30.11.1997

Aðventuræða í Víðistaðakirkju

Aðventuræða - Víðistaðakirkju, Hafnarfirði.
30. nóvember 1997

Aðventa, tími væntingar og undirbúnings okkar kristinna manna vegna fæðingar frelsarans. Aðventa, lífið sjálft, undirbúningur undir nýjan samastað.

"Sannlega, sannlega segi ég yður; sá sem heyrir mitt orð og trúir þeim, sem sendi mig, hefir eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur hefir hann stigið yfir frá dauðanum til lífsins," segir Jesús Kristur í Jóhannesarguðspjalli.

Þegar við komum saman í kirkjum landsins í kvöld á fyrsta sunnudegi í aðventu fyllir vitundin um fæðingu frelsarans og sigur hans á dauðanum hugi okkar gleði og eftirvæntingu. Við staðfestum vissu okkar um, að undirbúningur og uppeldi ber ríkulegan ávöxt. Lengi býr að fyrstu gerð og strax á ungum aldri mótast lífsleiðin öll. Í Lúkasarguðspjalli er fyrstu uppvaxtarárum Jesús lýst með þessum orðum. "En sveinninn óx og styrktist, fullur visku, og náð Guðs var yfir honum."

Aðventan endurspeglar meginstef kristinnar trúar. Við eigum að minnast fyrirheitsins, sem felst í lífi og boðskap Krists.

Í þeim anda viljum við sjá börn okkar vaxa úr grasi. Hvert með sínum hætti búa foreldrar og heimili þeim framtíð. Þótt hver sé sinnar gæfu smiður, eru hins vegar sífellt gerðar ríkari kröfur til samfélagsins alls við uppeldi og undirbúning barna undir lífið - ekki síst til skólanna.

Atorka fólksins sjálfs og hæfileikar ráða ríkidæmi hverrar þjóðar. Á þetta frekar við nú á öld upplýsinga og þekkingar en nokkru sinni fyrr. Hvern einstakling ber að meta og virða að verðleikum. Við eigum einnig hiklaust að lúta leiðsögn þeirra, sem skara fram úr og gefa gott fordæmi með störfum sínum og málflutningi. Sagan geymir mörg dæmi um úrslitaáhrif slíkra manna.

Er einkar vel við hæfi, að fara nokkrum orðum um forystumenn í uppeldis- og skólamálum á aðventukvöldi hér í Víðistaðakirkju. Fyrir um það bil einni öld störfuðu hér í Hafnarfirði einstaklingar, sem höfðu forgöngu um gjörbyltingu í fræðslumálum og lögðu jafnframt grunn að þeirri stefnu, sem síðan hefur skilað þjóðinni hratt fram á veg.

Þar gengu þeir feðgar sr. Þórarinn Böðvarsson í Görðum og Jón Þórarinsson fram fyrir skjöldu og stofnuðu meðal annars alþýðu- og gagnfræðaskólann í Flensborg árið 1882. Þeir sinntu miklum skyldum fyrir byggðarlag sitt og var falinn margvíslegur trúnaður. Þannig sátu þeir báðir á Alþingi og beittu sér þar mjög í þágu fræðslu- og menntamála.

Í Flensborg kom síðar til sögunnar fyrsta kennaraskóladeild okkar Íslendinga. Jón var ráðinn umsjónarmaður fræðslumála í landinu og varð fyrsti fræðslumálastjórinn 1908. Árið áður hafði Alþingi með öflugum stuðningi hans samþykkt fyrstu almennu fræðslulöggjöfina, sem mælti fyrir um skólaskyldu frá 10 til 14 ára aldurs.

Því til staðfestingar, að hér voru engir meðalmenn á ferð, má vitna til þess, sem sagt var um séra Þórarinn, að héraðsríki hans byggðist á viturlegum ráðum hans og stillingu, en eigi síður hinu, að þar áttu allir, sem hann vildu þekkjast traust og athvarf. Hann var ekki aðeins andlegur leiðtogi heldur einnig veraldlegur, því að hann sat, eins og áður sagði, um langt árabil á Alþingi og hafði jafnframt öll sveitarstjórnarvöld í hendi auk þess sem hann var með auðugri mönnum í landinu um sína daga. Nú á tímum væri líklega talið, að slíkur héraðshöfðingi eða leiðtogi hefði of mikil áhrif og brýnna væri að setja honum skorður en hlíta ráðum hans.

Er verðugt verkefni, að gerð sé gleggri grein fyrir hlut séra Þórarins og Jóns sonar hans við skipulagt upphaf almenns fræðslustarfs og skólaskyldu. Er meginskipanin enn í dag í sömu mynd og fyrir 90 árum, þótt margt hafi breyst á þeim tíma, sem liðinn er frá setningu fræðslulaganna árið 1907.

Kennaraskóli Íslands var stofnaður 1908 og tók við af deildinni í Flensborg undir stjórn séra Magnúsar Helgasonar. Hafði hann þá kennt við Flensborgarskóla frá 1904. Gekk Magnús í Latínuskólann með Jóni Þórarinssyni og dáðist að honum. Séra Ásmundur Guðmundsson síðar biskup segir í minningargrein um Magnús í Skírni 1941: "Þeir [bekkjarbræður Magnúsar] voru eldri en hann og höfðu sig meira í frammi, eldheitir ættjarðarvinir og frelsisvinir, albúnir þess að útrýma úr skólanum öllum kotungsanda og kúgunar, og reyna síðar að hefja þjóðina til vegs og gengis."

Á þessum árum , seinni hluta 19. aldar, bárust nýir straumar frá Evrópu. Þeir fóru um íslenskt þjóðlíf og hvöttu framsýna dugnaðarmenn til dáða. Gamla álfan var að losna úr viðjum einveldis og föðurlegrar konungsforsjár Bylgja frelsis og þjóðernisástar kveikti vilja Íslendinga til sjálfstæðis. Er augljóst, að þjóðinni hefði ekki tekist að rísa úr öskustónni, nema vegna þess að hún virkjaði nýja strauma í mennta- og fræðslumálum eins og á öðrum sviðum.

Var það sameiginlegt afreksverk þeirra Jóns Þórarinssonar og séra Magnúsar, vinanna og bekkjarbræðranna, að koma fræðslulögunum í framkvæmd. Vann Jón að ytri málum en séra Magnús einbeitti starfi sínu að innri hlið málanna, menntun kennara, sem skyldu dreifa sér um byggðir landsins og veita börnum fræðslu samkvæmt hinum nýju lögum.

Margar sögur fara af ást og aðdáun á séra Magnúsi. Þótti mönnum þeir eitthvað göfgari og betri að vera með honum, eins og séra Ásmundur orðar það. Hafði Magnús mikil áhrif með ræðum sínum og voru þær gefnar út á bókum.

Þar er meðal annars að finna ræðu á kennarafundi hér í Hafnarfirði árið 1906 um kristindómsfræðsluna. Minnir hún okkur á, hve skammt var á milli kirkju og skóla á þessum árum, enda hafði það verið hlutverk prestanna um aldir að hafa auga með heimakennslu og taka við þeim, sem áhuga höfðu á því að mennta sig meira en unnt var innan veggja heimilisins.

Rökstyður Magnús í ræðunni þá skoðun sína, að kristindómurinn sé eini grundvöllur undir siðgæði manna og að trúarbrögðin séu ómissandi grundvöllur undir gæfu manna og farsæld. Til að sporna við sundrungu og flokkadráttum í landinu beri að stuðla að því, að sannleiksandi og kærleiksandi Krists nái fastari tökum á þjóðinni. Til að snúast gegn því, að siðmenningin, sem teygi arma sína út um annes og yst til dala, auki munaðarlíf og kveifarskap, þurfi menn að koma augum á stað og athvarf, huggun og von, sem styðji þá og haldi þeim uppi í baráttu lífsins og þjáningum. Segist hann ekki vita af neinni huggun og stoð, sem til þess dugi, annarri en trúnni á föðurinn á hæðum, og engri von, nema von eilífs lífs.

Þá segir hann:

"Kennarastéttin og prestastéttin standa fyrir mínum augum mjög samhliða, með því sameiginlega ætlunarverki á herðum sér að ala önn fyrir andlegum heillum þjóðarinnar. Það er um þessar mundir mikið talað um framfarir og mikið að þeim unnið í verklegum efnum, og sannarlega vildi ég óska, að þær yrðu sem mestar, en ég vildi ekki samt, að allur hugur þjóðarinnar snerist að þeim; það er svo hætt við, að andlegt líf hennar kafnaði þá í efnishyggju, aurasýki og munaðarsótt; og það eru þessar stéttir, kennarar og prestar, sem verða að berjast sameiginlega móti þeirri hættu; þær verða að kosta kapps að halda þeirri tilfinningu vakandi hjá þjóðinni, að til eru betri og veglegri auður en gull, og æðra frelsi, en að þjóna fýsnum sínum. - Ég get vel skilið, að margur sé sá í kennarastöðu, sem vex í augum svo þýðingarmikið ætlunarverk, svo hátt mark, og finnist kraftar sínir ekki því vaxnir, og kostir þeir, er sér séu boðnir og sinni stétt af hálfu þjóðfélagsins, samsvari því ekki vel.

En við hvern slíkan vil ég segja: "Það er satt, staða þín og starf er ekki mikils virt svona út á burt, en það má rækja það svo, að allir, sem þess njóta, blessi þig. Það sjást þess kannske lítil merki, sem þér hefir á unnizt og þú hlýtur hvorki fé né frægð fyrir það, en ef þú hefir ritað "faðir vor³ í eitt barnshjarta, svo að það máist þaðan ekki um aldur og æfi, þá er það meira vert, en þó að þú hefðir smíðað það listaverk, er borið hefði frægðarorð þitt um allan heim. Það er satt, að máttur þinn er lítill, en guð er í veikum máttugur og synjar eigi liðs þeim, er biður hann iðulega af hjarta. Og hann var eigi stór peningurinn, sem ekkjan lagði í musterisfjárhirzluna, þó leit frelsarinn á gjöfina með velþóknun.³³

Já, guð er í veikum máttugur og synjar eigi liðs þeim, er biður hann iðulega af hjarta. Enn á þessi boðskapur erindi til okkar allra og þeirra, sem starfa í skólum. Áhuginn á að láta gott af sér leiða og huga að því, sem fyllir barnshjörtun, birtist einnig víða. Blasti hann til dæmis við fyrir fáeinum dögum, þegar boðað var til málþings um stráka í skólum og stöðu þeirra. Hefðum við fundarboðendur orðið ánægðir, ef hundrað manns eða svo hefðu látið sjá sig á fundinum. Þegar til kastanna kom vörðu meira en fimm hundruð dagstund til að hlýða á erindi og taka þátt í umræðum um málefnið. Er mikilvægt, að við höldum vöku okkar eins og leiðtogarnir í fræðslumálum gerðu um síðustu aldamót. Á þó hið sama við nú á tímum og þá, að fórnfúst starf í þágu barna og menntunar þeirra verður aldrei launað sem skyldi.

Góðir áheyrendur!

Þegar Magnús Helgason fæddist í Birtingaholti í Árnessýslu fyrir réttum 140 árum, þurftu menn ekki að ræða sérstaklega um vanda stráka í skólum. Fræðslan var veitt í heimahúsum og sjálfur segist hann hafa verið fluglæs fimm ára og þá hafi hann hlaupið á eftir móður sinni með þjóðsögurnar og lesið fyrir hana, þegar tóm gafst. Þá var ekki heldur gert ráð fyrir því, að stúlkur gengu menntaveginn, þannig að samanburður, sem sýndi lakari hlut stráka var ekki fyrir hendi. Magnús segir raunar, að á uppvaxtarárum sínum hafi enn ríkt miðaldarmyrkur yfir landi og þjóð.

Síðan hefur þjóðfélag okkar tekið stakkaskiptum. Breytingarnar hafa orðið meiri en á þeim tæplega þúsund árum, sem liðu, áður en nútíminn hóf hér innreið sína um miðbik síðustu aldar.

Nútíminn og allt, sem honum fylgir, breytir hins vegar ekki þeim sannindum, að þakklæti fyrir vel unnið og fornfúst starf er oft meira virði en fjármunir. Öll þráum við, að verk okkar séu metin af sanngirni og ekki sé alltaf fyrst litið á dökku hliðarnar og hitt talið sjálfsagt og jafnvel liggja í hlutarins eðli, sem vel er gert.

Það er eitt af einkennum líðandi stundar, að við gleymum of oft færa þakkir. Við erum tregari til að láta í ljós kærleika í garð náunga okkar en að setja fram við hann kröfur. Þakklæti og hvatning eru þó líklegri til að skila árangri en aðfinnslur og ávítur.

Með því að krefjast meira af öðrum en sjálfum okkur, flýjum við undan kröfunni um góðan undirbúning til að ná árangri. Í frægum fyrirlestrum um líf og dauða sagði Sigurður Nordal prófessor, að það væri hugarburður og misskilningur, að skynsamlegur undirbúningur annars lífs kæmi í bága við sanna velferð í þessu lífi. Miklu fremur væri nauðsyn að hafa hvorttveggja í huga.

Allt stefnir þetta til þeirrar áttar, að minna okkur á eilíft gildi undirbúnings og uppeldis. Þetta er boðskapur aðventunnar. Ljósin, sem við kveikjum í eftirvæntingu eftir jólunum, minna á hið eilífa ljós og ljósið, sem þarf að loga innra með okkur hverju og einu til að við metum að verðleikum, að við erum guðs börn.

"Ég er ljós heimsins. Sá, sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins." segir Jesús Kristur. Megi þetta ljós lýsa okkur öllum á aðventu jóla og endranær og vera okkur sú birta, sem veitir lífinu sanna gleði.