9.2.1996

Opnari starfsmenntun - ávarp

Ávarp á ráðstefnu á vegum Tækniskóla Íslands, um opnari og fjölbreyttari starfsmenntun
9. febrúar 1996

Umræður um starfsmenntun bera þess jafnan merki, að menn telja hana eiga undir högg að sækja gagnvart bóknámi. Einnig setur það svip sinn á þessar umræður, að starfsnámið er talið sett skör lægra en bóknámið. Loks er jafnan tekið fram, að of margir sækist í raun eftir stúdentsprófi og síðan háskólanámi.

Um leið og áherslur eru með þessum hætti, á sú skoðun almennan hljómgrunn, að góð menntun gefi best fyrirheit um starfsöryggi og velgengni í lífinu.

Við þekkjum öll þessar umræður. Við vitum einnig, að kröfur eru gerðar til stjórnvalda um að breyta áherslum á þann veg, að fleiri fari í starfsnám. Síðastliðinn laugardag komst Sveinbjörn Björnsson háskólarektor þannig að orði á háskólahátíð:

"Vandi Háskólans á sér að hluta rætur í framhaldsskóla og þeirri menntastefnu sem ríkt hefur. Þar standa verknám og iðnnám í skugga af bóknámi og njóta ekki virðingar. Nemendur og foreldrar þeirra óttast að verkmenntun í framhaldsskóla leiði í blindgötu og telja því öruggara að velja bóknámið til stúdentsprófs."

Aðrir segja hins vegar, að vandi starfsnáms á framhaldsskólastigi felist einmitt í því, að háskólaskólastigið sé orðið svo fjölbreytt, að nemendur vilji ekki loka neinum dyrum og þess vegna afla sér stúdentsprófs, þótt hugurinn stefni annað. Starfsnám á háskólastigi sé til þess fallið að kippa fótunum undan fjölmörgum starfsmenntabrautum á framhaldsskólastigi.

Háskólarektor nefnir annars vegar menntastefnu og hins vegar þá virðingu, sem bóknám nýtur umfram starfsnám. Síðan minnist hann á hræðslu nemenda og foreldra. Í raun eru þessi orð tilfinningahlaðin nema orðið menntastefna, þar er vísað til einhvers, sem er heldur áþreifanlegra en "virðing" og "ótti".

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til nýrra framhaldsskólalaga. Yfirlýst markmið þess er að auka veg starfsmenntunar. Á undanförnum mánuðum tel ég, að menntamálaráðuneytið hafi gert ýmislegt til að sýna í verki áhuga sinn á verkmenntun og iðnnámi.

Við höfum til dæmis tekið þátt í átaki til að kynna grunnskólanemum betur en áður starfsnámsbrautir. Unnið er að því að koma á fót nýjum framhaldsskóla í Reykjavík, Borgarholtsskóla, þar sem ætlunin er að búa sérstaklega vel að málmiðnaðargreinum og bílgreinum. Markvisst er unnið að því að hefja alhliða kennslu í matvælafræðum í Menntaskólanum í Kópavogi og vinna er hafin við að samræma námsefni þar og í Verkmenntaskólanum á Akureyri, þar sem einnig er að hefjast matvælanám. Ráðuneytið hefur einnig veitt því stuðning, að ráðist verði í að skilgreina nýjar starfsnámsbrautir.

Ég sé á dagskrá þessarar ágætu ráðstefnu, að á henni á einmitt að fjalla um ýmis þessara atriða, þannig að ástæðulaust er að hafa fleiri orð um þau að sinni.

Menntastefnan er skýr hvað þetta varðar. Hún miðar nú eins og löngum áður að því að draga ekki úr hlut starfsnáms og hygla bóknámi. Ég leyfi mér þó að fullyrða, að fögur orð eða fyrirheit stjórnmálamanna ráði ekki úrslitum í þessu efni. Það var rétt hjá háskólarektor í ræðu sinni að draga fram tilfinningahlaðin orð eins og "virðingu" og "ótta", þessar tilfinningar ráða meiru um val nemenda og foreldra en háleit menntastefna eða vel samin lagaákvæði.

Mér fróðari menn um íslenska skólakerfið hafa bent á, að líklega viti enginn nákvæmlega, hvað valdi því, hvernig menn velja sér námsbrautir. Dr. Jón Torfi Jónasson prófessor er meðal þeirra, sem hafa leitast við að svara þessari spurningu. Hann bendir til dæmis á, að ungt fólk viti fátt um það, hvaða störf bjóðist, þegar fram líða stundir. Það vilji ekki loka neinum dyrum og velji þess vegna frekar bóknámið. Þá sé langt frá því, að starfsauglýsingar gefi skýr skilaboð um gildi sérhæfðrar menntunar. Hvorki atvinnurekendur né fagfélög ýti undir starfsmenntun, afstaða þessara aðila sé í raun stundum frekar neikvæð í garð sérmenntunar.

Það á ekki aðeins við um Ísland heldur einnig önnur lönd, að erfitt er að skýra forsendur þeirra, sem nám stunda fyrir vali sínu á brautum. Í þeim ríkjum, þar sem fræðsla um vísindi og tækni hefst miklu fyrr en hér á landi og fellur að nokkru undir sama hatt og lestur, skrift og reikningur, hefur ekki tekist að laða fleiri nemendur til náms í vísinda- og tæknigreinum, þegar á efri stig skólakerfisins er komið. Í ríkjum eins og Ísrael og Singapúr óttast menn raunar, að hið gagnstæða sé að gerast, þrátt fyrir aukna áherslu á vísinda- og tæknimenntun.

Þá kröfu á að gera til stjórnvalda, að þau haldi leiðum til starfsnáms fyrir sem flesta opnum. Hins vegar á ekki að veita þeim vald til að skipa mönnum að fara inn á slíkar námsbrautir. Þar á tíðarandinn að fá að ráða meiru en opinber boð og bönn. Enginn stjórnar tískunni en oft er erfitt að skilja duttlunga hennar og laga sig að þeim.

Eins og áður sagði hefur verið tekin ákvörðun um að koma upp aðstöðu í málm- og bíliðngreinum í Borgarholtsskóla og matvælagreinum í Menntaskólanum í Kópavogi. Ég er þeirrar skoðunar, að fráleitt sé að kvika frá þessum ákvörðunum en í þeim felst, að í þessum skólum verður hin besta tæknilega aðstaða til að stunda nám í þessum greinum, að minnsta á kosti á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum ekki efni á að fjárfesta í besta búnaði fyrir fleiri en einn skóla á sínu sviði. Ef dreifa á fjármagni á marga skóla komumst við ekki upp úr meðalmennskunni.

Menn verða að horfast í augu við þá staðreynd, að starfsnám er dýrara en bóknám. Fjölgun framhaldsskóla og dreifing krafta innan þeirra ýtir frekar undir bóknám en starfsnám. Í fámennum deildum er að öðru jöfnu ekki aðstaða til annars en að reka það nám, sem er ódýrast, það er að segja almennt bóknám. Verkaskipting milli framhaldsskóla er ein af forsendum öflugs starfsnáms. Einnig er nauðsynlegt að skilgreina námsbrautir með markmið í huga, á það er lögð áhersla í framhaldsskólafrumvarpinu.

Mér hefur komið á óvart, að reynt er að gera skynsamlegar ákvarðanir um verkaskiptingu tortryggilegar, meðal annars með fullyrðingum um, að ætlunin sé að vega sérstaklega að Fjölbrautarskólanum í Breiðholti. Hefur jafnvel verið látið í veðri vaka, að þar blasi við hrun, þegar Borgarholtsskóli er risinn. Þeir, sem þannig tala, bera að minnsta kosti ekki hag starfsmenntunar við bestu aðstæður sérstaklega fyrir brjósti.

Við skipulag starfsins í Borgarholtsskóla hefur komið í ljós, að nauðsynlegt er að fara fram með gát, þegar sameina skal iðnnám og bóknám í einni stofnun. Innan sama skóla getur verið grunnt á tortryggni gagnvart því, sem menn telja að hafi betur, bóknáminu. Vil ég nota þetta tækifæri hér til að hvetja alla, sem að menntun starfa, hvort heldur bóknámi eða starfsnámi, til að taka höndum saman. Verði nemendur varir við það í störfum þeirra, að um ríg eða meting sé að ræða, mótar það einnig viðhorf þeirra til námsins.

Góðir áheyrendur!

Nýtt frumvarp til framhaldsskólalaga er nú til meðferðar í menntamálanefnd Alþingis. Ég geri mér rökstuddar vonir um, að unnt verði að afgreiða þetta frumvarp í sæmilegri sátt í vetur. Á grundvelli nýrra laga verði síðan markvisst unnið að því að styrkja þetta mikilvæga skólastig.

Ég vil þakka Tækniskóla Íslands frumkvæði hans að þessari ráðstefnu. Er hún til marks um, að innan skólanna sjálfra vilja menn vinna að því að skilgreina vanda þeirra og verkefni.

Við stöndum síður en svo frammi fyrir óleysanlegri þraut. Á hinn bóginn þurfum í þessu efni eins og svo oft endranær að átta okkur á því hverju við fáum ráðið og hverju við getum breytt. Að þeim atriðum eigum við síðan að einbeita okkur en ekki hinu, sem er á annarra valdi að ákveða.