13.11.1997

Vetraríþróttamiðstöð Íslands

Ráðstefna um vetraríþróttir á Íslandi
Akureyri, 13. nóvember 1997

Á árinu 1965 tilkynnti Gísli Halldórsson forseti ÍSÍ, að Íþróttasamband Íslands hefði tilnefnt Akureyri sem vetraríþróttamiðstöð sína. 30 árum síðan kom síðan menntamálaráðuneytið formlega að málinu fyrir hönd ríkisins og gekk til liðs við Akureyringa og ÍSÍ um að stofna Vetraríþróttamiðstöð Íslands á Akureyri.

Er þessi skipan staðfest með reglugerð frá 18. mars 1995, sem forveri minn Ólafur G. Einarsson undirritaði. Byggist útgáfa reglugerðarinnar á íþróttalögum en segja má, að ákvæði í þeim um heimildir fyrir ríkisvaldið til aðildar að slíkri miðstöð séu frekar veik. Í nýju frumvarpi til íþróttalaga sem ég hef lagt fram er tekið af skarið með afdráttarlausari hætti.

Í reglugerðinni er hlutverki vetraríþróttamiðstöðvarinnar lýst á þann veg, að hún sé þjónustustofnun, sem hafi það meginhlutverk að efla vetraríþróttir, íþróttafræðslu og útivist og stuðla þannig að heilbrigðu lífi og heilsurækt meðal almennings, svo sem skólafólks, fatlaðra og keppnis- og afreksfólks í íþróttum með hefðbundnar vetraríþróttir, íþróttafræðslu og útivist að leiðarljósi.

Þá segir einnig, að Vetraríþróttamiðstöð Íslands veiti einstaklingum og hópum aðstöðu til æfinga, keppni, funda, námskeiða og ráðstefnuhalds og veiti þjónustu á þessu sviði.

Miðstöðin á að leiðbeina og fræða um vetraríþróttir, heilsurækt og félagsmál á eigin vegum og í samvinnu við aðra og hvetja einstaklinga og félagasamtök til aukinnar þátttöku og samstarfs í vetraríþróttum, jafnt fyrir almenning sem keppnisfólk.

Af þessu má ráða, að hlutverk Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands er bæði mikið og mikilvægt. Ráðstefnan, sem efnt er til hér í dag ber þess merki að stjórn miðstöðvarinnar vilji með margvíslegum hætti takast á við þau verkefni, sem bíða hennar.

Eftir að reglugerðin og ramminn, sem markaði miðstöðina, lá fyrir beið það mikla verkefni að hrinda góðum áformum í framkvæmd. Tel ég, að um það hafi tekist gott samstarf milli allra sem að vetraríþróttamiðstöðinni standa.

Þannig má minna á, að hinn 23. febrúar síðastliðinn rituðum við Jakob Björnsson bæjarstjóri Akureyrar auk Friðriks Sophussonar fjármálaráðherra undir samkomulag um fjárframlög vegna reksturs og uppbyggingar vetraríþróttamiðstöðvarinnar.

Menntamálaráðuneytið og Akureyrarbær standa sameiginlega straum af kostnaði vegna starfsemi miðstöðvarinnar, þar með kostnaði vegna fræðslumála, launa starfsmanna, þóknunar stjórnarmanna og annars starfsmannahalds.

Á fjáraukalögum fyrir 1997 er tillaga frá menntamálaráðuneytinu um tveggja milljóna króna framlag til rekstrar miðstöðvarinnar og er það fyrsta ríkisframlagið í þessu skyni.

Gert er ráð fyrir sömu fjárhæð í fjárlögum 1998 og þar er einnig tillaga um 10 milljón króna styrkveitingu til miðstöðvarinnar til uppbyggingar aðstöðu til vetraríþrótta á Akureyri og er það fyrsta greiðsla af fimm til ársins 2002.

Með þessum hætti tel ég, að af hálfu ríkisins hafi verið staðið sómasamlega við fjárhagslegar skuldbindingar þess vegna aðildar að Vetraríþróttamiðstöð Íslands.

Góðir áheyrendur.

Um það verður ekki deilt, að frá náttúrunnar hendi eru aðstæður hér á Akureyri einkar vel fallnar til vetraríþrótta og útivistar. Almennur áhugi á vetraríþróttum hér í höðuðstað Norðurlands auk hinnar frábæru aðstöðu í Hlíðarfjalli gerir Akureyri að kjörnum vettvangi þessara íþrótta.

Mennta- og skólastarf er mikið hér í bænum og af hálfu menntamálaráðuneytisins er áhugi á því, að sem nánust samvinna takist á milli skóla og vetraríþróttamiðstöðvarinnar. Ætti að stefna að því, að iðkun skíðaíþróttarinnar yrði metin til eininga í þeim skólum, sem vilja taka við nemendum á þeim forsendum. Yrði það til þess að ýta undir þjálfun til afreka í vetraríþróttagreinum.

Ég ítreka ánægju mína yfir að þessi metnaðarfulla ráðstefna skuli haldin. Héðan ætti að koma gott veganesti fyrir stjórnendur miðstöðvarinnar á þeirri ferð, sem nú er að hefjast. Megi hún verða árangursrík og sigursæl.