6.1.1997

Endurbætur á skipstjórnarnámi - Morgunblaðið

Unnið er að því að bæta skipstjórnar - og vélstjóranám
6. nóvember 1997

Undanfarið hafa verið teknar mikilvægar ákvarðanir til að bæta skipstjórnar- og vélstjóranám segir Björn Bjarnason og telur nauðsynlegt að starfsgreinarnar taki af skarið um frekari hlutdeild sína.

Umræður um skipstjórnar- og vélstjóranám hafa að undanförnu einkum snúist um húsnæðismál. Stafar þetta af því, að menntamálaráðuneytið hefur hreyft hugmyndum um að flytja starfsemi Stýrimannaskólans í Reykjavík og Vélskóla Íslands í nýtt húsnæði. Byggjast tillögur ráðuneytisins á faglegum og fjárhagslegum sjónarmiðum, sem stjórnvöldum ber að hafa að leiðarljósi, þegar teknar eru ákvarðanir.

Nýbreytni í skipstjórnarnámi

Um langt árabil hafa menn haft af því töluverðar áhyggjur, hvert stefndi í skipstjórnarnáminu. Nemendum hefur fækkað. Námskráin hefur ekki verið talin svara kröfum tímans og skipan námsins hefur verið talin óviðunandi. Hafa nefndir og starfshópar samið tillögur og skýrslur.

Á árinu 1996 tók ég af skarið í þessu efni. Er ekki lengur verið að ræða málið heldur unnið að framkvæmd tillagna um að náminu verði skipt í tvennt. Annars vegar bjóða sjö framhaldsskólar um land allt tveggja ára grunnám á sjávarútvegsbraut. Hins vegar verður boðið tveggja ára nám í fagskóla til þriðja stigs skipstjórnarréttinda.

Námskrá fyrir sjávarútvegsbrautina var send skólum í haust. Aðsókn er ekki mikil ennþá, því að nú í vetur er í síðasta sinn boðið nám á grundvelli gamla kerfisins.

Námskrárvinna vegna tveggja síðari ára skipstjóranámsins er að hefjast. Er stefnt að því að kennsla hefjist á nýjum grunni haustið 1999. Kennt verður samkvæmt áfangakerfi og veldur það breytingu á skipulagi Stýrimannaskólans í Reykjavík, sem er bekkjakerfisskóli.

Um nokkurt árabil hefur verið unnt að stunda skipstjórnarnám við þrjá skóla: Stýrimannaskólann í Reykjavík, Verkmenntaskólann á Akureyri - sjávarútvegssviðinu á Dalvík og í Vestmannaeyjum. Allir þessir skólar munu bjóða sjávarútvegsnám. Ætlunin er, að fagnámið verði unnt að stunda í Stýrimannaskólanum í Reykjavík. Nemendafjöldi ræður, hvort unnt verður að bjóða slíkt nám á Dalvík eða í Vestmannaeyjum.

Er ætlan mín, að Stýrimannaskólinn í Reykjavík verði kjarnaskóli á sínu sviði og er unnið að því að skilgreina hlutverk hans í samræmi við það.

Vélstjóranámið

Sæmileg sátt hefur náðst um inntak hins nýja skipstjórnarnáms. Hið sama er ekki unnt að segja um vélstjóranámið. Þar eru útgerðarmenn og forystumenn vélstjóra á öndverðum meiði. Þessir aðilar mynda hins vegar bakhjarl skólans og er mikilvægt að ná sáttum milli þeirra, til að innra starf skólans þróist. Fyrir tilstilli menntamálaráðuneytisins er nú unnið að slíkum sáttaumleitunum.

Vélskólanum var breytt í áfangaskóla 1981 og meðalnámstími þar er nú um fimm ár. Eftir að áfangakerfið verður komið í Stýrimannaskólann er traustari grundvöllur fyrir faglegu samstarfi hans við Vélskólann en til þessa. Er unnið að því fyrir forgöngu menntamálaráðuneytisins í samvinnu við skólana að samhæfa starf þeirra í áfangakerfinu.

Rekstur skólanna

Um það hefur verið rætt, að flytja ætti skipstjórnarnámið alfarið úr Reykjavík. Bent hefur verið á þá þróun, sem orðið hefur síðan kennsla hófst á Dalvík og í Vestmannaeyjum. Reykjavíkurskólinn hefur stundum átt fullt í fangi með að fá nemendur. Til dæmis heimilaði ég styttingu siglingatíma þeirra, sem fara í skipstjórnarnám úr 24 mánuðum í sex í því skyni að örva aðsókn að náminu. Orkar slík ákvörðun vissulega tvímælis. Á síðasta vetri var engin kennsla á þriðja stigi Stýrimannaskólans, en á því öðlast nemendur réttindi til skipstjórnar á farskipum. Sóttu aðeins fjórir nemendur um farmanninn það haust. Var þetta í fyrsta sinn frá stofnun Sjómannaskólans árið 1891, sem ekki var unnt að kenna þriðja stigið vegna nemendaskorts.

Þar til ný framhaldsskólalög gengu í gildi 1. ágúst 1996 voru sérstök lög um skipstjórnar- og vélskólanám. Nú fellur það undir framhaldsskólalöggjöfina og eru skólarnir í Reykjavík sérskólar á grundvelli þeirra laga. Á fundi með forráðamönnum útgerðarmanna og farmanna- og fiskimanna í maí síðastliðnum hreyfði ég því, að atvinnugreinin sjálf tæki að sér að reka þessa skóla á svipuðum forsendum og Verslunarskólinn er rekinn af verslunarmönnum með samningi um fjárveitingar úr ríkissjóði. Sjávarútvegsráðherra nefndi þennan kost síðan í sjómannadagsræðu sinni á þessu ári. Kristján Ragnarsson, formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, lét þau orð falla nýlega, að honum þætti þessi hugmynd álitlegri, eftir því sem hann hugleiddi hana frekar.

Vilji útgerðarmenn og sjómenn láta meira að sér kveða við stjórn og resktur þessara skóla, er þetta rétti tíminn til að taka af skarið um það. Á þetta ekki síst við um skipstjórnarnámið.

Höfundur er menntamálaráðherra.