21.11.1997

Samræmd próf - málþing

Málþing um samræmd próf - menntamálaráðuneytinu
21. nóvember 1997

Góðir þinggestir.

Ég býð ykkur velkomin til þessa málþings um samræmd próf. Tildrög þess eru þau að í apríl síðastliðinn lagði stefnumótunarnefnd endurskoðunar á aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla meðal annars til að gerðar yrðu breytingar á eðli og tilhögun samræmdra prófa í 10. bekk. Í nefndinni sitja fulltrúar allra stjórnmálaflokka, sem eiga menn á á Alþingi, er Sigríður Anna Þórðardóttir formaður hennar, en innan nefndarinnar náðist fullt samkomulag um niðurstöðu hennar. Hlutverk nefndarinnar er að vera menntamálaráðherra til ráðgjafar um meginsjónarmið við námskrárgerðarina. Lagði nefndin meðal annars til við mig að samræmd próf í grunnskólum yrðu haldin tvisvar á ári og að valfrelsi nemenda í tengslum við samræmd próf yrði aukið. Í minnisblaði, sem ég lagði fyrir ríkisstjórnina í lok maí segir meðal annars um samræmd próf:

“Umræða um samræmd próf hefur verið ofarlega á baugi og er tillaga stefnumótunarnefndar mikilvægt framlag til þeirrar umræðu. Á hinn bóginn er ljóst að ákvörðun um breytingar á tilhögun samræmdra prófa þarfnast nákvæmrar ígrundunar, opinnar og yfirvegaðrar umræðu.³ Lagði ég því til í þessu sambandi, að menntamálaráðuneytinu yrði falið að gangast fyrir skipulagðri umræðu um málið næsta haust og undirbyggi þvínæst tillögu til ríkisstjórnarinnar um breytingar á eðli og tilhögun prófanna.

Að þessari tillögu samþykktri fól ég verkefnisstjórn endurskoðunar aðalnámskráa að vinna tillögu um það, hvernig standa skuli að verki í ljósi samþykktar ríkisstjórnarinnar. Verkefnisstjórn kaus að fara þá leið að menntamálaráðuneytið efndi til lokaðs málþings með fulltrúum ýmissa hagsmunaðila til að ræða stöðu samræmdra prófa í fullum trúnaði, fá fram viðhorf umræddra aðila og leita eftir viðbrögðum við hugmyndum er fram hafa komið í vinnu verkefnisstjórnar við mótun nýrrar menntastefnu. Ráðuneytið mun að því loknu taka afstöðu til samræmdra prófa og kynna hugmyndir sínar í væntanlegri námskrárstefnu.

Á liðnum árum hefur mikið verið rætt um samræmd próf í skólum. Er það skiljanlegt, þegar þess er gætt að þessi próf veita oft tiltekin réttindi eða eru mjög afgerandi fyrir framtíðarnám nemenda. Eins og gefur að skilja snúast umræður um próf oft um útkomu í einstökum prófum í stað grundvallaratriða eins og um markmið prófanna eða áhrif þeirra á nemendur og skólastarf.

Samræmd próf geta haft margvíslegan tilgang. Í fyrsta lagi er hlutverk þeirra að afla kerfisbundinna upplýsinga um breytingar á námsárangri nemenda á landsvísu. Með því móti eru þau hluti af ákveðnu eftirliti með menntakerfinu. Í öðru lagi er hlutverk þeirra að veita nemendum sjálfum og aðstandendum þeirra samanburðarhæfar upplýsingar um námsárangur þannig að þessum aðilum sé ljóst hvar nemandinn er staddur í námi miðað við aðra nemendur. Í þriðja lagi er tilgangur prófanna að veita skólum samanburðarhæfar upplýsingar um námsárangur nemenda. Slíkar upplýsingar eru mikilvægar í sjálfsmati skóla og viðleitni þeirra til að bæta skólastarfið. Í fjórða lagi þjóna samræmd próf þeim tilgangi að vera inntökupróf á næsta skólastig. Í fimmta lagi hafa niðurstöður samræmdra prófa reynst mjög gagnlegar í rannsóknum á skólastarfi. Í sjötta lagi hafa samræmd próf almennt upplýsingagildi og geta því skapað mikilvægan umræðugrundvöll um skólamál.

Samkvæmt nýjum lögum um framhaldsskóla ber að skilgreina inntökuskilyðri inn á bóknámsbrautir. Verkefnisstjórn endurskoðunar aðalnámskráa hefur unnið að þessu verki í tengslum við mótun nýrrar menntastefnu og meðal annars hugað að því hvernig nýta mætti samræmd próf í þessu augnarmiði.

Eins og fyrr segir hefur umræða um samræmd próf að verulegu leyti mótast af því hversu áhættusöm prófin eru fyrir nemendur, þ.e.a.s. hversu mikil áhrif þau hafa á réttindi nemenda til starfa eða áframhaldandi náms. Hér á landi á þetta einkum við samræmd próf við lok grunnskóla, sveinspróf og fyrirhuguð samræmd próf í framhaldsskólum. Það er hins vegar mikilvægt að átta sig á því að ekki verður fjallað um hlutverk og framkvæmd samræmdra prófa án tillits til þeirrar námskrárstefnu sem í gildi er á hverjum tíma. Prófin eiga að þjóna markmiðum námskrárinnar en ekki öfugt.

Frá árinu 1974 hefur andi grunnskólalaga verið sá að allir nemendur leggi stund á sama nám með þeim undantekningum að fötluðum nemendum hefur verið boðið nám í sérskólum eða sérdeildum almennra skóla og nemendum í 9. og 10. bekk hefur verið boðið nokkurt valfrelsi í námi. Núna er gert ráð fyrir að allir nemendur, með örfáum undantekninum, þreyti samræmd próf í lok grunnskóla í fjórum námsgreinum. Þessi stefna hefur reynst mjög umdeild. Því er haldið fram að með því að þvinga alla til að gangast undir samræmd próf í lok grunnskólans sé verið að halda námsefni að stórum hópi nemenda sem þyrfti á allt öðru námsefni að halda. Reynslan hefur sýnt að stór hluti nemenda á í erfiðleikum með að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til þeirra í lok grunnskólans. Með markvissara námi í grunnskólum má án efa bæta árangur þessara nemenda en eftir stendur að það er erfitt að halda því fram, í ljósi niðurstaðna samræmdra prófa, að allir nemendur fái kennslu við hæfi í grunnskólum. Sú spurning hlýtur að vega þungt, hvort ásættanlegt sé að halda nemendum, sem þegar eru komnir tveimur til þremur árum á eftir mörgum jafnöldrum sínum í námi, að viðfangsefnum sem þeir ráða ekki við. Samkvæmt lögum eiga nemendur rétt á viðfangsefnum sem þeir geta ráðið við, því að aðeins með því móti geta þeir öðlast þá trú á sjálfa sig að þeir treysti sér til að takast á við önnur krefjandi verkefni.

Ef litið er á samræmd lokapróf í 10. bekk út frá því sjónarmiði að þau séu öðru fremur réttindapróf gagnvart framhaldsskólastiginu hljóta að vakna spurningar um réttmæti þess að lögbinda slíka próftöku eða binda próftökuna við ákveðinn aldur nemenda. Ef gerð er sú krafa að menntakerfið lagi sig að þörfum nemenda eftir því sem kostur er, til dæmis með sveigjanleika og námstilboðum við hæfi, þá vaknar sú spurning hvort ekki sé rétt að heimila nemendum að velja hvort þeir þreyti samræmd próf í lok grunnskóla og/eða að þeir þreyti prófin þegar þeim hentar eða telja sig tilbúna til þess. Í því sambandi mætti hugsa sér að nemendur gætu einnig flýtt próftöku. Nemendur fengju á nánar skilgreindum forsendum heimild til að þreyta samræmd próf í lok 9. bekkjar og stæðust þeir þær kröfur sem gerðar eru til inngöngu í framhaldsskóla mættu þeir innrita sig í framhaldsskóla að hausti.

Ráðstöfun af þessu tagi gæfi nemendum ekki aðeins kost á að nýta krafta sína og tíma betur heldur væri hún einnig skipulagt skref til að lækka útskriftaraldur úr framhaldsskóla, sem er sjálfstætt markmið við endurskoðun námskránna.

Þegar rætt er um samræmd próf í framhaldsskólum, einkum stúdentsprófin sem, eins og samræmdu prófin í lok grunnskóla, veita réttindi til náms á næsta skólastigi eru almennu röksemdirnar í raun hinar sömu. Sú spurning hlýtur að vakna hvort skynsamlegt sé að láta alla nemendur á stúdentsprófsbrautum þreyta sömu samræmdu prófin án tillits til náms á þeim brautum sem nemendur hafa valið til úrskriftar og til framtíðaráforma nemendanna. Er skynsamlegt að láta nemendur á tungumálabraut eða listabrautum þreyta sama stærðfræðiprófið og nemendur á náttúrufræðibraut? Eða er skynsamlegt að láta nemendur á náttúrufræðibraut þreyta sömu samræmdu tungumálaprófin og nemendur á málabraut? Þessar spurningar lúta að því ákvæði framhaldsskólalaganna, þar sem segir, að uppbygging og skipulag náms skuli taka mið að lokatakmarki þess. Spurning er hvort eðlilegt sé að láta nemendur á ólíkum námsbrautum, brautum með ólíkt innihald og markmið, þreyta sömu lokaprófin.

Þessar hugleiðingar um samræmd stúdentspróf kalla á grundvallarendurskoðun á stöðu stúdentsprófsins. Hingað til hefur verið litið þannig á að stúdentspróf veitti almenn réttindi til háskólanáms þannig að lokapróf af öllum námsbrautum veittu aðgang að öllu háskólanámi. Raunin er hins vegar sú að margir erlendir háskólar gera kröfur um sérstakan undirbúning úr framhaldsskóla og nokkrar deildir í Háskóla Íslands gera slíkt hið sama. Í ljósi þess hversu fjölbreytt framhaldsskóla- og háskólanám er orðið hlýtur sú spurning að vakna hvort hugmyndin um eitt algilt stúdentspróf sé ekki tímaskekkja og tími sé kominn til að viðurkenna að auka þurfi sérhæfingu á framhaldsskólastigi með viðeigandi takmörkunum á réttindum. Er nauðsynlegt að nemandi sem hefur brennandi áhuga á tungumálum afli sér réttinda til að stunda nám í verkfræði eða raunvísindum á háskólastigi, svo dæmi sé tekið? Eða er kannski eðlilegra að sníða framhaldsskólanámið betur að áhugasviði nemenda?

Hér hef ég einkum rætt um gildi samræmdra prófa og hvernig þau geti best gegnt hlutverki sínu. Það er ekki hlutverk prófanna að draga úr sveigjanleika menntakerfisins. Þau eiga ekki að þrengja kosti skólakerfisins til að koma til móts við þarfir nemenda. Þá eiga prófin ekki að stýra öðrum þáttum skólastarfsins en þeim, sem fellur beinlínis að prófunum. Loks er það ekki hlutverk samræmdra prófa í lok grunnskóla að halda nemendum að viðfangsefnum sem þeir ráða ekki við. Hafi prófin þessi áhrif kann það eitt að vera nægileg ástæða til að endurskoða reglur og lög sem um prófin gilda.

Ég lít ekki þannig á, að á þessu málþingi eigi að ræða um framkvæmd samræmdra prófa eins og henni er hagað um þessar mundir. Menntamálaráðuneytið hefur gefið út reglugerð um samræmd próf og gert samning við Rannsóknastofnun um uppeldis- og menntamál um framkvæmd prófanna. Ljóst er, að á ári hverju kalla samræmdu prófin á töluverðar umræður vegna þess hvernig að þeim er staðið. Hér á ekki að halda þeim umræðum áfram heldur er ætlunin að líta til framtíðar og leggja á ráðin um miklu róttækari nýskipan en felst í einstökum framkvæmdaatriðum við prófin á ári hverju.

Ekki verður rætt um hlutverk samræmdra prófa án tillits til skólastefnunnar í heild sinni. Öll atriðin, sem ég hef reifað snerta með einum eða öðrum hætti grundvallarspurningar um það hvernig skólinn kemur til móts við ólíka nemendur og hvaða valfrelsi í námi á að veita nemendum.

Ég þakka ykkur fyrir að koma til þessa fundar og verja með starfsmönnum menntamálaráðuneytisins dagstund til að ræða þetta mikilvæga mál. Fullvissa ég ykkur um að ráðuneytið mun taka mikið mið af því, sem hér verður sagt.