27.1.1996

Fíknivefnaforvarnir og skólakerfið

Ræða á kjördæmisþingi sjálfstæðismanna
Forvarnir í skólakerfinu
Reykjavík, 27. janúar 1996.

Í upphafi máls míns vil ég fagna því, að þetta brýna mál, fíkniefnavandinn og baráttan gegn honum, sé tekið til umræðu hér á þessum vettvangi okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík. Umræður um þennan vanda þurfa að fara fram um þjóðfélagið allt, því að gegn honum verður ekki snúist á árangursríkan hátt nema skapað sé rétt hugarafar almennt í þjóðfélaginu. Ég er þeirrar skoðunar, að í því felist lífsflótti, skortur á heilbrigðri lífsfyllingu og hættulegt agaleysi, ef sókn eftir vímugjöfum eykst.

Þegar rætt er um baráttu gegn fíkniefnum, ólögmætri verslun með þau og þeirri glæpsamlegu starfsemi að halda þeim að óþroskuðum ungmennum eða jafnvel börnum, verðum við eins og endranær að trúa því, að orð séu til alls fyrst. Á hinn bóginn er ekki nóg að koma saman og ræða vandann eða vekja rækilega athygli á honum í fjölmiðlum. Raunar segja sumir, að slík efnistök séu til þess fallin að vekja forvitni eða hræðslu. Forvitnin leiði síðan til þess, að menn byrji að fikta, og hræðslan til þess, að ekki sé brugðist við á yfirvegaðan hátt.

Sú mynd er nú dregin upp, að meira magn hættulegra fíkniefna sé um þessar mundir í umferð hér á landi en áður. Ekki véfengi ég þetta. Þá er fullyrt, að með ótæpilegri landasölu til ungmenna hafi verið komið á fót neðanjarðardreifikerfi, sem nú sé notað til sölu hættulegri efna. Koma í huga fréttir frá Ítalíu, þar sem mafían er sögð við skóladyr til að ná í sem yngsta viðskiptavini.

Sala fíkniefna er neðanjarðar og því erfitt að henda reiður á raunverulegu magni. Fjölmiðlar gera helst grein fyrir því með frásögnum af miklu verðmæti þess efnis, sem lögreglunni tekst að gera upptækt. Sú alþjóðlega árátta að nota alltaf peningalega mælistiku og nefna himinháar fjárhæðir um gróða fíkniefnasala er ekki til þess fallin að fæla óvandaða og gráðuga menn frá því að freista gæfunnar á þessari óheillabraut.

Könnun Rannsóknarstofnunar uppeldis- og menntamála (RUM) á vímuefnaneyslu framhaldsskólanema 1992-1994 leiðir í ljós, að það er varla marktæk aukning á fíkniefnaneyslu í framhaldsskólum á þessum árum. Þó vekur athygli, hve margir framhaldskólanemar hafa neytt annarra vímuefna en áfengis og tóbaks, en árið 1994 sögðust til dæmis tæplega 20%, að þeir hefðu prófað hass. Í þessari könnun kemur fram, að um 10% nemenda í 10. bekk grunnskóla árið 1995 hafa prófað hass og 1,6% þeirra höfðu prófað e-pilluna. Ef litið er á þróunina í neyslu frá árunum 1984 til 1995 samkvæmt könnun RUM, sýnir hún ekki þá gífurlega auknu neyslu, sem einkennir umræðurnar um þessar mundir.

Erlendar kannanir sýna, að almenn viðmið og skoðanir í þjóðfélaginu á hverjum tíma hafa mest forvarnargildi meðal þeirra, sem eru á skólaaldri. Líklegra er, að 15 ára unglingur, sem telur flesta jafnaldra sína drekka, taki til við drykkju sjálfur. Sé þeirri hugmynd komið inní kollinn á ungu fólki, að nú hneigist hópurinn til fíkniefnaneyslu, geta opinberar forvarnarumræður um þennan vanda snúist upp í andhverfu sína. Við verðum því að gæta okkar hér sem annars staðar, þegar tekið er til við að draga upp mynd af ástandinu. Þótt allir vilji vel getur vanhugsaður málflutningur jafnvel aukið hættuna á því, að enn fleiri unglingar leiðist inn á braut vímuefnanna.

Þá vil ég láta þá skoðun í ljós, að orðið "átak", sem oft er notað í umræðum í baráttunni gegn fíkniefnum, gefur til kynna, að um tímabundna aðgerð sé að ræða. Það dugi að taka rösklega til hendi í skamman tíma, gera átak, og þá komist mál í rétt horf. Í baráttunni við fíkniefni þarf meira en átak, það er þörf á samfelldu starfi nótt sem nýtan dag. Þannig ber að nálgast viðfangsefnið, en þegar unnið er á þennan hátt hverfur spennan fljótt og þá reynir á að standa sig, án þess að í kastljósi fjölmiðla sé unnið. Í þeim anda á að standa að forvarnarstarfi innan skólanna.

Hvarvetna þar sem um þessi mál er rætt, er gerð krafa til þess, að skólakerfið sé notað til að sporna gegn því, að ungmenni verði fíkniefnum að bráð. Baráttan gegn fíkniefnum felst meðal annars í því að styrkja sjálfstraust og sjálfsímynd barna og ungmenna, sem einnig eflir andstöðu þeirra við ofbeldi. Þetta setur til dæmis mikinn svip á Lions Quest námsefnið, sem heitir "Að ná tökum á tilverunni" og er einkum notað í 7. og 8. bekk grunnskóla.

[byte=12 0C]Ekki er óeðlilegt, að mikil krafa sé gerð til skólakerfisins. Til þess er varið verulegum fjármunum og það nýtur trausts og virðingar. Til að kennarar geti áttað sig á vandanum og tekist á við hann er nauðsynlegt að þeim sé veitt fræðsla ekki síður en ungmennunum sjálfum. Með því að starfa með hópi nemenda getur glöggur kennari oft orðið fyrstur til að átta sig á því, að hætta sé á ferðum. Kennarinn á þá að vita, hvert hann getur snúið sér til að leita aðstoðar.

Náin tengsl foreldra við skóla og kennara eru einnig til þess fallin að auðvelda forvarnarstarf. Það felst ekki í því einu að benda á hættur heldur ekki síður í því að bregðast við með réttum aðferðum strax og fyrstu einkenni óeðlilegrar hegðunar koma í ljós. Með samstarfi kennara og foreldra er unnt að skapa nauðsynlega umgjörð um líf ungmennanna.

Forvarnarhópur hefur um nokkurt skeið unnið að því innan menntamálaráðuneytisins að styrkja baráttuna gegn fíkniefnum í skólum og íþrótta- og æskulýðsstarfi. Á vegum ráðuneytisins hefur verið kannað, hvernig grunnskólar, framhaldsskólar og skólar, sem mennta kennara, sinna forvörnum. Nokkuð á annað hundrað skólar hafa svarað spurningum ráðuneytisins um þessi mál. Er verið að vinna úr upplýsingum. Á grundvelli þeirra verður auðveldara en ella fyrir ráðuneytið að sinna samræmingarhlutverki sínu.

Eitt af þeim forvarnarverkefnum sem langt er á veg komið innan menntamálaráðuneytis er tilraunaverkefni um jafningjafræðslu, sem Félag framhaldsskólanema (FF) og ráðuneytið hafa hafið. Verkefnið felst í því, að nemendur sjálfir vinni að viðhorfsbreytingu meðal framhaldsskólanema til neyslu tóbaks, áfengis og annarra fíkniefna. Margt bendir einnig til, að viðhorf framhaldsskólanema til fíkniefnaneyslu sé að breytast í þá veru að neysla ýmissa fíkniefna, svo sem E-pillunnar, sé ekki talin tiltökumál og efnið er jafnvel talið hættulítið eða hættulaust. Kostir jafningjafræðslu eru þeir, að jafnaldrar eða skólafélagar geta oft haft meiri áhrif á félaga sína, en þeir sem eldri eru.

Rannsóknir, sem gerðar hafa verið hér á landi, sýna, að vinahópur hefur mikil áhrif á lífsstíl unglinga og þar á meðal áfengis- og fíkniefnaneyslu. Mikilvægt er að framhaldsskólanemar fái dyggan stuðning í skólum sínum til að hrinda verkefninu í framkvæmd en unnið er að því um þessar mundir að virkja tengiliði í flestum framhaldsskólum landsins.

[byte=12 0C]Neysla áfengis og annarra fíkniefna er einn helsti áhrifaþáttur sjálfsvíga og það er ekki síst þess vegna sem mikilvægt er að draga úr fíkniefnanotkun. Mjög umfangsmikið nefndarstarf hefur farið fram á vegum menntamálaráðuneytisins um orsakir og tíðni sjálfsvíga á Íslandi. Sú nefnd var stofnuð í kjölfar þingsályktunartillögu sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins Hjálmar Jónsson alþingismaður flutti og var samþykkt árið 1992. Gert er ráð fyrir að niðurstöður nefndarinnar liggi fyrir á næstu vikum.

Góðir áheyrendur!

Samhliða því, sem skólayfirvöld standa sjálf fyrir starfi, sem miðar að forvörnum í skólum, sækjast margir aðilar utan skólanna eftir því að komast inn í þá með ágætan boðskap sinn. Við þekkjum dæmi um vel heppnað starf af því tagi eins og til dæmis gegn reykingum. Ég hef hins vegar einnig rekið mig á það, að í þessu efni ríkir samkeppni, þegar samvinna væri miklu æskilegri til að ná árangri. Það tekur enginn skólanema frá þeim, sem vilja ná sambandi við þá á vinnustað þeirra. Það gildir hins vegar hið sama um árangur af forvörnum og almennt um árangursríkt starf, að leggja verður rækt við það um langan tíma.

Æskilegt væri, að hinir mörgu aðilar, sem vilja nota skólana og fá nemendur til að tileinka sér heilbrigt lífsviðhorf og lifnaðarhætti kæmu fram með áætlun gagnvart menntamálaráðuneytinu, sem síðan sæi um tengingu gagnvart skólunum. Þannig yrði unnt að stuðla að því, að forvarnir fléttuðust meira en nú er inn í skólastarfið sjálft til dæmis með ritgerðarsmíð eða verkefnagerð af ýmsu tagi.

Barátta um fjármagn setur einnig oft svip sinn á störf forvarnaraðila. Kraftarnir fara þá frekar í innbyrðis baráttu en við vágestinn sjálfan. Einnig á þessu sviði er þörf á samræmingu, svo að menn haldi ekki, að nýjungum sé stefnt gegn einhverju, sem þeir hafa helgað sér.

Ráðuneyti og sveitarfélög verða að vinna saman þannig að baráttan verði markviss. Hefur ríkisstjórnin nú þegar stigið skref í þá átt fyrir sitt leyti. Er þess að vænta, að undir forystu dómsmálamálaráðherra verði komið á fót samræmingarstjórn milli ráðuneyta, sem sérstaklega koma að þessum málum.

Fíknivarnir í skólakerfinu munu aldrei leysa annað fíknivarnarstarf af hólmi. Við eigum hins vegar að setja okkur það markmið, að skólar landsins og nemendur þeirra verði friðhelgir gagnvart fíkniefnum. Að verulegu leyti ræðst það af hugarfari, hvort okkur tekst að ná þessu markmiði. Skömm þeirra er mikil, sem ráðast á þessi helgu vé í gervi sölumanna dauðans.