30.1.1996

Verkaskipting milli framhaldsskóla - Morgunblaðið

Verkaskipting milli framhaldsskóla
Morgunblaðið, 30. janúar 1996

Frumvarp til framhaldsskólalaga er meðal þeirra mála, sem lögð verður áhersla á að ljúka á Alþingi í vor. Frumvarpið hefur verið nægilega lengi til meðferðar til að öll sjónarmið komi fram. Menntamálanefnd Alþingis undir formennsku Sigríðar Önnu Þórðardóttur, sem hafði forystu við gerð frumvarpsins, hefur það nú til afgreiðslu.

Frá því að frumvarpið var fyrst lagt fram vorið 1994 hefur það tekið nokkrum breytingum í samræmi við rökstuddar athugasemdir. Kennarar telja, að með frumvarpinu sé vegið að kjörum þeirra með breytingum á réttarstöðu þeirra gagnvart ríkisvaldinu. Í ljósi þess, að nú er markvisst unnið að almennri stefnumörkun í starfsmannamálum ríkisins, er tæplega tilefni til átaka um framhaldsskólafrumvarpið vegna starfsmannamála. Ágreining vegna nýrrar starfsmannastefnu ber að leysa á þeim vettvangi, þar sem aðilar þess máls eiga bein samskipti.


Skýrsla um verkaskiptingu
Samhliða því sem Alþingi fjallar um framhaldsskólafrumvarpið er unnið að því í menntamálaráðuneytinu að ákveða verkaskiptingu milli framhaldsskóla í landinu. Hún er ekki ákveðin með lagasetningu. Hugmyndir um verkaskiptinguna voru hins vegar kynntar á Alþingi á sama tíma og fyrsta umræða fór fram um framhaldsskólafrumvarpið 2. nóvember síðastliðinn. Í skýrslu ráðuneytisins um málið eru allir framhaldsskólar landsins tíundaðir og því lýst, hvernig verkum er skipt á milli þeirra. Í þingræðu komst ég þannig að orði um þessa skýrslu:
"Þetta plagg er ekki skuldbindandi fyrir neinn, þetta er lýsing á stöðunni eins og hún er og einnig er það tekið fram þar sem við á hvaða hugmyndir kunna að vera um breytingar. Þetta plagg hefur verið sent skólastjórnendum allra framhaldsskólanna og þeir beðnir um álit á því sem þar kemur fram. Ég tel mjög æskilegt að umræður um það fari fram á sama tíma og Alþingi fjallar um þetta frv. [um framhaldsskóla] þannig að menn átti sig glögglega á því hvernig verkaskiptingu á milli framhaldsskólanna er háttað, hvar breytinga er þörf að mati menntmrn. og síðan fái ráðuneytið umsagnir um þetta mál og geti fjallað um það á grundvelli viðhorfa sem koma frá skólunum og þá verði auðveldara að taka ákvarðanir sem hafa heildarhagsmuni í huga en ella væri. Ég lít á það sem lið í þessu skipulagsstarfi sem nú fer fram varðandi framhaldsskólann."

Málið hefur síðan verið unnið á þennan veg. Ráðuneytinu hafa borist umsagnir frá mörgum skólum. Er verið að vinna úr þeim. Síðan verður málið kynnt á nýjan leik og stefnumarkandi ákvarðanir ráðuneytisins.


Rangfærslur Kennarablaðsins
Í síðustu viku barst mér nýjasta tölublað Kennarablaðsins í hendur, en það er gefið út af Hinu íslenska kennarafélagi (HÍK) og Kennarasambandi Íslands. Þar er áberandi rammi á forsíðu og textinn í honum hefst á þessum orðum:
"Menntamálaráðuneytið gaf fyrir jól út tilskipun um verkaskiptingu milli framhaldsskóla. Þar er kveðið á um breytingar á námsframboði einstakra skóla. Þetta er gefið út án samráðs við skólana, kennara eða samtök þeirra. Reyndar hafa tillögurnar ekki enn verið kynntar fyrir Hinu íslenska kennarafélagi." Síðan er haft eftir formanni HÍK, að þetta valdi vissulega vandræðum í sumum skólum, vinnubrögðin væru þó það versta, því að verkaskiptingu yrði að vinna í samráði við skólana „en ekki tilkynna hana með einhliða valdboði frá menntamálaráðherra."

Öll er þessi frásögn með miklum ólíkindum. Víst er, að höfundur hennar hefur ekki haft minnstu tilburði til að leita eftir því, sem sannara reynist. Eitt símtal til ráðuneytisins, svo að ekki sé minnst á tölvubréf til mín, hefði getað losað hann undan þeim hugaræsingi, sem einkennir þessa litlu, alröngu frétt.

Engin tilskipun hefur verið gefin út um þetta mál. Það hefur verið rækilega kynnt í skólum. Í heimsóknum mínum í framhaldsskóla hef ég rætt málið og orðið var við, að það hefur verið til umræðu á kennarafundum. Skýrslan hefur legið frammi og er öllum til skoðunar, sem áhuga hafa á henni. Endurskoðun skýrslunnar að fengnum fjölda umsagna er ólokið. Það hvíldi engin skylda á mér eða menntamálaráðuneytinu að fara þessa leið. Unnt hefði verið að gefa út einhliða tilskipun yfirvalda um verkaskiptinguna. Eftir að ráðuneytið hafnaði sjálft þeirri leið, er það engu síður skammað á forsíðu Kennarablaðsins fyrir að fara hana!


Gildi verkaskiptingar
Ótvírætt gildi hefur að komast að almennri niðurstöðu um verkaskiptingu milli framhaldsskóla. Fela á einstökum skólum að vera kjarnaskólar eða móðurskólar í einhverjum greinum. Skilgreina þarf með eins skýrum hætti og unnt er, hve langt er unnt að ganga í námsframboði miðað við hæfileg fjárráð hvers skóla. Móta verður heildarstefnu um fjárfestingu í dýrum tækjakosti, sem er nauðsynlegur til að geta veitt haldgóða og nútímalega menntun.
Fjölmennasti framhaldsskólinn, Fjölbrautarskólinn í Breiðholti, hefur kvartað mest undan hugmyndum í skýrslunni um nýja verkaskiptingu. Er jafnvel látið í veðri vaka, að um óvild í garð skólans sé að ræða. Þetta er mikill misskilningur. Ákvörðunin um að reisa Borgarholtsskóla byggðist hins vegar á því, að þar yrði best aðstaða til náms í málmiðnaðar- og bílgreinum. Í þessu fólst, að fjárfest yrði í fullkomnum tækjakosti fyrir skólann. Samskonar ákvörðun var á sínum tíma tekin um aðstöðu fyrir matvælagreinar í Menntaskólanum í Kópavogi. Að þessum staðreyndum verða skólastjórnendur að laga sig eins og aðrir.

Hluti af stefnumörkun vegna verkaskiptingar framhaldsskólanna er ákvörðun um það, hvernig flestum kennurum og nemendum verði gefinn kostur á að nýta sér hinn besta tækjakost, þótt hann sé hýstur í öðrum skóla. Hafi menn hagsmuni nemenda að leiðarljósi, geta þeir ekki verið talsmenn þess, að fjárfesting í dýrum tækjum dreifist milli skóla, því að þá yrði aldrei bolmagn til annars en meðalmennsku. Kröfunar til skólakerfisins eru svo miklar, að aðeins hið besta kemur til móts við þær. Skynsamleg verkaskipting á að hafa að leiðarljósi, að framhaldsskólar á Íslandi standi undir slíkum kröfum.