið til móts við 21. öldina. Einn þeirra eru jafnréttismálin. Sú framsetning að jafnréttismálin séu einn af þessum fjórum meginþáttum undirstrikar hversu mikil áhersla verður lögð á þennan málaflokk á kjörtímabilinu.

Í verkefnaáætluninni segir að skólar eigi að vinna ötullega að því að tryggja jafnan rétt drengja og stúlkna, fræða nemendur um stöðu kynjanna og vinna gegn því að nemendur festist um of í farvegi hefðbundinnar verkaskiptingar kynjanna. Til dæmis sé mikilvægt að með bæði drengjum og stúlkum sé ræktuð ábyrgðartilfinning fyrir heimili og fjölskyldu og báðum kynjum sé kennt að líta á sig sem fyrirvinnur heimila. Þannig verði þau jafnt búin undir virka þátttöku í fjölskyldulífi, atvinnulífi og mótun samfélagsins alls.

Það er mín skoðun að það eigi ekki einungis að fræða nemendur um jafnréttismál heldur sé mikilvægt að sú fræðsla nái einnig til kennara, skólastjórnenda og foreldra. Í verkefnaáætluninni segir að unnið verði að því að efla þennan þátt jafnréttisfræðslu og í því skyni verði til dæmis lögð áhersla á gott samstarf við Kennaraháskóla Íslands, Fósturskóla Íslands, samtök skólastjórnenda, kennara og foreldra.

Í verkefnaáætluninni er einnig sagt að unnið verði að því að styrkja sjálfsmat nemenda og sömuleiðis að námskárvinna sem framundan er taki mið af áherslu á jafnrétti kynjanna.

Það sem er einna mikilvægast í jafnréttisbaráttunni er að launamuni kynjanna verði útrýmt. Kannanir undanfarin misseri hafa sýnt að sá launamunur er óásættanlegur. Vissulega verður þessi launamunur til á vinnumarkaði en ekki í skólum en mín skoðun er sú að menntakerfið megi alls ekki ýta undir launamuninn, til dæmis með því að hvetja konur sérstaklega til að stunda ákveðið nám en karla til að stunda annars konar nám. Til að ná þeim markmiðum þarf námsráðgjöf og starfsfræðsla að fléttast inn í nám í auknum mæli.

Ég hef í stuttu máli gert grein fyrir þeim helstu áherslum í jafnréttismálum sem munu ríkja í menntamálaráðuneytinu á kjörtímabilinu og hafa verið samþykktar í ríkisstjórn. Í þessu sambandi vil ég einnig minna á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að á kjörtímabilinu verði unnið gegn launamisrétti af völdum kynferðis og stuðlað verði að jöfnum möguleikum kvenna og karla til að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína. Að þessum málum er nú til dæmis unnið innan félagsmálaráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins, varðandi starfsmat, réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og fæðingarorlof.

Líkt og ég sagði var verkefnaáætlun ráðuneytisins fyrst kynnt fyrr í þessari viku og nú þegar hafa verið gerðar ráðstafanir til að hrinda ýmsum hugmyndum sem þar eru í framkvæmd. Sem fyrst verður metið hvernig hægt sé að bæta jafnréttisfræðslu innan skólakerfisins. Mikilvægt er að framkvæmdin byggist á mati á því starfi sem nú er unnið og árangri þess.

Gerð hefur verið könnun innan ráðuneytisins á framkvæmd og skipulagi jafnréttisfræðslu. Sendur var spurningalisti til allra grunn- og framhaldsskóla í nóvember 1995. Svör bárust frá 45,8% grunnskólum og 38,3% framhaldsskólum. Fyrirhugað er að senda ítrekun til þeirra skóla sem ekki hafa svarað.

Niðurstöður könnunarinnar liggja fyrir í drögum og eru svörin ákveðnar vísbendingar um fyrirkomulag kennslunnar. Sýna þær, að þörf er á úrbótum.

Í könnuninni kom meðal annars fram að minnihluti skóla skipuleggur jafnréttisfræðslu sína sérstaklega. Til dæmis gera 98,3% skólanna ekki jafnréttisáætlun og í 84,5% skólanna er jafnréttisfræðsla ekki liður í skólanámskrá eða námsvísi. Um helmingur skólanna sagði að tímaskortur og skortur á fræðsluefni hindruðu að jafnréttisfræðsla væri í skólunum. Þessar niðurstöður sýna að fræðslan er langt frá því að vera fullnægjandi og úr henni þarf að bæta.

Í menntamálaráðuneytinu er starfandi jafnréttishópur og í honum eru fjórir starfsmenn ráðuneytsins. Hópurinn hefur samráðshóp sér til ráðuneytis. Í honum eru fulltrúar frá Kennaraháskóla Íslands, Háskóla Íslands, Fósturskóla Íslands, Kennarasambandi Íslands, Hinu íslenska kennara-félagi, Félagi leikskólakennara, Námsgagnastofnun, Jafnréttisráði og Iðnfræðsluráði.

Jafnréttishópur ráðuneytisins hefur nú skilað fjárhagsáætlun fyrir árið 1996 þar sem áhersla er lögð á fræðsluefni fyrir kennara í samvinnu við Jafnréttisráð, styrki vegna norræna verkefnisins NORD-LILIA, ráðstefnu, þar sem þróunarverkefni í jafnréttisfræðslu í skólum yrðu meðal annars kynnt og áframhaldandi útgáfu á foreldrariti. Hópurinn hefur einnig hvatt Kennaraháskólann til að bjóða námskeið og fræðslufundi um kynjajafnrétti fyrir kennara og Námsgagnastofnun til að gefa út jafnréttis-námsefni fyrir nemendur. Hugmyndir hópsins eru þannig í anda þeirrar þarfa sem jafnréttiskönnunin sýnir m.a. um að auka þurfi námsefni um jafnréttisfræðslu.

Í verkefnaáætlun ráðuneytisins sem ég minntist á hér í upphafi kemur fram að stærsta nýja verkefnið á sviði menntamála á kjörtímabilinu er endurskoðun námskrár fyrir grunnskóla og framhaldsskóla. Í námskrám verði skýr makmið þannig að öllum sé ljóst að hverju er stefnt með kennslunni og hvaða kröfur eru gerðar til nemenda. Mikilvægt er að við endurskoðun námskrár verði tekið mið af jafnrétti og stöðu kynjanna og aukin áhersla verði lögð á náms-og starfsfræðslu í grunn- og framhaldsskólum. Námskrár eru lykill að breyttum áherslum í skólastarfi og þær verður að nýta að fullu til að efla jafnréttisfræðslu í skólunum.

Góðir áheyrendur!

Lagabreytingar, nýir sjóðir eða stofnanir munu ekki verða til þess að koma á fullkomnu jafnrétti hér á landi. Þó eru vissulega nokkur lagaleg réttindi sem þarf að laga líkt og fæðingarorlof.

Í mínum huga felst misrétti fyrst og fremst í þeim viðhorfum sem ríkjandi eru til kynjanna og það er skólakerfið sem er lykill að varanlegri viðhorfsbreytingu. Eitt af því mikilvægasta sem menntamálaráðuneytið getur gert er að stuðla að því að jafnréttisfræðsla sé sjálfsagður og eðlilegur hluti menntakerfisins. Menntunin mótar að miklu leyti viðhorf, venjur og atferli fólks. Ég mun beita mér fyrir því á þessu kjörtímabili og er verkefnaáætlun ráðuneytisins fyrsta skrefið í þá átt.