14.11.1997

Aðalfundur Hins íslenska kennarafélags

Þing Hins íslenska kennarafélags
14. nóvember 1997

Það er rétt, sem fram kom í setningarræðu formanns, að mikið hefur gerst í skólamálum á þeim tveimur árum, sem liðin eru síðan þing Hins íslenska kennarafélags var síðast haldið. Vil ég þakka samstarfið þann tíma og tel ég, að það hafi að ýsmu leyti verið bjartara yfir því en formaður sagði. Get ég til dæmis ekki fallist á, að í vinnuréttar- og kjaramálum hafi ríkisvaldið gengið með óeðlilegum hætti á hlut kennara. Af minni hálfu hefur samstarfið við kennara verið á þann veg, að ég kvarta ekki undan því. Vissulega erum við ekki alltaf sammála, enda ekki við því að búast.

Formaðurinn vék að því, að í lög ætti að festa ákvæði um fjögurra ára kennaranám. Ég er ekki sammála því. Í Danmörku eru ný lög um kennaramenntun að koma til framkvæmda og þar er horfið að því ráði að festa aftur nákvæmlega í lög fyrirmæli um inntak kennaramenntunarinnar. Er þetta gert til að tryggja sambærilega menntun í þeim 18 dönsku skólum, sem mennta kennara. Málum er háttað á annan veg hér á landi. Nú liggja fyrir tillögur að námskrá við hinn nýja Kennara- og uppeldisháskóla og einnig hefur verið fjallað um inntak kennaramenntunar í samstarfi Kennaraháskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands. Ég er þeirrar skoðunar að hið sama eigi að gilda um kennaramenntun og aðra háskólamenntun, að skólarnir sjálfir ákveði inntak og lengd námsins.

Í setningarræðu sinni vék formaðurinn sérstaklega að lögum um lögverndun kennarastarfsins og ágreiningi við mig vegna ákvæða í frumvarpinu um fækkun eininga í uppeldis- og kennslufræðum fyrir sérmenntaða háskólamenn og menn með mikla starfsreynslu á sviði starfsmenntunar. Ég mun endurflytja frumvarpið með óbreyttum ákvæðum um þetta efni, en ástæðan fyrir því, að frumvarpið er ekki enn komið fram, er, að ég vil reyna til þrautar, hvort ekki sé unnt að setja ákvæði um réttarstöðu leikskólakennara inn í það.

Þetta tækifæri hér og nú vil ég nota sérstaklega til að fjalla um gjörbreytingu á fjárhagslegum samskiptum menntamálaráðuneytisins og framhaldsskólanna með því að gerðir verða svonefndir skólasamningar. Samningarnir eru gerðir í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um árangursstjórnun í ríkisstofnunum og 39. grein laga um framhaldsskóla, þar sem segir, að menntamálaráðherra geri tillögur til fjárveitingar á fjárlögum til hvers skóla á grundvelli samþykktrar kennslu- og fjárhagsáætlunar skólans til þriggja ára, en áætlunina skuli skoða árlega með tilliti til nemendafjölda skólans. Samningarnir taka einnig mið af 7. grein framhaldsskólalaganna, þar sem segir, að skólanefnd geri árlega starfs- og fjárhagsáætlun fyrir skólann til þriggja ára, sem háð sé samþykki menntamálaráðherra.

Samningurinn fjallar annars vegar um starfsemi hvers skóla og þann árangur, sem honum er ætlað að ná, og hins vegar um fjárveitingar til skólans. Samningurinn er umgjörð um samskipti menntamálaráðuneytisins og viðkomandi skóla en breytir þó hvorki ábyrgð ráðherra gagnvart Alþingi á rekstri skólans né þeim stjórnsýsluskyldum, sem skólinn hefur lögum samkvæmt.

Menntamálaráðuneytið leggur áherslu á, að sem flestir þeirra nemenda, sem skrá sig í nám við skóla, skili sér til prófs. Þá gerir ráðuneytið kröfu um að framhaldsskólar skipuleggi starfsemi sína með þeim hætti að sem best nýting verði í þeim námshópum, sem starfræktir eru við skólana. Þetta kemur til framkvæmda með þeim hætti að í reiknilíkani, sem miðað er við í samningnum, er gert ráð fyrir 77,46% nýtingarhlutfalli, það er að fjöldi nemenda, sem þreytir próf í hverjum námshópi, sé að meðaltali 77,46% af þeim fjölda, sem gefinn er upp sem hámarksviðmið námshópa. Hefur ráðuneytið sett fram reglur um, hvernig einstakir áfangar skuli flokkaðir.

Í samningnum er mælt fyrir um, að á samningstímanum skuli skólar vinna að því að semja skólanámskrá og innleiða aðferðir við mat á skólastarfi. Þá er það markmið einnig sett, að skólar efli forvarnarstarf og leiti leiða til að stemma stigu við notkun nemenda á hvers kyns vímuefnum.

Undir skólasamning fellur almennur rekstur, viðhald á húsnæði og heimavista, þar sem það á við, svo og önnur verkefni, sem viðkomandi skóli kann að hafa með höndum.

Frá síðasta vori hefur ráðuneytið unnið skipulega að því að samningsbinda tengsl sín við framhaldsskólana á þessum forsendum. Samráð var haft við skólastjórnendur áður en hinn endanlegi samningstexti var festur á blað. Síðan hefur verið stofnað til formlegra viðræðna við hvern skóla og hafa slíkir fundir verið haldnir í flestum skólum.

Fulltrúar ráðuneytisins í þessum viðræðum meta stöðuna þannig, að vel hafi gengið, þegar á heildina er litið. Í nokkrum skólum hefur þó komið fram gagnrýni á niðurstöðu, sem reiknilíkanið hefur gefið. Hefur í flestum tilvikum verið unnt að bregðast jákvætt við gagnrýninni þegar í stað. Hér hefur einkum verið um það að ræða, að upplýsingar hafa ekki reynst réttar eða deila hefur mátt um túlkun upplýsinga frá skólum.

Í einstaka tilvikum hefur reynst þörf á sérstakri athugun, á meðan verið er að laga starf viðkomandi skóla að breyttum aðstæðum. Ber í þessu samhengi að minnast þess, að með samningagerðinni er verið að leggja sérstakar áherslur á ýmsa þætti í starfsemi skóla, sem er nýmæli og breyta vinnubrögðum við undirbúning fjárlagagerðar. Til dæmis hefur komið í ljós, að skráning upplýsinga um nemendur í skólum hefur ekki verið í nægilega góðu samræmi við þær forsendur, sem lágu að baki reiknilíkaninu, auk þess sem skólar skrá ekki allir nemendur með sama hætti. Er nauðsynlegt af þessu tilefni að gefa skólum gleggri fyrirmæli um meðferð og skráningu upplýsinga um starfsemi sína og skráningu nemenda.

Menntamálaráðuneytið og framhaldsskólarnir hafa í mörgu tilliti gengið feti lengra en aðrar ríkisstofnanir við gerð þessara samninga og er náið fylgst með því víða, hvernig staðið er að verkinu. Í fyrstu atrennu tekst vafalaust ekki að búa þannig um alla hnúta, að engir endar séu lausir. Þá kunna fjárveitingar til einstakra skóla að breytast samkvæmt hinu nýja kerfi, sumir fá minna en aðrir meira en áður. Þegar á heildina litið aukast hins vegar fjárveitingar til framhaldsskólastigsins á næsta ári frá því í ár og ættu hinar nýju reglur við fjárveitingar að auðvelda mönnum að átta sig á því, hvers vegna munur er milli einstakra skóla.

Ég dreg þá almennu ályktun af framvindu þessa máls undanfarið, að tiltölulega góð sátt ríki um hin nýju vinnubrögð. Er mikilvægt að haldið verði áfram að þróa framhaldsskólastarfið á þessum forsendum. Kröfur til skólastjórnenda breytast í samræmi við hina nýju starfshætti. Það er þó ekki einungis að þessu leyti, sem skólameistarar starfa á nýjum lagagrunni, því að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins mæla einnig fyrir um nýja samskiptahætti þeirra við kennara og aðra starfsmenn skóla.

Svo sem kunnugt er eiga hin nýju framhaldsskólalög að koma að fullu til framkvæmda á fjórum árum. Á vegum ráðuneytisins hefur verið unnið að því að gefa út reglugerðir á grundvelli nýju laganna. Hefur verið haft samráð við fulltrúa Hins íslenska kennarafélags, þar sem þess hefur verið þörf og tel ég, að fullyrða megi, að ekki hafi verið skilið við neitt af þeim málum í verulegum ágreiningi milli aðila, þótt áherslur hljóti ávallt að vera mismunandi.

Nú hafa verið gefnar út 20 reglugeðir, það er um skólanefndir, almenna kennarafundi, eftirlit með starfi framhaldsskóla og námsefni og um ráðgjöf vegna kennslu og þróunarstarfa, um skólaráð, um viðurkenningu einkaskóla á framhaldsskólastigi, um söfnun og dreifingu upplýsinga um skólastarf, um styrkveitingar til þróunarverkefna í framhaldsskólum og fullorðinsfræðslu, um fullorðinsfræðslu og endurmenntun, um námssamninga og starfsþjálfun, um sveinspróf, um fornám, um sérstaka íslenskukennslu, um námsorlof, um starfstíma framhaldsskóla og leyfisdaga, um endurinnritunargjald og loks erindisbréf fyrir skólameistara. Þá hefur ráðuneytið gefið út leiðbeiningar um gjaldtöku og meðferð sértekna.

Sjö reglugerðir eru í vinnslu, það er um löggiltar iðngreinar og viðurkenningu starfsréttinda, um kennslu fatlaðra, um starfslið skóla, um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra lokaprófa, um réttindi og skyldu skóla og nemenda, um stofnun og byggingu framhaldsskóla og um rekstur framhaldsskóla. Reglugerðin um starfslið skóla hefur ekki verið gefin út vegna þess, að ég vil freista þess að breyta ákvæðum framhaldsskólalaganna um ráðningartíma aðstoðarskólameistara.

Af þessu sést, að starfsvið og starfsemi framhaldsskólanna hefur skýrst mjög á grundvelli hinna nýju laga.

Næsta stórverkefni, sem ég legg mikla áherslu á að komist í höfn, er að grunn- og framhaldsskólunum nýjar námskrár. Við settum okkur í fyrra það markmið að ljúka því mikla starfi á 27 mánuðum og erum enn á áætlun, ef þannig má orða það. Ættu námskrárnar samkvæmt því að liggja fyrir næsta haust. Um þetta mál höfum við átt góða samvinnu við tugi kennara og enn mun verða leitað til þeirra á lokasprettinum.

Góðir áheyrendur!

Þegar ég ávarpa fundi sem þennan er af svo mörgu að taka, sem verðugt er að ræða og skýra frá, að í raun er erfiðast að velja og hafna. Hér hef ég að þessu sinni kosið að skýra frá vinnu ráðuneytisins á grundvelli hinna nýju framhaldsskólalaga. Að því er starfsmenntun varðar vil ég láta þess getið að lokum, að nú liggja fyrir tillögur um nokkur starfsgreinaráð og verður því gengið til þess verks að leita eftir tilnefningum og síðan skipa menn í ráðin. Samkvæmt framhaldsskólalögunum mótast svigrúm ráðherra og ráðuneytis til ákvarðana um starfsmenntun mjög af vilja og tillögum starfsgreinaráða, til dæmis varðandi tilnefningu kjarnaskóla. Þess vegna er brýnt að starfsgreinaráðin komi sem fyrst til sögunnar, svo að unnt sé að hefja framkvæmd á þeim mikilvæga kafla laganna, sem fjallar sérstaklega um starfsmenntun.

Ég ítreka þakkir mínar til forystu og félaga í Hinu íslenska kennarafélaga fyrir samstarfið að þeim málum, sem ég hef nefnt, og einnig á mörgum öðrum sviðum. Vona ég, að það megi áfram dafna skólastarfinu til heilla.